Af Ingu og vigtinni

Í dag er dagurinn sem ég fer á vigtina hugsaði ég um leið og ég opnaði augun.  Ég hef ekki farið á vigtina lengi lengi lengi -bara látið vigta mig hjá Baldri svo ég eigi hörmungarferlið skráð einhvers staðar.  Ég hef nefnt tölur í huganum sem mig grunaði að ég væri komin í…. og hryllt mig um leið.  Og mínar verstu martraðir hafa sem sagt orðið að veruleika.

 Það var sem sagt engin tilviljun að mér finnst eitthvað svo erfitt að fara í sundbolinn… Og skokkurinn minn jafnvel heldur að þrengjast…

 Það er sem sagt komið að þeirri stundu sem allir sögðu að væri eðlilegt að myndi renna upp -Ég hef þyngst umtalsvert.  

 Það er ekki af neinu sem mér datt það í hug um daginn að gefast upp.  Viðurkenna bara ósigur og horfa fram á þá tíð að segja, já ég missti nú einu sinni 40 kíló en ég bætti þeim nú öllum á mig aftur á ekki svo löngum tíma…

 Skrifa sjúkraþjálfaranum bara og segjast vera hætt – búin að gefast upp.  Gæti þetta ekki.

 Mér fannst það svo þegar til kom ekkert ofsalega smart mynd þannig að ég ákvað að spýta í lófana og takast á við þetta allt saman alveg upp á nýtt.  Finna ljóstýru til að vinna út frá.  Lesa Reykjalundargögnin.  Greina hlutina. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið. 

Þetta er það sem gerist:

Erfitt nám
Próf
Sælgætisát
Snakk át
Versnandi magi á ný
Þróunarstarf í skólanum
Kennslan fær aukið rými í mínu lífi – fer að vesenast í mörgu þar og hef gaman af
 Kosningabarátta
Námsmat í skólanum
Miklir verkir í fótum og mjöðmum
Svefnleysi
Makinn í miklu sukki
Álag heima fyrir vegna atvinnu, fjármála og hunda – og draslið maður minn!

Sussususs – fínar afsakanir ekki satt?

Til eru ráð:

Hreyfimarkmið
Matardagbók
Iðjuþjálfun fyrst og fremst.
Skilgreina markmið, vilja og langanir.
Skilgreina sig út frá breyttum forsendum – ekki að léttast heldur þyngjast…

Og í þessu hef ég verið undanfarið, reynt að taka nammi út og borða skynsamlega.  Tekist á köflum ágætlega.  Miðar sannarlega í rétta átt þó ég sé ekki farin að borða nemasíðustu daga nógu lítið til að léttast.  En það eru ákveðnir plúsar sýnirlegir:

Hreyfingin er orðin skipulögð og ekki tilviljanakennd og þar með lagast á mér fæturnar hægt og bítandi.  Verkir í mjöðmum eru mjög tengdir setum.
Ég hef unnið mér í haginn og ætti að mestu að vera laus við stórskostleg vinnuköst í sumar
Mataræði er komið í fastari skorður – hefur ekki gengið vel að skrifa matardagbók í vor þó ég hafi reynt en nú mun ég taka það föstum tökum
Ég er farin að vinna í því að koma heimilinu mínu í lag og þá batnar líðanin. 


Ég verð að nýta mér bjargirnar sem ég kann.  Er ekki viss um að ég hafi sjúkraþjálfarann þarna inni því líklega er þetta í mínum höndum og meðferðin hjá honum myndi þá snúast um að laga auma vöðva og halda skrokknum gangandi…  En Reykjalundur er inni – 28. júní á ég að hitta Ludvig lækni og hópinn minn og ég verð bara að segja stöðuna eins og hún er… Ég verð að þora það…  og í haust er svaka mælingar – þrek og alles og ætla ég ekki að vera búin að koma mér í stand þá?  


Nú hefur konan sofið og hvílt sig í æði marga daga og því hlýtur henni að vaxa ásmegin – lykilatriði er að koma kotinu í stand svo ég geti mér um frjálst höfuð strokið.  Og að því sögðu held ég af stað út í daginn og vona það besta.  Stolt af því að hafa stigið á vigtina.  Stolt af því að hafa ekki orðið vitlaus við það og stolt af því að vita og trúa að staðan í dag er enginn heimsendur – heldur skref á leið minni til einhvers þroska 🙂
 

3 athugasemdir á “Af Ingu og vigtinni

  1. Ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst þú meiri hetja þegar allt gekk svo vel og kílóin fuku, eða núna þegar þú brettir upp ermarnar og horfist í augu við bakslagið 🙂
    En ég veit af eigin reynslu að langtímaárangurinn af breyttum lífsstíl situr alltaf fastur í kollinum. Vitneskjan um að þetta sé hægt og ÉG (þú) geti það, hún fer ekkert 😉 Og amk hjá mér fylgdu svo aukin lífsgæði með hollara lífi, sem ég læt ekkert fúslega frá mér aftur 😀
    Go girl 🙂
    kv
    Unnur

    Líkar við

  2. Inga
    Mundu eitt. Þú ert frábær eins og þú ert. Enginn hefur neitt með það að gera ef þér líður vel og ert fær að gera allt sem þig langar til.
    EN ef þú ert að finna að heilsan er hugsanlega að byrja að vara þig við, þá ættir þú að hugleiða leið okkar Huldu og Guðrúnar. Ég væri líklega á lífi í dag en sjálfsagt mikill sjúklingur. Þannig að mín leið var rétt fyrir mig. EN nú er komið að þér að hugleiða þessi mál að mikilli alvöru.
    Ég hefði aldrei í lífinu trúað því að lífið yrði mér auðveldara á eftir en þannig er það í mínu tilfelli og ég held að Hulda og Guðrún getið tekið undir með mér þar.
    En gangi þér sem allra best og mundu að þú ert frábær hvernig sem þú ert.

    bestu kveðjur

    Steinar G.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd