Útilega og leiðindi

Ég fór á ættarmót um helgina og í fyrsta skipti á ævinni held ég bara að ég nennti ekki að fara í útilegu og fannst þetta allt vesen bara.  Páll djammar fram á mo
rgun og ég ligg vakandi í hávaðanum – og syfjuð og verkjuð næsta dag!  Yeah mjög skemmtilegt.  Næsti skammtur er næsta helgi.  Þá hef ég heitið mér að fara í göngu.  Og tjalda langt frá djammstaðnum.
Eg hélt minni þyngd um helgina og stefni á að léttast svert þessa viku.

Inga bítur í skjaldarrendur

Jæja það er í nógu að snúast – útilega og hvur veit hvað.  Gera vagninn klárann og finna útilegudót sem var einhvern veginn dreift um allt hús og allar koppagrundir!  Maður ætlar einhvern veginn alltaf í eina útilegu enn – sem aldrei verður svo af og því er ekki alveg gengið frá hlutunum :-).  En vagninn kemur vel undan vetri – ilmandi fínn og flottur.  En í haust ætla ég að passa þetta betur, og skrifa niður hvað ég geri við hlutina og hvernig ástandið er í vagninum, hvað þarf að laga og svona.  Maður man ekki neitt orðið!

En þó mikið sé talað um útilegu hér og á fésinu þá mega þjófar alveg gleyma því – þar sem ég og Bjartur verðum hér heima við, hann verður áreiðanlega ekki til mikillar skemmtunar þarna og ef ég þekki fólk rétt þá verður eitthvað af lausum hundum og það þolir minn maður nú alls ekki.

Það gengur mjög vel hjá mér aðhaldið þó eitthvað rati nú inn fyrir mínar varir þá hef ég verið svo dugleg að hreyfa mig að það kemur ekki að sök.  Ég held áfram að stýra mataræðinu og rifja upp forna takta (sem eru nú ekki fornir því það er ekki eins og ég hafi hætt í öllu saman bara slegið af).  Ég kann, veit og get – og nú er ég meira að segja sannfærð um að ég VILJI – vilji er allt sem þarf, ákvarðanir segi ég.  Vera búin að ákveða – og bregða ekki útfrá þeim ákvörðunum.  Það er eiginlega mitt ráð.

Ég fór þrisvar á Kolgrafarhólinn í gær og ég bara átti ekki erfitt með það, fann hvorki til í hné – þökk sé stórkostlegri hnéhlíf sem mér áskotnaðist (var viss um að það fengist engin nógu sver á mig -gaf þá ekki blakfélagi minn mér eina sem lá ónotuð heima hjá henni!  ég á nú eftir að launa þann greiða!) – né í mjöðmum sem er nú enginn smá sigur.  Vöðvafesturnar þar eru bara nokkuð til friðs þessa dagana -það er hjólið og sundið sem bjargar öllu þar.  Og svo sit ég minna.  Síðan djöflaðist ég við að tjalda vagninum í gær og koma honum í stand þannig að hreyfingin var bara fín og rúmlega það þann daginn!

Í fyrradag fór ég litla Votmúla og synti svo á eftir – það var frábært – frábærast var hvað ég átti létt með það – hjólreiðarnar í vor hafa hjálpað eins og ég held ég hafi verið búin að monta mig af :-).

 Vigtin hrapar niður á við – og ég er búin að plana helgina, útilegur eru ekki sérlega léttings-vænar! Auðvelt að borða hvað sem er í þeim – aldrei eins og þá er mikilvægt að hreyfa sig – hnéhlífin og gönguskór,sundbolur og gleraugu verða skoho tekin með í sumar :-).

Sem sagt – ég er svaka ánægð með mig – aftur og enn búin að sýna mér að ég get víst það sem ég VIL: 

Ég vil ekki vera konan sem léttist um 40 kg og bætti því svo á sig aftur – með tilheyrandi niðurlægingu.
Ég vil ekki vera konan sem sprakk á limminu og gafst upp!
Ég vil ekki vera konan sem hætti að hreyfa sig og fór að lifa lífi verkjasjúklingsins.

Ég er nefnilega sú sem hugsa í lausnum og því ætla ég ekki að taka svona mörg verkefni að mér – það hljóta að vera til viðlíka frábærir einstaklingar og ég í veröldinni sem geta tekið eitthvað af þeim að sér 🙂

En nú er það söngheftagerð, skonsur, skúffukökur og pizzusnúðar fyrir ættarmótið.  Allt á fullu nema ryksugan og því er hér heldur mikið af hundahárum fyrir minn smekk 🙂  Þau bíða og verða hér á eftir líka  kem þeim út þá!

Reglur á ekki að brjóta

Ég held næstum því að ég hafi aldrei skrifað um annað fólk á þessu bloggi nema tala við það fyrst. Það er góð regla.  Ég ætla að reyna að hafa hana meira og betur í heiðri en stundum.

Það tilkynnist hér með að ég var að taka til á fésbókinni minni og mér fannst svo góð regla sem einn vinur minn hafði – að hafa bara fólk sem hann á einhver samskipti við í netheimum eða í real life.  Þannig að ég bara hreinstaði til hjá  mér – eini hópurinn sem ekki verð fyrir niðurskurðarhnífnum var nemendahóparnir mínir.  En sem sagt – ekkert á bak við þetta, bara tiltekt :-). 

vóhó

Er ekki kerlingarkornið bara búið að vera í garðinum í allan dag!  Bjartur og Skotta með – Bjartur komst ekki sérlega frá þessu fannst honum – hann fékk alltaf á sig vatnsgusu þegar hann gelti – auj honum finnst það ógeðslegt!  Og hættir að gelta meira að segja!  Ég keypti hádegisblóm og stjúpur og er búin að setja þær niður – frábært afrek að gera það nánast samdægurs ;-).  Planta hangir við innganginn og beðin hreinsuð – mold mokað og hvur veit hvað!  Alveg uppgefin barasta – mig langar svolítið að hjóla í kvöld,  góðan túr – hver veit nema ég fari ekki bara Votmúlann – er ekki Jónsmessan svona eða þar um bil – ég þarf að taka þetta allt föstum tökum – helst að hreyfa mig heldur meira en ég nenni! 

 til þess að Inga litli léttist þá þarf hún að borða kórrétt og hreyfa sig fullt! Sem sagt gera allt rétt.  Það er ekkert öðruvísi.  Og nú er ég að horfa á Englendinga gera úrslitatilraun til þess að komast áfram á hm!

Af Ingu og vigtinni

Í dag er dagurinn sem ég fer á vigtina hugsaði ég um leið og ég opnaði augun.  Ég hef ekki farið á vigtina lengi lengi lengi -bara látið vigta mig hjá Baldri svo ég eigi hörmungarferlið skráð einhvers staðar.  Ég hef nefnt tölur í huganum sem mig grunaði að ég væri komin í…. og hryllt mig um leið.  Og mínar verstu martraðir hafa sem sagt orðið að veruleika.

 Það var sem sagt engin tilviljun að mér finnst eitthvað svo erfitt að fara í sundbolinn… Og skokkurinn minn jafnvel heldur að þrengjast…

 Það er sem sagt komið að þeirri stundu sem allir sögðu að væri eðlilegt að myndi renna upp -Ég hef þyngst umtalsvert.  

 Það er ekki af neinu sem mér datt það í hug um daginn að gefast upp.  Viðurkenna bara ósigur og horfa fram á þá tíð að segja, já ég missti nú einu sinni 40 kíló en ég bætti þeim nú öllum á mig aftur á ekki svo löngum tíma…

 Skrifa sjúkraþjálfaranum bara og segjast vera hætt – búin að gefast upp.  Gæti þetta ekki.

 Mér fannst það svo þegar til kom ekkert ofsalega smart mynd þannig að ég ákvað að spýta í lófana og takast á við þetta allt saman alveg upp á nýtt.  Finna ljóstýru til að vinna út frá.  Lesa Reykjalundargögnin.  Greina hlutina. Þetta er í sjálfu sér ekki flókið. 

Þetta er það sem gerist:

Erfitt nám
Próf
Sælgætisát
Snakk át
Versnandi magi á ný
Þróunarstarf í skólanum
Kennslan fær aukið rými í mínu lífi – fer að vesenast í mörgu þar og hef gaman af
 Kosningabarátta
Námsmat í skólanum
Miklir verkir í fótum og mjöðmum
Svefnleysi
Makinn í miklu sukki
Álag heima fyrir vegna atvinnu, fjármála og hunda – og draslið maður minn!

Sussususs – fínar afsakanir ekki satt?

Til eru ráð:

Hreyfimarkmið
Matardagbók
Iðjuþjálfun fyrst og fremst.
Skilgreina markmið, vilja og langanir.
Skilgreina sig út frá breyttum forsendum – ekki að léttast heldur þyngjast…

Og í þessu hef ég verið undanfarið, reynt að taka nammi út og borða skynsamlega.  Tekist á köflum ágætlega.  Miðar sannarlega í rétta átt þó ég sé ekki farin að borða nemasíðustu daga nógu lítið til að léttast.  En það eru ákveðnir plúsar sýnirlegir:

Hreyfingin er orðin skipulögð og ekki tilviljanakennd og þar með lagast á mér fæturnar hægt og bítandi.  Verkir í mjöðmum eru mjög tengdir setum.
Ég hef unnið mér í haginn og ætti að mestu að vera laus við stórskostleg vinnuköst í sumar
Mataræði er komið í fastari skorður – hefur ekki gengið vel að skrifa matardagbók í vor þó ég hafi reynt en nú mun ég taka það föstum tökum
Ég er farin að vinna í því að koma heimilinu mínu í lag og þá batnar líðanin. 


Ég verð að nýta mér bjargirnar sem ég kann.  Er ekki viss um að ég hafi sjúkraþjálfarann þarna inni því líklega er þetta í mínum höndum og meðferðin hjá honum myndi þá snúast um að laga auma vöðva og halda skrokknum gangandi…  En Reykjalundur er inni – 28. júní á ég að hitta Ludvig lækni og hópinn minn og ég verð bara að segja stöðuna eins og hún er… Ég verð að þora það…  og í haust er svaka mælingar – þrek og alles og ætla ég ekki að vera búin að koma mér í stand þá?  


Nú hefur konan sofið og hvílt sig í æði marga daga og því hlýtur henni að vaxa ásmegin – lykilatriði er að koma kotinu í stand svo ég geti mér um frjálst höfuð strokið.  Og að því sögðu held ég af stað út í daginn og vona það besta.  Stolt af því að hafa stigið á vigtina.  Stolt af því að hafa ekki orðið vitlaus við það og stolt af því að vita og trúa að staðan í dag er enginn heimsendur – heldur skref á leið minni til einhvers þroska 🙂
 

Kvennahlaup og fleira

Inga litla setti met í gær í dugnaði.  Hún bar út blöðin, fór í kvennahlaup á Sólheimum- bara 2 km samt, svo fór ég við opnun á hönnunarsýningu í Ljóssafossvirkjun – frábæra sýningu, sem Hlín Helga frænka mín setti upp, þaðan fór ég í fermingarveislu hjá Rut nemanda mínum og svo í heimsókn til Hildar í hjólhýsið á Írafossi, Svei mér margt sem var aðhafst!  En ekki samt tókst mér að hafa þennan dag nammilausan en ég held áfram að reyna.

Núna horfi ég á fótbolta og skiplegg sundferð.  Þarf að synda smá í dag – nú eða hjóla.  En veðja frekar á sundið.  Það fer alveg svakaleg vel með lappirnar á mér.

Ganga, vinna og sund

Brjálað að gera – sé að ég get verið í þessu vefsíðustússi í 100 daga minnst – en læt nú ekki deigan síga og held áfram eftir helgi.  Þetta kemur allt með kalda vatninu.

Eg fór og synti og hjólaði smá hér um bæinn – bæti við 100 metrum núna á viku – eða kannski svona tæplega það.þannig að ég verði komin í 800 metrana í byrjun júlí.

Á morgun er það kvennahlaupið, einhver meiri selskapur og vesen á morgun.  Ég á eftir að hugsa hvort ég fari í 2 km eða 5 er svoldið efins um að ég komist 5 km útaf hnénu…

olé olé olé

Hí og hó 17. júní og allt – til hamingju með daginn elskurnar!
Smá bæjarmálapólitík – það þarf að halda umræðunni vakandi

Ég er annars að sækja í mig veðrið – það gengur ekki að gefast bara upp – maður verður að horfast í augu vð sjálfa sig, staðreyndir og vandamálið – face the music og það allt saman….

Ekki sérlega skemmtilegt en ég er með fullt af bjargráðum – ég kann fullt.  Matardagbók, leiftrandi lipurð og vilja til hreyfingar ;-), veit hvað ég þarf að borða til að léttast – veit að ég get og vil og ætla… oftast nær ;-)…

Ég veit líka að ég þarf að gera þetta sjálf…

Ég er ferlega slæm í maganum en á móti er ég ekki svo slæm í löppunum – ég er farin að hafa hnéhlífina þegar ég labba með moggann og þvílíkur munur  – það er eiginlega lýgilegt.  Ég hjólaði smá í gær – það var frekar mikið vesen því hnéð er aumt – sárt að kreppa… en það er nú dagamunur á því.  En það besta er að ég fór og synti smá þó ég nennti því ekki – væri ógeðslega þreytt eftir vinnudaginn og væri á leið í partý.Stolt af því ;ö

Annars er þetta nú bara streð en ég er líka að fara í frí og þá verður þetta í lagi allt saman.  Því ég kann

 Er þetta ekki fínt pepp talk hjá mér bara 🙂

En jæja nóg í bili – best að horfa á fótbolta og taka til – hjólatúr svo er það ekki bara 

Jææææja

Þetta er svolítil varnarbarátta hér….
Fótaverkir dauðans

Iðjuþjálfunargleymska – kom mér í alltof mörg verkefni!

Dugleysi….

En nú er ég komin á skrið því ég ætla ekki að gefast upp og reka upp ramakvein og leggjast niður með allar lappir upp í loft – þvert á móti.

Skítt með þó kíló hafi bæst við – þau er hægt að missa  -sund er hægt að stunda og hjóla er sömuleiðis vel hægt – þó það hafi ekki verið gert suma daga – nú er að sjá hvort minni sé ekki raunverulega nóg boðið!

Garðurinn og góður dagur

Garðurinn hefur nú fengið heimsókn frá okkur hjónunum í dag – það er frískandi tilbreyting!  Hann er bara að verða þokkalegur ég segi það satt!  það verður hins vegar ekki náð í tjaldvagninn alveg strax hér rignir ösku sem aldrei fyrr – þetta er nú meira ógeðið – uss fuss.

Já og svo setti ég sjónvarpsfjarstýringuna í þvottavélina – mjög leiðinlegt verð ég að segja… sigh

Flottur dagur í mataræði í dag – nema ég fékk mér nammi og kvöldið verður ekki gott – nenni ekki að elda þessar fínar kjúklingabringur – kemur reyndar til af því að ég get hvorki gengið né staðið mér er svo illt í löppunum – hver salernisferð krefst verulegra átaka og stuna – þeas á leiðinni þangað ;-).  Svo þvældi bjartur bandinu um ökklana á mér og hljóp af stað – afskaplega marin þar undan – akkúrat fín viðbót 🙂

En ég er bara ánægð með þetta – búin að skrifa matardagbók og ég verð í 42 stigum eftir daginn eða svo – en það er grunnorkuþörfin mín svo ég fitna ekki í dag.  Rétt að vera glaður með að vera farin að skrifa dagbókina – hún skiptir mig mjög miklu máli og hjálpar mér mikið.