2003 gerði ég við annan mann þetta verkefni um Þingvelli – það liggur við að það hríslist um mann sælustraumur 🙂
Hver maður á sér sinn bakhjarl í æskunni, innistæðu sem þegar best lætur endist honum ævina á enda að viðbættum vöxtum og vaxtavöxtum eftir því sem líður á ferðina.. Í þessari ritgerð sem er hluti af námskeiði hjá Þorsteini Helgasyni vorið 2003 sem nefnist Söguþræðir ætlum við að fjalla um æsku annarrar okkar og tengjum hana bernsku eldri systkina hennar sem um margt var ólík þeirrar yngstu í 11 systkinahópnum frá Þingvöllum (og Núpi). Um leið og þetta ferðalag um tímaás fjölskyldunnar frá Þingvöllum dregur upp ólíka mynd af aðstæðum fólks í uppvextinum færir þessi saga okkur einnig örlitla mynd af þeim breytingum urðu í samfélaginu á þessum tíma
Í markmiðum verkefnisins segir að höfundar eigi að tengja saman þætti úr sínu eigin lífi og/eða fjölskyldu þannig að til verði verk sem er einstakt varðandi innihald og hafi auk þess sérstakt gildi fyrir höfunda.
Nú er það svo að höfundar að þessari ritgerð eru tveir og annar er sýnu tengdari viðfangsefninu en hinn en engu að síður standa Þingvellir, sem eru jú í aðalhlutverki öllum Íslendingum nærri. Því var ákveðið að láta slag standa og fjalla um ólíkar aðstæður systkinanna á Þingvöllum og tengja þær við sögu staðarins – mun nær nútíðinni en Íslandssagan gefur okkur upplýsingar um. Enda nokkuð sem Hildur Kristín hafði fullan hug á að kynna sér sem og Ingveldur að rifja upp.
Ritgerðin er byggð upp á munnlegum heimildum systranna Ingveldar og Hildar Eiríksdætra en á milli þeirra er 18 ára aldursmunur. Hildur fæðist fyrir vestan, á Núpi í Dýrafirði en Ingveldur er fædd og uppalin á Þingvöllum. Frásögn þeirra ásamt tilvitnunum í bóklegar heimildir mynda þessa ritgerð sem ætlað er að varpa ljósi á ólík skilyrði í uppvexti þessarar stóru fjölskyldu en einnig er saga þeirra tengd við sögustaðinn Þingvelli, þar sem margir segja að megi finna hjartslátt íslensku þjóðarinnar – og um tíma fjölskyldu þeirra systra.
Eilítið sögustef
Þingvellir eru án ef einn af sögufrægustu stöðum landsins, ef ekki sá sögufrægasti. Þeir hafa í áranna rás skipað sérstakan sess í þjóðarsálinn og ekki er svo ýkja langt síðan að enginn var maður með mönnum nema gista nokkrum sinnum á ævinni í tjaldi á Þingvöllum. Hið minnsta var alltént að fara hinn fræga sunnudagsrúnt þar um á leið frá Reykjavík að Þingvöllum og þaðan í Hveragerði.
Nú hefur þó margt breyst og sunnudagsbíltúrarnir ekki eins fastmótaðir eða sjálfsagðir og á síðari hluta síðustu aldar. Þingvellir standa þó ætíð fyrir sínu. Þeir eiga vísast fastan sess í þjóðarsálinni enda ekki að undra, saga þeirra og náttúra er nánast samofin sögu lands okkar þannig að erfitt er að sjá á milli.
Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og var þar óslitið til 1798. Þar voru kveðnir upp dómar, málum þinglýst og þras var ekki óalgengt. Í Íslensku þjóðlífi í þúsund ár eftir Daniel Bruun er ansi skemmtileg lýsing á því sem hann hyggur að fari fram á Alþingi fyrir 1000 árum eða svo.
Á Alþingi var ekki einungis fengist við alvarleg mál á fundum þingsins eða lögréttu. Í Íslendinga sögum er brugðið upp myndum af fjölbreyttu, litríku mannlífi á Þingvöllum meðan þingið sat. Oft urðu þar harðar deilur á milli andstæðra höfðingja, og kom þá stundum til blóðugra bardaga, til dæmis á Alþinginu mikla eftir Njálsbrennu milli flokka brennumanna og þeirra, sem áttur eftirmál, eftir Njál og syni hans. Oft riðu konur og unglingar til Alþingis og í búðunum var bæði fjör og fjölbreytni. Trúða og leikara skorti ekki og í ölhitunarbúðunum gátu menn svalað þorsta sínum. Þar voru einnig búðir kaupmanna sem seldu ekki einungis nauðsynjavarning heldur einnig skartgripi, vopn, klæði o.s.f.v.
(Bruun 1987: 167-168)
Bruun heldur síðan áfram smellinni lýsingu sinni af mannlífunu þær tvær vikur sem þingið stóð hvert sumar þannig að manni vex tilfinning fyrir því sem mögulega átti sér stað á Þingvöllum við Öxará beggja vegna við 11. viku sumars.
Goðar og þingmenn þeirra dvöldu í búðum sem en enn má sjá tóftir þeirra vítt um þinghelgina m.a. í kringum Lögberg. Ábúendur voru á Þingvöllum þó það hafi e.t.v. ekki verið til að byrja með, fyrst eftir 930.
Ekki er ólíklegt að bær hafi verið reistur á Þingvöllum fljótlega eftir að Þingvellir urðu að þingstað okkar Íslendinga. Bæirnir sneri hins vegar oftast öðru vísi en sá sem byggðir var 1930 og stendur enn, en gaflar gömlu bæjanna eru taldir hafa snúið í suður. Þó má sjá mynd af Þingvallabænum í bók Bruun sem snýr eins og sá sem nú stendur. (Bruun 1987: 169)
Þingvallabærinn hefur líkt og annað tekið breytingum á þeim öldum sem bær hefur staðið á Þingvöllum en um 1200 stóð þar skálabær ekki ósvipaður þeim er stóð á Stöng í Þjórsárdal (Landið þitt Ísland U-Ö 1984: 163- 178).
Árið 1928 var sá bær sem þá stóð á Þingvöllum rifinn og annar reistur í tengslum við Alþingishátíðina 1930. Það er sá bær sem þekkjum í dag, teiknaður af Guðjóni Samúelssyni en í fyrstu voru einungis 3 burstir á bænum. Syðstu burstunum tveimur var bætt við fyrir þjóðhátíðina 1974, en þær tilheyrðu Forsætisráðuneytinu – eins og bærinn gerir nú allur í dag.
Kirkja hefur vafalaust verið reist á Þingvöllum strax í kringum kristnitöku e.t.v. á þeim stað er hún nú stendur en síðar var kirkjan flutt niður þangað sem kirkjugarðurinn er og hefur verið í gegnum aldirnar. Þar herjaði hins vegar Öxará og um 1530 var kirkjan flutt á núverandi stað – líklega á grunn þeirrar upprunalegu. Sú kirkja sem nú stendur var byggð 1858 en breytt 1907. (Björn Th. Björnsson 1984: 109 – 110).
Búseta hefur vafalítið verið óslitin á Þingvöllum frá því um miðja 12. öld eða svo. En þá rétt eins og undir lok 20. aldar voru Þingvellir afskekktir nema rétt á meðan Alþingi stóð. Staðurinn þótti lítt fýsilegur til búsetu og fyrsta heimild um búskap á Þingvöllum er tengd manni sem ekki var talinn eiga sér neinn annan kost en hokra á gjáskornum túnum Þingvalla.
(Ágúst Sigurðsson1980: 90 – 91)
Ekki er ætlunin að fara yfir ábúendasögu Þingvalla hér í þessu verkefni en benda má á ágæta umfjöllun um hana í bók Ágústs Sigurðssonar, Fornir sögustaðir. Hér verður hins vegar litið til ábúðar sr. Eiríks J. Eiríkssonar og Kristínar Jónsdóttur frá 1959 – 1982 á staðnum, er þau stýrðu þjóðgarði og ræktu kirkjulegar skyldur sínar ásamt börnum sínum.
Fjölskylduhagir
Annar höfundur þessarar ritgerðar, Ingveldur er sem fyrr segir yngst 11 barna þeirra Kristínar Jónsdóttur frá Gemlufalli og Eiríks J. Eiríkssonar ættuðum frá Eyrarbakka sem átti síðar eftir að verða prestur og skólastjóri á Núpi og að lokum þjóðgarðsvörður og prófastur á Þingvöllum. Öll börnin komu með einum eða öðrum hætti að því vafstri sem Þingvöllum fylgdi og fylgir vísast enn. Þrjú þau yngstu eru þó þau einu sem kalla mætti innfædda Þingvellinga þar sem þau ólust upp allt frá fæðingu á Þingvöllum og þeir urðu allt í senn, – þeirra leiksvæði, heimili og atvinna.
Aðstæður fólksins að vestan voru allt aðrar en þær sem yngsta barnið frá Þingvöllum ólst upp við síðar en Kristínu varð oft á orði að sér hefði fundist hún vera komin aftur til myrkra miðalda er hún hóf sinn búskap á Þingvöllum eftir að hafa stýrt fjölmennum og framsæknum héraðsskóla með eiginmanni sínum fyrir vestan.
Þingvellir voru nefnilega ótrúlega afskekktir þó svo lega þeirri sé svo nærri höfuðstaðnum. Það eru ekki nema um 20 ár síðan reglulegur mokstur hófst yfir Mosfellsheiðina og vikum saman var ómögulegt að komast til Reykjavíkur nema fyrir þaulvana jeppamenn sem höfuð vel í meðallagi af þolinmæði í farteskinu.
Fjósatún heitir víst Seiglur
Á Þingvöllum voru þrjár kýr þegar Núpsfjölskyldan kom suður, enda eins gott þar sem bæjarferðir voru ekki tíðar og hreint ekki alltaf á hvers manns færi að ná til bæjar eins og fyrr var tæpt á. Gallinn við þessar kýr eða öllu heldur fjósið þeirra, var bara sá að þær voru firna langt frá bænum. Til þess að komast til þeirra þurfti að fara til austurs yfir Þingvallatúnin, yfir Fjósagjá og að Fjóshól – heilmikið ferðalag og oftar en ekki næsta hættulegt í vetrarveðrum og snjóum – og kolsvarta myrkri.
Þessi tún sunnan við bæinn bera öll ýmis nöfn en í huga Ingveldar hétu þau öll Fjósatún í minningu síðustu kýrinnar sem var löngu horfin þegar sú litla fæddist. Reyndar þóttu henni það heldur slæm býtti er henni voru kennd nöfnin – Miðmundatún og svo nafn hins eiginlega Fjósatúns – Seiglur, enda hélt túnið áfram að vera kallað Fjósatún og stendur sá vani enn.
Tómas Guðmundsson sagði í smellnu ljóði sínu, Fjallgöngunni að langslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt og það er áreiðanlega rétt hjá Reykjavíkurskáldinu. (Tómas Guðmundsson 1998: 228) Það er hins vegar svo að í huga barnsins er umhverfið hluti af því og merkimiðar og nöfn skipta ekki öllu máli. Þingvellir urðu hluti af Ingveldi, þó svo nöfnin kæmu smám saman en þó meira sem kennileiti en utanbókarlærdómur.
Fjósatún verður þó ætíð Fjósatún og staðsetning fjóssins verður eiginlega aldrei almennilega útskýrð fyrir okkur nútímafólkinu, þó svo að vitað sé að kýrnar voru reknar frá Kúahóli að Kúatorfu sem var við árósinn (Björn Th Björnsson 1984: 122) Slík reginfjarlægð er frá bænum að fjósinu. Það er ekki að undra þó Kristínu heitinni Jónsdóttur hafi verið viðbrugðið að sækja mjólk í börnin sín frá því sem þekktist á Núpi í Dýrafirði. Það hefur alltént ekki skaðað að geta sent stálpaða krakka yfir túnin og gjárnar til þess að ná í blessaða mjólkina en ferðalagið var langt frá því að vera hættulaust enda voru Kattargjá, Skötugjá og Seiglur auk Fjósagjárinnar sjálfrar og eru ekki enn, nokkurt lamb að leika sér við. Það þarf ekki að leita langt aftur í tímann til þess að finna sögu af því þegar mjólka þurfti kýrnar á Þingvöllum en rétt eins og Björn Th. Björnsson minnist á í bók sinni Þingvellir voru túnin á Þingvöllum ekkert lamb að leika sér við hvorki fyrrum eða nú.
Með friðunarlögunum 1928 var allur fjárbúskapur á Þingvöllum lagður niður, og er túnið nú ekki lengur nytjað. En hver sá sem um það gengur getur enn séð fyrir sér í anda, hversu hver bali og hver laut hefur verið sleikt stráum á þessum harðbýlasta og hættumesta heimavelli sem til mun vera á landinu. Á slíkri göngu hvarflar að manni, að erfitt hafi mörg rekstrarkonan átt, sem hafði börnin sín hjá sér í þeim slægjum. (1984: 124)
Það er því ekki von að Hildur Eiríks. skuli muna enn það ferðalag sem fylgdi því að fara og mjólka á meðan mamma var fjarri góðu gamni.
Þegar mamma ól 10. barnið sitt þurfti ég að fara og mjólka kýr lengst út í túni í kolsvarta myrki með lukt að vopni. Ég þurfti ekki að gera þetta í marga daga, en ég man að mér fannst þetta erfitt. En hrædd var ég ekki. Ég fann aldrei til hræðslu á Þingvöllum þó að ég væri ein með börnin í kolsvarta myrkri og mamma og pabbi í kaupstað og komu oft seint vegna slæmrar færðar eða e.þ.h.
(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)
Forneskjan holdi klædd
Það var allt annar veruleiki sem blasti við elstu systkinin á Þingvöllum sem fluttu þangað á bilinu 5 ára til tvítugs en sá sem beið Ingveldar. Hildur sem var 13 ára þegar hún flutti var full ábyrgðar gagnvart yngri systkinum sínum. Hildur er elst 5 stelpna og þriðja elst þeirra systkina sem lifðu er fjölskyldan flutti að vestan.
Þó svo að Hildur hafi átt sína vini og ættingja fyrir vestan fann hún ekki til neins kvíða við þær fréttir að hún ætti að flytja suður til Þingvalla en á Núpi var mikið samfélag barna starfsfólks við skólann en suðrið hefur vísast heillað þá jafnt og nú.
Auðvitað hafa Þingvellir einnig haft sitt aðdráttarafl þó Hildur segir væntingarnar þó á köflum verið meiri en efndirnar enda hefur fásinnið á Þingvöllum komið mörgum á óvart.
Ég man eftir því að ég og systir mín sem var næst mér að aldri hlökkuðum óskaplega mikið til að flytja. Ég hefði kannski ekki hlakkað eins mikið til ef ég hefði vitað hvað var einmanalegt að vera þarna. Það var langt á næstu bæi og sveitin fámenn. Ég saknaði vinkvenna minna frá Núpi og allra krakkanna þaðan.
Áður en við fluttum hafði ég ekki gert mér miklar hugmyndir um Þingvelli aðrar en þær sem ég hafði fengið í uppeldi mínu og skólagöngu. Þetta var sögufrægur staður, heilagur staður í mínum huga. Mér fannst óskaplega merkilegt að vera að flytja þangað. Virkileg forréttindi. Ég var meira að segja svolítið montin man ég, að segja frá því hvert ég væri að flytja enda vakti það óskipta athygli viðmælenda.
(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)
En það var ekki bara fjósið sem var undarlega staðsett og erfiðar samgöngur sem valda því að koman til Þingvalla var eftirminnileg fyrir Hildi. Húsið sjálft og innbúið sem átti að standa þjóðgarðsverði og fjölskyldu hans til boða var í mörgu frábrugðið því sem fjölskyldan átti að venjast. Viðbrigðin voru því umtalsverð bæði hvað varðaði húsbúnað og umhverfi. Hildur átt sinn þátt í því að halda heimilishaldinu gangandi þó hún væri ekki há í loftinu enda virðist hún hafa verið yfirkomin af ábyrgðarkennd á köflum.
Aðstæður voru ótrúlega þegar við komum til Þingvalla. Það var næstum eins og að detta inn í ævintýri að flytja frá Núpi til Þingvalla – ævintýri sem gerðist á miðöldum eða þar um bil. Ég hef aldrei á ævinni orðið eins hissa og þegar komið var á Þingvelli og við fórum að skoða okkur um. Þar var ekkert rafmagn – sem var reyndar hið skrítnasta af öllu. Ég var búin að hafa rafmagn frá því að ég mundi eftir mér fyrir vestan en þar þótti nú mjög afskekkt. Á Þingvöllum var eldað við gas og ísskápurinn gekk fyrir gasi. Þetta með gasið þótti mér mjög skrítið vægast sagt. Ég var skíthrædd við að kútarnir myndu leka og ég mundi ekki vakna einhvern morguninn.
(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)
Hætturnar á Þingvöllum voru ýmsar og þær fólust ekki allar í hyldjúpum gjánum – þó þær væru vissulega verstar.
Þegar við fluttum var ljósamótor út í torfkofa í túninu fyrir framan bæinn og vatnsdæla sem gekk fyrir rafmagni frá mótornum Einu sinni sem oftar forum við pabbi saman út í dælu kofa. Ég klædd í kjól eins og stúlkna var gjarnan siður í þá daga og ekki vildi betur til en að hann flæktist í reimunum á dælunni. Pabbi rétt náði að bjarga mér áður en höfuðið lenti í drifskaftinu.
Pabbi þurfi að snúa þessum mótor í gang kvölds og morgna ef ekki oftar á hverjum einasta degi. Hann sem aldrei hafði þurft svo að ég myndi að reyna líkamlega á sig. Ég átti von á því að hann dytti niður einhvern daginn. Þetta stand olli mér miklum áhyggjum
Svo voru kýr út í fjósi sem mamma þurfti að mjólka og það fannst mér alveg agalegt – hún komin langt á leið með 10. barnið sitt og með allan þennan herskara af börnum. Þá var skilvinda í kjallaranum í bænum. Og þar gerði mamma rjóma. Þetta var ævintýralegt en um leið skelfilegt. Svo voru allar gjárnar botnlausar og fullar af ísköldu vatni. Ég leit aldrei af krökkunum frá því að ég vaknaði á morgnana og fór að sofa á kvöldin – ég man ekki í hvað langan tíma – það skipti mánuðum ef ekki árum.
Annað sem mér þótti undarlegt og framandi voru rúmin í húsinu sem höfðu verið notuð í stríðinu en í þeim voru grjótharðar dýnur. Þessi rúm eru mér sérstaklega minnistæði fyrir hvað þau voru furðuleg og fornfáleg en þau áttu að vera handa nýju íbúunum í Þingvallabænum.
(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)
Störfin öll stór og smá
Eins og fyrr segir var núverandi bær byggður 1930 og um leið og hann var mannaður þjóðgarðsverði hin nýstofnaða þjóðgarðs var sett þar upp símstöð og póstafgreiðsla. Á Þingvöllum var einnig árum saman veðurathugunarstöð en hvort tveggja var gríðarlega bindandi og einkenndi mjög búsetu fólks á Þingvöllum alveg fram undir 1980. En margt það sem gert var á Þingvöllum á dögum þeirra Eiríks og Kristínar hafði verið gert áratugina á undan þó svo að prestur hafi ekki setið á Þingvöllum frá því 1928 til 1958.
Árið 1940 tóku við þjóðgarðsvarðarembættinu á Þingvöllum hjónin Thor J. Brand og Elísabet Helgadóttir en gaman er að lesa tilvitnun í æviminningar Elísabetar í bók Ágústs Forn frægðarsetur III:
…á Þingvöllum lifði ég mesta þrældóm ævi minnar. Verst af öllu var þó ófrelsið og bindingin af veðurathugununum, póst og símaafgreiðslunni, áætlunarbílnum úr Reykjavík, sölu veiðileyfa á vatninu og því ótrúlega vafstri, sem leiddi af kirkjunni. Ekki samt af helgihaldinu, þegar síra Hálfdan Helgason á Mosfelli kom og messaði, heldur ferðafólkinu, sem vildi skoða kirkjuna, en henni var alltaf læst samkvæmt strengilegum fyrirmælum, en af íbúð Þingvallanefndar í bænum [hlaust] mikil fyrirhöfn, þegar hinir ýmsu embættismenn dvöldu þar, og voru þeir þó bæði alúðlegir og tillitssamir, eins og þeir gjarna eru, sem hæst eru settir í mannfélagsstiganum.
Þessi lýsing Elísabetar hljómar næsta samhljóma þeim minningum sem Ingveldur á af störfum fjölskyldunnar á Þingvöllum nema faðir hennar var jafnframt prestur og umsvif þjóðgarðsvörslunnar jukust stöðugt ár frá ári. Bernska Ingveldar var þó mun áhyggjulausari en Hildar sem oft var þjökuð áhyggjum af yngri systkinum sínum og óhóflegu vinnuálagi sem foreldrar hennar voru bæði undir – þó ekki hve síst Kristín.
Í bjarkarlundinum stóð bú
Ingveldur Eiríksdóttir er fædd 1965 og því höfðu foreldrar hennar búið á Þingvöllum í 5 ár er hún fæðist 11. í röðinni en einn son höfðu foreldrar hennar misst er þeir bjuggu fyrir vestan. Næsta systkini á undan er fætt 1960 og því var Ingveldur oftar en ekki ein með foreldrum sínum á vetrum og naut meira næðis í samvistum við þau en mörg eldri systkini hennar.
Ingveldur bjó á Þingvöllum 17 fyrstu ár ævi sinnar og það hlýtur að hafa sett svip sinn á tilveru hennar að alast upp á stað eins og Þingvöllum, enda segir hún að áhyggjur af flutningur fjölskyldunnar frá staðnum hafi snemma vakið hennar til umhugsunar um framtíðina.
Ég var ekki há í loftinu þegar ég var búin að fá fólk með mér í það að reikna það út hve gömul ég yrði þegar við yrðum að flytja frá Þingvöllum. Mér hafði snemma verið sagt að embættismenn á vegum ríkisins hættu störfum sjötugir og því lék mér veruleg forvitni á að vita hve lengi ég fengi að búa á Þingvöllum. 16 ára hljómaði dómurinn upp á – nokkuð sem ég gat sætt mig við enda fannst mér fólk um tvítugt vera háaldrað eins og barna er gjarnan háttur.
(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)
Það var þó ekki vegna tengsla staðarins við þjóðarsálina eða sögufrægðar hans sem Ingveldi þótti áhyggjuefni að þurfa að fara, heldur miklu frekar að hún unni staðnum og vildi njóta hans sem lengst.
Þingvellir voru fyrir mér ekki sögufrægur staður – helgur staður sem átti sinn sérstaka sess í þjóðarsálinni. Þeir voru einfaldlega hluti af mér og mér fannst ég vera hluti af þeim. Það að búa á Þingvöllum var órjúfanlegur hluti af sjálfsmyndinni og því sem ég var. Umhverfi mitt og lífshættir fjölskyldunnar gerðu mig að því sem ég var.
Þingvellir voru mitt leiksvæði og hætturnar sem fylgdu þeim urðu hluti af mér – inngreiptar rétt eins og að hnífur og skæri eru ekki barnameðfæri voru gjárnar og hraunið nokkuð sem þurfti að umgangast af virðingu og varúð.
Ég skondraðist um gjár og lautir, fossa og flúðir, kletta og klöngur rétt eins og börn nútímans skondrast um götur og stræti alls óhrædd við hættur götunnar því þau vita hvar öryggið býr. Eldri systkini mín leiddu mig vafalítið í allan sannleikann um gildi þess að varast hætturnar þannig að aldrei datt neinn ofan í blessaðar gjárnar eða fór á litlum árabát út á vatnið – en þar bjuggu aðrar hættur en í lygnum en hyldjúpum gjánum.
(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)
En þannig er nú að nokkur böggull fylgir skammrifi og svo var það einnig með búsetuna, rétt eins og Elísabet benti svo réttilega á í minningum sínum. Ingveldur segir bernskuna vera í minningunni einn sólskinsdagur en stundum dregur ský fyrir sólu.
Asinn og atgangurinn yfir sumarmánuðina var gríðarlegur og stundum var ekki pláss fyrir alla heima í bæ í sínu bóli og því svaf Ingveldur í tjaldi eða hjólhýsi nokkur sumur ævi sinnar.
Störfin öll sem fylgdu búsetunni urðu eins og hjartsláttur tilverunnar og taktfastar breytingar á eðli þeirra urðu mælir á snúning jarðarinnar, rétt eins og laufgaður lundur eða snjór í Botnssúlum.
Hver einstaklingur á Þingvöllum hafði sitt hlutverk sem hæfði aldri hans og stöðu. Ég var barnapía fyrst og fremst – og dekurdúkkan. Ég byggði mér bú, með dyggri aðstoð Guðmundar bróður míns (það var reydnar öfugt en barninu leið á hinn veginn), í bjarkarlundinum við Fjósatún og þar undi ég mér sumarlangt ásamt þeim börnum sem mér voru falin – ár eftir ár. Þegar ég eltist breyttust störfin, ég fór að vinna á símanum, í þjónustumiðstöðinni en alltaf – sama hve gömul ég var, var ég að tína upp sígarettustubba.
Ég verð til vitnis um það að umgengni Íslendinga við sígaretturnar hefur breyst til mikilla muna – það er varla að maður sjái fólk henda frá sér sígarettu en það var svo sannarlega ekki svo. Á næstum hverjum degi sumar eftir sumar fór ég upp í gjá að tína rusl og í kringum bæinn – og það var næstum allt saman sígarettustubbar. Ætli ég hafi ekki þar með verið bólusótt endanlega fyrir reykingum
Umsýslan í þjóðgarðinum breyttist gríðarlega á meðan ég var að komast til vits og þroska og umsvifin voru ólíkt meiri í kringum 1980 en þau voru 1970. Það var eins og reglufestan yrði meiri – tjaldsvæðinu urðu skipulegri og gæslan meiri og þar með var mannahald meira í kringum þjóðgarðinn sjálfan. Það var oft svo fjölmennt í bænum að ég svaf heilu sumrin í tjaldi eða hjólhýsi enda rúmaði litli bærinn ekki allt það fólk sem þurfti til að hugsa um símstöð, þjóðgarð og prestssetrið. Mest af því fólki sem sinnti þjóðgarðinum var fjölskylda mín þó vissulega hafi utanaðkomandi verið ráðnir sumarlangt sömuleiðis.
Mamma stóð í eldhúsinu og hugsaði um gesti og gangandi en á sumrin var óalgengt að það borðuðu færri en 10 í hvert sinn og oftar en ekki vor það mun fleiri. Daginn út og daginn inn. Og svo streymdu gestirnir að í sama taktfasta niðnum og fossinn gaf frá sér.
En á veturna kvað við annan tón. Mannskapurinn hélt á brott til kennslu eða náms og eftir voru Inga litla, mamma og pabbi. Eiríkur var oftar en ekki nokkra daga í senn í Reykjavík yfir vetrarmánuðina enda samgöngur þá eins og í kringum 1960 hinar verstu til Þingvalla. Þá var rólegt og gott að stússast með mömmu sem loksins hafði allan tímann í heiminum til þess að hugsa um örverpið sitt.
Skautarnir voru dregnir fram og snjóþotan flaug um brekkurnar á Miðmundatúni og eini félagsskapurinn var bergmálið í Almannagjá og minnkarnir í hraunjaðrinum við vatnið.
Þegar kom að því að yfirgefa Þingvelli og árin þar á eftir tók við erfiður tími, það var eins og hluti af sjálfsmyndinni væri horfinn – maður hafði misst fótana í erfiðum veruleika unglingsáranna.
Smám saman lærðist manni þó að ekkert tekur bernskuna í burtu frá manni og þær yndislegu minningar sem maður á frá henni – því hún er innistæða sem vex og bætir við sig vöxtum og vaxtavöxtum.
Fyrir ekkert er ég þakklátari en árin sem foreldrar mínir gáfu mér á Þingvöllum, – að baki er bernska sem sífellt verður mér meira og meira virði. Með árunum lærist manni að ekkert er sjálfsagt og aldrei er hægt að eiga of mikið af góðum minningum.
(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)
En hver voru tengsl örverpisins við sögurnar allar frá Þingvöllum, þær sem kenndar eru í skóla? Hvernig leið henni í nábýlinu við hin ógnvekjandi heiti Drekkingarhyl, Höggstokkseyri, Kaghólma, Gálgaklett og Brennugjá – svo ekki sé minnst á kirkjugarðinn sem er nokkur skref vestan við bæinn?
Ég man hve myrkrið var mikið á Þingvöllum og hve vestari barmur Almannagjár gat verið kolsvartur – þögnin var svo þykk að það var næstum hægt að þreifa á henni. En hræðslan var fjarri og aldrei man ég eftir því að hafa orðið hrædd á Þingvöllum.
Það þýddi þó ekki að óréttlæti heimsins kæmi ekki upp í huga manns í þau ótalskipti sem ég gekk fram hjá Drekkingarhyl eða Brennugjá – öðru nær. Konurnar voru svo sannarlega oft í huga mínum og galdrahræðslan vakti snemma áhuga minn. Sagan sjálf – Íslandssagan varð hins vegar eins og undirleikur við daglegt líf á Þingvöllum – hvorki áþreifanleg eða sérlega nálæg, en stöðug og viðvarandi. Órjúfanlegur hluti af veru minni þar, rétt eins og niðurinn í fossinum, Himbriminn og þrestirnir.
Það er þó ekki frá því að Þingvellir og skuggaleg fortíð þeirra auk kirkjugarðsins, hafi haft áhrif í vinkvennahópnum, þó svo að ég hafi ekki fengið að fregna það fyrr en mörgum árum síðar
Á vetrum var ég í heimavist á Ljósafossi, þar sem ég nú kenni og stundum fékk maður að bjóða með sér heim stelpu yfir helgi þó svo það væri ekki algengt. En eitthvað gekk það á köflum illa en það var ekki fyrr en löngu seinna sem þær sögðu mér afhverju – kirkjugarðurinn og ljósaleysið hræddu þær meira en svo að þær hættu á heimsókn til Þingvalla um hávetur – en þá var bærinn ekki upplýstur eins og nú er og einu ljósin sem sáust voru stjörnurnar á himninum.
(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)
Þingvellir þá og nú
Margt hefur breyst á Þingvöllum frá því sem var er Ingveldur og hennar fjölskylda gengu þar um hlað. Þar situr nú enginn prestur – ekki frekar en á árunum 1928 – 1958 og Alþingishátíðarbærinn er nú orðinn veislusalur forsætisráðuneytis.
Þjóðgarðurinn er orðin sjálfstæð eining og tengslin við Þingvallabæinn eru algjörlega rofin. Hann hefur með aðetur sitt á Leirunum í þjónustumiðstöðinni. Framkvæmdarstjóri Þjóðgarðsins á sér þó aðsetur í Þingvallabænum en það er meira eins og sumarbústaður fyrir hann en skrifstofa.
Um túnin tipla nú engir litlir fætur og Bjarkarlundur er löngu rifinn. Stígarnir grasi grónir og fortíðin blasir við fyrrum heimamönnum. Framundan er hins vegar framtíðin – því má ekki gleyma og vonandi eru og verða Þingvellir nú – sem þá, sá staður sem íslenska þjóðin gerir að sínum. Þeir eru vel þess virði með sögurnar sínar allar, stórar og smáar.
Lengi væri hægt að halda áfram í umfjöllun um Þingvelli og þær sögur gamlar og nýjar sem tengjast þróun staðarins og Íslandssögunni. Hér látum við þó staðar numið og vonum að einhverjir hafi haft gagn og gaman af. Við höfðum það svo sannarlega.
Ljósafossi í maí 2003
Ingveldur Eiríksdóttir og Hildur Kristín Hilmarsdóttir
Heimildaskrá
Ágúst Sigurðsson 1980: Forn frægðarsetur III. Reykjavík, Örn og Örlygur.
Bruun, Daniel 1987: Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár II. Reykjavík Örn og Örlygur.
Björn Th. Björnsson 1984: Þingvellir, staðir og leiðir. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1984
Landið þitt Ísland 1984 5. bindi. (Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson Björn Þorsteinsson Guðjón Ármann Eyjólfsson) Reykjavík, Örn og Örlygur.)
Tómas Guðmundsson 1998: Ljóðasafn Tómasar Guðmundsson 2. útg. Reykjavík, Mál og menning
