Það að léttast

er nú ekkert grín – en þó ekki nærri eins ómögulegt og ég hef talið mér trú um.  Ég nefnilega léttist fyrir jól!¨ Og bara nokkuð jafnt og þétt meira að segja… þó ég hafi talið mér trú um annð.  En ég hef bætt því á mig yfir jól og eftir jól.  Nú er ég aftur farin að léttast.  Og ég þarf að léttast meira og meira – hægt og bítandi.  Ég ætla að nýta mér 8. apríl sem megindagsetningu núna – ég hef lést um kg á 2 vikum og betur má ef duga skal.   Ég er samt að borða nammi núna – sem er svoldið spes… allt af því ég hef talið mér trú um að þess þurfi þegar ég læri… uss og fuss – en það er nú ekki mikið og við skulum sjá hvort eitthvað af því verði hægt að geyma…

Áfram Inga you can do it -og aðferðarfræðina líka .-)  Best að fara að rifja upp það sem ég var að gera um síðustu helgi.

Hreyfimarkmið – UPPRIFJUN 101

Þetta fannst mér vera raunhæft plan í janúar – huhmmm ekki út af neinu sem ég fékk smá skammir í gær frá mínum elskulega sjúkraþjálfara huhummm

Ég bæði get og vil 😉 – sagði ég þá… hlýt enn að vera þeirrar skoðunar

Janúar og febrúar – (lágstemmt þar sem konan er ekki upp á sitt besta þá mánuði). Áherslan á hóflega hreyfing og mataræði.Og lágstemmt var það svo sannarlega 😉

Morgunblað ekki sjaldnar en fjórum sinnum í viku – helst alltaf (6x). 15 mín lágmark – lengri hringurinn er 25 mín og skal tekinn þegar andinn blæs því þannig.  Aldrei farinn lengri hringurinn en oftast farið með blöðin – var samt í bústað með Ástu í nokkra daga og gerði þá ekkert.

Mánudagur – Salurinn og brennsla í 25 – 40 mín – bólaði ekki á því…. nema endrum og sinnum

Þriðjudagur –

Miðvikudagur – Salurinn og brennsla 25 mín Já var þetta virkilega ætlunin….

Fimmtudagur – Blak 90 mín Það klikkar nú aldrei ….

Föstudagur –

Laugardagur – Salurinn og brennsla 25 – 40 mín Rámar nú í að ég hafi stundum farið í þetta og eða sund…

Sunnudagur til vara
Þriðjudaga og föstudaga má fara í sund og synda smá vegis, nú eða bara í pottinn í liðkun. Reynslan er að ef komið er ofan í pott er stutt ofan í sundlaugina og nokkrir metrar í sundi saka aldrei  Já það má nú allt mögulegt….

Hjólið er stand by og ganga er líka leyfileg sem viðbót – engin pressa samt svo mótþróaþrjóskuröskunin fari nú ekki á flug og drungin, vonleysið og hörmungarhyggjan nái nú ekki neinum hæðum.  1 hjólatúr og 2 eða þrír hlaupatúrar 😉  Og um miðjan feb byrjaði ég á námskeiðinu Hraustar konur og tók vel á því þar.

Mars –

Massíf gönguþjálfun því 8. apríl eru mælingar á Reykjalundi og ég SKAL koma ógó vel út

Meiri ákefð í salnum og brennslutíminn lengdur í 40 mín alltaf – (skipt í tvennt).

Meira sund og hjólreiðar því það er sko verið að æfa til að verja sjálfsvirðinguna

Búið er að skipuleggja nokkrar gönguferðir, 60 – 3 klst langar í misjöfnu undirlagi. Á móti verður minna brennt í tækjum en létt sund kemur á móti.

Apríl – eins og mars

Maí – litið til fjalla og brennslan færð út. Sund, ganga, hjólreiðar en lyft með.

Vigtun hjá Baldri

Lok janúar –

Lok feb –

Lok mars –

Vera þá orðin 2 kg léttari en þegar ég fór frá Reykjalundi, hmmm þarf nú að fara og athuga þessar tölur…

bónus væri nýr tugur.  HUHMMMMM

Réttlæti – punktar úr grein Ólafs Páls

Fyrirsögn þessa pistils er hlekkur á frekari skrif Ólafs Páls – fræðileg umræða er ótrúlega frískandi á þessum stundum!
Vinsamlegast vísið ekki í grein Ólafs Páls eða í þessi skrif mín hér sem eru útdráttur úr grein hans um Réttlæti

Nýtum menntakerfið – prófgráður til að útdeila verðmætum

En hvað ef menntakerfið er ekki réttlátt – hvað ef það hampar öðrum þáttum hærra en hinum?

Réttlæti,mismunur og mismunun

Hér er farið yfir grein Ólafs Páls með sérstakri áherslu á – hvernig félagsleg mismunun HEFUR áhrif í skólakerfinu

•Mismunur sem telst sem félagsleg mismunun er:

•1. mismunurinn verður að vera mikilsverður – varða velferð einstklinganna

•2. orsakirnar verða að liggja í félagslegum þáttum – en ekki t.d. í dugnaði eða leti

•3. mismunurinn er afleiðing af a ranglátu skipulagi stofnana samfélagsins, eða b annars konar ranglæti t.d. ranglátum hefðum.

•skilgreining á félagslegir mismunun

•o Féalgsleg mismunun á sér stað þegar mismunandi félagslegri stöðu einstaklinga og hópa fylgi misjan aðgangur að gæðum samfélagsins.

•Hvað er velferð?

•o frumgæði – Rawls nefnir réttindi, tækifæri, laun og sjálfsvirðingu -. Góð heilsa, greind og ímyndunarafl sem eru náttúruleg gæði.

•Allt þetta er erfitt að skilgreina og það að fórna td. sjálfvirðingunni með því að stunda starf sem sviptir manni henni – t.d. vændi, til þess að fá meiri peninga er kannski ekki meiri velferð nema síður sé. Eins getur það verið erfitt fyrir fólk að umbreyta peningum í t.d. menntun eða nýta þannig betur tækifærin sem ku leynast á meðal vor. Þarna ræður hreinlega persónulegur munur fólks því hve vel spilast úr – á stundum.

•En hvaða gæðum er sóst eftir? Hvað er gott og hvað færir okkur velferð? Það getur verið misjafnt eftir samfélögum jafnvel hópum innan samfélaga. Hvað er auður?

•Bourdieu skilgreinir þrenns konar auð – efnahagslega auðinn sem við erum vönust að kalla einfaldlega auð, menningarauð og félagsauð

•o Menningarauður –

•§ auður sem er bundinn líkama og hug, menntun eða færni, en færnin verður að vera einhvers virði í því samfélagi sem þú býrð við

•§ hlutbundinn – bækur, listaverk, prófgráður,

•§ stofnanir svo sem hjónaband, ýmislegt sem tengist hefðum og einnig stofnanir úr timbri og grjóti.

Félagsauður –

samsan virkra og mögulegra úrræða sem hann hefur og tengjast meira eða minna stofnanabundnum o gvaranlegum samböndum sem byggjat á gagnkvæmum kynnum og viðurkenningu. Félagsauðurinn veltur á umfangi þeirra sambanda sem hann getur virkjað og á þeim auði sem þeir sem hann hefur samband við búa yfir – hvaða tegund af auði sem það er.

•Velferð einstaklingsins ræðst af þeim auð sem hann býr yfir (og þá allir þrír)

•Félagsleg mismunun getur því verið ranglát skipting efnahagslegs, menningarlegs og félagslegs auðs.

•Réttlát skipting gæða -skiptaréttlæti

•o Hver er réttlát skipting gæða? og þá erum við nú svolítið komin út í pólitíkina

•Peningaauður er það ekki því þá geta þeir sem hafa hann í ríkari mæli en aðrir keypt sér hinn auðinn óhikaið – menntun, félagslegt öryggi væri bara fyrir þá sem geta borgað fyrir það uppsett verð (sem og menntunina)

•Óréttlætið felst í því að ein tegund auðs er höfð sem grundvallarverðmætum.

•Hvað verðskuldar hver? Verðskuldun er háð gildismati og hæfileikar sömuleiðis eigi að nýta þá til að skipta gæðum.

•Menntun getur verið liður í því að útdeila gæðum réttlátlega – en þá þarf menntakerfið að vera réttlátt og allir eiga jafna möguleika innan þess – og hvað segir Bourdieu um það?

•Hér skipta tvær þættir megin máli

•o Skipulag grunnstofnana samfélagsins

•o Heimsmynd okkar – almenn viðhorf og fordómar og hún mótast af habitus hvers og eins – þetta er ekki náttúrulegir þættir heldur ráðast af félagslegri stöðu okkar.

•Bourdieu lýsir ákveðnum veruleika en hann segir ekki til um það hvort honum beri að breyta – hann dregur upp mynd en þær geta hjálpað til við það ef við lítum svo á að kenningar hans bendi til ranglætis. – sem þær vissulega gera að mínu mati. Bourdieu fannst eðlilegt eftir að hann var búinn að greina – að þá myndi réttlætisspurningunni vera svarað? Hvernig á að skipta gæðum samfélagsins?

•Sktiparéttlæti:

•o Einfaldi vandinn (ekki sérlega einfaldur þó)hvernig skal skipta gæðum sem hópur fólks hefur ekki verið með í að skapa en á þó e.t.v. og líklega rétt á að njóta hans?

•o Flókni vandinn – réttlátar reglur heils samfélags þannig að þar séu leikreglur réttlátar þannig að það verði sanngjarnt og og hagkvæmur vettvangur fyrir samvinnu borgaranna í áranna rás – aldanna jafnvel.

•Erfitt er að forðast félagslega mismunun – hún getur skotið upp kollinum hvar sem er því sviðin eru mörg og margslungin.

•Það má hugsa sér að samfélagið í heild sé samvinnuvettvangur (allt sem við gerum er samofið og erfitt að greina hver á tiltekinn auð – hver aflar hans – gerði hann það einn og skal þá enginn annar deila honum osfv.) (þess má geta að lýðræðið byggir á þessari samvinnuhugsun).

•o félagslegur auður og menningarauður sé lagður til grundvallar réttlátri skiptingu frekar en fjármagn eins og nú er.

•o þjóðfélagsþegnarnir ættu þá auðveldara með að sjá réttlætið í kerfinu því samvinnuhugtakið dytti út um leið og auðurinn ræður för.

•o Fjármagnsauð er misskipt nema eignaréttur sé takmarkaður að miklu eða öllu leyti

•Rawls: réttlæti er hugmyndin um samfélagið sem réttlátt kerfi félagslegrar samvinnu frá einni kynslóð til annarrar.

•Samvinnuvettvangur verður að uppfylla lágmarkskröfur um sanngirni. Hver og einn verður að geta haft tækifæri til þess að leita að því góða lífi sem hann kýs. Það má ekki mismuna borgurunum og því verða stofnanir samfélagsins að vera hlutlausar og ekki dæma hvað sé gott líf.

•virða verður borgarana bæði sem þiggjendur og gerendur. Þetta er lykillinn í allri réttlætisumræðu.

•Fátækt er ekki félagleg mismunun í sjálfu sér – ekki fyrr en hún erfist mann fram af manni og verður þannig að fátækra gildru. Þá er ástæðan ekki bara persónuleg heldur á hún sér dýpri rætur. Eins er það með menntunina.

•Félagsfræði menntunar snýst um að kortleggja þennan mismun og skoða samfélög sem viðhalda honum.

•o Niðurstaðan virðist vera sú að mismunin er innbyggð í stofnanir samfélagsins og skipulag þess – mismunur gengur í erfðir

•Mismunur er til staðar því hann hefur með afgerandi hætti áhrif á aðgang að ýmsum mikilsverðum gæðum. Í sjálfu sér er menntunin mikilsverð gæði og hins vegar skiptir hún máli sem aðgöngumiði að yfirvettvangi samfélagsins – efnahags og valdavettvanginum og þeir sem eiga greiðasta leið þar inn eru þeir sem eiga auðveldast með að finna góða lífið.

•Skólinn getur fest félagslega mismunun í sessi með þvi´að viðhalda og festa gildismat ráðandi hópa í sessi á kostnað annarra jafnvel þó starfshættir skólans beri það ekki með sér á augljósan hátt.

•o Sumir nemendur upplifa sig á heimavelli á meðan öðrum líður eins og geimverum í kafbát. Val getur meira að segja verið dulbúin leið til þess að stýra (Hér myndi punktur um bernstein eiga heima ef eitthvað af honum yrði með.)

•Félagsleg réttlæting í námi hefur verið hvað hæst í hópi þeirra sem berjast fyrir málefnum fatlaðra sem krafan um skóla án aðgreiningar sbr salamanca ályktunina frá 1994.

•Skólagangan verður að taka mið af mannlegum breytileika strax í upphafi og má ekki ganga útfrá mannlegri einsleitni.

•Í sögulegu samhengi voru skólar vettvangar forréttinda en nú skulu þeir gegna veigamiklu hlutverki í því að stuðla að réttlátu samfélagi -líklega því veigamesta í samfélagi okkar.

•Skólar draga enn fólk í dilka eftir félagslegum uppruna, kynferði, búsetu og þjóðerni og enn eru fötluð börn víða óvelkomin segir Ólafur Páll að lokum.

Lýðræði og skólastarf

Ég upptötvaði Ólaf Pál í haust og maðurinn er snillingur – og þessi umræða er svo þörf sem hann býður upp á.  Þetta er úr óbirtu efni frá honum um Lýðræði og skólastarf.  Vinsamlegast ekki vísa í þetta í neinum skrifum.

Punktar úr grein Ólafs Páls – Lýðræði og skóli , gerðir með einstaklingsmiðað nám og lýðræði og í huga

•Skólin skal mennta nemendur sína – akademísk markmið

•Skólinn skal einnig aðlaga nemendur sína að þjóðfélaginu – samfélaginu

•o Þá spyr maður sig er ekki skólinn í raun og veru tæki sem viðheldur mismunun – skulu ekki nemendur hans koma út allir meira og minna eins svo samfélagið haldist á réttum kili?

•Skólinn skal þjónusta samfélagið og nemandann – búa til nýta þjóðfélagsþegna Þeir eru einstkaklingsmiðaðir (kenna nemendum) en líka samfélagsmiðaðaðir því þeir skulu skila nemendum sínum frá sér í ákveðnu formi.

•Lýðræði illa skilgreint í námskrá (1) en nemendur eiga að vera færir um að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi en einnig skulu starfshættir skólans einkennast af lýðræðislegu samstarfi. (2)

•Skólar eru að hluta til að sinna stjórnmálauppeldi eða menntun en ekki bara starfsþjálfun eins og var í heimakennslunni hér í den (3)

•Undirbúningur fyrir lífið er þrennskonar:

•o fræða og þjálfa til atvinnuþátttöku

•o undirbúningur fyrir lífið en ekki starfið – borgari í samfélagi

•o vera sjálfráða gerendur í eigin lífi en ekki leiksppar fávisku fordóma eða afturhaldssamra hefða.

•skólinn skal þjálfa nemendur í því að koma sér og skoðunum sínum á framfæri þannig að eftir því sé tekið – um leið og þeir gefa öðrum svigrúm til þess sama – lesa má þó úr þessu að þarna sé besta að vera bestur því þá verða skoðanir manns ofan á ekki satt?

•námskráin segir um lýðræði m.a.jafngildi allra manan, virðing fyrir einstaklingnum og ssamábyrgð – umburðarlyndi….Ólafur Páll segir þetta nokkuð einfeldningslegt allt saman og um leið og skólinn eigi að starfa á lýðræðislegan hátt þá er allt múlbundið í lokamarkmið og áfangamarkmið sem ná skuli sama hvað… Lífsleikni er það fag þar sem þjálfun og notkun lýðræðis er virkast en hún fær sára lítinn tíma í grunnskólanum

•Rousseau – fyrir honum er enginn munur á eiginlegri menntun og því sem hann hefið getað kallað borgaramenntun eða menntun til lýðræðis. Það að mennast og verða skynsemsivera er ekkert annað en að menntast til þess að verða frjáls og sjálfráða borgari (8).

•John Dewey – lýðræði verður að eiga sér rætur í einstaklingsbundnum lífsmáta og skapgerð borgaranna – án þess er ekki hægt að tala um lýðræðislega stjórnarhætti.

•Lýðræðisleg manneskja er frjáls og full af heilbrigðri skynsemi – en eitthvað meira er nú á spýtunni…lýðræði er sú trú að jafnvel þear þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju annarrar felur það að temja sér að vinna saman af vinsemd ómetanlega viðbót við lífið (dewey sjálfur 8-9). Við leitum lausna á vettvangi skynseminnar og lærum að meta að ágreiningur er dýrmæt afurð – uppspretta siðferðilega og menningarlegra verðmæta.

•En við megum ekki gleyma því – að lýðræði í skólastarfi er ekki hið sama og lýðræðislegt stjórnarfar eða lýðræði í svo stórri einingu sem samfélag er. Wolfgang Edelstein talar um það í útvarspþætti í ágúst 2009 að þar sé ekki sami hluturinn á ferð.

•Lýðræði felur í sér samræður/rökræður – skapar vettvang til þess að breyta áherslum

•Lýðræðistal í aðalnámskrá er fyrst og fremst þessi réttur ti lþess að halda sínu fram og leyfaöðrum að gera það líka – en hvað gerum við, við ágreininginn? Þurrkum við hann út með því að kjósa og láta hið fornkveðna gilda – meirihlutinn ræður? Eða sættum við okkur við fjölbreytileikann og lærum að kunna að meta ósætti?

•Það að leyfa margbreytileikanum að njóta sín á sér hljómgrunn í einstaklingsmiðun

•Dewey vill að við meina að í ágreingnum felist auður – og margbreytileikinn sé eftirsóknarverður

•Lýðræði er samveruháttur sem tekur til allra sviða – það þarf að renna saman við merg og bein – hvaða augum lítum við samferðarfólkið – vinur eða fjandmaður, gagnrýni er námstækifæri eða árás, er það að vera óssammála ögrun eða ógn?

•Dewey vill við munum eftir því að við getum ekki gert ráð fyrir reynslu hjá nemendum okkar og hafið kennsluna með þá vissu að reynslan sé til staðar heldur verðum við að leyfa nemendum að öðlast hana: Fyrr eigi sér ekkert nám stað – og þetta vekur mann til umhugsunar um habitus – við gerum ráð fyrir að allir eigi sér sama grunn reynsluheim hér á Íslandi en svo er ekki – innflytjendur eiga sér allt annan habitus – barn sem ekki fer í leikskóla á sér ekki þann habitus. sífellt þarf að vera að spyrja sig hvaða reynslu hafa nemendur mínir? Hvernig get ég tengt námefnið- markmiðin við eþssa reynslu – í sundurleitum nemendahópi getur þetta verið mjög erfitt en þess mikilvægari. Lýðræði í skólastarfi er að huga sérstaklega vel að þessum spurningum. (13)

•Sterk sjálfsmynd er nauðsynleg – mín reynsla, minn bakgrunnur er eins mikilvægur og hvers annars. Nám er félagslegt fyrirbæri en ekki einstaklingstengt…. nemandi nýtir öll tæki sín, hugsun, skynjun vissulega en ekki síður reiðir nemandinn sig á öll þau tæki og tækifæri sem hið félagslega umhverfi hans leggur honum til (bourdieu myndi nú hafa tekið undið það maður minn!)

•Skortur á lýðræði í skólastarfinu er skortur á sanngjörnum námstækifærum. Við þurfum að umbreyta skólanum þannig að hver og einn getur litið á hann sem sanngjarnan samvinnuvettvang þar sem unnið er að verðugum markmiðum.

Ju hvað þetta er flott J

Ingveldur er búin að breyta

Það er alrangt hjá mér að tala um lífsstílsbreytingu – hún hefur löngu átt sér stað og allar breytingar sem ég geri á lífsstíl upp úr þessu er í gamla farið – og hver hefur nú áhuga á því?  Það er því ekki til neins fyrir mig að blekkja mig með því að blaðra um að það sé erfitt að breyta – ég er búin að breyta.  Ekki nokkur brekka þar!   ég þarf bara að hanga á sporinu.
Og spyrja mig reglulega hvort ég ætli niður á næsta tug eða vera bara þar sem ég er.  Svarið er að sjálfsögðu NEI.  Þá þarf bara live up to it.
Hreyfingin er komin inn á fullu aftur eftir smá sett bakk í þeim efnum og major sett bakk í mataræði.  Nú þarf ég að breyta þessu rugli og léttast á ný.  Allt mitt líf er að komast í fastar skorður og þá get ég bara lifað mínu lífsstílsbreytta lífi án nokkurs vesens – er það ekki 😉

Í bjarkarlundinum stóð bú

2003 gerði ég við annan mann þetta verkefni um Þingvelli – það liggur við að það hríslist um mann sælustraumur 🙂

Hver maður á sér sinn bakhjarl í æskunni, innistæðu sem þegar best lætur endist honum ævina á enda að viðbættum vöxtum og vaxtavöxtum eftir því sem líður á ferðina.. Í þessari ritgerð sem er hluti af námskeiði hjá Þorsteini Helgasyni vorið 2003 sem nefnist Söguþræðir ætlum við að fjalla um æsku annarrar okkar og tengjum hana bernsku eldri systkina hennar sem um margt var ólík þeirrar yngstu í 11 systkinahópnum frá Þingvöllum (og Núpi). Um leið og þetta ferðalag um tímaás fjölskyldunnar frá Þingvöllum dregur upp ólíka mynd af aðstæðum fólks í uppvextinum færir þessi saga okkur einnig örlitla mynd af þeim breytingum urðu í samfélaginu á þessum tíma

Í markmiðum verkefnisins segir að höfundar eigi að tengja saman þætti úr sínu eigin lífi og/eða fjölskyldu þannig að til verði verk sem er einstakt varðandi innihald og hafi auk þess sérstakt gildi fyrir höfunda.

Nú er það svo að höfundar að þessari ritgerð eru tveir og annar er sýnu tengdari viðfangsefninu en hinn en engu að síður standa Þingvellir, sem eru jú í aðalhlutverki öllum Íslendingum nærri. Því var ákveðið að láta slag standa og fjalla um ólíkar aðstæður systkinanna á Þingvöllum og tengja þær við sögu staðarins – mun nær nútíðinni en Íslandssagan gefur okkur upplýsingar um. Enda nokkuð sem Hildur Kristín hafði fullan hug á að kynna sér sem og Ingveldur að rifja upp.

Ritgerðin er byggð upp á munnlegum heimildum systranna Ingveldar og Hildar Eiríksdætra en á milli þeirra er 18 ára aldursmunur. Hildur fæðist fyrir vestan, á Núpi í Dýrafirði en Ingveldur er fædd og uppalin á Þingvöllum. Frásögn þeirra ásamt tilvitnunum í bóklegar heimildir mynda þessa ritgerð sem ætlað er að varpa ljósi á ólík skilyrði í uppvexti þessarar stóru fjölskyldu en einnig er saga þeirra tengd við sögustaðinn Þingvelli, þar sem margir segja að megi finna hjartslátt íslensku þjóðarinnar – og um tíma fjölskyldu þeirra systra.

Eilítið sögustef

Þingvellir eru án ef einn af sögufrægustu stöðum landsins, ef ekki sá sögufrægasti. Þeir hafa í áranna rás skipað sérstakan sess í þjóðarsálinn og ekki er svo ýkja langt síðan að enginn var maður með mönnum nema gista nokkrum sinnum á ævinni í tjaldi á Þingvöllum. Hið minnsta var alltént að fara hinn fræga sunnudagsrúnt þar um á leið frá Reykjavík að Þingvöllum og þaðan í Hveragerði.

Nú hefur þó margt breyst og sunnudagsbíltúrarnir ekki eins fastmótaðir eða sjálfsagðir og á síðari hluta síðustu aldar. Þingvellir standa þó ætíð fyrir sínu. Þeir eiga vísast fastan sess í þjóðarsálinni enda ekki að undra, saga þeirra og náttúra er nánast samofin sögu lands okkar þannig að erfitt er að sjá á milli.

Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og var þar óslitið til 1798. Þar voru kveðnir upp dómar, málum þinglýst og þras var ekki óalgengt. Í Íslensku þjóðlífi í þúsund ár eftir Daniel Bruun er ansi skemmtileg lýsing á því sem hann hyggur að fari fram á Alþingi fyrir 1000 árum eða svo.

Á Alþingi var ekki einungis fengist við alvarleg mál á fundum þingsins eða lögréttu. Í Íslendinga sögum er brugðið upp myndum af fjölbreyttu, litríku mannlífi á Þingvöllum meðan þingið sat. Oft urðu þar harðar deilur á milli andstæðra höfðingja, og kom þá stundum til blóðugra bardaga, til dæmis á Alþinginu mikla eftir Njálsbrennu milli flokka brennumanna og þeirra, sem áttur eftirmál, eftir Njál og syni hans. Oft riðu konur og unglingar til Alþingis og í búðunum var bæði fjör og fjölbreytni. Trúða og leikara skorti ekki og í ölhitunarbúðunum gátu menn svalað þorsta sínum. Þar voru einnig búðir kaupmanna sem seldu ekki einungis nauðsynjavarning heldur einnig skartgripi, vopn, klæði o.s.f.v.

(Bruun 1987: 167-168)

Bruun heldur síðan áfram smellinni lýsingu sinni af mannlífunu þær tvær vikur sem þingið stóð hvert sumar þannig að manni vex tilfinning fyrir því sem mögulega átti sér stað á Þingvöllum við Öxará beggja vegna við 11. viku sumars.

Goðar og þingmenn þeirra dvöldu í búðum sem en enn má sjá tóftir þeirra vítt um þinghelgina m.a. í kringum Lögberg. Ábúendur voru á Þingvöllum þó það hafi e.t.v. ekki verið til að byrja með, fyrst eftir 930.

Ekki er ólíklegt að bær hafi verið reistur á Þingvöllum fljótlega eftir að Þingvellir urðu að þingstað okkar Íslendinga. Bæirnir sneri hins vegar oftast öðru vísi en sá sem byggðir var 1930 og stendur enn, en gaflar gömlu bæjanna eru taldir hafa snúið í suður. Þó má sjá mynd af Þingvallabænum í bók Bruun sem snýr eins og sá sem nú stendur. (Bruun 1987: 169)

Þingvallabærinn hefur líkt og annað tekið breytingum á þeim öldum sem bær hefur staðið á Þingvöllum en um 1200 stóð þar skálabær ekki ósvipaður þeim er stóð á Stöng í Þjórsárdal (Landið þitt Ísland U-Ö 1984: 163- 178).

Árið 1928 var sá bær sem þá stóð á Þingvöllum rifinn og annar reistur í tengslum við Alþingishátíðina 1930. Það er sá bær sem þekkjum í dag, teiknaður af Guðjóni Samúelssyni en í fyrstu voru einungis 3 burstir á bænum. Syðstu burstunum tveimur var bætt við fyrir þjóðhátíðina 1974, en þær tilheyrðu Forsætisráðuneytinu – eins og bærinn gerir nú allur í dag.

Kirkja hefur vafalaust verið reist á Þingvöllum strax í kringum kristnitöku e.t.v. á þeim stað er hún nú stendur en síðar var kirkjan flutt niður þangað sem kirkjugarðurinn er og hefur verið í gegnum aldirnar. Þar herjaði hins vegar Öxará og um 1530 var kirkjan flutt á núverandi stað – líklega á grunn þeirrar upprunalegu. Sú kirkja sem nú stendur var byggð 1858 en breytt 1907. (Björn Th. Björnsson 1984: 109 – 110).

Búseta hefur vafalítið verið óslitin á Þingvöllum frá því um miðja 12. öld eða svo. En þá rétt eins og undir lok 20. aldar voru Þingvellir afskekktir nema rétt á meðan Alþingi stóð. Staðurinn þótti lítt fýsilegur til búsetu og fyrsta heimild um búskap á Þingvöllum er tengd manni sem ekki var talinn eiga sér neinn annan kost en hokra á gjáskornum túnum Þingvalla.

(Ágúst Sigurðsson1980: 90 – 91)

Ekki er ætlunin að fara yfir ábúendasögu Þingvalla hér í þessu verkefni en benda má á ágæta umfjöllun um hana í bók Ágústs Sigurðssonar, Fornir sögustaðir. Hér verður hins vegar litið til ábúðar sr. Eiríks J. Eiríkssonar og Kristínar Jónsdóttur frá 1959 – 1982 á staðnum, er þau stýrðu þjóðgarði og ræktu kirkjulegar skyldur sínar ásamt börnum sínum.

Fjölskylduhagir

Annar höfundur þessarar ritgerðar, Ingveldur er sem fyrr segir yngst 11 barna þeirra Kristínar Jónsdóttur frá Gemlufalli og Eiríks J. Eiríkssonar ættuðum frá Eyrarbakka sem átti síðar eftir að verða prestur og skólastjóri á Núpi og að lokum þjóðgarðsvörður og prófastur á Þingvöllum. Öll börnin komu með einum eða öðrum hætti að því vafstri sem Þingvöllum fylgdi og fylgir vísast enn. Þrjú þau yngstu eru þó þau einu sem kalla mætti innfædda Þingvellinga þar sem þau ólust upp allt frá fæðingu á Þingvöllum og þeir urðu allt í senn, – þeirra leiksvæði, heimili og atvinna.

Aðstæður fólksins að vestan voru allt aðrar en þær sem yngsta barnið frá Þingvöllum ólst upp við síðar en Kristínu varð oft á orði að sér hefði fundist hún vera komin aftur til myrkra miðalda er hún hóf sinn búskap á Þingvöllum eftir að hafa stýrt fjölmennum og framsæknum héraðsskóla með eiginmanni sínum fyrir vestan.

Þingvellir voru nefnilega ótrúlega afskekktir þó svo lega þeirri sé svo nærri höfuðstaðnum. Það eru ekki nema um 20 ár síðan reglulegur mokstur hófst yfir Mosfellsheiðina og vikum saman var ómögulegt að komast til Reykjavíkur nema fyrir þaulvana jeppamenn sem höfuð vel í meðallagi af þolinmæði í farteskinu.

Fjósatún heitir víst Seiglur

Á Þingvöllum voru þrjár kýr þegar Núpsfjölskyldan kom suður, enda eins gott þar sem bæjarferðir voru ekki tíðar og hreint ekki alltaf á hvers manns færi að ná til bæjar eins og fyrr var tæpt á. Gallinn við þessar kýr eða öllu heldur fjósið þeirra, var bara sá að þær voru firna langt frá bænum. Til þess að komast til þeirra þurfti að fara til austurs yfir Þingvallatúnin, yfir Fjósagjá og að Fjóshól – heilmikið ferðalag og oftar en ekki næsta hættulegt í vetrarveðrum og snjóum – og kolsvarta myrkri.

Þessi tún sunnan við bæinn bera öll ýmis nöfn en í huga Ingveldar hétu þau öll Fjósatún í minningu síðustu kýrinnar sem var löngu horfin þegar sú litla fæddist. Reyndar þóttu henni það heldur slæm býtti er henni voru kennd nöfnin – Miðmundatún og svo nafn hins eiginlega Fjósatúns – Seiglur, enda hélt túnið áfram að vera kallað Fjósatún og stendur sá vani enn.

Tómas Guðmundsson sagði í smellnu ljóði sínu, Fjallgöngunni að langslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt og það er áreiðanlega rétt hjá Reykjavíkurskáldinu. (Tómas Guðmundsson 1998: 228) Það er hins vegar svo að í huga barnsins er umhverfið hluti af því og merkimiðar og nöfn skipta ekki öllu máli. Þingvellir urðu hluti af Ingveldi, þó svo nöfnin kæmu smám saman en þó meira sem kennileiti en utanbókarlærdómur.

Fjósatún verður þó ætíð Fjósatún og staðsetning fjóssins verður eiginlega aldrei almennilega útskýrð fyrir okkur nútímafólkinu, þó svo að vitað sé að kýrnar voru reknar frá Kúahóli að Kúatorfu sem var við árósinn (Björn Th Björnsson 1984: 122) Slík reginfjarlægð er frá bænum að fjósinu. Það er ekki að undra þó Kristínu heitinni Jónsdóttur hafi verið viðbrugðið að sækja mjólk í börnin sín frá því sem þekktist á Núpi í Dýrafirði. Það hefur alltént ekki skaðað að geta sent stálpaða krakka yfir túnin og gjárnar til þess að ná í blessaða mjólkina en ferðalagið var langt frá því að vera hættulaust enda voru Kattargjá, Skötugjá og Seiglur auk Fjósagjárinnar sjálfrar og eru ekki enn, nokkurt lamb að leika sér við. Það þarf ekki að leita langt aftur í tímann til þess að finna sögu af því þegar mjólka þurfti kýrnar á Þingvöllum en rétt eins og Björn Th. Björnsson minnist á í bók sinni Þingvellir voru túnin á Þingvöllum ekkert lamb að leika sér við hvorki fyrrum eða nú.

Með friðunarlögunum 1928 var allur fjárbúskapur á Þingvöllum lagður niður, og er túnið nú ekki lengur nytjað. En hver sá sem um það gengur getur enn séð fyrir sér í anda, hversu hver bali og hver laut hefur verið sleikt stráum á þessum harðbýlasta og hættumesta heimavelli sem til mun vera á landinu. Á slíkri göngu hvarflar að manni, að erfitt hafi mörg rekstrarkonan átt, sem hafði börnin sín hjá sér í þeim slægjum. (1984: 124)

Það er því ekki von að Hildur Eiríks. skuli muna enn það ferðalag sem fylgdi því að fara og mjólka á meðan mamma var fjarri góðu gamni.

Þegar mamma ól 10. barnið sitt þurfti ég að fara og mjólka kýr lengst út í túni í kolsvarta myrki með lukt að vopni. Ég þurfti ekki að gera þetta í marga daga, en ég man að mér fannst þetta erfitt. En hrædd var ég ekki. Ég fann aldrei til hræðslu á Þingvöllum þó að ég væri ein með börnin í kolsvarta myrkri og mamma og pabbi í kaupstað og komu oft seint vegna slæmrar færðar eða e.þ.h.

(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)

Forneskjan holdi klædd

Það var allt annar veruleiki sem blasti við elstu systkinin á Þingvöllum sem fluttu þangað á bilinu 5 ára til tvítugs en sá sem beið Ingveldar. Hildur sem var 13 ára þegar hún flutti var full ábyrgðar gagnvart yngri systkinum sínum. Hildur er elst 5 stelpna og þriðja elst þeirra systkina sem lifðu er fjölskyldan flutti að vestan.

Þó svo að Hildur hafi átt sína vini og ættingja fyrir vestan fann hún ekki til neins kvíða við þær fréttir að hún ætti að flytja suður til Þingvalla en á Núpi var mikið samfélag barna starfsfólks við skólann en suðrið hefur vísast heillað þá jafnt og nú.

Auðvitað hafa Þingvellir einnig haft sitt aðdráttarafl þó Hildur segir væntingarnar þó á köflum verið meiri en efndirnar enda hefur fásinnið á Þingvöllum komið mörgum á óvart.

Ég man eftir því að ég og systir mín sem var næst mér að aldri hlökkuðum óskaplega mikið til að flytja. Ég hefði kannski ekki hlakkað eins mikið til ef ég hefði vitað hvað var einmanalegt að vera þarna. Það var langt á næstu bæi og sveitin fámenn. Ég saknaði vinkvenna minna frá Núpi og allra krakkanna þaðan.

Áður en við fluttum hafði ég ekki gert mér miklar hugmyndir um Þingvelli aðrar en þær sem ég hafði fengið í uppeldi mínu og skólagöngu. Þetta var sögufrægur staður, heilagur staður í mínum huga. Mér fannst óskaplega merkilegt að vera að flytja þangað. Virkileg forréttindi. Ég var meira að segja svolítið montin man ég, að segja frá því hvert ég væri að flytja enda vakti það óskipta athygli viðmælenda.

(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)

En það var ekki bara fjósið sem var undarlega staðsett og erfiðar samgöngur sem valda því að koman til Þingvalla var eftirminnileg fyrir Hildi. Húsið sjálft og innbúið sem átti að standa þjóðgarðsverði og fjölskyldu hans til boða var í mörgu frábrugðið því sem fjölskyldan átti að venjast. Viðbrigðin voru því umtalsverð bæði hvað varðaði húsbúnað og umhverfi. Hildur átt sinn þátt í því að halda heimilishaldinu gangandi þó hún væri ekki há í loftinu enda virðist hún hafa verið yfirkomin af ábyrgðarkennd á köflum.

Aðstæður voru ótrúlega þegar við komum til Þingvalla. Það var næstum eins og að detta inn í ævintýri að flytja frá Núpi til Þingvalla – ævintýri sem gerðist á miðöldum eða þar um bil. Ég hef aldrei á ævinni orðið eins hissa og þegar komið var á Þingvelli og við fórum að skoða okkur um. Þar var ekkert rafmagn – sem var reyndar hið skrítnasta af öllu. Ég var búin að hafa rafmagn frá því að ég mundi eftir mér fyrir vestan en þar þótti nú mjög afskekkt. Á Þingvöllum var eldað við gas og ísskápurinn gekk fyrir gasi. Þetta með gasið þótti mér mjög skrítið vægast sagt. Ég var skíthrædd við að kútarnir myndu leka og ég mundi ekki vakna einhvern morguninn.

(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)

Hætturnar á Þingvöllum voru ýmsar og þær fólust ekki allar í hyldjúpum gjánum – þó þær væru vissulega verstar.

Þegar við fluttum var ljósamótor út í torfkofa í túninu fyrir framan bæinn og vatnsdæla sem gekk fyrir rafmagni frá mótornum Einu sinni sem oftar forum við pabbi saman út í dælu kofa. Ég klædd í kjól eins og stúlkna var gjarnan siður í þá daga og ekki vildi betur til en að hann flæktist í reimunum á dælunni. Pabbi rétt náði að bjarga mér áður en höfuðið lenti í drifskaftinu.

Pabbi þurfi að snúa þessum mótor í gang kvölds og morgna ef ekki oftar á hverjum einasta degi. Hann sem aldrei hafði þurft svo að ég myndi að reyna líkamlega á sig. Ég átti von á því að hann dytti niður einhvern daginn. Þetta stand olli mér miklum áhyggjum

Svo voru kýr út í fjósi sem mamma þurfti að mjólka og það fannst mér alveg agalegt – hún komin langt á leið með 10. barnið sitt og með allan þennan herskara af börnum. Þá var skilvinda í kjallaranum í bænum. Og þar gerði mamma rjóma. Þetta var ævintýralegt en um leið skelfilegt. Svo voru allar gjárnar botnlausar og fullar af ísköldu vatni. Ég leit aldrei af krökkunum frá því að ég vaknaði á morgnana og fór að sofa á kvöldin – ég man ekki í hvað langan tíma – það skipti mánuðum ef ekki árum.

Annað sem mér þótti undarlegt og framandi voru rúmin í húsinu sem höfðu verið notuð í stríðinu en í þeim voru grjótharðar dýnur. Þessi rúm eru mér sérstaklega minnistæði fyrir hvað þau voru furðuleg og fornfáleg en þau áttu að vera handa nýju íbúunum í Þingvallabænum.

(Hildur Eiríksdóttir viðtal 20. maí 2003)

Störfin öll stór og smá

Eins og fyrr segir var núverandi bær byggður 1930 og um leið og hann var mannaður þjóðgarðsverði hin nýstofnaða þjóðgarðs var sett þar upp símstöð og póstafgreiðsla. Á Þingvöllum var einnig árum saman veðurathugunarstöð en hvort tveggja var gríðarlega bindandi og einkenndi mjög búsetu fólks á Þingvöllum alveg fram undir 1980. En margt það sem gert var á Þingvöllum á dögum þeirra Eiríks og Kristínar hafði verið gert áratugina á undan þó svo að prestur hafi ekki setið á Þingvöllum frá því 1928 til 1958.

Árið 1940 tóku við þjóðgarðsvarðarembættinu á Þingvöllum hjónin Thor J. Brand og Elísabet Helgadóttir en gaman er að lesa tilvitnun í æviminningar Elísabetar í bók Ágústs Forn frægðarsetur III:

…á Þingvöllum lifði ég mesta þrældóm ævi minnar. Verst af öllu var þó ófrelsið og bindingin af veðurathugununum, póst og símaafgreiðslunni, áætlunarbílnum úr Reykjavík, sölu veiðileyfa á vatninu og því ótrúlega vafstri, sem leiddi af kirkjunni. Ekki samt af helgihaldinu, þegar síra Hálfdan Helgason á Mosfelli kom og messaði, heldur ferðafólkinu, sem vildi skoða kirkjuna, en henni var alltaf læst samkvæmt strengilegum fyrirmælum, en af íbúð Þingvallanefndar í bænum [hlaust] mikil fyrirhöfn, þegar hinir ýmsu embættismenn dvöldu þar, og voru þeir þó bæði alúðlegir og tillitssamir, eins og þeir gjarna eru, sem hæst eru settir í mannfélagsstiganum.

Þessi lýsing Elísabetar hljómar næsta samhljóma þeim minningum sem Ingveldur á af störfum fjölskyldunnar á Þingvöllum nema faðir hennar var jafnframt prestur og umsvif þjóðgarðsvörslunnar jukust stöðugt ár frá ári. Bernska Ingveldar var þó mun áhyggjulausari en Hildar sem oft var þjökuð áhyggjum af yngri systkinum sínum og óhóflegu vinnuálagi sem foreldrar hennar voru bæði undir – þó ekki hve síst Kristín.

Í bjarkarlundinum stóð bú

Ingveldur Eiríksdóttir er fædd 1965 og því höfðu foreldrar hennar búið á Þingvöllum í 5 ár er hún fæðist 11. í röðinni en einn son höfðu foreldrar hennar misst er þeir bjuggu fyrir vestan. Næsta systkini á undan er fætt 1960 og því var Ingveldur oftar en ekki ein með foreldrum sínum á vetrum og naut meira næðis í samvistum við þau en mörg eldri systkini hennar.

Ingveldur bjó á Þingvöllum 17 fyrstu ár ævi sinnar og það hlýtur að hafa sett svip sinn á tilveru hennar að alast upp á stað eins og Þingvöllum, enda segir hún að áhyggjur af flutningur fjölskyldunnar frá staðnum hafi snemma vakið hennar til umhugsunar um framtíðina.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég var búin að fá fólk með mér í það að reikna það út hve gömul ég yrði þegar við yrðum að flytja frá Þingvöllum. Mér hafði snemma verið sagt að embættismenn á vegum ríkisins hættu störfum sjötugir og því lék mér veruleg forvitni á að vita hve lengi ég fengi að búa á Þingvöllum. 16 ára hljómaði dómurinn upp á – nokkuð sem ég gat sætt mig við enda fannst mér fólk um tvítugt vera háaldrað eins og barna er gjarnan háttur.

(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)

Það var þó ekki vegna tengsla staðarins við þjóðarsálina eða sögufrægðar hans sem Ingveldi þótti áhyggjuefni að þurfa að fara, heldur miklu frekar að hún unni staðnum og vildi njóta hans sem lengst.

Þingvellir voru fyrir mér ekki sögufrægur staður – helgur staður sem átti sinn sérstaka sess í þjóðarsálinni. Þeir voru einfaldlega hluti af mér og mér fannst ég vera hluti af þeim. Það að búa á Þingvöllum var órjúfanlegur hluti af sjálfsmyndinni og því sem ég var. Umhverfi mitt og lífshættir fjölskyldunnar gerðu mig að því sem ég var.

Þingvellir voru mitt leiksvæði og hætturnar sem fylgdu þeim urðu hluti af mér – inngreiptar rétt eins og að hnífur og skæri eru ekki barnameðfæri voru gjárnar og hraunið nokkuð sem þurfti að umgangast af virðingu og varúð.

Ég skondraðist um gjár og lautir, fossa og flúðir, kletta og klöngur rétt eins og börn nútímans skondrast um götur og stræti alls óhrædd við hættur götunnar því þau vita hvar öryggið býr. Eldri systkini mín leiddu mig vafalítið í allan sannleikann um gildi þess að varast hætturnar þannig að aldrei datt neinn ofan í blessaðar gjárnar eða fór á litlum árabát út á vatnið – en þar bjuggu aðrar hættur en í lygnum en hyldjúpum gjánum.

(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)

En þannig er nú að nokkur böggull fylgir skammrifi og svo var það einnig með búsetuna, rétt eins og Elísabet benti svo réttilega á í minningum sínum. Ingveldur segir bernskuna vera í minningunni einn sólskinsdagur en stundum dregur ský fyrir sólu.

Asinn og atgangurinn yfir sumarmánuðina var gríðarlegur og stundum var ekki pláss fyrir alla heima í bæ í sínu bóli og því svaf Ingveldur í tjaldi eða hjólhýsi nokkur sumur ævi sinnar.

Störfin öll sem fylgdu búsetunni urðu eins og hjartsláttur tilverunnar og taktfastar breytingar á eðli þeirra urðu mælir á snúning jarðarinnar, rétt eins og laufgaður lundur eða snjór í Botnssúlum.

Hver einstaklingur á Þingvöllum hafði sitt hlutverk sem hæfði aldri hans og stöðu. Ég var barnapía fyrst og fremst – og dekurdúkkan. Ég byggði mér bú, með dyggri aðstoð Guðmundar bróður míns (það var reydnar öfugt en barninu leið á hinn veginn), í bjarkarlundinum við Fjósatún og þar undi ég mér sumarlangt ásamt þeim börnum sem mér voru falin – ár eftir ár. Þegar ég eltist breyttust störfin, ég fór að vinna á símanum, í þjónustumiðstöðinni en alltaf – sama hve gömul ég var, var ég að tína upp sígarettustubba.

Ég verð til vitnis um það að umgengni Íslendinga við sígaretturnar hefur breyst til mikilla muna – það er varla að maður sjái fólk henda frá sér sígarettu en það var svo sannarlega ekki svo. Á næstum hverjum degi sumar eftir sumar fór ég upp í gjá að tína rusl og í kringum bæinn – og það var næstum allt saman sígarettustubbar. Ætli ég hafi ekki þar með verið bólusótt endanlega fyrir reykingum

Umsýslan í þjóðgarðinum breyttist gríðarlega á meðan ég var að komast til vits og þroska og umsvifin voru ólíkt meiri í kringum 1980 en þau voru 1970. Það var eins og reglufestan yrði meiri – tjaldsvæðinu urðu skipulegri og gæslan meiri og þar með var mannahald meira í kringum þjóðgarðinn sjálfan. Það var oft svo fjölmennt í bænum að ég svaf heilu sumrin í tjaldi eða hjólhýsi enda rúmaði litli bærinn ekki allt það fólk sem þurfti til að hugsa um símstöð, þjóðgarð og prestssetrið. Mest af því fólki sem sinnti þjóðgarðinum var fjölskylda mín þó vissulega hafi utanaðkomandi verið ráðnir sumarlangt sömuleiðis.

Mamma stóð í eldhúsinu og hugsaði um gesti og gangandi en á sumrin var óalgengt að það borðuðu færri en 10 í hvert sinn og oftar en ekki vor það mun fleiri. Daginn út og daginn inn. Og svo streymdu gestirnir að í sama taktfasta niðnum og fossinn gaf frá sér.

En á veturna kvað við annan tón. Mannskapurinn hélt á brott til kennslu eða náms og eftir voru Inga litla, mamma og pabbi. Eiríkur var oftar en ekki nokkra daga í senn í Reykjavík yfir vetrarmánuðina enda samgöngur þá eins og í kringum 1960 hinar verstu til Þingvalla. Þá var rólegt og gott að stússast með mömmu sem loksins hafði allan tímann í heiminum til þess að hugsa um örverpið sitt.

Skautarnir voru dregnir fram og snjóþotan flaug um brekkurnar á Miðmundatúni og eini félagsskapurinn var bergmálið í Almannagjá og minnkarnir í hraunjaðrinum við vatnið.

Þegar kom að því að yfirgefa Þingvelli og árin þar á eftir tók við erfiður tími, það var eins og hluti af sjálfsmyndinni væri horfinn – maður hafði misst fótana í erfiðum veruleika unglingsáranna.

Smám saman lærðist manni þó að ekkert tekur bernskuna í burtu frá manni og þær yndislegu minningar sem maður á frá henni – því hún er innistæða sem vex og bætir við sig vöxtum og vaxtavöxtum.

Fyrir ekkert er ég þakklátari en árin sem foreldrar mínir gáfu mér á Þingvöllum, – að baki er bernska sem sífellt verður mér meira og meira virði. Með árunum lærist manni að ekkert er sjálfsagt og aldrei er hægt að eiga of mikið af góðum minningum.

(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)

En hver voru tengsl örverpisins við sögurnar allar frá Þingvöllum, þær sem kenndar eru í skóla? Hvernig leið henni í nábýlinu við hin ógnvekjandi heiti Drekkingarhyl, Höggstokkseyri, Kaghólma, Gálgaklett og Brennugjá – svo ekki sé minnst á kirkjugarðinn sem er nokkur skref vestan við bæinn?

Ég man hve myrkrið var mikið á Þingvöllum og hve vestari barmur Almannagjár gat verið kolsvartur – þögnin var svo þykk að það var næstum hægt að þreifa á henni. En hræðslan var fjarri og aldrei man ég eftir því að hafa orðið hrædd á Þingvöllum.

Það þýddi þó ekki að óréttlæti heimsins kæmi ekki upp í huga manns í þau ótalskipti sem ég gekk fram hjá Drekkingarhyl eða Brennugjá – öðru nær. Konurnar voru svo sannarlega oft í huga mínum og galdrahræðslan vakti snemma áhuga minn. Sagan sjálf – Íslandssagan varð hins vegar eins og undirleikur við daglegt líf á Þingvöllum – hvorki áþreifanleg eða sérlega nálæg, en stöðug og viðvarandi. Órjúfanlegur hluti af veru minni þar, rétt eins og niðurinn í fossinum, Himbriminn og þrestirnir.

Það er þó ekki frá því að Þingvellir og skuggaleg fortíð þeirra auk kirkjugarðsins, hafi haft áhrif í vinkvennahópnum, þó svo að ég hafi ekki fengið að fregna það fyrr en mörgum árum síðar

Á vetrum var ég í heimavist á Ljósafossi, þar sem ég nú kenni og stundum fékk maður að bjóða með sér heim stelpu yfir helgi þó svo það væri ekki algengt. En eitthvað gekk það á köflum illa en það var ekki fyrr en löngu seinna sem þær sögðu mér afhverju – kirkjugarðurinn og ljósaleysið hræddu þær meira en svo að þær hættu á heimsókn til Þingvalla um hávetur – en þá var bærinn ekki upplýstur eins og nú er og einu ljósin sem sáust voru stjörnurnar á himninum.

(Ingveldur Eiríksdóttir viðtal 21. maí 2003)

Þingvellir þá og nú

Margt hefur breyst á Þingvöllum frá því sem var er Ingveldur og hennar fjölskylda gengu þar um hlað. Þar situr nú enginn prestur – ekki frekar en á árunum 1928 – 1958 og Alþingishátíðarbærinn er nú orðinn veislusalur forsætisráðuneytis.

Þjóðgarðurinn er orðin sjálfstæð eining og tengslin við Þingvallabæinn eru algjörlega rofin. Hann hefur með aðetur sitt á Leirunum í þjónustumiðstöðinni. Framkvæmdarstjóri Þjóðgarðsins á sér þó aðsetur í Þingvallabænum en það er meira eins og sumarbústaður fyrir hann en skrifstofa.

Um túnin tipla nú engir litlir fætur og Bjarkarlundur er löngu rifinn. Stígarnir grasi grónir og fortíðin blasir við fyrrum heimamönnum. Framundan er hins vegar framtíðin – því má ekki gleyma og vonandi eru og verða Þingvellir nú – sem þá, sá staður sem íslenska þjóðin gerir að sínum. Þeir eru vel þess virði með sögurnar sínar allar, stórar og smáar.

Lengi væri hægt að halda áfram í umfjöllun um Þingvelli og þær sögur gamlar og nýjar sem tengjast þróun staðarins og Íslandssögunni. Hér látum við þó staðar numið og vonum að einhverjir hafi haft gagn og gaman af. Við höfðum það svo sannarlega.

Ljósafossi í maí 2003

Ingveldur Eiríksdóttir og Hildur Kristín Hilmarsdóttir

Heimildaskrá

Ágúst Sigurðsson 1980: Forn frægðarsetur III. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Bruun, Daniel 1987: Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár II. Reykjavík Örn og Örlygur.

Björn Th. Björnsson 1984: Þingvellir, staðir og leiðir. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1984

Landið þitt Ísland 1984 5. bindi. (Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson Björn Þorsteinsson Guðjón Ármann Eyjólfsson) Reykjavík, Örn og Örlygur.)

Tómas Guðmundsson 1998: Ljóðasafn Tómasar Guðmundsson 2. útg. Reykjavík, Mál og menning