Update – ekki alveg newsflash samt ;-)

Jæja það var eins og kerlingin sagði – um leið og maður hættir að blogga þá er kúkur kominn upp undir handakrika.  Eða svo…  Ég er búin að vera alveg svakalega eitthvað lítið gáfuleg í febrúar – ekki mikið betri í janúar – en verri  í febrúar ;-).  En þetta er nú eins og hvað annað – það er alveg klárt að þetta er bara ferli og erfitt að vera alltaf að streitast á móti öllu.  Ég hef sem sagt um það bil etið það sem mér hefur sýnst – en þó nýtt mér eitthvað af því sem ég hef lært á þessum árum sem breytingarferlið hefur staðið.  Hreyfing hefur verið með minnsta móti en þó alltaf Mogginn og blakið  -og kannski eitthvað smá með – og fyrir vikið er ég svona svakalega góð í skrokknum maður!  Nú þegar ég er aðeins farin að bæta í á ný þá bara er þetta allt önnur líðan og ég get beitt mér miklu meira í æfingum.  Ég er byrjuð á hreyfinámskeiði á Borg sem stendur í 12 vikur – ætlaði nú alls ekki á það en svo sá ég að e.t.v. væri þetta nákvæmlega það sem ég þyrfti á þessum tímapunkti í mínu lífi. 

Nú finn ég að smá löngun er komin í að standa mig og vera komin í svoldið góðan sprikl gír 8. apríl þegar stóri mælingadagurinn er – þá verð ég nú að vera búin að æfa alveg fullt og koma mér í góðan gír á ný.

Febrúar átti að vera rólegur en hann varð heldur rólegri – og ég á ekki von á því að vigtin verði neitt til þess að hrópa húrra yfir, en það er þá bara að taka því og berjast í því áfram og af meiri elju. 

En góðu fréttirnar eru nú þær að ég maginn á mér er þvílíkt til friðs að það er undursamlegt!  Og auðvitað er það gott að finna að maður getur hreyft sig oggu hraðar og léttar þó enn séu nú verkir hér og þar ;-).  Ég er aðeins farin að hlaupa enda veitir ekki af að auka þolið fyrir þessar fjallgöngur allar sem ég ætla að fara að hefja með vorinu. 

En talandi um vorið – ósköp verður nú gott þegar það fer að hlýna á ný, daginn að lengja og hjólið verður ferðamátinn, sólbað í lauginni að laukinni góðri æfingu í kjallaranum og hólarnir hér í nágrenninu fá klapp á kollinn frá mér :-).

Og svo er aðferðarfræðin hér allt um kring, innan um og saman við.

Úps – sund í dag?

Þau eru fljót að fara út í veður og vind góðu markmiðin 😉 Ég sé að ég hef ætlað mér að fara í sund í dag en nú í augnablikinu sé ég ekki fram á að ég nenni því með nokkru móti – en þá kemur nú hið fornkveðna upp – og hvað kemur nenna því máli við?  Annars er svo frábært veður að ég gæti hugsað mér að hjóla svolítið  – vona að hjólið mitt sé í standi…

Ég fór út á snúru með þvott og er að vonast til að hann þorni þar – nema hvað og eitthvað af hundahárunum fari úr fötunum líka ;-).  Ekki var nú nóg með það heldur fór ég og tók upp hundaskítinn af lóðum okkar nágrannans og næsta stig í þeim málum væri að tína allt það ógnarinnar drasl sem hefur fokið í runnana í vetur.  Nægilega gott er veðrið svo mikið er víst!

Hér inni er allt í hers höndum, tíkin kemur sérstakar ferðir inn og pissar – alveg viss um að það sé hvorki hægt að míga né skíta úti – það þýðir að ekki dugir að skúra sjaldnar en einu sinni á dag – sem að vísu hefur góð áhrif á uppsöfnun hundahára í hornum – þeas – það er ekki mikið um þau.  Sko til það eru bjartar hliðar á öllu!  Ég sé einni að ég á ekki mjög margar vélar eftir í vaskahúsinu og þar með er allt orðið hreint af nýinnfluttu ungunum sem eiga svolítið í land með að læra á þvottavélar og slíka tækni ;-).

Nú svo er bara að hlusta á svolítið efni úr aðferðarfræðinni og taka til í einu og einu horni, njóta þess að vera til og borða svona hæfilega skynsamlega – já og ekki gleyma því að fara út að hjóla eða í sund – hálftími dugir ;-).

Hvað tekur við eftir handbolta?

Svakaleg handboltatörn er að baki – úff maður var gjörsamlega óvinnufær á meðan á því stóð – það er bæði satt og rétt – hvurs rökrétt sem það nú er samt ;-).  Nú en lífið heldur áfram – alveg fram að Eurovision – en nú er einmitt verið að velja lag á RUV – ég hef nú eiginlega bara áhuga á tveimur lögum – við sjáum hvernig sú rimma fer.  Fram í maí þarf að þreyja þorrann og góuna – vinna smá og læra líka.

Ég fór aðeins í það nú áðan að læra – hef ekki getað komist í það að neinu ráði því Ragnheiður og Jósep voru að koma heim aftur og því fylgdi nú eitt og annað skal ég segja ykkur!  Mikið hvolpapiss amk ;-).  Annars förum við Skotta saman með blöðin á morgnana og Palli og Bjartur fara sinn hring – nú þarf bara að lengja þá göngu aðeins – gerum það þegar leikritastússið er búið á Páli og daginn fer að lengja…. annars er þvílíkur munur á birtustiginu sem er frábært.

Ég náði að pota mér niður á milli hauganna sem hafa safnast upp í vinnuherberginu mínu 😉 og snuddaðist smávegis í aðferðarfræðinni og mikið er ég fegin og létt og allt!  Ég held ég sé alveg að ná tökum á tilverunni ég segi það satt fór meira að segja í sund í gær og í blak í fyrradag – og á morgun er það aftur sund – annars er markmiðið að hreyfa sig í 30 mín á dag og aldrei minna á meðan á lífshlaupinu stendur – annað gengur nú ekki… en með því að ná þessum tökum þá kemur þetta nú allt saman ég er viss um það!