Ég fór í magaspeglun á þriðjudaginn – það var nú svei mér ógeðslegt – enda sagði læknirinn að það gæti aldrei verið annað í mínu tilfelli þar sem ég væri svo þindarslitin. Þá væru kokviðbrögðin miklu meiri og ekki bætti úr skák að ég hefði þurft að fá minnst helmingi meira af þessu kæruleysislyfi en ég fékk því það virkaði nú ekki rassgat í bala! En hið góða er að ég fann ekkert til í hálsinum á eftir og það bætti nú úr skák. Ekkert aum eða slíkt.
En ég átti gott spjall við meltingalækninn og þá kom nú eitt og annað upp á yfirborðið sem að mér er í maganum – sumt er hægt að gera eitthvað við og annað þarf ég bara að eiga við sjálf eins og ég er að reyna með mataræði og slíku.
Ég er að eta lyf fyrir heila fúlgu við bakteríum í maganum sem kannski virka á þær og sem kannski virka líka á lætin í minni sérkennilegu meltingu – hver veit. Tilraunarinnar virði. Af þessum ósköpum öllum svimmar mig svo og sundlar að ég er gjörsamlega ófær um að hreyfa mig nema nokkur skref í einu og mjög hægt – líklega kemur þetta ofan í eitthvert slen sem hefur herjað á heimilisfólkið hér þessa viku – Palli var slappur í upphafi vikunnar og ég svo í gær – sama dag og ég byrjaði að taka þessar pillur allar saman. Sama dag og Íslendingar gerðu jafntefli við Austurríki – mein gott! Ekki orð um það meira.
Ég er sem sagt búin að vera heima í gær og í dag heldur framlág og ekki til nokkurs. Held það sé vænlegast að bíða þetta af sér og gleðjast svo bara óumræðilega þegar maður hressist.
Það er frábært veður út, sólin skín og það er hlýtt – það væri hægt að hjóla í dag ójá. Bráðum kemur vorið og þá hefst gönguþjálfun, fjallasprang og hjólaferðir um Votmúlann og kannski bara upp á Borg – hver veit?