Hvernig gekk 2009?

Það er skrítið með þessi ár og áramót.  Ég hef aldrei fundið fyrir því að þau séu eitthvað mál eða tilfinningaþrungin eins og margur segist finna fyrir – þar til fyrir 3 árum eða svo!  En þá líka varð fjandinn laus!  Ég er á algjörum bömmer í aðdraganda áramóta og get mig varla hreyft fyrir kvíða og vandræðum.  Og í ár var engin undantekning.  Maður er orðin hundgamall og eldist hraaaatt.  Maður gerir ekkert og svo framvegis og svo framvegis.  Gott sem komin á grafarbakkann og ef ekki – þá ætti maður bara að koma sér þangað og tylla sér.  Í fyrra var ég alveg ferleg til dæmis.  En í ár er ég heldur skárri. 

Fyrir ári síðan gekk mikið á hjá mér að koma mér á Reykjalund – fara í þrekpróf sem ég fór svo illa út úr að ég var send í hjartaómskoðun hið snarasta, sem svo aftur sýndi að mínar æðar eru eins og í ungabarni.  Þá.  En sem sagt þá var ég ekki að skrifa niður ný markmið – hefur fundist þau of augljós til að festa á blað.  En  þau voru þarna nú samt.  Ég ætlaði að nýta mér Reykjalundardvölina til hinis ítrasta og koma peningamálunum í einhvern farveg.  Ég hef reyndar hvort tveggja gert en verkefnin náttúrulega þess eðlis að ekki veitir af að halda þeim áfram – endalaust.  Fljótlega eftir áramótin fór Baldur að tala um að fara upp á Ingólfsfjall um sumarið og einhvern veginn ágerðist það og markmiðið í hreyfingunni þróaðist því yfir í göngumarkmið – styrkja konuna til þess arna.  Annað lykilatriði var iðjuþjálfunaratriði – skipuleggja tímann, nýta hann og muna að gera eitthvað annað en vinna!

Í upphafi árs var ég ógöngufær – komst varla á milli æfingastaða á Reykjalundi – hvað þá húsa.  En ég lagaðist mikið þar og hélt áfram að lagast með stakkaskiptum um vorið þegar hitakremið góða frá Forever kom til sögunnar en ég vil meina að það bjargi mér frá eilífum vítislögum beinhimnubólgunnar.  Ég tók massa á hreyfingu í vor, lagðist svo í nám, kvefpest mikla og magapínu dauðans um sumarið og fram á haust.  Gekk samt og gekk og náði fínum árangri þar.  Ég gerði svo enn betur á Reykjalundi en frá nóvember hefur hreyfingin lítið verið inni – bara lágmarkshreyfing og ekki sérlega skipulögð og það segir minn sjúkraþjálfari að teljist ekki með!  En Mogginn er alltaf inni. 

Markmið ársins 2009 var því að hreyfa sig upp í móti og helst mikið og léttast meira en 2008 sem var ekkert – gekk eftir.  Gekk mikið, léttist um 12 kg eða svo.  Í ár ætla ég því að halda áfram á sömu braut en hafa kílóin fá í léttingsmarkmiðunum og ná þeim og halda – vera raunsæ – Reykjalundur á stóran þátt í því að ég léttist þó þessi 12 kg – ég bara get ekki lést mjög hratt.  Hálft kg á mánuði þetta árið verður því að duga – 12 væri frábært en lágmarkið eru þessi 6 kíló.  En hreyfingin verður að ganga betur og nám og vinna má ekki gleyma mig enn á ný.

Færðu inn athugasemd