Þá eru þau í miðjum klíðum blessuð jólin. Dísa og strákarnir voru hér hjá okkur á aðfangadagskvöld og allt gekk eins og í sögu. Þess á milli lúra þau í sumarbústað við Álftavatn. Afskaplega notalegt hef ég heyrt.
Við höfum haft það rólegt hér hjónin – svona á mörkunum að maður hafi það framúr og á stundum er bókin hreinlega of þung til að bera og augnlokin of þung til að haldast uppi – síga niður og þar með bókin líka – stundum jafnvel dettur hún niður á gólf og þá smella þau hin sömu augnlok aftur upp og hjartað tekur smá sprett. En allt nær jafnvægi á ný og svefninn tekur völdin. Erfiðasta verkefni síðustu daga er að afla sér fæðu en sem betur fer er nóg af henni og ísskápurinn virðist geyma birgðir sem gætu enst langt fram eftir nýju ári. 2010. Skrítið ártal það. Er að átta mig á því að ég er að verða jafn gömul og Sigrún var þegar við Palli kynntumst. Það er nú svei mér mikil uppgötvun. Mér fannst fólk á hennar aldri vera háaldrað og varla til viðræðu um nokkurn hlut – komið að fótum fram jafnvel. Svipuðum aldri og mamma og pabbi svei mér þá. Og nú er ég orðin jafn gömul, áreiðanlega jafn mikið komin að fótum fram og jafn innilega lítið spennandi og mér fannst fólk á mínum aldri vera… Já krakkar mínir það er eins gott að nýta tímann vel. Allt í einu er maður komin með hrukkur, orðin jafn gamall tengdamóður sinni, tannlaus, gráhærð, forpokuð og hvur veit hvað. Eini bjarti punkturinn er að ég reyki ekki. Skil ekki það lán. En á mann sem reykir og heldur bætir í – og er nú farinn að hafa opið inn í hús – ógeðslegur ósiður verð ég að segja og ég hef ekki mikinn áhuga á því að búa við þetta. Ógeðslega viðbjóðslegt!
Í dag er það svo jólaboð í minni fjölskyldu – á jóladag var boð hjá Palla og hans fólki – haldið hjá Grétu – mjög fínt, notalegt. Í dag ætla ég að reyna að spila og spila og spila. Bara ef bíllinn kemst í gang en hann er rafmagnslaus – rafgeymirinn er gjörsamleag ónýtur og dugir varla til að þess að lýsa upp bílinn á meðan hurðir eru opnaðar og þar til hann er ræstur. Greyið. Áreiðanlega ömurlegt að vera ónýtur rafgeymir.