Ég er alveg búin að vera frá undanfarið í maganum og oftar en ekki verið alveg á því að gefast upp bara á þessu líffæri mínu. Ég fór í gallgangna eða eitthvað ómskoðun og þar kom nú allt hið best í ljós, ósæð, bris, lifur og gallið allt saman er sem nýtt. Ekki slæmt það… Svo er ég komin með alls konar meðöl, kenningar og ég veit ekki hvað og hvað til þess að reyna að gera gott úr þessu.
Ég hef líka verið að reyna að komast til botns í skólanum og vinnunni þar – átta mig á hvað það er sem ég þarf að gera og hvernig ég geri það. Sit heima á kvöldin og reikna ýmiskonar dæmi allt frá léttu og uppí níðþungar úkraínskar jöfnur sem ég bara man ekki alveg hvernig virka 😉
Nú svo hef ég bara verið of önnum kafin og vansældin ríkt í mínum kroppi af of mikilli ákefð til að ég hafi hreyft mig nokkuð nema bara bera út moggann – sem mig langar vel að merkja helst til að hætta að gera en það má ég nú alls ekki – alltof góð hreyfing til þess.
En nú finn ég að ég væri alveg til í að íhuga hreyfingu – svona eitthvað sund gutl og den slags. Það hefur ekki gengið vel með mataræðið síðustu viku – hef verið mikið að vinna og læra og þá er enginn hér heima til að elda neitt fyrir mig en miklu hefur nú bjargað að matarlystin er nærri engin svo – en hitaeiningar hafa gjarnan verið allnokkrar í því litla sem ég hef etið.
Æ það er bara svolítið of mikið að gera, of mikið drasl og of mikill skítur sem ég einhvern veginn næ ekki að vinna mig niður úr. Páll þarf líka að átta sig á því að ef ég á að vera að gera allt það sem ég á að vera að gera þá bara verður hann að koma inn í heimilisstörfin að öðru leyti en því að setja í uppþvottavélina. Ég ræð ekki við líf mitt og það sem því fylgir alveg upp á mitt einsdæmi….
Ekki alveg…
En kosturinn við þessar annir eru þær að þyngd mín er með ágætum og vonandi næ ég að kíla hana enn frekar niður – ég er heldur léttari en þegar ég kom frá Reykjalundi – ekki mikið en smá og það er gott því það er nú ekkert smá mál að halda þessum fína ramma sem var þar hér heima.
Að vísu hef ég algjörlega fengið yfir mig nóg af hreyfingu þar og þurfti bara hreinlega að pústa aðeins – ég var alveg komin með gubbuna bara tilhugsunin vakti mér vanlíðan. En nú fer ég að kaupa mér kort í tækjasal og synda – ég finn að ég er að verða alveg tilbúin í það og ef snjóa festir ekki þá hjóla ég líka eitthvað smá 🙂