Annir sumarsins

Jæja nú hefur konan nóg að gera – það verður ekki frá henni tekið. Og sumt af því gerir hún meira að segja.

Þriðjudagurinn fór að mestu í það að hafa áhyggjur af því hvort veðrið yrði nógu gott til fjallgöngu upp Ingólfsfjall. Ég vissi satt að segja ekki alveg hvort ég vildi að hann rigndi svo hún frestaðist enn um sinn – eða hann hengi þurr svo ég gæti hætt að kvíða fyrir þessari göngu og bara farið hana.

Ég var svo viss um að ég gæti þetta ekki vegna lofthræðslunnar, ég hafði minni áhyggjur af mér sem slíkri – vissi að ef mér yrði illt þá yrði mér bara illt og myndi venjast því eða vera að drepast, skipti svo sem ekki máli því verkir eru bara verkir og ekki sérstök ástæða til þess að fríka út yfir þeim! En þegar ristin gefur sig þá er það svo sem algjört helvíti… ekki er það betra þegar táin mín kræklótta rekst í skóinn og maður getur varla gengið vegna þess – hnén gætu líka verið með derring en ekkert af þessum pælingum var hálfdrættingur á við áhyggjurnar af lofthræðslunni!

Ég var þó búin að rannsaka málin mjög gaumgæfilega – skoða myndir, tala við Áslaugu, Björk og Grím og öllum bar þeim saman í leiðarlýsingunni og jafnvel Baldur var með samhljóma dóma – þetta væri ekki svo slæmt.

En viðbröðg sumra þegar ég sagði þeim að ég væri að fara upp í sumar einhvern tímann – skelfingarsvipurinn jafnvel, já og svona krampakennd undrunarviðbrögð sumra er fregnuðu af þessum áformum, læddust inn í undirmeðvitundina mölluðu þar sinn ljóta óttagraut og svo kom Hestfjall og hvekkti mig það mikið að ég var algjörlega viss um að ég gæti aldrei gengið framar, og ætti ekkert með það að príla upp á fjöll þó lág væru! Hvaða rugl væri þetta eiginlega í mér að halda að ég gæti verið einhver göngugarpur?!

En upp fór ég! 4. ágúst 2009 fór ég með Baldri sjúkraþjálfara og Áslaugu göngufélaga upp á Ingólfsfjall og hafði gaman af!

Þau voru því ekki svo galin verðlaunin hans Baldur sem hann lofaði mér síðla vetrar. Ef ég næði 129,9 í lok júlí eins og markmiðið mitt hljóðaði upp á eftir gott gengi á Reykjalundi – þetta þótti hógvært markmið því ég hefði bara þurft að léttast um 250 gr á viku – en sem sagt sem verðlaun fengi ég að fara upp á fjallið, með honum!

Mér þóttu þetta galin verðlaun enda átti ég fullt í fangi með að ganga með Moggann á morgnana í þessar 15 mínútur sem það tekur – og ekki hafði ég nokkru sinni farið upp á fjall til þess að hafa gaman af því. Gat það ekki heldur á þessum tímapunkti. Ekkert sagði þó sú stutta – var farin að þekkja sjúkraþjálfarann sinn – það þýðir lítið að malda í móinn – já eða reka upp frekjurokur, hann fer venjulega sínu fram…. Ég gæti þó látið sem ekkert væri og hummað þetta fram af mér – það væri líka áreiðanlega það mikið að gera hjá Baldri að hann myndi gleyma þessu – hefði klárlega margt gáfulegra við tímann að gera en splæsa honum í mig!

Ég gerði því ekkert með þetta hjá honum – fannst þetta jafnvel bara svoldið fyndið og afskaplega óraunhæft en einhvern veginn hafði verið sáð korni í huga minn sem tók að vaxa og dafna.

Ég skundaði því til Áslaugar félaga míns frá Reykjalundi og samkennara úr Sunnulæk og spurði hana hvort nú væri ekki að renna upp sumarið þar sem við gengum saman um allar koppagrundir, hæðir og hóla?

Áslaug tók vel í málaleitanina og við settumst niður og bjuggum okkur til þessa fínu hreyfiáætlun. Ganga tvisvar sinnum í viku – í 40 mín til að byrja með (gat alls ekki meira). Við tókum þátt í kvennahlaupinu ég fór 2 km en hún 5 og ég man að ég mátti varla stíga skrefinu meira ég fann svo til í ristinni og var öll helaum. En það átti nú eftir að lagast því við stöllurnar gengum m.a. næstum 8 km í hrauninu á Þingvöllum í 4,5 klst sem var reyndar ein besta æfingin fótalega séð fyrir fjallið og einnig fórum við á Hestfjall sem er nokkuð brattara en t.d. Mosfellið sem við fórum líka 2 sinnum upp á og gengum um á toppnum á því. Hestfjallsgangan var líka næstum 4 tímar – bíllinn var það langt frá Óbógilinu. Og fleiri leiðir gengum við stöllurnar.

En sem sagt – þegar upp var staðið var blíða seinni part 4. ágúst, hlýtt og gott. Það var því engin undankomuleið. Ég aflaði mér upplýsinga um aðgerðir til að lágmarka hættuna á því að meiða mig í löskuðu tánni – þetta snýst t.d. um að ef ristin er lág þá er erfitt að reima nógu fast og þá er maður lausari í skónum – ok ég náði í ,,tilgangslausu“ innleggin sem ég fékk einhvern tímann hjá einhverjum fótafræðingnum, setti þau í gönguskóna sem ég var bara farin að halda að væru of litlir. Svo þegar ráðgjafinn minn sagði að oft væru tær sem hefðu lent í hnjaski viðkvæmari en aðrar, kveikti ég á perunni, þessi auma tá mín hefur tvisvar brotnað. Ráðið við því var að teipa hana vel með glærum fóta plástri – það var gert! Nú svo hafði Ásta Björk sagði mér að Treo verkjatölfur væru snilld svo ég tók svoleiðis til vara og leysti eina upp áður en ég lagði í hann – tók líka með mér ibufen svona til að vera viss! En stressið og óttinn bjó um sig svo ég setti opalsnafs í litla flösku og hafði með mér ef ég skyldi nú fá taugaveiklunarhræðslukast í miðjum hlíðum! Ég þurfti nú ekki á honum að halda – en gott var að vita af honum. Nú svo fór ég í legghlífar, göngusokka, tvennar buxur – nefndu það bara og að endingu reimaði ég gönguskóna svo fast að ég hélt ég myndi stöðva blóðrennslið niður í fæturna.

Allt þetta skilaði mér verkjalausri göngu bæði upp og niður. Fann ekki til í ristinni né tánni og hnén voru sem litlir gel-engla-púðar 🙂

Ingólfsfjallsgangan var ,,bara“ vinna – rosa fótavinna í grjótinu og lærvöðvarnir unnu mikið til að lyfta fótunum, hjartað puðaði og var í kringum 145 – 150 nánast allan tímann hvort sem ég fór niður eða upp en ég var miklu móðari upp. Ég var fín í fótunum á eftir, og í gær – fann ekki meira fyrir þessu en hverju öðru sundi eða hjólatúr. Fór meira að segja í bíó eftir gönguna!

Ég er náttúrulega lengi upp, óheyrilega lengi, – þung og sein og ekki fótafim við vorum rúmlega klst upp og jafn lengi niður þannig að allt með öllu voru þetta rúmir þrír tímar. En það kostar þetta að burðast með 60 eða 70 aukabyrðar.

Markmið sumarsins göngulega séð hefur því náðst – nokkuð sem ég hélt að ég ætti aldrei eftir af ýmsum ástæðum – þoli, þyngd og lofthræðslu meðal annars – fyrir utan að ég hefði aldrei fengið þessa hugmynd!

Mér þykir óendanlega vænt um að Baldur og Áslaug skyldu hafa þessa trú á mér ég segi það satt – óendanlega. Hjartað bólgnar alveg út af þakklæti.

En við Áslaug eigum kannski eftir að fara 2 fjöll í viðbót í haust – kannski Búrfell og vingast við Hestfjall – nú eða bara eitthvað minna eins og Arnarfell við Þingvallavatn.

En konan léttist ekki neitt – ekki gramm – það er afskaplega merkilegt verð ég að segja, en ég veit hvað til míns friðar heyrir með það – annirnar eru mér bara svolítið erfiðar og útilegur og óreglan hjálpar ekki til. En nú hef ég 1 viku eða svo til þess að taka á því í skyrkúrnum og kannski hrynja af mér grömmin áður en ég fer í innskrift á Reykjalund þann 17. ágúst! Á ekki von á því – og ætla samt að vera ánægð með mitt því ég hef svo sannarlega staðið mig í heilsubótinni i sumar.

En nú eru það Grímsævintýrin – það eru ýmis verkefni sem fylgja þeim skal ég segja ykkur!

Það styttist í því!

…blessuðu sumarfríinu!

Framundan er Grímsævintýravika, þá kemur námskeiðsvika -uppröðun á svæðinu mínu í skólanum og að setja forfallakennarann inn í málin og það þarf að gera alls konar í upphafi – því so er maður nú bara farin í 3 vikur á Reykjalund eins og fín kona!

En hver veit nema það verði Ingólfsfjall á morgun – en veðurspáin er nú ekki of góð og þá ekki skrokkurinn minn, tærnar í mauki, hnéð ekki nema hæfilega gott og hægri hendin nú eins og hún er. Og svo er nú litla hjartað mitt ekki alveg visst í sinni sök en Áslaug segir að ég komist þetta alveg og ég ætla að ganga út frá því – hún nefnilega fór þetta í gær konan og er til í að fara aftur á morgun – já sæll Ingólfsfjall tvisvar í sömu vikunni hjá henni! Hún er alveg makalaus þessi kona!

Við vorum fjölskyldan á Geysi í veðri sem á toppar allt – logn, rúmlega 20 stiga hiti – næturnar heitar hvað þá annað – gerði skúr á laugardaginn en þá fórum við bara í smá bíltúr! Frábært alveg hreint. Ragnheiður, Jósep, Halldóra og Aðalsteinn, Bjartur og góðir gestir! Gjörsamleg undursamleg helgi og nú er bara að komast í gegnum þessi blessuðu Grímsævintýri.

Ingveldur keep it simple.

Í vikunni þarf ég að útvega vinninga fyrir mína hönd, ná í vinninga í fyrirtæki, baka og búa til sultutau. Kannski tjalda á Borg til að minnka aksturinn. Hver veit?

En svo þarf líka að huga að þessari lífsstílsbreytingu minni – markmið fyrir 17. ágúst:

Ganga á Ingólfsfjall – helst að ganga aftur á Hestfjall, – halda löppunum í lagi.
ná 90 mínútna hreyfingu 2x í þessari viku – og alla daga í þeirri næstu, einn hvíldardagur í þeirri viku.

Skyr í hádeginu – ekkert múður og maus með það! Ávextir og grænmeti auk þess að drekka vel af vatni! 2 vikur.

Sund, hjólreiðar – hjóla Gaulverjarbæjarveginn – einhver gæti sótt mig og ferðafélagann ef út í það er farið. Ganga.

Synda með öndunarpípunni sem mest því hún minnkar álag á háls og öxl.

Jamm svona eru sumarfríslok – híhí. En þetta er búið að vera undursamlegt sumar – verkefnin næg og jú sínar sveiflur, erfiðleikar og vandræði en þannig er nú lífið – vegna þeirra verða litirnir skærari