Ég var í útilegu með Ástu Björk og ungunum þremur í Hellishóla á fimmtudaginn – árleg útilega okkar að verða!
Ég tjaldaði vagninum ein og sér og það gekk frábærlega vel og svo komu þau og við gengum frá í sameiningu. Mjög skemmtilegir dagar. Anna Katrín litla dóttirin heldur nú samt að ég sé gjörsamlega óalandi og óferjandi- ja hún er næstum viss satt að segja…. Það setti smá strik í reikninginn ;-).
Yndislegt veður – svolítið kalt og MJÖG kalt á nóttunni – ein tvær gráða í frost – en við fundum nú ekkert fyrir því, heldur kyntum vel áður en við fórum að sofa og sváfum svo í flísinu – frábært að vita að manni þarf ekki að verða kalt! Við fórum í sund á Hellu í gær og ég synti 500 metrana, á fimmtudag varð tjöldunin, búðarferð og snatt að duga – enda vissi ég svo sem alveg af göngunni á miðvikudaginn. Í dag verður samantektin sömuleiðis að duga enad heilmikið stúss í svona tjaldvagnsfrágangi. 🙂 bara gaman að því.
Og svo kom ég barasta bara heim í dag – að drepast í öxlinni – já eiginlega bara hægri höndinni eins og hún leggur sig – allt frá fremstu kjúku á vísifingri og upp í öxl.
Annars á Magnús bróðir innlegg vikunnar:
Inga verður þú ekki að fara að taka betur á matræðinu og minnka hreyfinguna, þetta er nú kannski full mikið hjá þér – og vísaði þá bólgins hnés og almenns heilsuleysis míns ;-). Ég brást nú ekki sérlega vel við…
Hrokinn var skammt undan…
En þessi ummæli passa alveg við annað – nú þarf ég einmitt að huga af fullum krafti að mataræðinu og hætta að borða of mikið því ég geri það fyrst og fremst frekar en að verða sinkt og heilagt að borða vitlaust – bara of mikið af öllu… því flest verður óhollt í óhófi.
Nú jæja … Baldur stakk líka upp á því að ég finndi mér annað markmið en að léttast – auðvitað yrði ég að léttast en áherslan yrði að fara á eitthvað sem væri líklegra til árangurs en það – fá nýja vídd… Það þarf einhvern annan hvata því mig vantar greinilega meiri innspýtingu, hvatningu. Og nú sem sagt skal tekið á þessu áti – gengur samt ekki sérlega vel en það verður bara barningur – maður hlýtur að geta tekið þann slag!
Verst að framundan er gríðarleg óregla, ferðalag og vesen… omg.
Ég er svolítið óraunsæ satt að segja…