Bita vantar nú í lífsins púsl

Það er með ólíkindum að verða vitni að því að Valhöll brenni – fá hús hef ég oftar barið augum en einmitt Valhöll – útsýni út um svefniherbergisgluggann minn á Þingvöllum til 16 ára, vinnustaður á sumrin, – órjúfanlegur hluti af þeim Þingvöllum sem ég þekki – og ég þekki þá býsna vel!
Mikið finnst mér þetta sorglegt – víst var húsið óttalegur kofi – með viðbyggingu á viðbyggingu ofan – en engu að síður þykir mér ótrúlega vænt um húsið – enda margar margar minningar sem tengjast því. Já næstum óendanlega sorglegt, ég vissi ekki einu sinni að mér þætti svona vænt um Valhöll fyrr en ég rakst á fréttina um brunann rétt fyrir fimm hér á mbl.is.
Nöfn koma upp í hugann – fólk sem vann þar, rak hótelið var hluti af bernskunni – meira að segja Lási kokkur kemur upp í hugann – ógleymanleg persóna. Ragnar og Júlíana… Stundum fóru nú hgasmunir Valhallar ekki alveg saman við hagsmuni Þjóðgarðsins og ekki urðu nú allir glaðir þegar Valhöll fékk vínveitingaleyfi – úff púff… þá gekk nú ýmislegt á og margt breyttist. En jafnvægi náðist nú með tímanum og vísast hafa drykkjusiðir landans batnað síðan þá….
Í nokkur sumur vann ég í Valhöll á símstöðinni og pósthúsinu og í enn fleiri sumur skokkaði ég með hádegisverð til þeirra sem unnu þar á undan mér – já ég var held ég bara síðasti talsímavörðurinn á Þingvöllum…
Með Valhöll hefur nú glatast bitar í lífsins púsl og ég á eftir að sakna þeirra…
Ég man enn eins og gerst hefði í gær þegar ráðherrabústaðurinn brann fyrir 39 árum, ég vaknaði upp um miðja nótt og sá logana dansa á fataskápunum – Dísa og Ási voru úti í glugga og sögðu mér hvað var að gerast – og allir óttuðust að Bjarni Ben væri í húsinu … Það var óttaleg nótt og hörmuleg aðkoma daginn eftir – meira að segja fyrir 5 ára stelpuhnokka sem lagði land undir fót til að skoða – vísast án þess að láta nokkurn vita enda nokkuð löng leið fyrir ekki eldri manneskju. Kannski ég hafi þó verið með systkinum mínum í för.

Færðu inn athugasemd