Hjólað og frí

Ég held þetta geti heitið fyrsti sumarfrísdagurinn minn og við Bjartur erum algjörlega heilluð af honum! Hann fór í stuttan sprett með Páli í morgun og grét svo þessi ósköp þegar ég hentist upp á hjólið og lagði af stað í minn hjólatúr. Hann var síðan enn grátandi þegar ég kom til baka um 40 mín síðar eða svo en brosið hefur nú ekki farið af honum síðan því hann liggur út á bletti og fylgist náið með mann og hundalífi í Gagnheiðinni. Snáserinn er kominn og farinn, allir helstu kettir brotthlaupnir og hættir að nenna að stríða honum! Sem sagt rólegheit yfir mínum hundi.

Ég hjólaði um hverfi vinkvenna minna og hélt kannski að fólk tæki daginn snemma og sæti og drykki kaffisopann á pallinum en það var nú öðru nær – ekki líf á nokkrum bæ og ég varð bara að drekka minn Kristal alveg ein :-).

Nú svo er barasta verið að dóla sér – ég hef uppi áform um að baka eins og 1 brauð og kannski pizzusnúða fyrir útilegu sem ég ætla í um helgina, sópa hér gólf og viðra út og hengja upp úr þessari einu þvottavél sem ég á eftir að þvo! Ekki slæmt að vera búin að vinna níður úr þeim haug öllum saman!

Ég er öll í því að einbeita mér að því að koma hreyfingunni í gott stand – gerði vel í gær. Hjóp á eftir Áslaugu tindilfættu – ja eða amk reyndi ég að halda sjálfsvirðingunni og ekki vera dagleið á eftir henni! Við gengum stóra hringinn í Þrastarskógi – afskaplega góð leið – mjúkt undir fót og svolítið hæðótt. Ég fór svo í pottinn og synti svona eins og 200 metra til að ná úr mér mestu strengjunum þannig að ég skilaði hreyfingunni minni í gær upp á 90 mínútur oh yeah – allt að koma! Tjöldun á tjaldvagni og hjólatúrinn í dag skilar mér svo hinu sama!

Þegar þetta allt saman verður komið í fastar skorður og farið að gefa mér þá ánægju sem það alla jafna gerir og allt tal um nennu er rokið út í veður og vind þá veit ég að mataræðið kemur inn – ég ætla ekki að berja á mér fyrir röngu ákvarðanirnar heldur bara fækka þeim.

Færðu inn athugasemd