Ritgerðarpróf 1980 í Kleppjárnsreykjaskóla.

Ég hafði verið í 7 ár á Ljósafossi í heimavist en fór í 8. Bekk (nú 9. bekk) í Borgarfjörðinni og þóttist greinilega nokkuð sigld manneskja – átti nú reyndar vinkonur vítt og breitt og hef vísast rætt skólamál við þær ef ég man rétt ;-). Mér þótti alltaf gaman í skóla og útbjó mér mín verkefni ef mér dugðu ekki þau sem voru í skólanum – gerði bækur og slíkt mér til gamans. En eitthvað var ég þreytt á staglinu á stundum – og þóttist hafa nokkuð fram að færa. Ég minnist þess að þetta ár var ég líklega með einn besta kennara sem ég hef haft – líklega hef ég eitthvað litið til hans aðferða en ég hafði líka kennara sem var minna skemmtilegur og skildi hreinlega ekki að nemendur skólans létu þetta yfir sig ganga – kom því reyndar í gegn að hann fór í ársleyfi – ja svona amk opnaði ég augu sumra fyrir brennandi þörf á upp-peppingu fyrir hann ;-). Ég breyti ekki orðalagi í þessari 30 ára ritgerð sem ég fann í dóti- né ambögum – mér finnst svolítið vænt um þær og þó ég myndi kannski skipta út orði og orði í dag – myndi ég um margt skrifa líkt þessu. Kannski sýna hinum neikvæðu örlítið meiri skilning en í raun kemur þó fram ákveðinn skilningur á vandanum – þeas að kennsluaðferðirnar þurfa að vera fjölbreytilegar. Ákveðinn umvöndunartónn er í skrifunum enda mikill námsmaður á ferð á þeim tíma – gekk afbragðs vel – þótti gaman og vildi læra flest til botns.
Kennarinn sem mér þótti hve verstu var einmitt íslenskukennarinn minn og mér þykir sem ég hafi sýnt nokkuð hugrekki – fífldirfsku með þessum skrifum mínum – hann kenndi mér reyndar dönsku líka – og ég held satt að segja að ég hafi ekki fengið góða einkunn. Ég skrifa þetta upp eftir uppkasti sem ég fann í dóti – það er gaman að sjá hvernig maður hugsaði og það er nokkuð greinilegt að ég var bæði komin af kennurum og ætlaði mér að vera kennari allt frá fyrsta skóladeginum Amk er nálgunin nokkuð kennslufræðileg af 14 ára krakkastýri að vera.
Hvernig á grunnskólinn að vera
Allir tala um það hvað grunnskólinn (raunar allur skóli yfirleitt) sé leiðinlegur en hvað ætli það séu margir sem raunveru lega meina það? Og hvað vilja þeir gera til umbóta? Þeir sem láta hæst og neita að læra hafa yfirleitt engar raunhæfar kröfur – þeas þeir vita ekkert hvað er að í rauninni. Básúna það aðeins hve skólinn sé ömurlega leiðinlegur. Hvernig geta þeir krafist þess af skólanum, að það sé elts við duttlunga þeirra þegar þeir ganga í skólann með þessu hugarfari? Vissulega hafa þeir eitthvað til sín máls en það hefst aldrei neitt á því að reyna að ná því fram með þessum hætti (þe að rífa sig og vera mjög neikvæður á allan hátt). Þessu hugarfari nemenda þarf að breyta, skólinn á ekki að vera neitt helvíti fyrir þá því ekki trúi ég öðru en öllum geti þótt eitthvað gaman í skólanum.

Auðvitað verður viðhorf kennaranna ekki neitt ýkja gott enda engin furða ef nemendur haga sér svona sem þeir gera raunar ekki nærri ellir an alltof margir samt. Bæði nemendur og kennarar þurfa að slaka á kröfum og viðhorfum sínum því annars verður skólinn aldrei góður né skemmtilegur t.d. ef nemendur vilja að kennarinn sé svona og svone en kennarinn er nú ekki á því að verða eins og einhverjir unglingsbjánar (mér finnst við engir bjánar) vilja hafa hann! Það verður aldrei gott samkomulag þar á milli svo það gefur augaleið að nemendur verða að slá af kröfum sínum og kennarinn einnig. Þar með batnar andrúmsloftið í kennslustofunni mjög til batnaðar.
Eitthvað hlýtur að vera hægt að gera fleira t.d. varðandi námsefni svo lífið verði bærilegra fyrir báða aðila.

Mér finns t persónulega námsefnið svona all-sæmilegt. Þó finns tmér það megi breyta málakennslu frá því sem hún er nú. Hún er heldur einhæf. Reglur, reglur og aftur reglur. Það hlýtur að vera einhvern veginn hægt að breyta henni. Danska sé meir töluð (æ þarna fór ég alveg með það – ég talaði af mér [var nefnilega ótrúlega léleg í dönsku og sérstaklega að tala hana!]) en hún er núna og maður læri eitthvað um Danmörku ekki bara 2 – 3 kafla í bók. Heldur hvað íbúarnir vinna við, hvernig lífskjör eru þar osfv. Ekki bein landafræði en lifandi fræðsla á því tungumáli sem töluð er í viðkomandi landi og gera verkefni sem eru bæði til fræðslu og skemmtunar. Þetta á við um alla málakennslu – ekki bara dönsku.

Þegar ég tala um erlenda tungumálakennslu þá þarf nú að minnast á íslenskuna. Það held ég nú að slái öll met sú kennsluaðferð sem brúkuð er þar. Sú kennsluaðferð er svo framúrskarandi þurr og vitlaus. Það er ekki farið neitt útfyrir bókina(það er nú raunar allt annað mál). Það er verið að troða í fólk stafsetningu sem búið er að ná 8 – 10. Hvaða gagn heldur fólk að það geri – ekkert nema kannski það ógagn að fólk detti niður í 5 eða 6 eða þá það verður gjörsamlega búið að fá algjöran viðbjóð á stafsetningu. ÉG mæli með því að sú stefna sem kalla má ,,inntroðunarstefnu“ sé hætt. Þá er ég að segja það að fólk hefur ekki gagn af viðkomandi kennslu – þeas eins og hún er kennd núna. Þegar það er búið að læra þetta fullkomlega. Það er þá hægt að kenna þeim það sem þau hafa meira gagn af!
Kjaftafögin þe mannkynssag, landafræði , Íslandssaga, félagsfræði osfv eru mörgum erfið. Sumir eru með algjöra klígju á meðan öðrum er nokk sama enn aðrir lifa nærri fyrir þau. Svo ekki er nú vel gott að segja hvað sé að og hvernig megi breyta þeim kennsluaðferðum sem oftast eru brúkaðar. Mér sinn sú kennsluaðferð að taka allt beint upp úr bókunum alveg glötuð. Þetta eru ekkert (þe í mannkynssögu og landafræðibókum og kannski fleiri bókum) nema fáránlegar upptalningar sem koma engum við. Mér finnst að það eigi að fara vel út fyrir bókina annars eru flest kjaftafög hræðilega leiðinleg.
Kjaftafögin eru alveg frábær, finnst mér ef þau eru kennd töluvert fyrir utan bókina ef ekki þá eru þau allra versta helvíti sem upp hefur verið fundið og það finnst flestum. Þetta er raunar svona um öll fög. Og afhverju haga kennarar sér ekki eins og langsamlega mesti meirihlutinn vill fyrst hugmyndin er ekki vitlausari en þetta?
Það er sá mesti feill sem nokkur kennari getur gert, það er að hann hefi skít í hugmyndir nemandanna. Það hlýst aldrei neitt gott af því!
Svo ég fari nú að tala um mig og mitt álit þá veit ég ekki hvort neinn sé sammála mér og það skiptir reyndar engu máli því mér finnst þetta. [hér man ég eftir því að mér var kennt að maður yrði að segja frá sínu áliti – hef greinilega álitið að ég væri að tala um almenn sannindi fram að þessu ;-)].
Mér finnst mjög gaman aö læra en ég nota bara mínar aðferðir við það og geri eins og mér finnst að kennarar ættu að gera [var satt að segja heldur óstýrilát og oft á tíðum heldur masgefin í tímum! Var hreinlega banvæn kennurum ef mér leiddist!].
Að mínu mati finnst mér að kennarar eigi að fara eftir vilja [þörfum væri orð sem hægt væri að setja hér inn 30 árum síðar ]nemenda sinna í sambandi við kennsluaðferðir þeas ef þær eru ekki þeim mun vitlausari. Ef þeir gera það ekki verða þeir aldrei vinsælir. Nemendur í eldri bekkjunum eru manneskjur með sínar hugmyndir sem þau vilja að tekið sé tillit til. Kennurum ber skylda til að gera nemendum lífið í skólanum sem skemmtilegast.

1 athugasemd á “Ritgerðarpróf 1980 í Kleppjárnsreykjaskóla.

  1. Þetta er guðdómlegt! Enn hvað þú hefur verið dipló en þó gagnrýnin! Að þú skulir ekki enn vera farin í stjórnmál, kona með þessa hæfileika!
    Ásta

    Líkar við

Færðu inn athugasemd