Jæja þá er bara ein fermingarveisla eftir – og hún er um næstu helgi. Annars finnst mér eitthvað bogið við það að vera í helgarfríi og vera strax að velta því fyrir sér hvað það sé gott að það sé frí í skólanum á fimmtudaginn! Eitthvað svoldið spes verð ég að segja 😉 Hvernig ætli blessuðum börninum líði þá?
En mér gengur ekkert að losa mig við aukakílóin sem bættust á mig á einni nóttu um árshátíðina og heldur er útlitið slæmt með 1. maí töluna en ég ætla nú ekki að láta deigan síga alls ekki. ÉG veit hvað þarf til að léttast – ég veit líka að það gengur ekki alltaf alveg línulega og ég þó ég geri allt rétt þá er ekki þar með sagt að léttingur sé línulegur miðað við það. En þetta mun ganga.
Ég fór á fund hjá Samfylkingunni í morgun og þar talaði hún Anna Margrét sem skipar 4. sætið hér hjá okkur – ég vona svo sannarlega að hún fari sem víðast nú fyrir kosningarnar og hitti fólk og ræði við það um þessi mál – það þarf að koma að rödd skynseminnar í þessa umræðu og kveða niður raddir hysteríunnar. Við hreinlega verðum að ganga til liðs við aðrar þjóðir (eru það ekki einmitt rök Sjálfstæðimanna fyrir NATO? – reyndar þykir mér fall hagkerfisins vera mestu stríðsátök sem við höfum orðið fyrir hér innan lands og þess vegna veiti okkur ekki af bandamönnum gegn því helv…). Ekki veit ég hvað fólk er hrætt við að missa – kvótann – hann er margveðsettur í öðrum löndum – fyrirtækin hafa verið tæmd innan frá – gróðinn – eða öllu heldur lánsféð, hagnaðurinn ef einhver er – hver króna var oftar en ekki sett í eitthvað allt annað en fyrirtækið sjálft – blóðmjólkað til að halda hluthöfum og eigendum upp og neyslu þeirra svalað. Nei kvótinn er þegar farinn í hendur erlendra lánadrottna. Og ekki hefur sjávarútvegurinn riðið feitum hesti frá síðustu árum skuldsettari en allt sem skuldsett er – landbúnaðurinn? Gæti hann farið verr? Bændur hafa ekki efni á að kaupa sér fóðrið – bankinn sem þó á engan pening heldur kaupir það? Gæti ástandið orðið miklu verra þar?
Við missum sjálfstæðið – hvaða kjaftæði er þetta – haldið þið að lönd Evrópubandalagsins hafi gengið inn á það að missa sjálfstæðið? Frakkar – ljósberar sjálfstæðis í evrópu? Haldið þið að löndin hafi gengist inn á það að missa auðlindir sínar – atvinnuna þar með? Haldið þið að þar sé ekki fólk eins og við sem vill það sama?
Síðustu 18 ára hafa ekki virkað – ekki skilað okkur neinu öðru en því sem eðlileg framþróun hefði gert – á sjálfstýringu og jafnvel heldur minna – í október var allt hrifsað af okkur – þetta allt sem ekkert var – nema tóm sápukúla – falleg að utan, glampandi blá og rauð og bleik, prýdd litum regnbogans en himnan var þunn og inní var ekkert og ef maður gleypir hana þá skilur hún eftir óbragð í munninum. Nema hvað þessi kúla hefur ekki einu sinni sápubragð heldur skítabragð. Blásin af frjálshyggunni – og hvað eru hyggjur og sjónir ef ekki þeir sem framfylgja þeim. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt.
VIÐ VERÐUM AÐ KOMAST Í BANDALAG ANNARRA ÞJÓÐA VIÐ VERÐUM AÐ NJÓTA SÖMU LÍFSKJARA OG ÞÆR við verðum að fela Samfylkingunni forsvar í næstu kosningum! Það er leið okkar í samstarfi við vinstri græna – við verðum að vera í forsvari og fá skýran stuðning þjóðarinnar til þess að leiða þá vinnu!