Jæja komið þið nú sæl og blessuð – og þú Ingveldur, nú íhugar þú það gaumgæfilega næsta ár að skrifa jólakortin ÁÐUR en þú ferð í jólafrí heillakerlingin mín.
Í gær var mín ósköp þreytt. Palli fór með blöðin um morguninn og sagði farir sínar ekki sléttar – erfitt færi og þungt en hann fór með glöðu geði minn hluta líka enda er ég ekki viss um að ég hefði komist þetta. Við hvíldum okkur heilmikið í gær, bæði uppgefin eftir vinnuvikuna og mismikinn svefn.
En ég keypti svolítið af jólagjöfum í gær, rétt svona til að gleðja fólk sem stendur mér nærri. Í dag ætla ég svo að skrifa jólakortin blessuð þar sem ég keypti frímerki í gær þá bind ég vonir við að þau verði borin út á morgun og komist til fjarlægari landshluta á Þorlák.
Ég keypti rauðgreni í gær – það verður fróðlegt að sjá hvernig það endist – það er þá bara hægt að henda því út fyrr en ella ef allt er í voða. Það þýðir að við förum og notum gömlu seríurnar okkar aftur – þessar sem eru eins og kerti, gömlu góðu. Einhvern veginn eru þær nú það sem mér finnst fallegast – bara ef Palli vildi ekki hafa þessar lituðu perur á þeim – mikið leiðist mér þær ;-). Allt eins og í bernskunni – meira hvað maður er fastheldinn…
En jæja áfram gakk…
Þetta lítur ekki svo illa út