
Ég er nú kannski ekki með gráa fiðringinn en það virðist vera óhjákvæmilgt að endurskoða líf sitt á þessum tímapunkti. Enda hlýtur það að hafa verið ástæðan fyrir því að fara í þessa lífsstílsbreytingu – já eða amk að leyfa Baldri að etja mér út í hana en hún ætlar að verða allt eins erfið og ég ætlaði – og ívið verri jafnvel þannig að ekki er ég hissa þó eitthvað hafi orðið bið á því að ég skellti mér í hana.
Ég hef nú sæmilegt vit til þess að leita mér stuðnings – þ.e.a.s. að gera mér grein fyrir því að þetta er ekki hægt nema vera í teymi með einhverjum. Ekki afþví að vinnan sé einhvers annars heldur að fá endurnæringu og pepp, svör við þrákelknislegum fullyrðingum og rof á þráhyggjuhugsunum og bergmáli manns eigin huga. En maður verður að vilja hlusta. Það þýðir lítið að ætla að vita allt best sjálfur og fara bara áfram sinn stíg.
Ég nýti mér sjúkraþjálfarann minn út í ystu æsar, ég hef farið nokkrum sinnum til sálfræðings og nú ætla ég á Reykjalund í endurnæringu og enduhæfingu bæði á sál og líkama. En þetta gengur nú ekki alveg sársaukalaust fyrir sig.
Ég held til dæmis að ég hafi náð nokkrum árangri í því að laga mig- ég geri mér grein fyrir vinnualkanum og því að ég þarf að hafa þokkalegt heima hjá mér svo mér líði betur, innkaup eru nauðsynleg ætli maður að borða hollt, elda verður maður líka að gera og ekki má borða sælgæti. Það er algjörlega nauðsynlegt að borða reglulega og hreyfing á hverjum degi og stundum tvisvar á dag er líka alveg must – þetta hef ég allt gert og hélt í sakleysi mínu að þetta væri nú allt saman töluvert. En nei þá finnst sála að það þurfi að skoða það sem innra með mér er og hann hefur allt aðra skoðun á því hver ég er – en ég. Og ég kann ekkert sérlega vel við þessa manneskju sem hann telur mig vera.
Hún er ekki hörð af sér, hún er ekki með allt sitt á hreinu og hefur stjórn á því sem hún vill. Og líf hennar hefur ekki endilega verið með besta móti – og ekkert af því er henni sjálfri að kenna heldur aðstæðum, uppeldi og óhjákvæmilegri aðlögun barnsins að þessu öllu. Og það er alveg saman þó sagt sé að margur hafi haft það verra eða sé verr standur – þá hjálpar það ekki endilega líðan manns eða styrkir mann í verkefnum hvunndagsins.
það er t.d. vill sáli meina ástæða fyrir því að ég sekk í vinnufen – dýpra og dýpra. Eða að heimilishaldið gangi eins og það gangi á stundum…. oh það er svo pirrandi að vera kannski annar en maður er – 40 ár eða svo af einhverju allt öðru en maður hélt.
En það útskýrir svo sem ýmislegt – viðbrögð og úrvinnslu.
Ég gaf Palla KK diskinn og hann er staddur á svipuðum stað og ég. Hann er ívið eldri þannig að hann segir að haustið sé komið og veturinn bíði – það er nú kannski einhver ár í það hjá mér – en hann er að fara yfir líf sitt og það eru nokkrir textar þarna sem eru algjör snilld.
Þeir hittast tvei vinirnir og eru að reyna að ræða saman – annar þarf líklega að biðja afsökunar á ýmsu og gengur það ekki sem best – en báðir vita þeir að þeir eru orðnir menn en vita ekki að þeir eru bara menn… þess vegna kannski gengur þetta ekki betur hjá þeim blessuðum. Algjör snilld.
Og í öðrum segir hann – ég er ekki sá sem ég held – heldur sá sem ég er.
Alveg á sama stað og ég sem sagt. Og trust me – þetta er heilmikill biti að kyngja. Maður kemur áreiðanlega alveg dáindis vel út úr því að vita hver maður er – og líklega er sú manneskja ekkert verri en sú sem maður heldur að maður sé – en það þýðir óhjákvæmilega svolítið breytta heimsmynd og kannski er ekki allt öðrum að kenna heldur manni sjálfum – eða sem er líka svolítið í mínu tilfelli – kannski er ekki allt mér að kenna – heldur hafa aðrir eitthvað með hlutina að gera líka.
Svei mér þá og svo er maður orðinn 43 – ef maður lifir eins lengi og Jón blessaður þá á maður 10 ár eftir – það er því rétt að fara að lifa lífinu lifandi og ekki grafa sig í vinnu – heldur taka til við skapandi verkefni þar sem eitt og annað verður til – gerist. Maður má ekki bara sitja í hrúgunni við kennaraborðið og ekki komast upp úr hvunndagnum.
Ætla ég að skrifa? Ætla ég að læra meira og hvað ætla ég að gera við það nám? Ætla ég kannski að búa til námsefni?
Ætla ég að vera búin að skrifa jólakortin fyrir 22. desember og vera búin með jólagjafnirnar fyrir hálf sjö á aðfangadag? SVo eitthvað lítið sé nefnt ;-).
Hvað ætla ég að gera í umgengninni á heimilinu – hvernig kemst maður út úr því að vera fastur í drullupytti draslsins og óreiðunnar.
Margt að hugsa um – en við skulum byrja á því að taka fyrstu dagana í framhaldsnáminu og Reykjalund. Ég hlýt að fá nýja sýn á lífið með þeirri ferð – ég legg amk mikið í hana og það er sérstakt happdrætti að fá að tileinka 5 vikur af lífi sínu sér sjálfum og mikilvægusta viðfangsefninu – að vinna í heilsunni sinni og sjálfum sér.
Og víst er maður að eldast – en það hefur líka sína kosti. Maður er svolítið klárari en áður.
Fáið ykkur diskinn hans KK ef þið eruð á svipuðum stað og við – hann er snilld. Afar passandi. Kannski að Geir og Ingibjörg ættu að hlusta á hann svolítið líka – en ef maður er ekki tilbúinn þá svo sem heyrir maður ekki snilldina svo ég er ekki viss um þau.