
Það mega bara vera 3000 orð í hverri minningargrein – það er svei mér stutt þegar maður er ritóð eins og ég er. Ég stytti hana samt og hún er hér fyrir neðan en óstytta er hér fyrst.
_________
Ég sit hér í tölvunni hans Jóns líkt og ég gerði stundum þegar ég kom í Borgarfjörðinn til hans, Dísu og strákanna. Eini munurinn er að nú er Jón hvergi nærri – og þó einhvern veginn allt um kring. Það voru stundum einhver árans vandræði með tölvuna – því rétt eins og tölva er siður þurfti svolítið að dekstra vélina til, við og við. Mér var það bæði ljúft og skylt. Það var ekki oft sem ég gat lagt hönd á plóginn hans Jóns. Hann sá um sín mál sjálfur og betur en margur.
Á skrifborðinu eru minnismiðar frá Jóni, við hlið mér eru snyrtilega raðaðir geisladiskar, útivistarbækur og kort, Borgfiskar byggðir og nótur af ýmsu tagi. Nýir gönguskór, – enn í kassanum. Græjur til ýmissa hluta. Jón var nefnilega tækjakarl af guðs náð og vildi bara það besta.
Ég sé á öllu að síðustu dagar hafa verið annasamir, ekki skorti verkefnin. Við óttumst það flest að fá slæmar fréttir af fólkinu okkar. Kvíðinn lúrir undir niðri og manni bregður við þegar hringt er um nótt eða árla morguns. Eru Palli og börnin mín örugg, ættingjar eða vinir? En oftast eru erindin sem betur fer meinlaus og kvíðinn óþarfur.
Alveg þangað til allt í einu.
Hildur systir birtist við hlið mér þar sem ég renni í hlaðið heima. Hún hefur greinilega beðið eftir að hitta mig. ,,Það eru slæmar fréttir úr Borgarfirðinum. – Hann Nóni dó í nótt.” Hver eiga viðbrögðin að vera við slíkum fréttum? Grátur, reiði, angurværð, samúð með Dísu systur og strákunum? ,,Hvaða vitleysa er þetta?” varð mér einfaldlega að orði. Þetta gat ekki verið satt. Engin viðbrögð kann ég við slíkum fréttum sem systir mín færði mér þennan dag.
Hvaða vitleysa er þetta?
Jón og dauðinn eiga enga samleið í huga mínum. Maður leggst til hvílu eftir að hafa átt góða stund með vinum og vaknar ekki aftur. Fötin liggja saman brotin á stól, tannburstinn á hillunni, skórnir í forstofunni. Minnislistinn við símann….
Og hann vaknar ekki meir. Konan liggur við hlið látins manns síns og verður einskis vör í myrkrinu – ekki fyrr en það tekur að birta. Biður vísast Guð um hjálp, hleypur í næsta hús og nær í móðurbróðir hans, lækninn – en ekkert er hægt að gera. Nóni var löngu dáinn. Systir mín elskuleg, hringir í prestinn og biður hann að koma og veita ástinni sinni líf á ný.
Enginn má sín nokkurs og áfallið síast in. Hægt fyrstu dagana en hversdagsleikinn tekur við og stórt stykki er horfið úr heildarmyndinni sem verður að taka á sig nýtt form. Manni er líklega ekki ætlað að skilja þetta. Svona er einfaldlega lífið, það á sér þessar tvær hliðar. Nú er bara að læra af þessari bitru reynslu.
Verum góð hvert við annað og gefum okkur tíma til þess að vera saman. Hugsum um heilsuna, lifum lífinu. Það veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér.
Ég skil ekki í því að hann Nóni sé dáinn. Kannski er okkur ekki ætlað að skilja það. Hver fær skilið að maður leggist til hvílu að kvöldi og vakni ekki framar til þeirrar tilveru sem á eftir að færa honum og samferðarmönnum hans svo margt?
Jón naut gjafa lífsins. Hann hafði mikið dálæti á íslenskri náttúru og þeystist um fjöll og firnindi, láð og lög en ekki síður á tveimur jafnfljótum. Útivistarmaður af lífi og sál. Áhugamaður og iðkandi heilbrigðs lífernis. Alltaf á iði, alltaf að bauka eitthvað. En eitt var öllu ofar og það var fjölskyldan hans. Hann var faðir og félagi drengjanna sinna þriggja og aldrei leið honum betur en þegar þeir voru með honum í ferðalögum eða heima við. Stórfjölskyldan skipaði einnig stóran sess í lífi hans og samband bræðranna þriggja frá Sturlu-Reykjum, Jóns, Snorra og Jonna var einstakt. Samheldni og virðing einkenndi öll þeirra samskipti. Samband Jóns við móður þeirra var einnig afar gott og sú góða kona hefur enn misst mikið, við fráfall Jóns. Hún líkt og þið öll eruð í huga okkar, kæru vinir.
Leiðir okkar lágu saman í rúm 20 ár, um jól og áramót. Útilegur á sumrin og samvera um helgar á vetrum. Þetta þökkum við fyrir. Minningarnar um dorgveiði á ísilögðum vötnum Arnarvatnsheiðarinnar gleymast seint og enn sé ég Jón kíminn á svip segja Páli sögur. Við höfðum mælt okkur mót þann 17. nóvember, enda alltof langt síðan við hittumst síðast. Þá ætluðum við að hafa það notalegt saman. Við komum, hugsum til Jóns og gjafa hans. Hvíl í friði kæri mágur og samúðarkveðjur til ykkar allra kæra fjölskylda, Ingveldur, Páll, Ragnheiður og Aðalsteinn
_________
Ég sit hér í tölvunni hans Jóns líkt og ég gerði stundum þegar ég kom í Borgarfjörðinn til hans, Dísu og strákanna. Eini munurinn er að nú er Jón hvergi nærri – og þó einhvern veginn allt um kring. Það voru stundum einhver árans vandræði með tölvuna og mér var það bæði ljúft og skylt að dekstra við hana. Það var ekki oft sem ég gat lagt hönd á plóginn hans Jóns. Hann sá um sín mál sjálfur og betur en margur.
Á skrifborðinu eru minnismiðar frá Jóni, við hlið mér eru snyrtilega raðaðir geisladiskar, útivistarbækur og kort, Borgfiskar byggðir og nótur af ýmsu tagi. Nýir gönguskór, – enn í kassanum. Græjur til ýmissa hluta. Jón var nefnilega tækjakarl af guðs náð og vildi bara það besta.
Ég sé á öllu að síðustu dagar hafa verið annasamir, ekki skorti verkefnin. Þau slógu mig tíðindin sem Hildur systir mín færði mér af andláti hans. Hver eiga viðbrögðin að vera við slíkum fréttum? Grátur, reiði, angurværð, samúð með Dísu systur og strákunum? ,,Hvaða vitleysa er þetta?” varð mér einfaldlega að orði. Þetta gat ekki verið satt. Maður leggst til hvílu eftir að hafa átt góða stund með vinum og vaknar ekki aftur. Konan liggur við hlið látins manns síns og verður einskis vör í myrkrinu – ekki fyrr en það tekur að birta. Biður vísast Guð um hjálp, hleypur í næsta hús og nær í móðurbróðir hans, lækninn – en ekkert er hægt að gera. Nóni var löngu dáinn. Systir mín elskuleg, hringir í prestinn og biður hann að koma og veita ástinni sinni líf á ný. Enginn má sín nokkurs og áfallið síast in. Hægt fyrstu dagana en hversdagsleikinn tekur við og stórt stykki er horfið úr heildarmyndinni sem verður að taka á sig nýtt form. Manni er líklega ekki ætlað að skilja þetta. Kannski er okkur ekki ætlað að skilja þetta. Svona er lífið, það á sér þessar tvær hliðar. Jón naut gjafa lífsins. Hann hafði mikið dálæti á íslenskri náttúru og þeystist um fjöll og firnindi, láð og lög. Útivistarmaður af lífi og sál. En eitt var öllu ofar og það var fjölskyldan hans. Hann var faðir og félagi drengjanna sinna þriggja og aldrei leið honum betur en þegar þeir voru með honum í ferðalögum eða heima við. Stórfjölskyldan skipaði einnig stóran sess í lífi hans og samband bræðranna þriggja frá Sturlu-Reykjum, Jóns, Snorra og Jonna var einstakt. Samheldni og virðing einkenndi öll þeirra samskipti. Samband Jóns við móður þeirra var einnig afar gott og sú góða kona hefur enn misst mikið, við fráfall Jóns. Hún líkt og þið öll eruð í huga okkar, kæru vinir. Að baki er samvera í rúm 20 ár, um jól og áramót. Útilegur á sumrin og heimsóknir. Minningar um dorgveiði á ísilögðum vötnum Arnarvatnsheiðarinnar gleymast seint og enn sé ég Jón kíminn á svip segja Páli sögur, þeim leiddist ekki andartak félagsskapurinn. Við höfðum mælt okkur mót á ný þann 17. nóvember. Við komum þá í Borgarfjörðinn, hugsum til Jóns og gjafa hans. Hvíl í friði kæri mágur, Ingveldur, Páll, Ragnheiður og Aðalsteinn