Inga sjálflæga


Jæja nú held ég að það sé bara eitt að gera – tala svolítið um sjálfan sig ha ha ha!

Ég fór í nálar í dag við beinhimnubólgu og ég get svarið ykkur það að þetta er alveg magical. Nú er eins og litlir maurar séu að trítla upp og niður sköflunginn. Og svo finn ég til í öllum aumu stöðunum í fótunum mínum. Mjög skemmtilegt að vita af þeim öllum.

hægri löppin á mér er alls ekki nógu góð og hreint ekki að batna. En læknirinn sagði að þetta tæki 2-3 vikur að lagast.

Það verða engar 24 stundir í fyrramálið – líklega ekki meira í mánuðinum en talaið er að Pósthúsið verði lagt niður og þá fáum við kannski fréttablaðið með í burðinum. Jamm annars er ekki að vita. Það þarf þá að lengja gönguna einhvern veginn. Kannski löbbum við bara út í hverfi og fáum þannig okkar göngu. Gæti skeið.

Þetta er nú það helsta af mér ;-). Þjóðfélagið er sem sagt allt á öðrum endanum og líklega er Ragnheiður bara að koma heim.

Ég er að hugsa jákvætt

það er mjög margt sem mér finnst alveg ómögulegt. Ég ber t.d. ekki traust til stjórnenda landsins og bankamála. En ég ætla að gleðjast yfir því að Aðalsteinn og Páll hafi vinnu. Tala nú ekki um ef þeir fá útborgað.

Ég hef líka vinnu. Ég vona svo sannarlega að sveitarfélögin fari ekki yfir um.

Svo er bara að vona að greiðslukjörin batni eitthvað og maður ráði við þetta en ef ekki þá bara er það í lagi.

En þetta er ekki bjart.

Það brotnaði tönn í gær.
Ég komst ekki í blak því ég er svo hölt.

En þetta er nú allt smámunir!

Ragnheiður pólitíkus

Hún Ragnheiður mín er svo meðvituð – en hún er svo sem á hálgerðum bömmer í sínum lýðháskóla. Verður líklega að koma heim – eini staðurinn sem hægt er að eyða krónum er á Íslandi svo það er eins og að brenna þær ef maður er erlendis. Sigh En hún er svolítið kúnstug. Þetta var á msninu mínu í morgun:

Ragnheiður i Lydhaskola says:
Hei fólk er að segja, hvað hafa Samfylkingarmenn eiginlega gert núna á þessum tímum, mér finnst Björgvin og Jóhanna vera dýrðlingar og spyr ég því bara á móti, ég hef ekki séð Árna Matt síðan við opnun Vatnajökulsþjóðgarðar og þar var hann bara uppá punt…. sjálfstæðismenn sjá ekki neitt nema það sem þeim sýnist…Guðni með Alzheimer og segir að það eigi alltaf undir öllum kringumstæðum að ráða lærðan og hæfan mann í eins mikilvæga stöðu og Davíð gegnir núna…

Síðan þetta var sagt þá hefur Árni Matt komið sterkur inn

Annars var ég að heyra að Árni ætti Byr svo það er ekki nema von að hann sé látinn vera bakatil. Meira vesenið á þessu landi okkar.

Mest svíður mér hæðnin og vanvirðing sem okkur er sýnd. En við eigum líklega ekki annað skilið – andlit okkar útá við var fégráðugt græðgisþjóðfélag. Við súpum af því seyðið núna…

Hvernig þetta endar er ekki víst! En það endar ekki vel í allra næstu framtíð.

Sin og allt á hausnum

Haldið þið ekki að ég hafi meitt mig í sininni undir hælnum alveg upp á nýtt í morgun. Gjörsamlega ógöngufær. Sigmar samkennari minn þurfti að færa mér matinn hvað þá annað!

fer til læknis á eftir til að athuga hvort ég hafi rifið eitthvað.

Skemmtilegt að hugsa um eitthvað annað en gjaldþrot bankanna!

Jamm

Skil hvorki upp né niður

…en ég veit að sólin kemur upp á morgun. Hún kom upp í morgun og í dag hugsaði ég um börnin. Gekk vel.

Það er ekki úr háum söðli að falla hjá mér í peningamálunum, er gjörsamlega á kúbunni hvort sem er. Kann ekkert með peninga að fara – að minnsta kosti fram að fertugu svo mikið er víst.

En vont er að vita af umtalinu sem þessir menn hafa skapað Íslandi. Við þurfum að standa okkur og reisa okkur öll við – þessir drengir hafa farið dálaglega með okkur. En við snúum vörn í sókn. Ég held samt einhvern veginn að það þurfi að skipta út ansi mörgum – víða.

Mamma, Inga og Palli

Það eru komin 17 ár síðan við Palli giftum okkur – við erum nú búin að vera í 23 ár saman – ég meina pælið í því – og hann er ennþá þessi asni sem ég kyssti þá ;-). Að það skuli vera hægt að segja að það séu 23 ár síðan eitthvað í mínu lífi – ja hérna hér.

Dagurinn var bjartur og fagur, yndislegir haustlitir. Þingvellir skörtuðu sínu fegursta. Séra Úlfar sem gifti okkar segist aldrei gleyma þessum degi slík var fegurð Þingvalla. Í ár sjáum við varla eitt einasta rautt laufblað, rok, rigning og svo til að toppa allt – snjór. Eiginlega alveg í stil við annað ;-).

Mamma hefði orðið 91 árs í dag. 9 ár síðan hún dó blessunin. Það er líka ótrúlegt hvað það er stutt síðan – hún er alltaf hjá mér alla daga. Allt um kring og umlykjandi. Ég skil ekki hvernig það er hægt að komast fram úr því að missa mömmu sína. Ég man að ég sat stundum og horfði út um gluggann á bílnum og virti fyrir mér fólkið vitandi að einhverjir þeirra höfðu einnig misst mömmu sína – og það sást ekki á þeim! Fólk breytist ekki hið ytra en verður varla samt hið innra. Mér finnst eiginlega alveg ómögulegt að eiga ekki mömmu og sæmt er líka að eiga engan pabba. Ég var rúmlega tvítug þegar pabbi dó og rúmlega þrítug þegar mamma dó. Ég þakka fyrir þau ár. Hvert og eitt einasta.

Takk fyrir árin með þér líka Palli minn!

Sunnudagurinn mikli

eða hvað. Maður er gjörsamlega eftir sig að hafa hlustað á Silfur Egils. Palli svaf ekki í nótt hann hefur svo miklar áhyggjur af lífeyrissjóðunum og því að ríkið ljúgi út úr okkur það litla sem við þó eigum! Enda er það ekki vaninn – láta alla bera ábyrgð svo enginn beri ábyrgð?

Ég er nú bara sammála því að bankarnir losi fé sjálfir til þess að verða sér út um gjaldeyri. Ekki á ég neinn… Nema ríkissjóð og einhvern lífeyrissjóð – kannski hefði ég þá bara viljað greiða upp þær skuldir sem hvíla þyngst á mér – frekar en borga fyrir Kbbanka sem vill ekkert borga fyrir mig.

Þetta er ekki einfalt. En ég er amk afskaplega löt.

Beinhimnubólga

Ég hef verið með beinhimnubólgu í mörg ár. Ég var að lesa á netinu að ein ástæðan gæti verið of stórir vöðvar – þeir þrengi að – boy það gæti skoho passað við hana Ingveldi sem er með stærstu kálfa í heimi. Enda veitir ekki af til að halda henni uppi.

Þessi fjandi er býsna hvimleiður – seigfljótandi pirringur, verkir í álagi – óþægindi þegar best lætur. Ráðið er hvíld. Hvíld er ekki í boði þannig að ég bara verð að halda áfram.

Kannski er hún verri núna en oft áður vegna göngunnar en ég held ekki. Ég passa að vera með legghlífar úr flísi og best er að sofa með slíkar líka – það munar rosalega um það að vera ekki kalt – kalt er algjör óþverri. En nú þegar hællinn og sinin þar undir hagar sér sæmilega, hælsporinn sefur, og hnéð er meira að segja í lagi svo lengi sem ég slengi því ekki til hliðar. Ristarnar láta vita af sér en Ecco hjálpar til að láta þetta ganga. Ég get ekki notað asics skóna – þeir eru of mjúkir fyrir ristarnar um þessar mundir. Svona er þetta – allta á hreyfingu og síbreytilegt. En ég er að mestu bara fín – en víst er um að allt þetta styður að ég verði að léttast – jafnt og þétt.

Á föstudaginn fór ég í fyrsta sinn í nálar vegna beinhimnubólgu. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að fara í nálar. Ég finn svo vel straumana og alls konar titring, flökt og verki sem fylgja þeim – þær leggjast á aumu staðina – á föstudaginn var ég t.d. að drepast í ristunum líka ásamt því að finna fyrir í sköflungunum ;-). Ég ætla að fá að fara aftur. Ég hef tröllatrú á nálunum – þær björguðu mér frá hælsporanum og hjálpuðu mér ótrúlega mikið með hálsinn – en ég þoldi bara eina ferð vegna hælsins hægra megin – sinin var of aum fyrir mig ;-). Hreinlega of sárt að fá nálar þar.

En þetta var svo sem bara yfirilit yfir stöðuna á löppunum – svona til að ég haldi því til haga.

… og ég stóðst 1007 freistingar í dag – mig langaði í allt mögulegt en lét appelsínu og peru í duga. Og þó ekki væri hægt að hjóla þá fór ég gangandi með blöðin og náði mér þar í fína brennslu. – og slapp við að detta

Þessi líka svakalegu rólegheit

Ég er bara búin að sofa frá því klukkan átta í gærkveldi – vaknaði í 2 klst til að bera út blöðin og svo bara bamm sofið til 11:00 pælið í því! Mér veitti líka ekki af því þar sem ég vaknaði þreyttari en þegar ég fór að sofa alla síðustu viku – ég var eiginlega alveg búin á því bara.

Ég ætlaði að vinna í dag – en ég nenni því ekki – ég fer á morgun – early. Kem svo snemma heima og held áfram að hvíla mig. Ég þarf líka að synda á morgun – eða ganga á bretti/hjóla á Borg því við hjólum ekki í dag – allt í klaka og snjó – stórhættulegt færi í morgun en allt gekk vel. Ég held að ecco standi sig bara vel í hálkunni.

Ég fór á vigtina í gær – horfði ekki – onei og langar það ekki einu sinni. Samt er ég nú að velta viðbrögðum Baldurs en hann var alveg eins og pókerfés – enda hafði ég sagt honum að hann mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum segja neitt – sýna neitt – heldur bara láta eins og ekkert sé. Ég reyni að gera það sem ég get mín megin en ég ætla ekki að missa vitið yfir einhverjum helv… tölum á vigt eins og ég hef verið að gera allt þetta ár.

En talandi um minn enda – gera það sem ég get, þá gengur það ekki alveg nógu vel. Matardagbókin er ,,óhreinni“ en t.d. í síðustu viku farið að sjást brauð og vigtin gleymis oft heima! Og ég hreinlega finn að dagurinn í dag verður erfiður. Ég er búin að vara Palla við og segja honum að hann megi ekki láta nokkurn hlut eftir mér sama hvað ég skræki og skræmti! Nú er bara að rifja upp hvað maður gerir þegar maður nennti ekki að fara í Styrk fór samt – æfði og leið svo bara betur eftir allt saman! Mér Á eftir að líða betur þegar ég léttist með reglulegum hætti! Mér líður betur þegar ég finn fötin víkka og pokana minnka. Þetta er bara eitthvað sem verður að halda út. Stundum er erfitt að komast í allar æfingarnar, stundum gleymist vigtin og stundum fær maður sér eitthvað sem hentar ekki til léttings en svoleiðis er lífið. En staðreyndin er samt sú að matardagbókin verður að vera hrein – hreyfingin 9 – 10 sinnum í viku.

Blaðuburður 6 sinnum (þar af 2 x hjól – og þegar ekki er hægt að hjóla þarf að fara á brennslutæki í Íþróttamiðstöðinni eða bæta við sundið)

Blak – risaæfing og rosabrennsla. Mín farin að hreyfa sig mar!
Sund – sund er alltaf inni á föstudögum. Ég á erfiðara með þriðjudags-sundið. Er einhvern veginn alltaf að vinna…. þarf að bæta mig þar.

Sem sagt eilífðarverkefni.

annars er ég bara góð 😉

Hef svolitlar áhyggur af þessu öllu í þjóðfélaginu – en hver hefur það ekki! Við sjáum hvað gerist á mánudag…

Og stóru fréttirnar eru nú þær að ég ætla að snúa á skammdegisbluesinn – en í fyrra bað ég alla um að minna mig á að vera farin til sálfræðings fyrir 20. október því það virðist bara vera þannig að ég sigli inn í einhvern blues alveg sama þó mér finnist ég ekki gera það – ég fer alltaf í eitthvað rugl ástand frá nóv til mars! Gengur náttúrulega ekki. Svo ég er bara búin að panta mér hjá sála. Og ég ætla að mæta með umræðulista svo ég nýti tímann sem best!