Að fela sig í hendur ókunnugra

Ég var að æfa mig í æðruleysi og auðmýkt í sumar.  Ég held ég þurfi að æfa mig meira í því þó ég hafi nú náð að bæta mig svolítið.

Einhvern tímann í sumar – ég man ekki hvenær – vísast á einhverjum bömmernum fór ég til Péturs í Laugarási og bað hann  um að senda mig á Reykjalund. Mér veitti ekki af stuðningnum til þess að ganga í endurnýjun lífdaga í lífsstílsbreytingunni minni.

Ég fékk svo bréf á föstudaginn frá Reykjalundi.  Ég á að mæta á göngudeild í viðtal við hjúkrunarfræðing og svo vikur síðar eða svo til læknis. Á Reykjalundi er bæði verið að vinna með sjúklinga sem vilja fara í magaaðgerðina og hina sem vilja spreyta sig án aðgerða.  Ég er í þeim hópi enn sem komið er að minnsta kosti.  Kannski tekst þeim að sannfæra mig um annað – kannski er spennandi að losna við verkina í vöðvunum mínum og hina nýju hnépínu sem ég finn fyrir.

En erfiðast af öllu þykir mér að þurfa að fara á vigt og ræða þyngd mína við nýjan.  Mér finnst bara fínt að þetta sé á milli mín og Baldurs og þó aðallega bara hjá Baldri því ég stíg bara á vigtina og kíki ekki neitt.  En ég er bara kannski orðin nógu sterk til þess að láta ekki vigtina vera dómarann í mínu lífi.  Svo veit ég ekki alveg hvort ég sé tilbúin að láta aðra vasast í mínu lífi eins og ég þarf að gera ef ég fæ að fara á Reykjalund…  En ég veit að það er bull – því stuðninginn vil ég hvort sem það er Reykjalundur, sálfræðingur eða sjúkraþjálfarinn minn blessaður.  Eða þið öll sem fylgist með mér á blogginu – vinir mínir og samstarfsfólk.

En ég er nú ekki komin á Reykjalund enn svo við skulum láta það liggja á milli hluta enn um sinn.  Reyni heldur að sleppa þessu brauðáti, ostanarti en þetta tvennt er alveg að fara með mig.  Ég er nokkuð dugleg á öðrum sviðum – hreyfingin mætti vera meiri og grænmetið sömuleiðis en ég á erfitt með að koma hreyfingunni í 4 daga + blaðburður – en ég hef nú náð þremur af fjórum þessa viku svo ég er ekki alveg á bömmer.

Matardagbók á morgun og einbeitingin verður að vera nokkur því það er námsmatsvika ;-). Þær eru nú alltaf svolítið spes.

Ekkert nammi síðan 21. ágúst.  Víhí einhvern tímann hefði ég nú verið ánægð með það.

2 athugasemdir á “Að fela sig í hendur ókunnugra

  1. Ég vildi nú alveg hafa eitthvað af þinni sjálfsstjórn Inga mín…. varðandi nammið allavegnaSkagakveðjurHaddý Jóna

    Líkar við

  2. Frábært hjá Inga mín að taka ákvörðun um að fara í viðtal.Stolt af þér.Einn dagur í einu er það ekki það sem maður á að gera og hugsa þannig.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd