Inga pinga pikkaló vakandi klukkan 23:30

Slikt og þvílíkt hefur nú ekki gerst lengi lengi lengi – enda fer það mér ekki sérlega vel. Það er svo mikið að gera við að lesa blöðin að maður hefur sig varla í bólið. Enda víruð eftir að taka slátur í dag – gerði það með tveimur öðrum konum og við tókum samtals 12 slátur það var létt verk og löðurmannlegt.

Úti er skítakuldi – gjörsamlega þannig að það nístir inn að beini. Oj bara.

Hið innra er álíka kuldi því svo sannarlega næ ég ekki upp neinum funa varðandi þetta gjaldþrot bankanna og okkar allra.

Það var merkilegt hve mikið lá á að einkavæða þá – enda skiljanlegt ef marka mátti orð þeirra sem best vissu – fyrr yrði aldrei í lagi með þessa bankastarfssemi hér. Ja vont var það ef það var verra en það sem við höfum í höndunum í dag. Það er merkilegur fjandi að menn geti riðið hér um héruð íklæddir bláum skikkjum á reiðskjótum sem Gunnar á Hlíðarenda get ekki einu sinni fest hendur á – enda undir það síðasta múlbundinn mishárprúðum boga sínum!

Ég segi það þó og stend við það – óþekku krakkarnir sem skópu þó auðinn sem færði alþýðunni alltof dýr hús, hjólhýsin fínu og jeppana – vaða bara uppi nákvæmlega eins langt og þeim er leyft – rétt eins og krakkarnir gera í skólastofunni minni – nákvæmelga eins langt og þeim er leyft og þor þeirra dugar þeim. Óþekktin sem sagt….

Eins er það með útrásargaurana okkar – innlendu drengina sem spranga um með fínu stresstöskurnar sínar á audi jeppunum eða bimmunum. Þeir fara það sem þeir komast og aðeins lengra og svo virtist sem þeir kæmust nákvæmlega þangað sem þeir vildu og spranga svo bara um á einhverju listasýningum og líta á einn boltaleik við og við!

Það var seðlabankinn, fjármálaeftirlitið og ríkið sem átti að stöðva þessa menn. Og það þýðir ekkert fyrir vinstri græna að blása út stórkostlegt inn sæi sitt og snilld. Fuss og svei.

Þarf annars að taka á matardagbókarskrifum og auka hreyfingu. Enginn veit hvað verður um blaðburð í næsta mánuði.

Færðu inn athugasemd