Það er nú meiri sælan að eiga tvo daga frí. Þarf endilega að gera meira af þessu :-).
Í næstu viku ætla ég að vera í vinnubindindi – ég ætla aldrei að vera komin heim seinna en 4-5 – ég er venjulega ekki komin heim fyrr en undir sjö eða þaðan af seinna en nú verður breyting á þeas næstu viku – svo þarf maður nú áreiðanlega að taka vel á aftur. Þetta er líka spurning um að nýta tíma sinn og vera ekki endalaust að gaufa… Ég er svolítið mikill gaufari satt að segja.
Mataræði helgarinnar hefur verið ágætt þó ég hafi nú látið eitt og annað eftir mér þá er ekkert af því óhollt en maturinn er kannski heldur tilþrifameiri en í miðri viku. Kitlar bragðlaukana heldur meira en ekkert taumlaust en nóg til að ég viti að ég léttist ekki um helgina. En ég held reyndar að ég sé að léttast.
Ég hef ekki farið á vigt með opin augun síðan í byrjun júlí. Svo sá ég óvart töluna í byrjun sept en það var bara ágætt þá rauf ég ákveðið hugsanferli – og lærði að maður má bara einfaldlega ekki borða nokkurn skapaðan hlut ef maður vill léttast. Allt tal um næstum því og ég reyni á ekki við í því sambandi – það dugir einfallega ekkert annað en borða hreinlega bara ekki neitt af neinu og hreyfa sig svo alveg geggjað mikið með. Svoldið leiðinlegt en ég veit það þá núna 😉 hálfkák á ekki við.
En þetta með vigtina – ég er svona alsæl með þetta. Ég treysti því að ég sé að gera rétta hluti í mataræðinu – treysti því að það skili mér áleiðis og læt Baldi það bara eftir að lesa á vigtina og halda upp á bókhaldið. Því það þarf að vera til staðar. Og maður þarf að fara á vigtina en maður má ekki láta hana vera dómarann yfir lífi sínu – það þarf ég að vera sjálf.
Ég er búin að gera þvílíkt mikla handavinnu núna um helgina. Búin að koma mér upp aðstöðu í stofunni – þarf aðeins að betrumbæta hana – en hóhóhó – ég er skoho langt komin með framhliðina á þessu líka fína veggteppi – risastóru… Þannig að það er kannski ekki mjög seinlegt en samt…. Ég hélt ég yrði miklu lengur að þessu og hefði þetta ekki af nema með gríðarlegum harmkvælum. Og ég þurfti ekki að kaupa neitt efni – ég bara notaði það sem ég átti og tjaslaði þessu saman. Frábært að vera byrjuð að föndra og það lítur svona ljómandi vel út með jólagjafirnar í ár ;-).
Og við skuldum endalausa miljarða – svo marga að ég skil náttúrulega alls ekki töluna. Og Guð má vita hvað verður…. En ég verð alltaf ég og hef mitt fólk vonandi sem lengst.