Jæja þá nálgast nóvember

…og ég að sigla inn í mitt árlega volæði. En nú er ég ýmsum tækjum búin. Sálfræðing, viðtöl á Reykjalundi, sjúkraþjálfara, blaðburði, verkjatöflum, góðum vinnustað…

Það sem er aftur á móti með verra móti: Samkomulag við makann (sérlega bágborið um þessar mundir), of langur vinnudagur, peningaáhyggjur humongous – er að leita á náðir ráðgjastofu – þetta lagast greinilega ekki af sjálfu sér og ekki er ástandið á dráttarvöxtum og öðrum vöxtum til þess að bæta út…, verð á vetrardekkjum undir Subaruinn já og eitthvað svona smálegt annað… En þetta er sem sagt heldur verra en t.d. í fyrra. Annað er líka betra þó fótaverkir séu ömurlega miklir núna þá er ég ágætlega göngufær – bara vont að standa upp og byrja ;-). Ég veit hvernig ég get lagað það – hreyft mig meira og teygt betur og nýtt mér heitu pottana hér á Borg betur (en þá kemur þetta aðeins að vinnudeginum langa….) Ég hef ekki lést neitt í ár…. og það er alveg sama hvað ég rembist ég bara virðist ekki geta lést. Merkilegur fjandi. En nú er að blása til sóknar á ný… Ég hef jú ekki borðað nammi í 2 mánuði og eina viku – það skilar mér að vísu engu í léttingi – gæti því alveg bara borðað mitt nammi og notið þess því þó það sé farið út og ekkert annað inn í staðinn þá stendur allt pikkfast fyrir því.

Ég gæti sem sagt alveg geðbilast út af þessu… argh pargh

Ég veit að mig langar alltaf að hætta að kenna í nóvember. Svo ekki taka mark á mér þegar ég segist ekki nenna þessum akstri hingað og ég verð að kenna á Selfossi næsta vetur. uss fuss bara blaður og fjas út í loftið að tala svoleiðis. Ekki hægt að ræða við mig um slíkt fyrr en í apríl.

Ég er að gera handavinnu og það finnst mér skemmtilegt og ég á algjörlega yndislega vinnufélaga – rétt eins og ég átti í Sunnulæk. Meira hvað maður er heppinn með svoleiðis.

Það eru því nokkrir ljósir punktar í þessu öllu saman. Það er bara að taka eftir þeim og horfa á þá en ekki þessa slæmi. En

Að fela sig í hendur ókunnugra

Ég var að æfa mig í æðruleysi og auðmýkt í sumar.  Ég held ég þurfi að æfa mig meira í því þó ég hafi nú náð að bæta mig svolítið.

Einhvern tímann í sumar – ég man ekki hvenær – vísast á einhverjum bömmernum fór ég til Péturs í Laugarási og bað hann  um að senda mig á Reykjalund. Mér veitti ekki af stuðningnum til þess að ganga í endurnýjun lífdaga í lífsstílsbreytingunni minni.

Ég fékk svo bréf á föstudaginn frá Reykjalundi.  Ég á að mæta á göngudeild í viðtal við hjúkrunarfræðing og svo vikur síðar eða svo til læknis. Á Reykjalundi er bæði verið að vinna með sjúklinga sem vilja fara í magaaðgerðina og hina sem vilja spreyta sig án aðgerða.  Ég er í þeim hópi enn sem komið er að minnsta kosti.  Kannski tekst þeim að sannfæra mig um annað – kannski er spennandi að losna við verkina í vöðvunum mínum og hina nýju hnépínu sem ég finn fyrir.

En erfiðast af öllu þykir mér að þurfa að fara á vigt og ræða þyngd mína við nýjan.  Mér finnst bara fínt að þetta sé á milli mín og Baldurs og þó aðallega bara hjá Baldri því ég stíg bara á vigtina og kíki ekki neitt.  En ég er bara kannski orðin nógu sterk til þess að láta ekki vigtina vera dómarann í mínu lífi.  Svo veit ég ekki alveg hvort ég sé tilbúin að láta aðra vasast í mínu lífi eins og ég þarf að gera ef ég fæ að fara á Reykjalund…  En ég veit að það er bull – því stuðninginn vil ég hvort sem það er Reykjalundur, sálfræðingur eða sjúkraþjálfarinn minn blessaður.  Eða þið öll sem fylgist með mér á blogginu – vinir mínir og samstarfsfólk.

En ég er nú ekki komin á Reykjalund enn svo við skulum láta það liggja á milli hluta enn um sinn.  Reyni heldur að sleppa þessu brauðáti, ostanarti en þetta tvennt er alveg að fara með mig.  Ég er nokkuð dugleg á öðrum sviðum – hreyfingin mætti vera meiri og grænmetið sömuleiðis en ég á erfitt með að koma hreyfingunni í 4 daga + blaðburður – en ég hef nú náð þremur af fjórum þessa viku svo ég er ekki alveg á bömmer.

Matardagbók á morgun og einbeitingin verður að vera nokkur því það er námsmatsvika ;-). Þær eru nú alltaf svolítið spes.

Ekkert nammi síðan 21. ágúst.  Víhí einhvern tímann hefði ég nú verið ánægð með það.

Það er nú það

Hér um daginn hlustaði ég á Davíð Oddsson í Kastljósi. Ég sannfærðist endanlega um það að maðurinn væri ekki í lagi og ætti greinilega ekkert með það að stjórna þessu landi lengur – og hvað þá úr sæti seðlabankastjóra. Ég bókstaflega stóð (og já ég raunverulega stóð) á öndinni þegar ég horfði á manninn.

Þegar ég kom í vinnuna daginn eftir höfðu allir sínar skoðanir á málunum en margir sögðu sögur af því hvernig þeim eða þeirra nánustu leið betur eftir að hafa horft á þáttinn – Davíð hafð í raun sannfært okkur um að allt yrði í lagi. Mér leið eins og ég hefði verið stödd á annarri plánetu og ég ætti ekki að stíga fæti yfir á þessa plánetu þjóðargjaldþrots því mér tekst ekki að gera mig skiljanlega og ég skil svo sannarlega ekki ástandið. Ég held reyndar að það sé óskiljanlegt. Og gjörsamlega óþolandi að auki.

Þjóðarskúta, strand, skipbrot, strandstaður, brotsjór og enn heldur það áfram – boðarnir ganga yfir okkur.

vetur á vetur ofan

Það á ekki af okkur að ganga. Ég er nú samt farin að skilja háar tölur miljarðanna betur – þeas ég hef gert mér það ljóst að ég skil þetta alls ekki og kostnaður Landsspítala hlýtur að vera hjóm eitt héðan í frá…

Og ég þarf að fá mér vetrardekk – þau kosta á bilinu 120 þús til grilljón. Skemmtilegt! Og gleraugun bíða enn í búðinni. Skemmtilegt…

Og það er bara myljandi leiðinda færð alla daga upp á Borg. ÉG er ekki viss um að ég nenni þessum akstri, – finnst hann leiðinlegur.

En hvað um það – smá lán fengið okkur til handa – svona ef Bretar stoppa það ekki.

Og það er komin helgi – það ER skemmtilegt.

Nám um nám frá námi til náms

Þjónustuver KHÍ
Sent: mán. 20.10.2008 10:39
To: Ingveldur Eiríksdóttir
Subject: RE: Skráning í námsskeið

Sæl Ingveldur.

Þú ert skráð í umbeðin námskeið:

MEN014F Námskrárfræði: Hvað á að kenna og hvers vegna? 20090 (Maí 2009) Ólokið (-) 10

MEN067F Námsmat og prófagerð 20090 (Maí 2009) Ólokið (-) 10

Júhúúúú – ég hafði það af að skrá mig í námið…. – eftir harkalega hvatningarræðu sála…  

er nú næstum búin með námskrárfræðin – en þarf sem sagt að ljúka þeim.  Nú og svo er ég af einhverjum undarlegum ástæðum orðin áhugamanneskja um prófagerð… og námsmat.  Þó heldur hið síðarnefnda verð ég að segja.

En þetta vakti ótrúlegar góða tilfinningu að láta vaða í þetta.  Ég held ég sé alveg tilbúin – þá verð ég búin með 30 einingar í vor – gömlu 15 og er þá komin með diplomu og launahækkun. Jamm þetta er bara gaman – búin með fjórðung í masterinn 😉

Fór og synti í dag – borða of mikinn ost og brauð – grænmetið aðeins að minnka.  Já það er ekki eins og þetta hafist bara á vananum … en ég hef ekkert nammi borðað síðan 21. ágúast utan 15 súkkulaðirúsinur í 50 ára afmæli þann 27 og þær teljast nú eiginlega ekki með því ég hefði dáið úr hungri því ég þurfti að bíða svo lengi eftir matnum 😉

Mánudagur til hálf-fjögur

Ég er alltaf svolítið þreytt þegar ég hugsa til þess að ég sé að kenna til hálf fjögur í dag – það þýðir að ég verð að vinna til sjö hið minnsta til þess að koma vikunni vel af stað því föstudagur fer í þessa blessuðu hreyfingu mína – en ég má ekki vinna svona lengi því þá á ég mér ekkert líf þar fyrir utan. Og lífið er víst fyrir utan vinnuna að hluta til að minnsta kosti….

Það verður að breyta þessum skólatíma hér og hafa skóladaginn ekki lengur en til þrjú og helst bara til tvö sem oftast – og getum við ekki bara byrjað átta – eða 10 mínútur þar yfir – munar það nokkru? Held ekki…. segir morgunhaninn Ingveldur

Sá hinn sami morgunhani hefur nú ákveðið að labba bara sinn 20 mínútna sprett með moggann og hreyfa sig svo þess meira eftir vinnu á mánudögum þriðjudögum fimmtudögum og föstudögum. Gaman væri ef ég færi og synti á laugardögum en ég þori ekki að lofa neinu þar um. Ég var svona 45 mín að labba með 24 og moggann en nú eru stundirnar ekki til og ekki endilega víst að við fáum fréttablaðið um mánaðarmótin – það á alveg eftir að ganga frá því öllu saman. Það er klemma með að koma því til skila því Árborg vildi ekki kassana sem átti að setja það í. En þetta kemur nú í ljós – ég ætla ekki að fríka út yfir þessu. Ef við fáum lengri burð á morgnana þá tek ég eftirmiðdagshreyfinguna út aftur. Ekki flókið eða hættulegt.

—–

Að stjórnmálum

Í gær sáust ráðherrar á hlaupum undan blaðamönnum – hraðast hljóp sá sem minnst hefur sagt og hve mesta skaða hefur ollið – Árni dýralæknir, aðrir bentu á Forsætisráðherra – hann myndi tala við þá…

Gott og vel – ég skil vel að best sé að menn þegi sem mest – ef þeir geta ekki talað í takt og bara bullað… en asnalegt er að sjá fólk hlaupa undan, skáskjóta sér og slíkt – menn eiga náttúruelga bara að koma saman út úr húsi og standa saman og presentera sig sem heild – ekki einhverja óreiðugemsa sem hlaupa undan rekstrarmönnum að hausti!

Stöndum saman – líka ríkisstjórnin – auðvitað erum við öll nánast óttaslegin þegar fundir eru boðaðir með stuttum fyrirvara eða ríkisstjórnin safnast saman á sunnudegi! Þeir ættu því þessir háu herrar að láta svo lítið að standa saman og segja okkur það sameiginlega að þeir hafi ekkert að segja!

Ég held satt að segja að þeir ráði ekki neitt við neitt og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alla taumana í hendi sér en vanti þó allt taumhald…

Og saman siglum við að feigðarósi, svoldið hrædd, kvíðin og ringluð. Hvað varð eiginlega um okkur? Við erum ekki einu sinni litla krúttþjóðin í Norður Atlantshafinu. Við erum bara kjánar og svindlarar, fjárglæframenn og vitleysingar.

Og Björgólfur bara á bar í London. Sigh…

Áfram Jón Baldvin

mikið var frískandi að heyra í Jóni Baldvini í Silfrinu í dag. Ég bara sver það að ég sakna manna sem segja eitthvað af viti – þó maður sér ekki endilega sammála því öllu – þá er amk frískandi að heyra einarðar skoðanir á málunum.

Það var t.d. algjörlega dásamleg lýsing hans á hlutverki seðlabankastjóra vors í þessu öllu saman og hvernig hann þvælist fyrir á strandstað í stað þess að koma sér í burtu – svo ekki sé nú minnst á að hjálpa til – en ætli sá góði maður hafi ekki gert nóg á síðustu 20 árum.

Nú verðum við að hætta að hjakka í einhverju sem við ráðum ekki við og náí bjargirnar sem eru í boði og eru líklega ekki bjargir heldur bara ein – Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn.

Nú voru ráðherrar að funda í stjórnarráðinu – skyndilega að því er mbl.is segir og maður hreinlega svitnar og skelfur. Það er ekki von á góðu!

Ljóta ástandið. Evru og evrópubandaleg strax – það er nóg komið af þessu klíkuhjakki hér enda hagsmunabandalag framsóknar og sjálfstæðisflokks orðið gott.

Inga pinga pikkaló vakandi klukkan 23:30

Slikt og þvílíkt hefur nú ekki gerst lengi lengi lengi – enda fer það mér ekki sérlega vel. Það er svo mikið að gera við að lesa blöðin að maður hefur sig varla í bólið. Enda víruð eftir að taka slátur í dag – gerði það með tveimur öðrum konum og við tókum samtals 12 slátur það var létt verk og löðurmannlegt.

Úti er skítakuldi – gjörsamlega þannig að það nístir inn að beini. Oj bara.

Hið innra er álíka kuldi því svo sannarlega næ ég ekki upp neinum funa varðandi þetta gjaldþrot bankanna og okkar allra.

Það var merkilegt hve mikið lá á að einkavæða þá – enda skiljanlegt ef marka mátti orð þeirra sem best vissu – fyrr yrði aldrei í lagi með þessa bankastarfssemi hér. Ja vont var það ef það var verra en það sem við höfum í höndunum í dag. Það er merkilegur fjandi að menn geti riðið hér um héruð íklæddir bláum skikkjum á reiðskjótum sem Gunnar á Hlíðarenda get ekki einu sinni fest hendur á – enda undir það síðasta múlbundinn mishárprúðum boga sínum!

Ég segi það þó og stend við það – óþekku krakkarnir sem skópu þó auðinn sem færði alþýðunni alltof dýr hús, hjólhýsin fínu og jeppana – vaða bara uppi nákvæmlega eins langt og þeim er leyft – rétt eins og krakkarnir gera í skólastofunni minni – nákvæmelga eins langt og þeim er leyft og þor þeirra dugar þeim. Óþekktin sem sagt….

Eins er það með útrásargaurana okkar – innlendu drengina sem spranga um með fínu stresstöskurnar sínar á audi jeppunum eða bimmunum. Þeir fara það sem þeir komast og aðeins lengra og svo virtist sem þeir kæmust nákvæmlega þangað sem þeir vildu og spranga svo bara um á einhverju listasýningum og líta á einn boltaleik við og við!

Það var seðlabankinn, fjármálaeftirlitið og ríkið sem átti að stöðva þessa menn. Og það þýðir ekkert fyrir vinstri græna að blása út stórkostlegt inn sæi sitt og snilld. Fuss og svei.

Þarf annars að taka á matardagbókarskrifum og auka hreyfingu. Enginn veit hvað verður um blaðburð í næsta mánuði.

Helgar eru æði

Það er nú meiri sælan að eiga tvo daga frí. Þarf endilega að gera meira af þessu :-).

Í næstu viku ætla ég að vera í vinnubindindi – ég ætla aldrei að vera komin heim seinna en 4-5 – ég er venjulega ekki komin heim fyrr en undir sjö eða þaðan af seinna en nú verður breyting á þeas næstu viku – svo þarf maður nú áreiðanlega að taka vel á aftur. Þetta er líka spurning um að nýta tíma sinn og vera ekki endalaust að gaufa… Ég er svolítið mikill gaufari satt að segja.

Mataræði helgarinnar hefur verið ágætt þó ég hafi nú látið eitt og annað eftir mér þá er ekkert af því óhollt en maturinn er kannski heldur tilþrifameiri en í miðri viku. Kitlar bragðlaukana heldur meira en ekkert taumlaust en nóg til að ég viti að ég léttist ekki um helgina. En ég held reyndar að ég sé að léttast.

Ég hef ekki farið á vigt með opin augun síðan í byrjun júlí. Svo sá ég óvart töluna í byrjun sept en það var bara ágætt þá rauf ég ákveðið hugsanferli – og lærði að maður má bara einfaldlega ekki borða nokkurn skapaðan hlut ef maður vill léttast. Allt tal um næstum því og ég reyni á ekki við í því sambandi – það dugir einfallega ekkert annað en borða hreinlega bara ekki neitt af neinu og hreyfa sig svo alveg geggjað mikið með. Svoldið leiðinlegt en ég veit það þá núna 😉 hálfkák á ekki við.

En þetta með vigtina – ég er svona alsæl með þetta. Ég treysti því að ég sé að gera rétta hluti í mataræðinu – treysti því að það skili mér áleiðis og læt Baldi það bara eftir að lesa á vigtina og halda upp á bókhaldið. Því það þarf að vera til staðar. Og maður þarf að fara á vigtina en maður má ekki láta hana vera dómarann yfir lífi sínu – það þarf ég að vera sjálf.

Ég er búin að gera þvílíkt mikla handavinnu núna um helgina. Búin að koma mér upp aðstöðu í stofunni – þarf aðeins að betrumbæta hana – en hóhóhó – ég er skoho langt komin með framhliðina á þessu líka fína veggteppi – risastóru… Þannig að það er kannski ekki mjög seinlegt en samt…. Ég hélt ég yrði miklu lengur að þessu og hefði þetta ekki af nema með gríðarlegum harmkvælum. Og ég þurfti ekki að kaupa neitt efni – ég bara notaði það sem ég átti og tjaslaði þessu saman. Frábært að vera byrjuð að föndra og það lítur svona ljómandi vel út með jólagjafirnar í ár ;-).

Og við skuldum endalausa miljarða – svo marga að ég skil náttúrulega alls ekki töluna. Og Guð má vita hvað verður…. En ég verð alltaf ég og hef mitt fólk vonandi sem lengst.