Ég hugsa stundum svolítið. Mér finnst reyndar það vera að aukast – og afköstin minnka í samræmi við magn hugsananna. Um gæðin á hvoru um sig veit ég ekki. En dembum nokkrum hugsanablöðrum fram:
Verkfall ljósmæðra – hvað er málið afhverju er ekki bara greidd laun jafnt samkvæmt menntun – varla er hægt að tala um skort á ábyrgð hér?
Trúnaðarmaður – trúnaðarmaður á vinnustað getur spilað stórt hlutverk og ætti að gera það. Ég hef hagað mér í viku sem trúnaðarmaður. Ég held ég fari batnandi – það var gott að fara á trúnaðarmannanámskeiðið. Það var heldur ekkert svo leiðinlegt!
Blaðburðarhverfið mitt er eins og sérsniðið fyrir okkur Palla – mjög þægilegt hverfi og ég vona að ég geti borið út í vetur!
Það er frábært að vera byrjuð í sjúkraþjálfun á nýjan leik.
Mér líður betur í fótunum eftir að hafa synt eða hjólað.
Ég er að hugsa um að hætta í blakinu… en það þætti mér mjög leiðinlegt!
Ég er næstum ákveðin að hætta við að fara í bæinn á þriðjudögum og reyna ,,bara“ að vinna heimavinnuna mína ein og óstudd og kannski með sjúkraþjálfaranum.
Ég hef sótt um á Reykjalundi – ég veit ekki hvenær kemur svar þaðan eða í hvaða formi sú vist verður – ef hún verður. Skyldi ég bara enda í magaaðgerð?
Ég er með 10 atriða lista yfir verkefni sem ég ætti að vera að vinna en blogga bara í staðinn!
Ég elska kertaljós og það loga ekki færri en tvö kerti hér hjá mér núna í rigningarsuddanum.
Ég er konan sem trúi því að Kimi Räikkönen vinni á Monza á morgun.
Ég trúi því ekki að ég geti losnað við 40 kíló.
Ég þarf að æfa mig í því að segja og hugsa:
Ég er konan sem hefur losnað við 70 kíló með hreyfingu og breyttum lífsstíl
Ég er konan sem fer í sund með alla húðpokana sína og er bara stolt af því að þeir eru tómir en ekki fullir af fitu. Minnisvarði um dugnaðinn sem í mér býr.
Ég er konan sem borða ekki sælgæti, held mig frá öðrum sykri, drekk ekki coke light og nota hveiti í hófi.
Ég er þannig kona. Ég er nefnilega ekki bara kennari. Ég er fullt annað gott líka :-).
Jamm þetta þarf að æfa vel og lengi.
En nú er ég farin að vinna – tölvan búin að synca og gera fínt hjá sér. Kveðja úr suddanum