Einu sinni sungu Þjóðverjar – Þýskaland Þýskaland ofar öllu – en því hefur verið breytt þar sem slík þjóðernishyggja leiddi heila heimsálfu og rúmlega það í ægileg vandræði.
Okkur er tíðrætt um litla Ísland (Norðmenn tala alltaf um litla Noreg líka og eru þeir þó heldur fleiri en við) – fámennið, höfðatöluna og metin öll sem hún færir okkur – og víst er um að engin þjóð svo fámenn hefur átt fulltrúa á palli í hópíþrótt og það er í sjálfu sér fréttaefni – jafnt í Ástralíu sem Bandaríkjunum. Það er líka ástæðan fyrir því að allir vilja lenda á móti okkur í riðlakeppninni og úrslitunum – við erum jú bara Ísland. Erfitt að bera mikla virðingu fyrirfram fyrir svo litlu ör-ríki.
Dorrit blessunin sem hefur skorað ekki færri stig en allt liðið til saman hjá íslensku þjóðinni var orðin svolítið þreytt á þessu tali og vill að við förum að líta á okkur með öðrum gleraugum en þeim að vera svo lítil að allur árangur sé hreint undraverður. Við eigum að hugsa stórt. – Enda þó við séum ekki stærsta þjóð í heim þá getum vel verið sú stórasta og verið auðmjúk, æðrulaus og þakklát um leið. Hættum að hugsa neikvætt – bípum það allt saman.
Bípin hans Ólafs falla nokkuð vel að hugaræfingum mínum þessa dagana. lífa í núinu, velja, sjá fyrir sér markmiðin – annars gerist ekki neitt. Trúa á eigin mátt, samferðarmannanna og um leið treysta á æðri mátt sem við finnum í hverju einu sem okkur þykir best henta. Gott viðtal við Rope Yoga manninn í Mogganum í dag – man aldrei hvað maðurinn heitir en ég er alltaf að rekast á hann við og við á ferð minni í fjölmiðlaheimum og ég bara veit að það sem hann segir – er eitthvað sem ég á að tileinka mér.
Og Morfeusinn hans Óla er úr Matrix – myndunum en ekki goðafræðinni. Morfeus sá ræður hvort hann er í raunveruleikanum eða í sýndarheimi einhverjum. Sigh skil ekkert í þessu – er ekki mikil Matrix pæja satt að segja, frekar en Hringadróttinsgella eða Harry Potter aðdáandi. Er ekki mikið fyrir ævintýrin þau.
Ég er komin í vinnuna og er með nokkurn lista af verkefnum sem þarf að sinna enda heil kennsluvika framundan og ég veit ekki hvernig morgundagurinn verður – að minnsta kosti tókst mér að gera ekki nokkurn skapaðan hlut í allan gærdag – eftir leik. Réð ekki við meira þann daginn, vildi bara horfa á klippur úr leikjunum, lesa erlendar og innlendar síður um handboltann og velta mér upp úr þessu endalaust en var svo orðin of syfjuð til að ná að horfa á leikinn aftur.
Jamm – best að fara og verða svolítið gáfuleg og komast í samband við hina akademísku Ingveldi – og hugsa svo svolítið um mína eigin stundatöflu í leiðinni!
Ég teiknaði sjálfsmynd af mér í gær- ég var kraftalega vaxin klædd í sundbol ;-). Framtíðarsýnin komin á hreint. Nú er bara að sjá það fyrir sér – eins og gullið!