Inga flækjufótur

Jæja mikið hugsað og velt sér upp úr sjálsvorkunn – hreinlega marenerað mig í henni. Nú þarf að fara að skipta út verkfæri – hamarinn sem ég hef notað til þess að byggja húsið mitt dugir ekki lengur og spurning um að finna sér kannski skrúfjárn eða jafnvel sög….

Smá vandræði í heimilislífinu, sem ég er algjörlega að reyna að vera ekki mjög meðvirk vegna – í eða hvernig sem maður orðar það. MJÖG ERFITT

En í dag fór ég á hjólinu í útréttingar. Hjólaði í ,,miðbænum“ og allt. þvers og kruss og hingað og þangað um allan bæ – og svo í sund og synti smávegis og svo aftur að hjóla svoldið. Svo var nú eldað og hvílt sig dálítið og að lokum fórum við Páll í það að slá sem er afskaplega sjaldgæft að gerist hér en skal nú gert vikulega. Mér líður miklu betur eftir að það var gert. Þetta var ekki nokkur hemja orðið.

Á morgun er það svo fundur í bænum, og 2 júlí fer ég í alls konar litun á ýmsum hárum á kolli mínum – mikið hlakka ég til að fá augabrúnir. Svo þarf ég að slá svolítið með orfinu – það hefur nú mjakast smá vegis í garðinum með ýmis beð og gaman væri nú að klára þetta – eða svona gera þetta sæmilegt.

En nóg í bili – Inga pinga pikkaló

Sumarfrí hvað segi ég nú bara

Maður er bara svo upptekinn í þessu sumarfríi að þetta er eins og harðasta vinna. Vinna smá fyrir kvenfélagið, vinna smá fyrir gogg, hreyfa sig, tjalda tjaldvagni, taka saman tjaldvagn, vesenast hægri vinstri. Þetta er ægilegt álag allt saman.

Ég fór í gær og tjaldaði vagninum og fortjaldinu við Þingborg en þar er föðurleggurinn hans Páls með ættarmót um helgina. Það gekk bara ljómandi vel hjá mér að tjalda einni og heldur betur en í fyrra þannig að maður verður sterkari ár frá ári – surprise ;-). Svo er nú annað – það er eins og að vera með smákrakka með ofvirkni og athyglisbrest og gott ef ekki svolitla einhverju líka að vera með hann Bjart í útilegu. Meira vesenið á þessum hundi. Hann er ekkert venjulegur ég meina það.

Hann slítur vírkeðjur sem eru sérstaklega búnar til fyrir hunda og eiga að halda þeim en nei hann bara kubbar þær í sundur þegar hann sér kött. Hann krafsar af sér múl sem á ekki að vera hægt, hann plokkar sig úr belti sem er svo margsett utan um hann, undir framlappir, upp á bak og fyrir framan framlappir – en nei nei úr þessu getur hann losað sig bara ef hann einbeitir sér að því. Það var keypt svo fínt búr handa honum sem á að halda hverju sem er innan dyra en minn bara braut í því rimlana – spennir það upp og fer úr því þegar og þá honum sýnist best henta. O svo horfir hann bara á mann með fallegustu hundaaugum í heimi og skilur ekkert í því að veröldin skulu ekki bara umbera allt sem frá honum kemur. Ef ég man rétt þá var eitthvað smá einfaldara að ala hana Trítlu mína upp þó hún hafi verið föst á sínu blessunin.

En jæja nú þarf ég að einbeita mér að því að koma mér í styrk – fór bara á mánudaginn. Lét þrif á kvenfélagsbústaðnum duga sem kaloríurspreðsla á miðvikudag – ætlaði að bæta mér það upp í gær en fann mig þá í því að tjalda vagninum og samkvæmt mælingum í fyrra þá jafngildir tjöldun á vagninum og fortjaldinu ein alveg góðri Styrkferð. En ég ætla endilega að fara í dag – kortið mitt er að renna út – kannski kaupi ég mér 10 skipta kort en ramminn sem heldur utanum mann við að fara 3sinnum í styrk í viku er góður. Stýrandi.

Að kyngja stoltinu

Jæja þá er hún Inga búin að fara upp á Mosfellí Grímsnesi! Það held ég að megi kallast annað fellið á þessu sumri ;-). Mosfell er um 270 metra hátt – og 210 metrum hærra en Apavatn.

Þá sem sagt labbaði ég – upp Bótarskarð.

Af vef Stofnunar Árna Magnússonar um orðið bót:

Bót
Orðið virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt (Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989). Í Færeyjum virðist örnefnið Bót vera haft í merkingunni ‘bugur, vik í landslagi’. Hérlendis er orðið bót víða til í örnefnum í merkingunni:1) ‘hvilft, hvammur, dalbotn’Á Austurlandi, Suðurlandi og Norðurlandi hefur bót haft þessa merkingu og þá uppi í landi. Bærinn Bót er til í Hróarstungu í N-Múl. Bótarfoss er í Geithellnaá í S-Múl. en nafnið gaf Þorvaldur Thoroddsen 1882. Í Árbók Ferðafélagsins 2002, Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar, eftir Hjörleif Guttormsson, eru mörg dæmi um Bótar-örnefni. Á Suðurlandi getur orðið bót merkt einhvers konar ‘krók’, t.d. við landamerki, “í Bótinni”. En það getur líka merkt þar ‘moldarsvæði þar sem grasrótin er burtu’ (Orðabók Háskólans = OH), ‘stakur gróðurblettur’ (Íslensk orðabók). Upp af bænum Mosfelli í Grímsnesi í Árnessýslu er Bótarskarð sem nefnt er í Landnámu og kennt við Bót, ambátt Ketilbjarnar gamla. Líklegt er að það sé sams konar bót í landslagi og fyrir austan og víðar (Landnámabók. Íslensk fornrit I, 386). Í Húnavatnssýslu er Bótarfell sunnanvert við Vatnsdalinn (Sýslu- og sóknalýsingar, Reykjavík 1950, 73). Í Suður-Þingeyjarsýslu er bót í tveimur bæjanöfnum, Heiðarbót og Árbót. Heiðarbót stendur í hvilft upp í heiðina, en Árbót er í fallegum hvammi upp frá Laxá í Laxárdal (OH).

Þetta er sem sagt ekki sérlega hátt fell en mér finnst það nú bara samt afrek í sjálfu sér að hafa paufast þarna upp, með öll kílóin mín og lofthræðsluna! Kærar þakkir til stelpnanna sem buðu mér með og töldu að ég kæmist þetta ;-).

Ég er nú ekki viss um að ég komist upp á mörg önnur fell, enda Bótarskarð þægileg gönguleið þannig lagað og fellið hans Mosa ekki sérlega hátt…

Jafn sætur og sigurinn er að hafa gengið upp, þá er samt leiðinlegt að horfast í augu við ástandið á minni. Það er ekki gaman að vera alltaf síðust, miklu hægari en jafnaldrar sínir og heldur slakari en fólk á sjötugs og áttræðisaldrei – og þurfa svo jafnvel að styðja sig við mann og annan niður mesta brattann, lofthrædd og vitlaus…

Það er kannski álíka skemmtilegt og láta glápa á sig í sundi. Maður drýfur sig því að gefur manni ánægju þegar upp er staðið þó niðurlægingin sé alltaf einhver í hvert einnasta sinn. Svo er líka hægt að horfast í augu við vandann og bregðast við honum – og gera gott úr honum þangað til. En amk er ég alsæl með þetta þó treginn sé nokkur… Ég er bara fín í fótunum og það þó ég hafi hjólað býsn í dag og farið í Styrk, eldað og tekið til ;-).

Nú er bara að finna næstu mishæð í landslaginu sem ég þori að klöngrast upp á. Gott væri að vera búin að missa einhver kíló – þetta snýst hugsa ég um massa að einhverju leyti því ég held ég sé bara komin í þokkalegt form þannig lagað – hjartað tók spretti en púlsinn var fljótur niður ef ég dokaði við.

En það þarf að kyngja ákveðnu stolti það er klárt. Raunveruleikinn er strembinn á köflum en vonandi er ég að takast á við hann.

Ykkar Inga fjallageit (hólageit)

p.s. af einhverjum undarlegum ástæðum tók ég ekki mynd af sjálfri mér né lét aðra gera það svo þið bara fáið að njóta samferðamanna minna og fjallsins sjálfs.

Sætastur


Góðan daginn. Hér sjáið þið Bjart hinn fagra ;-). Hann er að bíða eftir að fá send dót í háloftunum – væntir þess að það gerist innan tíðar enda allt látið eftir honum ;-). Svo sjáið þið fallega rauða litinn á húsinu mínu híhí.

Ég fór í fínan hjólatúr áðan sem upphitun fyrir Styrkferð en hann reyndist svo langur og fínn að hann dugði sem brennsla dagsins í Styrk. Ég fór síðan í Styrk og gerði smá fótaæfingar. Fínt og flott barasta.

Í hjólatúrnum fór ég í Bónus að kaupa mér Íþróttaþrennu sem ég veit nú svo sem ekkert hvort virkar eða ekki – en ætla ekki að afskrifa hana strax. Amk er omega 3 í henni og það verður aldrei minna en það. Svo keypti ég mér vatn og banana – hvursu heilsusamleg getur ein bónusferð verið? Ekki mikið meira en þetta I tell you.

Það er svolítið leiðinlegt hvað er alltaf gott veður – þá á maður að vera duglegur og gera eitthvað voða merkilegt í garðinum til dæmis…… en ég nenni því sem sagt ekki. Er svo upptekin af því að gera eitthvað annað.

Átakið – Inga borðar ekki mat gengur ekki sérlega vel og þó – fínt bara í dag nema ég er rosalega svöng – þá er að drekka vatn út í eitt…

Nú í kvöld er það síðan Mosfell og á morgun á morgun fer ég á OA fund í bænum.

Allt að gerast bara ekki satt ;-).

Garðurinn her kommer jeg

Ég er að hugsa um að verða dönskupæja! Kannski Ragnheiður mín fari í danskan lýðháskóla – það væri nú gaman. Grundvig og pabbi og það allt saman…. Við sjáum hvað verður með það.
Rannveig frænka mín var nú að kaupa sér bónda-gard í Danmörku svo maður lítur kannski til þeirra frænkna sem eru líkari en margar systur.
En sem sagt – stórir hlutir hafa gerst í dag. Ingveldur og Bjartur fóru út í garð að vinna. Það eru svona ýmiskonar samviskubit – kvíði eða einhver óánægja sem veldur því að ég bara geri ekki hluti sem veig ég ætti að gera… T.d. að vinna í garðinum – sem er mjög spes því mér finnst bara hreinlega mjög gaman að stússast þar. Tala nú ekki um núna þegar maður kannski hefur meira þrek til þess en oft áður. Það gengur ekki að láta garðinn hennar mömmu og hans Ása fara svona… Fuss og svei.
en þetta er sem sagt allt að fara á betri veg og Bjarti leiðist þetta ekki neitt. Hann er heldur betri hérna suðvestur megin – þá sér hann ekki alveg jafn marga ketti híhí…
En sem sagt – ætla að halda áfram í garðinum, ná í mold í kassann og moka yfir grávíðinn sem ég klippti niður í ekki neitt og var að kafna í fíflum, grasi og einhverju drasli sem snjómoksturstæki moka yfir hann. En fyrst er það að fá sér rababarashake, vatn og svo meira vatn. Ekki má heldur gleyma því að horfa á Formúluna svo ekki sé nú minnst á EM – holy moly hvað ég skemmti mér vel við það.

Inga litla lipurtá

…ekki svo lipur á hjólum þó. Datt í fyrradag og ég er alveg að drepast í tönninni þar sem stýrið lenti… Held ég verði að líta á þetta ef eitthvað hefur nú skemmst. Ég er svo lappastutt – og með þykkan rass að ég næ ekki niður á jörð nema með meiriháttar tilfæringum svo ég er svolítið stirðbusaleg en það stoppar mig nú ekki hætishót. Hjóla hér um allan bæ og hef bara gaman að.

Gott sem þeir sögðu íslensku olíufurstarnir – það er ágætt að spara með því að dæla sjálfur eða skipta við orkuna eða Atlantsolíu – en mesti sparnaðurinn er að spara lítrann – 170 krónur.

Voða gott að vera hjólapæja híhí – meðan maður dettur ekki….

Annars er mín nokkuð einbeitt í vatnskúrnum. Það eru lausakíló farin í þessari viku og ég er aaaaaaalveg að verða komin niður í lægstu töluna mína! Það er því um að gera að standa sig vel um helgina og ekki bæta þeim á sig á ný. Uss nei nei.

Ég gerði góða ferð í Toppsport í dag oh yeah tvisvar þessa vikuna – þrisvar í þeirri næstu og ekkert múður með það.

Það er spurning hvort maður ætti að fara í útilegu…

Það er amk veðrið í það

Landnemar

Nú held ég að við verðum bara að læra umgengnisreglurnar við ísbirnina sem hann Sigmundur Ernir var að kenna okkur í gær. Pólskir ferðamenn hafa fundið bjarnaspor – og bangsi er bara kannski kominn upp á Langjökul Þeir hljóta að fara að teljast nýir íbúar hér ef þeir eru orðnir þrír – þeir gætu farið að fjölga sér ef við drepum þá ekki alla jafn óðum! Þeir hljóta að fara að eiga sinn rétt hér!
Annars er ég góð – með harðsperrur eftir Styrk, ekkert nammi í dag, shake í hádeginu en fullmikið etið kvöldmat en annars bara góð!
Ekki halda með neinu liði sem ég held með á Em eða í nokkru öðru – Svo sorry Portúgal og Holland – þetta var búið áður en þetta byrjaði. Allt mér að kenna hér upp á ísakaldi landi ísbjarna. Ég hélt með Hollandi hér um árið en svo um 1974 eða hér um bil – hviss bang töpuðu þeir öllu (þá hafði þetta frést út – að ég héldi með þeim)… og gott ef þeir hafa ekki tapað æ síðan – þó held ég nú að þeir hafi náð árangri síðar…. bíðið ég ætla að gá!
Júbb… og enn verður það þannig vænti ég…. Sigh
En ég er sko að reyna að halda ekki með neinum…. Bara njóta þess að horfa á frábæra leiki. Og svo er ekki hægt annað en halda með Tyrkjum á morgun eftir síðasta leik hjá þeim. Sigh