Ys og þys út af engu

Það er nú svei mér mikið að gera hjá minni. En nú fer þessu nú að verða lokið. Það eru alls konar ferðir, uppákomur og stúss í skólanum og við þetta bætist að maður er á kafi í námsmati.

En það er nánast alveg að verða búið.

Um helgina þarf ég að læra á hvernig maður kemur vitinu fyrir jvc digital myndavél sem vill ekki hafa filana sína einfalda og fyrir microsoft – en skítt með það 😉

Svo þarf ég að drekka í mig Eurovison – ég er svo FEGIN að við erum komin áfram að ég ætla ekki að segja ykkur það!

Ég fór í rosalegasta hjólreiðatúr sem ég hef farið í á ævinni held ég bara – það er sem sagt ekki alveg flatt Grímsnesið og það er nánast brekka frá Ormsstöðum að Borg – bara svo þið vitið það. Í 2 tíma var meðalpúls 130 – og það var með nokkrum stoppum og einni kaffipásu þannig að þið sjáið fyrir ykkur hvað konan hefur rembst – enda er ég farin í heita pottinn að dást að því hve ég sé dugleg og hreint ekki af baki dottin því ég er bara þrælgóð í löppunum og skrokknum og GET ÞETTA BARA VEL!

En hællinn er að hrekkja mig og líklega hásinin.

Blessi ykkur – Inga

Oh yeah ohyeah – farðu að vinna og hættu þessu gaufi!

…ég hef ýmislegt að gera skal ég segja ykkur. Er meira að segja að hugsa um að gera það…

þegar ég nenni…

ef til vill.

En mín hjólaði ógó mikið í gær – því henni tókst að bíða af sér styrkferðina 😉 – það kom sko svoldið uppá! Satt! Ef maður hjólar í 50 mínútur þá er maður búinn að hjóla um ALLT Selfoss og nærsveitir. Þannig að næst þegar ég þarf að brenna miklu þá bara fer ég í langan túr eitthvað út í buskann – það er bara svolítið takmarkandi þegar maður þorir ekki yfir brúnna, þorir ekki Eyrabakkaveginn vegna umferðar og rokið í Hraungerðishreppnum er nú ekki skemmtilegt. En ég er svo sem ekki búin að fá leið á Votmúlahringnum enn. Hann stendur alltaf fyrir sínu ;-).

Lestur, hvíld og grænmeti

…já og eitt dönskupróf!

Það er náttúrulega með algjörum ólíkindum að fólki skuli yfirleitt detta það í hug að láta mig kenna dönsku. En vonandi hafa krakkarnir lært eitthvað eins og ég… Það kemur svo vonandi betri kennari næsta vetur. Úff. En mín er sem sagt að búa til dönskupróf. Þetta er náttúrulega ekki normalt. En skítt með það.

Hvað svo sem má segja um bloggara þennan sem hér ritar þá hefur hann borðað grænmeti þessa helgi – að vísu með 200 kal af ídýfu, eitthvað af sósu og salti en það hefur áreiðanlega farið 1500 gr af grænmeti niður minn háls og ofaní maga þessa helgina. Enda var það markmiðið – sama hversu vitleysisleg ég verð í mataræði, sykuráti og vitleysu þá SKAL ég éta grænmetii 600 gr á dag hið minnsta. Mér er það engin vorkunn.

ÉG var að lesa Óreiðu á striga – sigh hvað þetta er góð bók. Ég hlakka mjög mikið til að lesa Karitas aftur og svo aftur Óreiðuna. Jamm þetta eru held ég bara næstum bestu bækur sem ég hef lesið.

Ég hvíldi mig svo mikið í gær að ég varð held ég hálf lasin af því! Og svo horfði ég á einhverja glæpó mynd á RUV í gærkveldi og nótt – Eiturlyf held ég hún hafi heitið – OMG hún var rosaleg. Úff…

Annars held ég að mér hafi kannski ekki veitt af hvíldinni fyrst ég var svona góð í henni… Svoldið þreytt í fótunum eftir firna merkilega sportiðdkun liðinnar viku ;-). Styrk (bara einu sinni samt – verður tvisvar í næstu viku – það er klárt – hefur nú reyndar oftar verið þannig en á hinn veginn síðan ég kom frá usa). Göngur fimm sinnum í vikunni, hjólreiðar – víhíkomin með hjólið mitt – geðveikt. Ég finn svo sem alveg fyrir því að hafa hjólað enda þarf ég að hafa sem mestu mótspyrnu í gírunum og hjóla sem allra mest á móti vindi – það er ekkert hægt að taka þetta neitt rólega – nei það verður að kremja alla orku útúr kálf og lærvöðvum. Annað er náttúrulega bara prump- Ingveldur mín prófaðu að fara stundum aðeins léttari leið.

Eftir því sem stressið eykst og vinnuálagið þá verður hálsinn kýttari, herðarnar harðari og hausverkunn gerir vart við sig. Ibufenið tekið upp…

Enn sleppur þetta nú til – ekki orðin nógu slæm til að eignast sjúkraþjálfara upp á nýtt.

Mikið sakna ég þess nú samt að eiga ekki minn eiginn sjúkraþjálfara. Svoldið leiðinlegt að vera orðin svona hraust upp á það að gera ;-).

Annars var ég að hugsa um það í sundlauginni áðan þar sem ég færði mig á milli heitu pottanna að ég væri nú bara næstum alveg óhölt – kannski að hvíldin hafi raunverulega skipt máli ;-). Ja það væri það – enda eins gott að vera að í standi, hjólatúr, fjallganga og fótboltaleikur framunan í skólanum.

Ég held ég láti nú fjallgönguna vera… verð að fara svoleiðis í góðu tómi bara!

Ragnheiður mín og Jósep komu í heimsókn áðan – Palli eldaði ótrúlega fínan mat fyrir þau og okkur Aðalstein og við drukkum meira að segja malt og appelsín – og þá er nú hátíð í bæ! Litla grjónið mitt ósköp sem ég sakna hennar, hún svona langt í burtu alltaf hreint.

Rökræður ruglustampsins

Ég veit nú ekki hvort þið kannist við það – en stundum nær maður sér alveg á strik í því að hugsa gáfulega og selja sjálfum sér þessar brilliant hugmyndir. En maður veit samt einhvers staðar að eitthvað er bogið við málatilbúnaðinn ;-). Ég ætla að deila með ykkur pælingunum mínum um Styrk en eins og þið vitið þá á ég svoldið bágt vegna breytinga í Toppsport – i. Engir að þjálfa með mér af skjólstæðingum sjúkraþjálfaranna – enginn til að brosa til eða bjóða góðan daginn. Ja nema hún Sigrún á Bíldsfelli hefur aðeins litið við um svipað leiti og ég – guði sé lof fyrir hana.

En sem sagt eiginlega alltaf alveg alein nema kannski með sveittum körlum sem grýta lyftingagræjum í gólfið með miklu skralli og tilheyrandi karlabauli. Stundum kemst ég ekki einu sinni í lóðin fyrir karlastóði – já og svo er eiginlega ekki hægt að ganga á milli tækjanna því einhverjir lyftingabekkir og hvað þetta heitir þetta lóðadót færist alltaf nær og nær tækjunum ,,mínum“ Þetta er sem sagt orðin svolítil karlastöð. Sigh

Nú jæja við þetta allt saman bætist að ég svo sem nenni ekkert sérstaklega að lyfta. Finnst ég aum og léleg, og fæ ekki mikið út úr því.

Ég ætti kannski bara að hvíla mig svolítið á því – kannski bara orðin þreytt á því. hef nú samt ekki lyft minna en ég geri núna síðustu tvö árin – stundum fer ég ekki nema einu sinni í viku í styrk allt í einu og skyndilega því ég hef svo óskaplega mikið að gera. Það er einhvern vegin nauðveldara að sannfæra mig um að ég hafi ekki tíma til að fara núna en fyrrum…

Það er líka bara gott að labba 5 sinnum í viku og hjóla svolítið – það þjálfar nú aldeilis fótavöðvana – og svo fer ég nú í golf og þá fær nú efri hluti líkamans aldeilis æfinguna…. Það væri bara fínt að byrja að lyft í haust – ekkert gaman að hanga inni í stöðinni í sumar, maður er líka svo mikið á ferðalögum og allt hvað eina. það er nú svo sem ekki alveg víst hvað verður um morgungöngurnar þegar ég fer í sumarfrí og ekki er ég nú byrjuð í golfinu – og ekki þjálfar hjólið efri partinn. Í raun veitir mér ekkert af því áð styrkja mig og hafa einhverja vöðvadruslur innan um alla þessa fljótandi fitu sem liggur utan á mér. Og víst gera þeir gagn við að halda mér uppi yfirleitt.

Á föstudaginn fór ég svo og mátaði þetta við svona ýmsa í vinnunni. Ekki get ég nú sagt að þessar ,,fínu“ hugmyndir mínar hafi slegið í gegn… Neibb. En ég var nú svoldið að hugsa um halda þessu til streitu og nenna alls ekki í Styrk (vitandi að hvergi annars staðar ætti ég þó að vera). Ég ákvað því að drepa tímann með því að líta til þeirra í Mætti. Huhummm Baldri fannst þetta sem sagt ekki sérlega góð hugmynd og nennti nú eiginlega ekkert að hlusta á rökin mín – enda frekar lek… tæp jafnvel.

Ég sem sagt verð að halda áfram í þessum Styrk…

Af fúsum og frjálsum vilja

Svoldið eitthvað mikið að gera

Minnislisti:

Námsmat

  • íslenska -eyðublað og yfirferð
  • félagslegmarkmið – gera
  • stærðfræði – yfirferð – matsblað
  • landafræði – eyðublað – mat
  • árshátíð – myndir, matsblað og mat
  • enska – próf – mat – eyðublað
  • danska – gátlisti – próf – eyðublað
  • heimilið – oh my god.
  • versla grænmeti og eta það
  • hreyfa mig eftir áætluninni …
  • hvar er golfsettið mitt?
  • skipuleggja vordagana
  • vera gáfuleg
  • ekki borða nammi heldur mat
  • vera eins og manneskja sem ætlar sér að léttast!!!!!

Baldur segir að ég gangi of mikið og hjóli of lítið. Ætla að prófa að halda áfram að ganga jafn mikið og ég geri og hjóla í viðbót…. Ég bara get ekki gert Bjarti það að fara ekki með hann í göngu á morgnana…´

Ég er nú líka miklu skárri í fótunum og fyrst ég skánaði þá getur þetta ekki verið slæmt sem ég er að gera…

Æ helst vildi ég bara komast í sumarfrí eða eitthvað. Og afhverju er ég inni en ekki úti í góðaveðrinu?

Góð spurning – farin heim og verð svo stressaðari og stressaðari og stressaðari með hverjum deginum sem líður vegna þess að ég er ekki nógu dugleg!

Ykkar Inga ruglustampur sem borðaði 2 súkkulaðimola og 2 sneiðar brúnköku núna áðan. Jamm góð bara

Sofa?

Ja það væri það. Núj er mikilvægt að hvíla sig vel og vandlega. Annir framundan. Ég er nú samt búin að búa til íslenskupróf. Ótrúlega ánægð með það ;-).

Var annars í vinnunni í dag að stússast í því að verkstýra námskrárvinnu – það var voða gaman. Gott að rifja það upp sem maður lærði í þeim áfanga. Mjög skemmtilegt. Var í gær að undirbúa það alveg á fullu.

Næsta vika er svo bara venjuleg vika að mestu – og um að gera að komast bara sem best frá þessu öllu og vinna sig skipulega niður úr verkefnabankanum. Og borða ekki mjög mikið.

Þarf að hringja í lækna á morgun og athuga með Reductil framhald – og hvort ég ætti e.t.v. að fara á stærri töflurnar….

Finn að áhrifin eru að minnka – rétt eins og gerðist í fyrrasumar og ég þarf að halda heilaþvottinum alveg við – borða er ekki dægrastytting – ég er ekki svöng…

En verst hvað ég læt eins og matur sé óþarfur og sælgæti dugi fínt. En er að vinna mig niður úr því 😉

Morgungöngur svínvirka og aumingja Bjartur er kominn með múl… það verður líklega það tæki sem brýtur hann – kannski að við náum að svínbeygja kvikindið 😉

Þessi Formúla er alveg…

vonlaus. Úrslitin eru aldrei eins og ég legg upp með í liðsstjóranum! Ferlegt. Hrmpf!!!!

Fór á ball í gær sem eru nú nokkurt afrek í sjálfu sér. Það var ágætt en ekki nógu mikið af fólki sem ég þekkti. En ég dansaði og skemmti mér bara ágætlega og hvítu buxurnar mínar eru skoho bara assgoti miklu víðari en hér í eina tíð! Gaman að því.

Áfengið veldur þó því líklega að léttingur verður ekki alveg eins og hann ætti að vera en það verður bara að taka þetta step by step. Taka einn dag í einu varðandi sælgætið – ekkert nammi í gær. Ekkert nammi á föstudaginn. TVEIR dagar 😉

Híhí

Vinna í dag í námskrársinnleggi fyrir morgundaginn. Svo er stutt vika næst því krakkarnir fara alltaf heim á hádegi – eða er það þarnæsta vika sem er svoleiðis. Hmmm man það ekki.

Ekki alveg að hitta á þa’

Veit ekki alveg afhverju

– en svona getur þetta verið stundum.

Mig hefði nú langað á ball í kvöld – það er svona sveitaballaupprifjunarrómatík í Hvíta húsinu en ég hugsa að ég fari ekki – langar líklega ekki nógu mikið. Var nú engin smá sveitaballapía samt hér í eina tíð. Það var nú meiri sælan. Sigh

Það var aldrei að maður gat skemmt sér. Hálft fjörið var að undirbúa sig, oftast var farið með sætaferðum, stundum gat maður reddað sér fari – það var nú ekki oft held ég. Og næstum alltaf var óhuggulega gaman – ég dugði sjálfri mér svo fullkomlega sem skemmtun að ég minnist þess ekki einu sinni að hafa átt fasta félaga sem fóru með mér á böllin… Það fór svoldið eftir árum líklega.

Stundum var ægilegt ástardrama, stundum var maður upptekin af því hve glataður maður var – unglingsárin ekki alveg auðveld. ;-). Og svo kom Inghóll inn og ekki var nú minna djammað þar híhí.

En líklega verður lítið um djamm þessa helgina. Ég þarf að undirbúa mánudaginn en ég óttast að ég hafi komið samstarfsfólki mínu í þann bobba að vinna þann dag aukalega vegna námsmats og námsskrárgerðar hummmm… Verð eiginlega sjálfsvirðingarminnar vegna að koma með eitthvað innlegg og reyna að leggja til eitthvað vinnufyrirkomulag. Merkilega hvað námsmat og námskrárvinna loðir við mig eins og mér þótti og þykir þetta erfitt og snúið – já og stundum bara næstum leiðinlegt. En nei ekki leiðinlegt lengur – en hefði ég átt að veðja á eitthvað sem ég myndi aldrei vilja læra meira um eftir öll mín ár í khí þá var það námsmat óg námskrár. En here I am. Já og var ég búin að segja ykkur að ég komst inn í KHÍ en það er ekki komið út úr þróunarverkefnisbeiðninni enn þá.

Ég fór í Styrk í gær og nennti ekki að hjóla því ég renn einhvern veginn alltaf til á hnakknum og tómt vesen – fór því á göngubrettið og labbaði þar á feikna hraða og halla 😉 í 24 mínútur og svo tók ég æfingar fyrir fætur og maga. ÆGILEGA SKEMMTILEGT – nennti ekki en fór en merkilegt hvað ég á erfitt með að drífa mig og vera ekki að hugsa um hvort ég nenni eða ekki. Maður náttúrulega bara fer í Styrk á mánudögum og föstudögum. Líklega fer ég samt á þriðjudaginn í næstu viku – vegna starfsdagsins á mánudaginn. Ég hafði ekkert lést en vinn að því um helgina að borða grænmeti og þá veit ég að það kemur ný og lægri tala á vigtina á mánudaginn – ég bara finn það á kroppnum að hann er að minnka.

Labba enn alla virka morgna og hef gaman af – það skilar sér fínt og þó fæturnir séu ekki góðir og sá hægri mun verri undir hælnum og í ristinni þá sleppur þetta alveg í ekki lengri tíma.

Þetta er allt saman alveg ágætt bara.

Föstudagur enn á ný

Jæja halló Inga sælgætisgrís hérna. Fyndið með þetta reductil. Matur er mér orðinn algjörlega óþarfur en sælgæti er mér algjörlega nauðsynlegt flesta daga og helst sem mest. Þá kemur sér nú vel hvað ég er stabíl kona 😉 – ah eða ekki. En það er sem sagt á stefnuskránni að láta það vera. Það er líka á stefnuskránni að verða ekki vitlaus yfir ósigrunum heldur nýta þá í baráttunni til sigurs. Jamm það er nú það sem ég er að paufast við þessa dagana.

Það er vigt í dag og Styrkur eða Toppsport eða hvað sem þetta heitir.