Ég veit nú ekki hvort þið kannist við það – en stundum nær maður sér alveg á strik í því að hugsa gáfulega og selja sjálfum sér þessar brilliant hugmyndir. En maður veit samt einhvers staðar að eitthvað er bogið við málatilbúnaðinn ;-). Ég ætla að deila með ykkur pælingunum mínum um Styrk en eins og þið vitið þá á ég svoldið bágt vegna breytinga í Toppsport – i. Engir að þjálfa með mér af skjólstæðingum sjúkraþjálfaranna – enginn til að brosa til eða bjóða góðan daginn. Ja nema hún Sigrún á Bíldsfelli hefur aðeins litið við um svipað leiti og ég – guði sé lof fyrir hana.
En sem sagt eiginlega alltaf alveg alein nema kannski með sveittum körlum sem grýta lyftingagræjum í gólfið með miklu skralli og tilheyrandi karlabauli. Stundum kemst ég ekki einu sinni í lóðin fyrir karlastóði – já og svo er eiginlega ekki hægt að ganga á milli tækjanna því einhverjir lyftingabekkir og hvað þetta heitir þetta lóðadót færist alltaf nær og nær tækjunum ,,mínum“ Þetta er sem sagt orðin svolítil karlastöð. Sigh
Nú jæja við þetta allt saman bætist að ég svo sem nenni ekkert sérstaklega að lyfta. Finnst ég aum og léleg, og fæ ekki mikið út úr því.
Ég ætti kannski bara að hvíla mig svolítið á því – kannski bara orðin þreytt á því. hef nú samt ekki lyft minna en ég geri núna síðustu tvö árin – stundum fer ég ekki nema einu sinni í viku í styrk allt í einu og skyndilega því ég hef svo óskaplega mikið að gera. Það er einhvern vegin nauðveldara að sannfæra mig um að ég hafi ekki tíma til að fara núna en fyrrum…
Það er líka bara gott að labba 5 sinnum í viku og hjóla svolítið – það þjálfar nú aldeilis fótavöðvana – og svo fer ég nú í golf og þá fær nú efri hluti líkamans aldeilis æfinguna…. Það væri bara fínt að byrja að lyft í haust – ekkert gaman að hanga inni í stöðinni í sumar, maður er líka svo mikið á ferðalögum og allt hvað eina. það er nú svo sem ekki alveg víst hvað verður um morgungöngurnar þegar ég fer í sumarfrí og ekki er ég nú byrjuð í golfinu – og ekki þjálfar hjólið efri partinn. Í raun veitir mér ekkert af því áð styrkja mig og hafa einhverja vöðvadruslur innan um alla þessa fljótandi fitu sem liggur utan á mér. Og víst gera þeir gagn við að halda mér uppi yfirleitt.
Á föstudaginn fór ég svo og mátaði þetta við svona ýmsa í vinnunni. Ekki get ég nú sagt að þessar ,,fínu“ hugmyndir mínar hafi slegið í gegn… Neibb. En ég var nú svoldið að hugsa um halda þessu til streitu og nenna alls ekki í Styrk (vitandi að hvergi annars staðar ætti ég þó að vera). Ég ákvað því að drepa tímann með því að líta til þeirra í Mætti. Huhummm Baldri fannst þetta sem sagt ekki sérlega góð hugmynd og nennti nú eiginlega ekkert að hlusta á rökin mín – enda frekar lek… tæp jafnvel.
Ég sem sagt verð að halda áfram í þessum Styrk…
Af fúsum og frjálsum vilja