24 stundir í gær

er bara alveg stútfullt af góðum greinum. Ein sú besta þá og nú var grein Illuga um brjálaða hagræðinginn frá Yale. Ég get svarið að ég kannaðist við eitt og annað og byrjunin var algjör snilld:

,,Þegar ég heyrði í kvöldfréttum sjónvarpsins á fimmtudaginn viðtal við Gylfa Magnússon dósent í Hagfræði við Háskóla Íslands, þá hnykkti mér illa við. Því hvernig stóð á því að Háskóli Íslands hafði ráðið í svo virðulegt embætti þjóðhættulegan óeirðasegg? Var maðurinn kannski kommúnisti? Íslamskur hryðjuverkamaður? Náttuverndarsinni á vegum Saving Icelands? Eða jafnvel útsendari Baugsveldisins?

Hann hlaut að minnsta kosti að vera eitthvað skrítinn, því boðskapur Gylfa var hvorki meira né minna en sá að peningamálastjórn Seðlabanka Íslands væri ónýt.“

Svona einhvern veginn byrjaði hún. – Og boy do I know the feeling. Það er búið að kenna manni að halda að menn sem tali gegn Davíð og hans kumpánum séu bara hreinlega klikkaður og beri að loka inni eða amk forða því að þeir tali framar í fjölmiðla.

Það er sama hvort þeir eru frá Yale eða annars staðar – þeir eru ansar allir saman. Og þessi vill fá nýja menn í Seðlabankastjórn – skipta þeim Hannesi Hólmsteini (hvernig á hann nú þá að borga allar skuldirnar sínar?) og Halldóri Blöndal (jú jú hann er í stjórn Seðlabankans!!!) svo ekki sé minnst á einn bankastjórann sjálfa – Davíð Oddson sem hefur hærri laun en forsetinn sem slíkur að viðbættum lífeyrinum sem hann skammtaði sér sem ráðherra. Allt þetta fer Illugi í gegnum og gerir það listavel. Og Gylfi vill innlenda og erlenda menn sem hafa aflað sér trausts með störfum sínum – ja hérna hér. Það væri það að einhver með peningavit settist í Seðlabankann. Mér sýnist amk að Hannes blessaður eigi í nægum vandamálum með sín fjármál þó hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af þjóðarskútunni líka.

Annars var lika viðtal við Guðmund Ólafsson hagfræðing sem kenndi mér stærðfræði í ML. Sá vildi að ég færi strax og samstundis að vinna í fiski því greind mín leyfði ekki önnur eða flóknari viðfangsefni. Ég sá þegar að maðurinn hafði ótrúlega lítið innsæi og vantaði verulega skilning á nemendum sínum – fannst hann fyndinn og kostulegur, fígúra. Eftir þetta hef ég haft gaman af að fylgjast með honum og heyra hvað hann segir. Í sumu hefur hann meira innsæi en á nemendum sínum og rétt eins og mér fannst þessi starfsráðgjöf hans vera fyndin og úr kortinu þá er svo um annað líka hjá honum. En það var svo sem rétt hjá honum að ég sýndi ekki neina snilldartakta í stærðfræðinni fyrr en ég uppgötvaði að vinkona mín lét mig ekki hafa glósurnar úr fyrsta formúlutímanum og ég hafði aldrei um formúlur, sannanir eða þetta merkilega blað heyrt fyrr en Ásmundur bað um að fá að sjá það á einu námskeiðinu hjá honum. Það var allt annað líf að hafa þessar formúlur fyrir framan sig – ég skyldi aldrei hvernig maðurinn gat fengið þessar talnarunur á töflunni til að virka svona fínt fyrr en ég fékk þær, lærði að sanna þær aftur á bak og áfram. Já það var nú meiri sælan. Það var dagurinn sem ég bara lærði að elska Algebru. En það var nú ekki honum Guðmundi mínum að þakka. Hann skrifaði á töfluna með annarri og strokaði út með hinni og skrækti svo fiskvinnslusögur að okkur er við dirfðumst að spyrja.

Já ég kunni bara vel við hann Guðmund og kann enn.

Færðu inn athugasemd