Ef ekki væri fyrir Nizza stykki hálfétið og ókjörin öll af súkkulaðihjúpuðum vínberjum þurrkuðum þá væri ég í firna góðum gír. En ég hef enn þá von að ég sleppi nammideginum á föstudaginn og láti þetta gott heita þessa vikuna! Já og ég nákvæmlega núna þar sem sykurinn vellur út um öll vit og ógleðin ræður ríkjum finnst mér hreint ekki ótrúlegt að ég snerti sælgæti aldrei framar 😉
Nú jæja en konan er nú samt í fínum gír:
Ég er búin að ná af mér kílóunum tveimur sem ég bætti á mig í USA eða kannski frekar vikunni þar á eftir – og hef því lést um 2 kg á síðustu viku.
Ég fer í Styrk og viti menn ég kann svona ægilega vel við mig og finnst ég svo miklu grennri betri og stórkostlegri eftir hverja ferð. Þið sem sagt megið minna mig á að þetta er mér mikils virði og gerir mér gott.
En þar sem ég er í Styrk – og ég hef jú farið 4 sinnum á síðustu 7 dögum þá bara svitna ég og svitna. Ég veit nú ekki hvursu kunnug þið eruð mínum svitakirtlum en þeir eru amk ekki mjög virkir og ég fyllist þvílíku stolti ánægju og heilagleika yfir eigin ágæti þegar einn svitadropi nær að renna niður enni mitt og ofan í auga á hverri 2 tíma æfingu. En núna – já núna – núna er öldin önnur. Mín bara svitnar og svitnar og svitnar og svitnar og þarf að hafa með sér handklæði næst því vökvatapið er slíkt útum þessar litlu holur svitans.
Nú og hvað veldur?!?
Það væri þó ekki að skila sér morgunröltið? á hverjum virkum degi í 25 – 30 mínútur stollar konan eftir Ölfusá með hund og mann – já eða mann og hund misjafnlega langt á undan sér eða til hliðar við sig, skoðar endur og syngur hamingjuóð til vorsins.
Ja það væri það? Ég náði amk fínum árangri þegar ég labbaði þarna um árið – eitt haust og vor ef ég man rétt og annað hálft haust 😉 og vonandi verður það bara raunin núna. Ef þið viljið bæta lífsgæði ykkar og gleði um 100 stig þá skuluð þið fara út að labba í morgunsárið. Þvílík byrjun á deginum. Ég hef bara verið glöð síðan ég segi það satt. Morgunmatur á eftir og komin í vinnuna klukkan hálf átta albúin að gera eitthvað smá af viti ;-). Jummi jumm
Nú annað… Beinhimnubólga. Úff PÚFF. Þið skuluð nú ekki vanmeta þann fjanda! Ég er áreiðanlega með þennan þarna síðasta og nú skunda ég til læknis og athuga hvort ég sé nokkuð í hætti með að fá drep! Nei nei ég hef nú ekki neinar áhyggjur af því en ég sem sagt fékk mér legghlífar og svo var ég nú pínu að versna í gær eftir styrk og göngurnar allar og þá svaf mín í lopasokkum í nótt að auki (er frekar sexy fyrir og svartar legghlífar og hvítir lopasokkar skemma náttúrulega ekki fyrir!). Ég er bara góð í dag og er ekki sérlega hölt og að mestu laus við þann viðbjóðslega sársauka sem fylgdi þessu helv…
Svoldið montin sko – þetta einkennir keppnisfólk í íþróttum og sú sem fann þetta svona greinilega hjá mér er nuddari og mikil frjálsíþróttakona og kannaðist við lýsinguna hjá mér – ojá. Gott að eiga góða að þegar maður á eiginlega engan sjúkraþjálfara lengur.