Við áttum algjörlega stórkostlegan dag með fjölskyldunni okkar nýju í San Diego á fimmtudaginn. Hann var eiginlega alveg ólýsanlegur. Lengi vel var ég þess vegna að hugsa um að skrifa ekkert um hann. Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt um svona upplifun ég segi það satt.
En allt gekk vel og við öll vorum himinlifandi. Þetta var sérlega elskulegt fólk og andrúmsloftið afslappað og gott. Veitingarnar góðar og og og og og …. ég held við höfum efni í bók sveí mér þá. Þannig lagað 😉
Hefti sem við Steini gerðum – myndrænt ættartré auk hins venjulega gerði mikla lukku og við skildum nokkur eintök eftir hjá Magnuson ættinni.
Í gær brunuðum við gegnum eyðimörkina í Californiu og yfir í eyðimörkina í Arizona og sáum cowboy kaktusa og allt. Þeir eru ekki nærri eins algengir og við vorum látin halda í bíómyndunum. Indíánar áttu heldur enga hesta fyrr en Spánverjarnir komu og aldrei hafa þeir sett á sig fjaðrir í hárið svona hvunndags og varla til hátíðabrigða heldur. Maður skyldi passa sig á því sem maður sér í bíómyndunum.
Við komum svo hingað til Phoenix um sex leytið í gær á alveg frábært hótel – með vondri lykt í samt – æ svona loftræstingar-rakalykt sem enginn finnur nema ég.
Ég lá svo í bælinu í gærkveldi hundveik með hálsbólgu, beinverki og kvef og er enn með verra móti. Það er þá ekki eftir að fá kvef í eyðimörkinni. Ja hérna hér.
Phoenix er spulnkuný borg og hér er allt frá því eftir seinna stríð – merkilegt. Enda er allt hérna eins og það hafi verið tekið upp úr pakkanum í gær eða fyrradag. Við Íslendingar eigum ekki langa byggingarsögu en my oh my Reykjavík virðist vera komin að fótum fram miðað við þessa borg hér í miðri eyðimörkinni.
Meira seinna. Framundan eru tveir dagar á Grand Canyon hótelinu og ósköp verð ég fegin. Þá hef ég kannski sæmilegan tíma til að vera kvefuð.
…og ég þori ekki þyrluflugið í Grand, og mikið finnst mér það leiðinlegt!