Komin heim í heiðardalinn

Ási, Hildur, Inga, Gústa, Nína, Dísa og Steini í Yosamite þjóðgarðinum og það er býsna hátt þarna niður þó það sjáist ekki!

Jæja – heimferðin gekk bara bærilega… En ég fer nú ekki ofan af því að þetta er rosalegt ferðalag. Við fórum náttúrulega alltof seint að sofa á föstudagskvöld og vorum komnar á stjá um fjögur um nóttina. Þá var að finna sig til og reyna að ímynda sér að maður kæmist í gegnum næstu 20 tímana eða svo!

Það gekk allt vel í San Fransisco flugvellinum og flugið til Minneappolis var bara ágætt – sofnaði meira að segja í 40 mínútur. Ég sofna ekki oft í flugi það get ég sagt ykkur!

Við þurftum síðan að bíða í 5 tíma eftir fluginu heim i Minneappolis, en það tók tæpa sex tíma. Og ekki sofnaði ég nú í þeirri ferð en það var mjög gott flug og makalaust að maður kæmist í gegnum þetta – allar þessar setur og flugvallastapp. En þetta var betra en ferðin út. Þá vissi maður ekkert á hverjum maður ætti von.

Þegar ég kom heim skreið ég beint upp í rúm og var þar næstu 23 tímana eða svo og ég skammast mín ekkert fyrir það en ég var algjörlega búin að vera!

Þetta var nú engin smá útgerð þessi ferð! En hún var alveg þess virði og ekki hefði ég viljað sleppa mörgu úr það verð ég að segja.

Las Vegas situr svolítið í mér. Ég á eiginlega eftir að komast yfir þessa borg og birtingarform manneskjunnar í formi hennar. Ég komst því miður ekki í skoðunarferðina um spilavítin öll – hafði ekki lappir í það.

Það er svo hitt – ég er yngst af systkinunum en langsamlega ófærust um að hreyfa mig. Þau eru að vísu öll fitt fólk en samt svoldið spælandi. Ég veit ekki hvernig ég hefði verið ef ég hefði ekki verið í þessari líkamsrækt síðustu árin – það get ég svarið. En kílóin segja til sín.

Ég minnti mig oft á það sem samkennari minn og íþróttakona góð sagði við mig fyrr í haust – mundu bara – það er sama hvað þú ert slæm – þú verður alltaf fljótari að jafna þig því þú ert í svo góðu formi. Og þegar mig langaði mest að vola af verkjum og meðaumkun á kvöldin eftir margra klukkutíma göngur á malbiki þá huggaði ég mig með því að næsta dag yrði ég alveg jafn góð og ég var best um morguninn. En ægilega finnst mér leiðinlegt að vera svona ógeðslega hölt og finna svona til í hælnum. Þetta eyðileggur eiginlega svolítið fyrir mér….

En ég veit líka að kílóin segja til sín því ég finn mikinn mun á mér ef ég þarf bara að bera nokkur kíló.

Ég held satt að segja að ég hafi ekki þyngst mikið í ferðinni – amk eru buxur sem ég komst varla í fyrir páska ágætar í dag – ja amk ekki þrengri ;-).

Nú er bara að halda áfram og hugsa um það sem þeir eru að reyna að markaðssetja í USA – Make the Right Choice. Þetta sem sagt snýst um það.

Velja rétt.

Veldu rétt!

Hátt getur verið hátt eða hærra hæst

…eða bara hátt! Endalaust hátt!

Þannig er leiðin í Yosamite þjóðgarðinn – Sierra Nevada fjöllin eru sem sagt svolítið há. Svona eins og 3000 metrar og ég get sagt ykkur það alveg án þess að ýkja að stundum sáum við 800 – 1000 metra niðu hið minnsta – jafnvel meira. Og ég hef það sko frá mörgum. Við héngum utan í klettunum og ég var í rútunni. Stundum svoldið brött en á tíma var ég alveg við það að deyja bara. Volaði bara í lófann minn og reyndi bara að draga andann eftir mætti.

Eftir þetta er bara tvennt. Ég verð bara sami asninn eða heldur hugrakkari. – Fer svoldið eftir bílstjóranum líklega…. Við vorum með frábæran bílstjóra. Góða rútu. Já og sem betur fór var ekki hálka. Guð minn góður!

Við stóðum okkur vel Hildur og Gústa – við erum allar pínu lofthræddar skoho! Þetta er engu líkt. Það eru engir vegir á Íslandi sem komast í líkingu við þetta. Og við vorum góðum 1000 metrum hærra uppi en hann Hvannadalshnjúkur teygir sig.

Af þessum hetjudáðum mínum má sjá myndir hér neðar á síðunni – undir mínar myndir. Ég á eftir að flokka og henda út ruslmyndum en þar er samt eitt og annað að finna frá þessu frábærlega stórkostlega landi!

Þetta var frábærlega góð ferð og við sáum hæsta foss BNA og trén… Vantaði ekkert nema björn að vakna af vetrardvalanum. Einn al besti dagurinn að baki.

Í lauslegri könnun hefur komið í ljós að hjá fólki stendur náttúrlega ferðin til ættingjanna í San Diego hæst en af náttúrufyrirbærunum er það Grand Canyon og/eða þyrluflugið sem fólk dáðist að og svo Yosamite.

Kannski eru Grand Canyon og Las Vegas það sem situr í mér – fáránleiki Vegas og mikilfengleiki náttúrunnar sem tekur öllu öðru fram.

Ég held við verðum ekki söm eftir þessa ferð.

Víst vorum við á mikilli siglingu – 5700 kílómetrar að baki og hvert náttúrufyrirbærið öðru stórkostlegra. Samveran og upplifun næstum upp á hverja einustu mínútu.

Og nú erum við á leiðinni heim.

Við leggjum af stað fjögur í nótt (11 að ísl. tíma) og ég get vænst þess að vera komin heim á hádegi á sunnudag. Úff…

En ég veit núna að ég hef þetta ferðalag af.

Við erum öll hress og kát – komumst aðeins í búðir í dag og sáum San Fransisco þokuna.

Ást og friður úr hippa og hommabænum san fran!

Hver hefði nú trúað því?

Hyldjúp gljúfur. Ljósasjó sem eru ekki af þessum heimi. Eyðimerkur og meiri eyðimerkur. Dauði dalur og svo allt í einu eru við komin í land Del Monte og Sun quick – allt grænt og blómstrandi. Þetta er ótrúlegt land.

Við fórum úr Indjánadansi í Grand Canyon í úrkynjun Las Vegas. Þar var hótelið þannig að það tók 10 mínútur að taka lyftuna upp og aðrar 10 í labba á næsta viðkomustað – mæ oh mæ. Ég hef aldrei vitað annað eins.

Við erum nú í Bakersfield sem er í miðjum Big Valley – vísast heitir hann eitthvað annað en hér er sem sagt allt grænt og fallegt. Við fórum yfir Sierra Nevada fjöllin og 80 metra niður fyrir sjávarmál í Death Valley – nú og svo upp og meira upp – ótrúlegt land.

Ég hef ekki fengið amerískar pönnukökur í nokkra morgna og er alveg að fá fráhvarfseinkenni en Snickersið bætir það upp.

Er búin að vera hundveik, hósta og vorkenni mér óskapleg – auk þess sem ég er ekki sem best í fótunum – þetta er nefnilega alveg maraþon ferð en ótrúlega skemmtileg og mikil upplifun. En nú læt ég duga að sinni – verð að fara að sofa eftir 9 tíma ferðalag í dag.

Allir hressir og kátir og engin alvarleg rifrildi átt sér stað í hópnum 😉 Þroskað fólk þessi systkini mín. Ég svona síst held ég enda yngst 😉

Ef ég lifi af morgundaginn upp í Yosamite þjóðgarðinn sem er víst óskaplegasti vegur sem til er þá blogga ég betur á morgun. Og svo er bara ferðin eiginlega alveg að verða búin bara.

Hætturlegir vegir og Tópas

Það er hægt að komast í hann krappann í USAnesku vegakerfi – ojá. Svo er hægt að hafa Tópas drykk við hliðina á sér, súpa á honum og grúfa sig niður í sætið á meðan það eru eknir nokkur hundruð metrar beint upp í loftið, gráta svolítið af skelfingu þó maður sjái ekki neitt en heyri hljóðin í hinum. Meira að segja í Jónínu sem segir ALDREI neitt. Svo finnur maður líka hvernig rútan hendist til í kröppum beygjum – og vegurinn til þjóðgarðarins sem heitir svona eins og josmaníte híhí – er miklu skelfilegri. Ásmundur segir að vísu að hann geti ekki verið selfilegri því verri vegir eru ekki til! Hughreystandi.

En við erum sem sagt komin í Grand Canyon og höfumst vel við. Ég kvefuð, ofétin og áreiaðnlega orðin 5 kílóum þyngri en þegar ég lagði af stað. Það er svo góður matur hér að það er rosalegt og af einhverju undarlegum ástæðum er ég alltaf étandi hér. Og nýt hverrar mínútu! Afleiðingarnar koma í hausinn á mér heima en Baldur er fluttur úr Styrk svo ég þarf svo sem ekki að horfast í augu við hann 😉 fyrr en bara einhvern tímann seinna og kannski aldrei ef ég þjáist ekki af neinu sem hann getur lagað.

Þetta er gjörsamlega stórkostlegt allt saman og ekki skemmir fyrir að vera tvær nætur á sama stað!

Enn þori ég ekki í þyrluna og enn veit ég að ég á eftir að sjá eftir því alla mína ævi. En svona er þetta…

Maður er of móðursjúkur það er klárt. Víst og satt. Ferðin hálfnuð í dag.

Ragnheiður keypti sér frábæran hatt í dag.

Eyðimerkur og kvef

Við áttum algjörlega stórkostlegan dag með fjölskyldunni okkar nýju í San Diego á fimmtudaginn. Hann var eiginlega alveg ólýsanlegur. Lengi vel var ég þess vegna að hugsa um að skrifa ekkert um hann. Það er eiginlega ekki hægt að segja neitt um svona upplifun ég segi það satt.

En allt gekk vel og við öll vorum himinlifandi. Þetta var sérlega elskulegt fólk og andrúmsloftið afslappað og gott. Veitingarnar góðar og og og og og …. ég held við höfum efni í bók sveí mér þá. Þannig lagað 😉

Hefti sem við Steini gerðum – myndrænt ættartré auk hins venjulega gerði mikla lukku og við skildum nokkur eintök eftir hjá Magnuson ættinni.

Í gær brunuðum við gegnum eyðimörkina í Californiu og yfir í eyðimörkina í Arizona og sáum cowboy kaktusa og allt. Þeir eru ekki nærri eins algengir og við vorum látin halda í bíómyndunum. Indíánar áttu heldur enga hesta fyrr en Spánverjarnir komu og aldrei hafa þeir sett á sig fjaðrir í hárið svona hvunndags og varla til hátíðabrigða heldur. Maður skyldi passa sig á því sem maður sér í bíómyndunum.

Við komum svo hingað til Phoenix um sex leytið í gær á alveg frábært hótel – með vondri lykt í samt – æ svona loftræstingar-rakalykt sem enginn finnur nema ég.

Ég lá svo í bælinu í gærkveldi hundveik með hálsbólgu, beinverki og kvef og er enn með verra móti. Það er þá ekki eftir að fá kvef í eyðimörkinni. Ja hérna hér.

Phoenix er spulnkuný borg og hér er allt frá því eftir seinna stríð – merkilegt. Enda er allt hérna eins og það hafi verið tekið upp úr pakkanum í gær eða fyrradag. Við Íslendingar eigum ekki langa byggingarsögu en my oh my Reykjavík virðist vera komin að fótum fram miðað við þessa borg hér í miðri eyðimörkinni.

Meira seinna. Framundan eru tveir dagar á Grand Canyon hótelinu og ósköp verð ég fegin. Þá hef ég kannski sæmilegan tíma til að vera kvefuð.

…og ég þori ekki þyrluflugið í Grand, og mikið finnst mér það leiðinlegt!

Mission er málið

Hvert land, hvert fylki, hver borg, hvert hús, hver mannvera á sér sögu. Og það er því ekki að undra að California eigi sér sögu – þó saga Bandaríkjanna – hinna vestrænu sé ekki löng þá er það nú samt saga. Og Mission kemur mikið við sögu á þeim bænum.

Í Californiu eru 21 Spanish Mission-kirkjur og tengjast þær landnámi innflytjendanna til Californíu- þar voru fyrir fjöldi innfæddra af mexíkósku bergi brotnir. Líf þeirra varð aldrei samt. Mission-stöðvarnar risu allar meðfram ströndinn og nefnist vegurinn nú the Royal Highway á ensku en á spænsku El Camino Real (spænska er að sjálfsögðu gríðarlega fyrirferðarmikil í Californíu þar sem landnemarnir og þeir sem fyrir voru voru Mexíkóar og Spánverjar.

San Diego er elst þessara kirkna, enda næst mexíkósku landamærunum og var stofnuð 1769. Í gær fórum við og skoðuðum Old Town sem er endurgerð bæjarins. Það er mest ferðamannastaður en samt gaman að sjá hvernig þetta var gert – bærinn byggður í hring og eiginlega alveg eins og í kóvbojmyndunum í gamla daga. Innfæddu komust ekki yfir hesta fyrr en með komu Spánverjanna sem er hreint ekki það sem okkur var ,,kennt“ í þeim sömu myndum – reyndar er fátt rétt í þeim ef marka á guidinn í gær.

California var gríðarlega ólík því sem hún er í dag fyrir þessum 250 árum. Nýju íbúar hennar komu með búfénað, jurtir og tré – mörg frá Ástralíu og Afríku. Jurtirnar urðu að vera nytsamar – það varð að vera að vera hægt að nýta þær til a) átu; b) í klæðnað; c) gefa af sér ávexti og d) nýta þær til að búa til nytjahluti.

Lang mest af þeim gróðri sem við sjáum í dag hér er kominn annars staðar frá – og með umhirðu, vökvun og áburðu er hægt að stunda sér fjölbreyttan landbúnað – en um leið og umhirðu mannsins sleppir tekur við eyðimörkin.

San Diego og Sea World

Í dag fórum við í skoðunarferð um San Diego og komumst að mörgu merkilegu. Hér var nú afi minn að sýsla í 60 ár eða svo – merkilegt.

Það er margt merkilegt hér og saga borgarinnar byggingarlega séð er svolítið merkileg en ég er of uppgefin að fara í útskýringar – svei mér þá.

Um hádegið fórum við í Sea World og þar var gengið, gengið og gengið. Og gengið svoldið meira. Ég og minn hæll erum alveg uppgefin og trust me hann er ekki einn um það. Fólk er alveg uppgefið. Nema Gulli hann geysist um allt með þeim sem getur mögulega haldið í við hann! Í kvöld held ég að hann og Aðalsteinn – sem er vel að merkja algjörlega ódrepandi manninn. Úff hvað er mikið álag að eiga svona hraustan bróðir á þessum aldrei – maður fær svoooo mikið samviskubit.

Ég held við séum öll svolítið þreytt satt að segja og morgundagurinn verður kærkomin hvíld frá ati.

-Við komumst loksins í búð í dag – pælið í því – fyrsta skipti sem við komumst í búið til að kaupa til dæmis hárnæringu já eða tannkrem. Úff púff þétt dagskrá!

Við erum með 50 manna rútu eða svo undir okkur 14 – það dugir fínt!

Á morgun er stóri dagurinn – við förum og hittum ættingjana. Þeir láta bíla frá Cloud Nine sækja okkur – þetta er alltof mikil fyrirhöfn hjá þeim held ég. En þetta verður áreiðanlega mjög gaman og ótrúlegt ævintýri! Verðum hjá þeim í nokkra klukkutíma.

Engar myndir í dag – hér er hlekkur á þær myndir sem eru komnar.

Sem sagt hér eru allir hressir og bíða spenntir þess sem framundan er.

Komin til San Diego

Jæja nú erum við loksins komin í sæmilega ró á hótelið okkar í San Diego.

Þetta er sannkölluð draumaferð, draumur sem bara batnar og batnar. Og það skemmir ekki að þegar maður klípur í nefið á sér þá bara reynist þetta vera veruleikinn hreinn og klár. Betri en hvaða tilbúningur sem er ;-).

Í San Fransisko geystust systkini mín mér eldri og töluvert borubrattari um alla borg. Upp og niður ótrúlega brattar götur, í gegnum Kínahverfið og upp á rússnesku hæðina og upp í rútu sem keyrði þau meðal annars yfir Golden Gate brúnna og yfir í sveitasæluna handan hennar. Sælan var víst ekki sérlega mikil þar sem bílstjórinn ók eins og andskotinn væri á eftir honum og menn hentust til og frá og gripu andann þess á milli – blessuðu sig bak og fyrir og vonuðust til að Golden Gate reyndist ekki verða þeirra Gullna hlið! Allt fór vel og úr varð skemmtileg hetjusaga þeirra sem af komust!

Dagurinn hófst nú á því að menn voru ákaflega uppgefnir en svangir og stefnan var tekin í Fisherman’s Wharf og þar fengum við – sum okkar, ákaflega góðan og Amerískan morgunmat sem dugði okkur fram á kvöld. Amerískar pönnukökur með sírópi og spældu eggi auk tveggja pulsna rann lúflega niður, eggjakökur og hvur veit hvað – betra en er leyfilegt. Og klárlega of hitaeiningaríkt- æ æ. Tek bara á því þegar ég kem heim – huhumm!

Við Ragnheiður gengum um Fisherman’s Wharf og nutu útsýnisins yfir í Alcatraz og til brúarinnar. Sáum sel og máfa – og einn lét svo lítið að næstum skíta á okkur. Rétt slapp! Við ætluðum síðan í Kínahverfið en þá voru skref mín uppurin og ég komst ekki eitt einasta í viðbót! Upp í leigubíl, inn í herbergi og upp í rúm. Og ekki veitti af – það er bara mjög erfitt að vaka í sólarhring og þjást af flugþreytu. Og því var bara best að njóta þess að hvíla sig.

Um kvöldið fórum við á algjörlega stórkostlega steikarstað – hjá honum Harry. Vá – þar fengum við bestu steikur sem nokkurt okkar hafði fengið áður – Palli þú hefðir átt að vita…

Í gær fórum við klukkan 10 frá San Fransisc. og ókum 17 mílna drævið og sáum m.a. húsið þar sem Birds var tekin upp, Pebble Beach golvöllinn þar sem Tiger spilar hve mest, en áður litum á Lonly Oak og til Monteray. Það er bærinn sem Steinbeck skrifaði mikið um – en þar borðuðum við hjá honum Forrest Gump – eða þannig, minni á að hann er bíómyndarpersóna, Hubba Bubba. Frábær rækjustaður og algjörlega stórkostlegur matur. Við gengum þarna um og nutum veðurblíðunnar sem var allnokkur.

Við keyrðum í gegnum í Carmel en þar var ætlunin að stoppa en við ákváðum að drífa okkur og aka til Pismo Beach til að hitta hana Lynn frænku okkar! Í Carmel var hann Clint Eastwood eitt sinn bæjarstjóri blessaður. Systurdóttur föður okkar. Hugsið ykkur. Ég held ég hafi aldrei sagt þetta tengt honum karli föður mínum. Systurdóttir….

Við komum til Pismo Beach klukkan 19 og þá var Lynn komin. Við rétt náðum að henda töskunum inn og út aftur á Mexíkóskan stað þar sem við borðuðum með henni.

Lynn og Michael eru ákaflega geðugt fólk og hafa mikinn áhuga á Íslandi og því sem íslenskt er. Lynn álítur sig Íslending en hefur vantað tengilið heima á Íslandi til þess að gera kannski eitthvað raunverulega í því. Kannski myndast tengsl sem nýtast henni, í þessari ferð.

Í morgun var síðan lagt í hann til San Diego. Við stoppuðum í yndislegum bæ sem heiti Santa Barbara og þar skoðuðum við Mission-ið en frá því segi ég ykkur seinna – Mission stöðvarnar eru afar merkilegur og stór hluti af sögu Californíu. Nánar um það síðar 🙂 Við fórum líka niður að strönd, borðuðum og nutum þvílíkrar veðurblíðu að Íslendingurinn í okkur varð alveg feiminn. Stórkostlegt veður – hitinn áreiðanlega um 30 gráður í sólinn ekki of heitt og hreint ekki of svalt!

Við ókum í gegnum Los Angeles og það var nú meiri tíminn sem fór í það. Endalaust næstum því það var svo mikil umferð en hún er með því versta ef ekki hið versta sem gerist í BNA. Við sáum Hollywood merkið og svona eitt og annað – en annars var þetta nú mest bið í bílaröð þannig lagað :D.

Hingað erum við svo komin – til Borgar Afa Okkar: San Diego. Höfum ekið gríðarlega langt í dag og séð mikil landbúnaðarhéröð, olíuborpalla, kjarnorkuver og mikla náttúrufegurð.

Við erum alsæl – þetta er hreinlega dásamlegt allt saman og fólkið alúðlegt. Maturinn frábær – náttúrulega alltof góður en það verður að taka á því jafnt og þétt – reyna að neita sér um sumt og borða annað í hófi.

Ég skrifa síðan meira um fjölskyldu fundina og annað síðar. Vonandi náum við að setja inn eitthvað á 5 þúsund myndir á eftir ;-). Nóg er til af þeim. Annars eruð þið öll sofandi núna kæru landar þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þið séuð að bíða akkúrat núna 😉

Hó hó hó komin til USA

Jamm og já – er það ekki fín byrjun á svona merkilegu ferðalagi. Ég held það sé við hæfi bara.

Eftir að hafa vaknað heima um átta leytið í gær eða fyrradag eða hitteðfyrra – hvert sem tímamismunurinn leiðir okkur – þá tók nú við eitt og annað skal ég segja ykkur. Fyrst þurfti nú að athuga með ýmislegt og ekkert. Við fórum með umsóknina mína um framhaldsnámið í Kennó hvað þá annað á leiðinni á Keflavík og vorum komin þangað um kl. 14. Í loftið fórum við og voru í því í 6 tíma – frábært flug og bara gaman. Þannig lagað ;-). En svo tók nú eiginlega ballið við.

Í Minneappolis þurfti að gera þetta og hitt og svo svoldið meira af hinu og dáltið af þessu. Ég var með eitthvað af dýrindisvökva sem kurteisasti og besti öryggisvörðu vildi alls ekki hleypa mér með inn í flugvélina. Nú voru góð ráð dýr – fokdýrar eðalblöndur til að gleðja geð og lita hörund og enn annað til að mýkja hana svolítið. Ég hljóp því til baka í hans fylgd með beautyboxið og tékkaði það inn í farangurinn – til baka og svo labb og labb og labb og meira labb og þegar við loksins komum upp í flugvélina – guð má vita hvenær þá vorum við svo uppgefin – eða amk ég að ég var viss uma ð ég myndi aldrei lifa af 4 tíma flug í viðbót. Ég varð svo fegin þegar flugmaðurinn sagði að við værum ekki nema 3:40 á leiðinni að mér vöknaði um augu! Híhí…

Nú jæja – ég sofnaði ekki neitt í vélinni en tók nokkrar léttar leikfimisæfingar, fór nokkrar ferðir á klósettið og hlustaði á tónlist og heldur skánaði nú líkamlegt atgervi mitt er á leið. En öndunarvegurinn og ýmsir vöðvahópar voru nú alveg uppgefnir!

En þetta ferðalag sem stóð frá 12:00 heima og endaði á flugvellinum í San Fran kl06:00 að íslenskum var nú ekki búið ;-). Ein taskan týndist og aðeins þurfti nú að grufla í því. En svo kom aðal…

Leigubílaferðin á hótelið – úff púff. Í fyrsta lagi var sætið bara hálft og því var ein og hálf rasskinn á mér útaf því. Í mitt bakið stakkst járnstautur og þar sem ég spennti hrygginn til að forðast það þurfti ég að nota hnéð til að spirna í á móti og það var eitthvað annað sem stakkst í það – og þar sem ég reyndi að hanga í sætinu ók leigubílstjórinn á 70 – 80 mílum svona eins og 140 um götur San Fran – hefur áreiðanlega heitið hraðbraut en þetta var ekki neitt neitt! Guð minn góður ég segi nú ekki annað! Við vorum svo fyrst á hótelið að það var ekki fyndið! Ji minn eini. En þetta lifðum við nú af þó líkami minn hafi farið heldur verr út úr þessu en öllu hinu ferðalaginu ;-). Komin inn á herbergi klukkan 1:00 og farin að sofa undir níu að íslenskum tíma!

Og nú er ég komin á netið á hótelinu alveg ókeypis. Ægilega skemmtilegt. Fínt og gaman. Set inn nokkrar myndir í kvöld hugsa ég þegar við verðum búin að fara eitthvað hér um.

Það eru allir hressir og glaðir og við hlökkum öll til þess sem framundan er!