Jæja nú erum við loksins komin í sæmilega ró á hótelið okkar í San Diego.
Þetta er sannkölluð draumaferð, draumur sem bara batnar og batnar. Og það skemmir ekki að þegar maður klípur í nefið á sér þá bara reynist þetta vera veruleikinn hreinn og klár. Betri en hvaða tilbúningur sem er ;-).
Í San Fransisko geystust systkini mín mér eldri og töluvert borubrattari um alla borg. Upp og niður ótrúlega brattar götur, í gegnum Kínahverfið og upp á rússnesku hæðina og upp í rútu sem keyrði þau meðal annars yfir Golden Gate brúnna og yfir í sveitasæluna handan hennar. Sælan var víst ekki sérlega mikil þar sem bílstjórinn ók eins og andskotinn væri á eftir honum og menn hentust til og frá og gripu andann þess á milli – blessuðu sig bak og fyrir og vonuðust til að Golden Gate reyndist ekki verða þeirra Gullna hlið! Allt fór vel og úr varð skemmtileg hetjusaga þeirra sem af komust!
Dagurinn hófst nú á því að menn voru ákaflega uppgefnir en svangir og stefnan var tekin í Fisherman’s Wharf og þar fengum við – sum okkar, ákaflega góðan og Amerískan morgunmat sem dugði okkur fram á kvöld. Amerískar pönnukökur með sírópi og spældu eggi auk tveggja pulsna rann lúflega niður, eggjakökur og hvur veit hvað – betra en er leyfilegt. Og klárlega of hitaeiningaríkt- æ æ. Tek bara á því þegar ég kem heim – huhumm!
Við Ragnheiður gengum um Fisherman’s Wharf og nutu útsýnisins yfir í Alcatraz og til brúarinnar. Sáum sel og máfa – og einn lét svo lítið að næstum skíta á okkur. Rétt slapp! Við ætluðum síðan í Kínahverfið en þá voru skref mín uppurin og ég komst ekki eitt einasta í viðbót! Upp í leigubíl, inn í herbergi og upp í rúm. Og ekki veitti af – það er bara mjög erfitt að vaka í sólarhring og þjást af flugþreytu. Og því var bara best að njóta þess að hvíla sig.
Um kvöldið fórum við á algjörlega stórkostlega steikarstað – hjá honum Harry. Vá – þar fengum við bestu steikur sem nokkurt okkar hafði fengið áður – Palli þú hefðir átt að vita…
Í gær fórum við klukkan 10 frá San Fransisc. og ókum 17 mílna drævið og sáum m.a. húsið þar sem Birds var tekin upp, Pebble Beach golvöllinn þar sem Tiger spilar hve mest, en áður litum á Lonly Oak og til Monteray. Það er bærinn sem Steinbeck skrifaði mikið um – en þar borðuðum við hjá honum Forrest Gump – eða þannig, minni á að hann er bíómyndarpersóna, Hubba Bubba. Frábær rækjustaður og algjörlega stórkostlegur matur. Við gengum þarna um og nutum veðurblíðunnar sem var allnokkur.
Við keyrðum í gegnum í Carmel en þar var ætlunin að stoppa en við ákváðum að drífa okkur og aka til Pismo Beach til að hitta hana Lynn frænku okkar! Í Carmel var hann Clint Eastwood eitt sinn bæjarstjóri blessaður. Systurdóttur föður okkar. Hugsið ykkur. Ég held ég hafi aldrei sagt þetta tengt honum karli föður mínum. Systurdóttir….
Við komum til Pismo Beach klukkan 19 og þá var Lynn komin. Við rétt náðum að henda töskunum inn og út aftur á Mexíkóskan stað þar sem við borðuðum með henni.
Lynn og Michael eru ákaflega geðugt fólk og hafa mikinn áhuga á Íslandi og því sem íslenskt er. Lynn álítur sig Íslending en hefur vantað tengilið heima á Íslandi til þess að gera kannski eitthvað raunverulega í því. Kannski myndast tengsl sem nýtast henni, í þessari ferð.
Í morgun var síðan lagt í hann til San Diego. Við stoppuðum í yndislegum bæ sem heiti Santa Barbara og þar skoðuðum við Mission-ið en frá því segi ég ykkur seinna – Mission stöðvarnar eru afar merkilegur og stór hluti af sögu Californíu. Nánar um það síðar 🙂 Við fórum líka niður að strönd, borðuðum og nutum þvílíkrar veðurblíðu að Íslendingurinn í okkur varð alveg feiminn. Stórkostlegt veður – hitinn áreiðanlega um 30 gráður í sólinn ekki of heitt og hreint ekki of svalt!
Við ókum í gegnum Los Angeles og það var nú meiri tíminn sem fór í það. Endalaust næstum því það var svo mikil umferð en hún er með því versta ef ekki hið versta sem gerist í BNA. Við sáum Hollywood merkið og svona eitt og annað – en annars var þetta nú mest bið í bílaröð þannig lagað :D.
Hingað erum við svo komin – til Borgar Afa Okkar: San Diego. Höfum ekið gríðarlega langt í dag og séð mikil landbúnaðarhéröð, olíuborpalla, kjarnorkuver og mikla náttúrufegurð.
Við erum alsæl – þetta er hreinlega dásamlegt allt saman og fólkið alúðlegt. Maturinn frábær – náttúrulega alltof góður en það verður að taka á því jafnt og þétt – reyna að neita sér um sumt og borða annað í hófi.
Ég skrifa síðan meira um fjölskyldu fundina og annað síðar. Vonandi náum við að setja inn eitthvað á 5 þúsund myndir á eftir ;-). Nóg er til af þeim. Annars eruð þið öll sofandi núna kæru landar þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þið séuð að bíða akkúrat núna 😉