Ég get eiginlega ekki bloggað neitt orðið því það fer allur minn blogg tími í Facebook. Það er nú meira fyrirbærið. Ég segi það satt. Úff.
En nú er tekin ný stefna í lífinu. Ég hef ákveðið að prófa nammidaginn aftur. Hann virkaði fínt hér um árið – en ef hann virkar ekki aftur þá tek ég hann af. Hann á að hjálpa mér með að fókusa á að neita mér um hlutina – þar til skilgreindur tími þeirra rennur upp.
Ég er aftur farin að lyfta og ég get svarið það að mér fannst ég vera komin heim á föstudaginn þar sem ég skondraðist um með æfingabókina mína og pennann. Sigh mikið hef ég saknað þess að lyfta og miðað við þyngdina sem ég var að taka mátti ekki bíða miklu lengur með það. Ég er bara orðin auli ;-).
Nú svo er sundleikfimin farin út og mikið er mér létt – hún eykur svo á stressið – verð að vera mætt – verð að vera komin ofaní – verð að vera komin uppúr – allt á ákveðnum tíma og bara hviss bang ég ræð ekki við svona nákvæmni í tímasetningum fyrir svo utan það að vera alltaf of sein í vinnuna – geta aldrei sest niður og komið sér af stað inn í daginn í rólegheitum. Úff púff.
Það er því nýtt æfingaprógramm á morgun – þarf að leggjast yfir það. Ég hugsa að það hljóði upp á hjól 6:20 og svo morgunmat heima klukkan sjö og svo brunað uppúr ekki seinna en hálf átta. best að vera komin í vinnuna um átta. Kannski get ég svo farið að labba með Bjarti og Palla uppi í skógi um svipað leyti. Það yrði allra best. -Já eða hjólað svolítið. Vorið og snjóleysið bíður upp á svo marga möguleika í hreyfingu.
Mér hefur reynst best að fara á hverjum degi þegar ég hef farið út að ganga – en ég veit ekki alveg hvað ég geri í þessu. Ég þarf aðeins að finna taktinn.
Eins gæti ég tekið með mér nesti og borðað uppfrá eftir hjólatúrinn og sparað mér að koma heim aftur. Skyrdrykk eða eitthvað svoleiðis og ávöxt.
Nú jæja svo verða það lyftingar á mánudögum og föstudögum og svo er það Blakið – auk morgunhreyfingar. Þetta getur verið æfingaprógramm upp á kannski svona 7000 kal sem er heldur betra en ég er að gera í dag. Sundleikfimin skilar mér ekki miklu í kaloríum – þó ég taki með í reikninginn lægri púls í vatni. Enda er hún líka styrktarprógramm og hefur sannarlega skilað sínu. Ég byrja áreiðanlega aftur í haust.
En í dag bakaði ég fjórar vöfflur og fékk mér tvær þeirra með jarðarberjum agave sírópi og frosnum bláberjum. Já og smá rjóma. Svoldið sniðugt að baka bara fyrir manninn, og þeyta bara lítinn rjóma. Það var eins og það væru jól að fá þessa dýrð. Nammi namm.
Nú samviskubitið var að drepa mig svo ég fór í styrk að hjóla (enda skuldaði ég hreyfingu vegna tveggja skrópa í morgunhreyfinguna) og þaðan í pottana og synti og hljóp í 20 mínútur. Þannig að ég skilaði mínu í hreyfingunni í dag. Barasta fínt.
Og nú þarf að fara að huga að líkamsræktarpartíinu – tveggja ára hátíðarhöldin nálgast óðum 😀
