….hélt það myndi rigna yfir mig hryggðarpóstunum yfir því hve lítið ég blogga! En þá er bara eins og allir séu fegnir 😉 Híhí – svona eru nú skipsbrotin margvísleg.
Nú er þriðji dagur nýja æfingaprógrammisins að kvöldi kominn – en þó er einn veigamikill þáttur eftir – SPINNING. Ég er annars mjög ánægð með hvernig hefur tekist til – staðið við allt – fór meira að segja að hjóla eftir vinnu á mánudaginn.
Og ég ÆTLA í spinning núna á eftir sko…
….eftir klukkutíma.
Ég veit ekki afhverju mér finnst það svona mikið mál en einhvern veginn hef ég algjörlega gengið fram af mér síðast – var illt í úlnliðum, hælum, ristum og hnjám og hreint alls staðar í tímanum sjálfum – en nú ætla ég á hina tegundina af hjólum og sjá hvort ekki verður auðveldara að eiga við þetta.
Ég ætla líka að fara í sandölunum og sjá hvort það er betra – þeir eru opnir og tærnar rekast þá ekki í eitthvað – það er nú meira hvað maður getur verið aumur alls staðar.
Fyrst og fremst ætla ég þó að láta drenginn vita að ég verði þarna bara upp á punt og hann megi ekki senda mér nein svona augnaráð sem fela í sér að ég eigi að gera meira eða betur ;-). Málið er að ganga ekki svo fram af sér að maður þori ekki aftur.
Þð er afskaplega mikill snjór og ég setti persónulegt met í snjóakstri í gær en ég er á ágætum bílaleigubíl – Toyotu með skriðvörn og firna góðum dekkjum – en ég hef aldrei á minni lífsfæddri æfi keyrt í eins miklum snjó- svona ein og sjálf . En við Toyotan komumst þetta nú – en það var nú meira fyrir heppni – nú eða undraverða aksturshæfileika en eitthvað annað. Það var t.d. eins gott að ég stoppaði hvergi á leiðinni – þá hefði ég aldrei komist af stað aftur. Mæta bílum og hleypa fram hjá var heldur ekki sérlega auðvelt – úff púff enda fór ég bara snemma heim í dag og hef verið að vinna hér heima. Já og undirbúið mig andlega fyrir þennan spinning tíma ;-).
Annars er ég bara góð. Ægilega mikið að kenna og vera gáfuleg auk þess sem fæturnir á mér eru allir aðrir og ég finn ekki svona viðbjóðslega til í vöðvunum mínum eins og áður. Þannig að so far so gúdd.
Hvort það eru gigtarlyfin (sem þó klárlega virka á helv… ristarverkina það er klárt), magnesíumið, eða eitthvað breytt áætlun – nú eða allt þetta þá er ljóst að eitthvað er að gerast í átt að því að ég losni út úr þessari sturlun sem ég var föst í. Ég get bara sagt ykkur það að ég afber ekki að finna til – það bara gerir mig brjálaða. Hálsverkir í fyrra í marga mánuði og svo fótaverkirnir núna – úffiti púff.
MUNA: Ekki keyra mig inn í svo svæsna verki að ég veit ekki hvort ég er appelsína eða hneta.
Hér er ágæt grein um að við eigum að þykja vænt um líkamann okkar.
Fjögurra barna móðir fyrrum nemenda minna lést nú í vikunni – varla orðin fertug. Mikið er lífið ósanngjarnt. Ég hitti manninn hennar á fimmtudaginn var og spurði hvernig konan hefði það og fékk þá fréttirnar að stutt væri eftir. Og fjórum dögum síðar er hún dáin blessunin.
Elskuleg fjölskylda þarf að kljást við ósanngjörn úrlausnarefni. Þau eru ekki öll jafn kræsileg spilin sem við fáum að spila úr. En ótrúlegt er hve vörnin skilar miklu.
