Ys og þys út af engu?

Ég er klárlega að eldast. Og vitkast… Sem er í sjálfu sér sérstakt fagnaðarefni því mér sýnist að ekki veiti af! Nóg er til að betrum bæta og lappa upp á – það get ég svarið ;-).

Ég minnist jólanna á Írafossi – þegar dagarnir á milli jóla og nýárs voru til og nýttust til einhverra verka – já voru í sjálfu sér eftirminnilegir vegna þess hve drjúgir og ljúfir þeir voru. Ég á nefnilega allt í einu svoleiðis daga aftur núna. Er ekki í einhverju óminnistástandi ofurálags úr vinnu og jólaundirbúningi heldur get ég setið og horft út í loftið og notið jólaljósanna og snjósins – og erfiðleikar hvunndagsins ná einhvern veginn ekki að setja mig af standinum – samt er svo margt sem ég vildi að væri öðruvísi.

Ég vildi t.d. að ég gæti farið betur með peninga. Ég hefði líka alveg kosið að Aðalsteinn hefði ekki farið út að keyra á jólanótt og klesst bílinn minn – sem verður áreiðanlega ekki kominn á götuna fyrr en vika er liðin af nýja árinu – sigh. Enginn meiddist og eftir smá flipp á jólanótt þegar drengurinn fannst ekki en msn gaf til kynna að hann hefði komið heim og væri í tjónasjokki eins og hann orðaði það sjálfur… Úff hvað ég var hrædd um litla grjónið mitt. Sum börn gera svo skrítna hluti ef þau eru hrædd en hann fannst og kannski lærir hann eitthvað af þessu.

Ég vildi líka að ég hefði ekki étið sælgæti eins og bestía í allan dag! Ég vildi líka að ég hefði farið og gengið á jóladag en bílleysi og jólaboðsundirbúningur sem gekk vel að merkja undurvel, kom í veg fyrir það – því ég lét það koma í veg fyrir það.

Ekki var opið í sundlauginni í gær og ekki nennti ég í styrk – jukk ekki nógu eitthvað kræsilegt en ég fór í morgun og synti 11oo metrana og ég ætla aftur að synda í fyrramálið áður en ég fer í minnar fjölskyldujólaboðið.

Það verður barasta að horfast í augu við mistökin og bregðast við þeim sem best maður kann. Um annað er ekki að ræða.

Mig langar að skrifa – kannski ég fari á riunarnámskeið – svona hvar maður ætti að byrja. Mikið langar mig það. Kannski það ætti að vera nýársheitið mitt á andlega sviðinu og halda svo áfram með hin líkamlegu sem virðast skila mér heilmiklu á því andlega líka – surprise.

Vonandi hafið þið haft það gott.

Ég mæli með sundi um jól og áramót og alveg út janúar. Það er sérlega góð líkamsrækt í myrkrinu að paufast svolítið úti í súrefninu.

Færðu inn athugasemd