Undursamlegt jólafrí

ji minn eini hvað er gaman að vera í jólafríi. Úffiti púff bara. Ég hef að vísu borðað óhóflega mikið af sælgæti og á því er ekki nokkur afsökun en vonandi einhver bragarbót. Ég hef hafið mandarínukúrinn að nýju en hann felst í því að hafa mandarínur í öllum hornum, eta þær hvenær sem því verður við komið. Jummi jumm og þá minnkar sælgætisátíð umtalsvert. Páll hefur tekið allt nammi af heimilunu og pakkað því niður til gamlárskvölds en sá galli er að í öðrum húsi er einnig nammi og þar hef ég verið töluvert undanfarið.

Fór í frábært jólaboð hjá Ása og Jónu í gær og þar komum við systininin og afk0mendur saman alls rúmlega 50 manns. Hver kom með kjöt og sumir með meðlæti og aðrir gos og eftirrétti og ég veit ekki hvað og hvað. Úr varð firnagóð veisla og svínabógurinn minn vakti bara lukku enda puran og kjötið alveg alfbragð – ég er sko ótrúlega góð í að elda purusteik skal ég segja ykkur!

Við komum fyrst og fórum síðust – það var svo skemmtilegt og notalegt og allt! Jamm

Af hreyfingu er það að segja að á fimmtudag skundaði mín í sund alveg ákveðin í því að bæta fyrir mataræðið um jólin og ég synti 1000 metra í gær synti ég 600 og í dag synti ég aðra 1000. Á morgun ætla ég svo að synda líka og á gamlársdag sömuleiðis. Svo opnar ekki sundlaugin aftur fyrr en þann þriðja janúar. Ég veit ekki hvort ég fer í Styrk þann annan en það væri náttúruelga afskaplega gáfulegt.

Palli gaf mér inniskó frá Ecco í jólagjöf og viti menn ég er bara öll önnur í fótunum – ótrúlega miklu auðveldara að ganga á mínum aumu iljum og hælum og sundið gerir fótunum mínum frá ökkla og ofar mjög gott. En ég finn aðeins fyrir hálsinum.

Þetta er sem sagt allt á réttir leið. Áramótauppgjörið í farvatninu og áramótaheitin að mótast. Stefni annars á að vera í miklum rólegheitum á gamlárskvöld. Mér finnst það best – verst hvað Palla finnst það firna leiðinlegt… að vera ekki á skralli.

En nú er ég að fara í matarboð þar sem fiskur verður í matinn. Og áðan skúraði ég allt húsið, Páll tók til í eldhúsinu og ég í stofunni og hér er allt ægilega jólalegt og fínt. Aðalsteinn í Borgarfirði og við bara gamla settið að vafra hér um. Ósköp notalegt allt saman.

Bestu kveðjur til ykkar allra frá Ingu sem er bara virkilega að hvílast.

Ys og þys út af engu?

Ég er klárlega að eldast. Og vitkast… Sem er í sjálfu sér sérstakt fagnaðarefni því mér sýnist að ekki veiti af! Nóg er til að betrum bæta og lappa upp á – það get ég svarið ;-).

Ég minnist jólanna á Írafossi – þegar dagarnir á milli jóla og nýárs voru til og nýttust til einhverra verka – já voru í sjálfu sér eftirminnilegir vegna þess hve drjúgir og ljúfir þeir voru. Ég á nefnilega allt í einu svoleiðis daga aftur núna. Er ekki í einhverju óminnistástandi ofurálags úr vinnu og jólaundirbúningi heldur get ég setið og horft út í loftið og notið jólaljósanna og snjósins – og erfiðleikar hvunndagsins ná einhvern veginn ekki að setja mig af standinum – samt er svo margt sem ég vildi að væri öðruvísi.

Ég vildi t.d. að ég gæti farið betur með peninga. Ég hefði líka alveg kosið að Aðalsteinn hefði ekki farið út að keyra á jólanótt og klesst bílinn minn – sem verður áreiðanlega ekki kominn á götuna fyrr en vika er liðin af nýja árinu – sigh. Enginn meiddist og eftir smá flipp á jólanótt þegar drengurinn fannst ekki en msn gaf til kynna að hann hefði komið heim og væri í tjónasjokki eins og hann orðaði það sjálfur… Úff hvað ég var hrædd um litla grjónið mitt. Sum börn gera svo skrítna hluti ef þau eru hrædd en hann fannst og kannski lærir hann eitthvað af þessu.

Ég vildi líka að ég hefði ekki étið sælgæti eins og bestía í allan dag! Ég vildi líka að ég hefði farið og gengið á jóladag en bílleysi og jólaboðsundirbúningur sem gekk vel að merkja undurvel, kom í veg fyrir það – því ég lét það koma í veg fyrir það.

Ekki var opið í sundlauginni í gær og ekki nennti ég í styrk – jukk ekki nógu eitthvað kræsilegt en ég fór í morgun og synti 11oo metrana og ég ætla aftur að synda í fyrramálið áður en ég fer í minnar fjölskyldujólaboðið.

Það verður barasta að horfast í augu við mistökin og bregðast við þeim sem best maður kann. Um annað er ekki að ræða.

Mig langar að skrifa – kannski ég fari á riunarnámskeið – svona hvar maður ætti að byrja. Mikið langar mig það. Kannski það ætti að vera nýársheitið mitt á andlega sviðinu og halda svo áfram með hin líkamlegu sem virðast skila mér heilmiklu á því andlega líka – surprise.

Vonandi hafið þið haft það gott.

Ég mæli með sundi um jól og áramót og alveg út janúar. Það er sérlega góð líkamsrækt í myrkrinu að paufast svolítið úti í súrefninu.

Og til þess að toppa veröldina

…þá fékk ég þessa fínu magapest í gær. Héld ég myndi drepast. Ég og magakveisur – en ég er sárri núna þó ég sé eins og draugur upp úr öðrum draug. Úff púff

En ég ætla nú að ná að halda jólin og svona þrátt fyrir smá hick up

Híhí

En líkamsrækt er ekki með ágætum þessa vikuna – en svona er þetta bara. Æfingaprógramm jólanna er alveg að fæðast og mikið skipulag í gangi 😉

Lof jú

Ings

Sko jólin eru svoldi vesen

…fyrir flækjufót eins og mig en þetta er allt voða ljúft! Maður fær bara svoldið skrítnar hugmyndir – sem væri vel hægt að gera t.d. í mars en ekki desember en svona er þetta. Þetta ljúfa jólaamstur.

Ég fattaði að ég er orðin gömul – amk eldri en þeir sem eru 35! Það er ekkert að marka Ástu Björk hún er svo gömul sál blessunin þannig að ég hef haft svolítið ranga viðmiðun í nokkurn tíma. Svo er náttúrulega Hlín svo extreme í þessu þannig að ég hef aldrei REYNT að miða mig við hana hún er svo ýkt mikil pæja :-).

Nú jæja

En sem sagt ég er ekki alveg nógu hrifin af nýjustu jólaóróunum frá Georg Jensen en unga fólkið sem ég umgengst núna er alveg dauðhrifið af þeim og finnst mínir uppáhalds púkó…

Sem þýðir bara það – ég er out of date og það er alveg hreint nýtt fyrir mér… Verð að endurskoða þetta svoldið.

En ég er nú amk komin með svart hár, svartar augabrúnir og búin að kaupa mér BRÚNKUKREM – eða sko amk brúnkuvatn! Já þetta átti ég eftir! Ég er ógeðsslega mikil pæja skal ég segja ykkur – var með maskara í dag og í gær – sem er náttúrulega MET!

Beware born 72 – 75 sko ég er að átta mig á þessu ;-).

En já – allt í voða og vitleysu með jólagjafir – er of sein með allt en það er ekkert verra en vant er en það sem meira er ég er að verða búin með öll jólakortin oh yeah. Og ekki Þorláksmessa eða neitt ;-).

Litlu jólin í skólanum á morgun, jólanudd og svo bara frí – föndur og handagangur. Húsi dásemdar fínt og maður er ekki nokkra stund að koma því í stand!

Er þetta ekki bara í lagi?

Ings

Fer sko ekki í spinning

…það er alveg að verða ljóst. Er með svoldið fínar ástæður:
Sigurlín kemst ekki
Mjög þreytt í fótunum eftir dúndur sundleikfimi
þarf að gera jólakort svo ég verði ekki dead stressuð
…svo áreiðanlega einhverjar fleiri!

Er sem sagt að fara að klára kortin og stefni á hreyfingu á morgun eftir skóla. Þarf að vinna þessar 1800 kal sem ég missi ekki í kvöld í spinning. Hef það í bakhöndinni að fara á miðvikudaginn.

Verð bara ótrúlega dugleg í mataræðinu þessa viku líka – stefni á hálft kíló þessa vikuna – er það ekki bara?

Helv… lélegt að missa bara 12 kg í ár en svona er þetta. Stress og yfirkeyrsla í vinnu, fótafúi dauðans frá í mars, astmi og lungnakvef hægri vinstri meiri fótafúi og meiri astmi og fótafúi extreme – og hér er ég samt enn – svo við minnumst nú ekki á þennan helv… nóvember 😉

Ykkar Inga jólakort

Jólatónlist og sörur

Jahá! Mín fór nú bara í Borgarnesið í andlega upplyftingu og sörubakstur – svaf þar í nótt og allt! Páll og Ragnheiður keyptu jólatré og allt í þessu fína – alveg þar til ég sé jólatréð að minnsta kosti ;-).

Einu sinni fóru Ragnheiður og Páll að kaupa jólatré. Það eru 17 ár síðan. Síðan hefur þeim ekki verið treyst til þess arna.

Jólatréð var keypt í 19 stiga frosti þegar konan var að dást að litla drengnum sínu á fæðingardeildinni. Þegar tréð var tekið inn á Háeyrarvellina þá var það nákvæmlega eins og handsprengja. Alveg kringlótt með sprengjuþræði upp úr. Jamm og svona eins og 80 cm hátt ef honum var sleppt. Afskaplega lítið fallegt jólatré verð ég að segja. Það verður spennandi að sjá hvernig það verður í ár – kannski hafa þau eitthvað lært á þessum 17. árum 😉

Jólaglöggið fór afskaplega vel fram á föstudaginn fyrir Ljósuborginga – ægilega fínt of flott og prútt fólk í meira lagi náttúrulega – enda erum við búin að fatta að þar eru tómir snillingar á ferð ;-).

Nú er að taka á honum stóra sínum, ljúka jólagjöfum og jólakortum og vera svo hæfilega slök yfir öllu saman.

Það eru ekki nema fjórir dagar eftir af skólanum – og það þýðir að það eru ekki nema eitt – vika til jóla eða svo.

Úff púff

og 30 lauf komin á vegginn!

2 kg á þremur síðustu vikum

Konan getur víst lést eins og annað fólk

Já og ég keypti Bjögga alla jóladiskana -þeir voru allir orðnir ónýtir þeir gömlu og sá nýi er nú heldur hátíðlegur þykir mér og svo fékk ég mér líka Guðrúnu og Friðrik. En líklega ætti ég ekki að vera að kaupa þessa jóladiska – frekar einhverja aðra tónlist..

Ég er bara svo ótrúlega mikið jólafrík.

Bloggletinginn mikli

… fer nú samt í sundleikfimi og blak og spinning. En hann borðar óþarflega mikið nammi….

En hann er sko búinn að ákveða að ef hann heldur þyngdinni en þyngist ekki í desember þá er það í sjálfu sér sigur….

Nú ætla ég barasta að njóta lífsins og aðventunnar. Fer í Borgarnes til Ástu á laugardag og hef jólaglögg fyrir Ljósuborg á morgun.

Og ég ætla í Styrk á morgun – það er ég búin að ákveða og er rosalega ánægð með þá ákvörðun.

Bless þar til Bloggletinginn fer af stað á ný.

Ég fagna því innilega

…að vera á lífi eftir síðasta spinning tíma (og það eru 90 mínútur síðan honum lauk)!!!!

Ég er hreinlega alsæl! Og ég er meira að segja rólfær! Fór út í búð og allt – eldaði og guð má vita hvað eftir tímann…

Ég held reyndar að ég verði að borða fyrir tímann svona rúmlega fimm og svo fá mér eitthvað eftir hann sömuleiðis svo ég lendi ekki í einhverri orkusteypu bara – sem ég er sko svoldið í nákvæmlega núna! Úff þessi drengur sem stjórnaði tímanum er nú vart kominn af barnsaldri og veit áreiðanlega ekkert hvernig það er að vera 42 ára offitusjúklingur – sem betur fer ;-). Og þar sem ég var viss um að hann væri allan tímann að hugsa um hvað ég væri mikill aumingi þá ákvað ég nú að láta ekki deigan síga – mjög mikið….

En frábært að hafa komist í gegnum þessa þolraun -ekki láta NEINN segja ykkur að spinning sé ekkert mál – það er skoho rosalegt og ég var móð leeeeeeeeengi á eftir.

Ragnheiður mín er föst í London, Palli fastur í Borgarfirðinum og heiðin lokuð – alveg kolgeggjað veður sem sagt en voða verður gott þegar hún kemur blessunin og vonandi gengur allt vel.

Ykkar Inga sem fer áreiðanlega einhvern tímann aftur í spinning!

Sæll 10. desember bara

Hvar hefur bloggarinn Ingveldur haldið sig. Þið munið kenninguna um að þegar konan hættir að blogga þá er hún einhvern fj… að syndga og ekki að gera baun af því sem hún ætti að vera að gera ;-). En það er nú ekki aldeilis svo – sú stutta er svona ægilega lífleg og dugleg og síðast en ekki síst dauðfegin að vera laus við þennan leiðinda nóvember sem er by far the worst month of the year! I kid you not!

Það hefur verið svo mikið að gera í jólaskreytingum og tiltekt að það hálfa væri nóg fyrir svo utan ýmis dramaköst sem tengjast því að vera ægilega óskaplega illt í fótunum og þó sú hugsun hefði ekki flögrað að mér þá stakk hún mig illilega þegar Baldur spurði hvort ég væri hreinlega á leið í hjólastól…. Líklega hefur þó hæðnin verið þar við völd hjá þeim góða manni en allt umburðarlyndi og aumingjagæska hefur gufað upp úr hans stuttklippta kolli og harkan ein er eftir. Hann nennir ekkert við mig að tala fyrr en ég hef misst 40 kíló og með sama hraða eru einhver fjögur ár í það eða svo ;-). Meðvirknin entist ekki lengur en þetta hjá honum blessuðum. Híhí…

En svo fattaði ég að ég þarf bara að hvíla mig og slappa af það er smá að skipulegga heilan mánuð í skólanum og hendast svo í þessa og hina hreyfinguna, skreyta hús og þrífa hágt og lágt. Sauma gardínur og rífast í búaliði sínu öllu. Tíhíhí Já að því ógleymdu að mála litla forstofu og jafnlítið salernisherbergi.

Nú mataræði er með ágætum þó ég hafi grun um að ég hafi verið að stinga upp í mig tveimur konfektmolum þó ég minnist þess hvorki að hafa étið þá né hvernig þeir voru á bragðið. Fuss og svei og eitthvað er hér sérkennilega mikið af smákökum sem rata einnig inn fyrir mínar varir! En svona að öðru leyti gengur þetta bærilega. Fáránlegt að halda að maður léttist í desember – verð bara að sætta mig við að halda fengnum hlut og sækja svo í mig veðrið um leið…

Hreyfingin er svona: Sundleikfimi á mánudag og miðvikudag (og föstudag því ég á tvö skipti inni). Spinning á mánudegi og ef ég er góð í fótunum á þriðjudegi sem er hvíldardagur þá fer ég einnig í spinning á miðvikudegi. Nú síðan er einn blaktími eftir fram að jólum – eða þann 13. des (afmælisdagur hans Aðalsteins míns) á föstudag gæti ég farið í styrk eða synt – ég gæti líka gert ekki neitt annað en sundleikfimina…. nú og á sunnudag tek ég síðan 1000 metrana eða svo.

Ég fór og synti í gær og gat notað blöðkurnar sem eru góðar fréttir en ég hef verið svo aum í ristunum lengi að ég hef ekkert getað notað þær – það er smá tilbreyting í því. Í morgun var Sigrún sundleikfimisdrottning veik og ég fór því og synti í 35 mínútur og náði mér vel á strik. Nú og svo á eftir fer ég í spinning.

Ég fór ekkert í Styrk á föstudaginn enda var ég þá á fullu að undirbúa jólaglögg – og ekki sérlega góð í fótunum – var alveg ónýt eftir blakið en á laugardag var ég miklu skárri, enn skárri í gær og bara þokkaleg í dag. Þannig að hjólastóllinn bíður eitthvað enn…

Meira himpigimpið þessi sjúkraþjálfari minn að vera að stríða mér svona – sigh… Hörmungarhyggjudrottningunni.

En nú ætla ég að líta á jólakort og sitthvað föndurtengt – ég á eftir að gera allnokkrar jólagjafir og síðast en ekki síst kemur hún Ragnheiður mín heim í nótt blessuð litla dúllan mín. Herbergið hennar er fullt af föndurdóti en ég er að vona að henni finnist bara notalegt að koma í ruslaríið hennar mömmu sinnar. Mikið hlakka ég til að fá ungu konuna mína heim.

Aðalsteinn fer síðan í verklega prófið á morgun ef hann kemst þá uppeftir en spáin er eitthvað meira en lítið sérkennileg…

Jólaglögg fyrstuársinga í Sunnulæk tókst frábærlega og ég held ég hljóti að endurtaka leikinn á næsta ári – þessi hópur býr yfir einstakri lífsreynslu og upplifunum sem enginn tekur frá okkur.

Kveðja ykkar Inga sem er alveg að reyna að standa sig í ýmsu ;-).

Ó flækjufótur hve ljúft er þitt líf1

jummi jumm…

Híhí – það er svo mikið að gera að það hálfa væri nóg! Ég er skoho að verða búin að skipuleggja allan desember í skólanum enda veitir ekkert af því – en það tekur líka tímann sinn! En svo á nú líka allt að renna ljúft og vel – huhummm.

Nú svo er verið að taka húsið í gegn, mála og skipta um gólfdúk, henda út skápum, breyta í stofunni og færa alla skápa og þar með allt leirtau hægri vinstri þrífa þarna og þrífa þar, hengja upp seríur og þvo glugga og í kringum þá – já nefndu það bara!

svo þarf maður að vera í líkamsrækt og borða mat og keyra og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég fór í sundleikfimi í gær og ætla í fyrramálið líka að sjálfsögðu but the best part is….

Ég fór í spinning í gær og það var svo hroðalega skemmtilegt og erfitt að það er hrein unun. Við vorum alveg að í um 60 mínútur og tókum þá teygjur. Gaman að vera með svona einhvern þjálfara og svo var Sigurlín með og það er náttúrulega bara rjómakokteill að hafa einhvern með sér í líkamsrækt – munaður sem ég var alveg búin að gleyma. Púlsinn hjá mér var á bilinu 125 -160 annars er Polli greyið að verða batteríislaus svo hann á ekki alveg sjö dagana sæla en ég verð náttúrulega að kaupa svollis handa honum.

Nú er ég að safna í mig kjarki að fara í almenn þrif hér í þessu húsi og skreyta stofuna því fyrstu ársingar í Sunnulæk koma á föstudaginn – ja svona eitthvað af þeim! Skemmtilegt….

Dásamlegt – gat eiginlega ekki hugsað mér aðventuna án þeirra.

En nóg í bili – nú verð ég að fara að taka til….

Já og mataræði gengur hreint ekki svo illa þó annir hafi ekki alltaf sem best áhrif en þá fer ekkert nammi inn fyrir mínar varir og ég er að vona að ég hafi minnkað skammtana. Vonandi skilar það sér í áframhaldandi léttingi. Sigh má ekki hugsa of mikið um þá hlið þá verð ég bara vitlaus en ég get þetta vel og held bara áfram á mínum sniglahraða.