Margt í mörgu

Stundum skil ég ekkert í því hvað getur verið mikið að sýsla. Það er eins og dagarnir fyllist af öllu mögulegu bara ef maður svo mikið sem lítur við. Og svo eru nú jólin alltaf svolítið annasöm – amk aðdragandi þeirra.

Í gær var samverusíðdegi hjá okkur starfsfólki Ljósuborgar. Við leigðum okkur bústað hjá þeim frábæru aðiljum sem reka Minni-Borgir. Hvert og eitt okkar kom með eitthvað af matföngum og föndur ef vildi. Ég mætti á staðinn aðeins á undan og skreytti lítillega með seríum og dúkum í anda jólanna – því við kennararnir erum nú svolítið farin að hugsa um þau – þó kannski sumir meira en aðrir ;-).

Þetta var mjög ljúft og mjög mikilvægt fyrir starfsfólk að hittast og fara aðeins út fyrir rammann – hvort heldur sem vinnustaðurinn er lítill eða stór. Í gærkveldi og í fyrrakvöld fór ég í sund og synti smávegis – allt betra en ekki neitt því ekki fór ég í Styrk á mánudag né þriðjudag og ekki heldur fór ég í sundleikfimi á miðvikudaginn – var hálf svefnlaus þarna í þessum hristingi sem jarðskjálftar óhjákvæmilega hafa í för með sér. En ég ætla nú í sundleikfimina á morgun og stefni á styrk á morgun ef blakið fer ekki mjög illa með mig.

Ég er búin að gera tvær jólagjafir – tralalalalala – nei þrjár. Ógó ánægð með það. Um helgina ætlum við að líta á málningarvinnu og förum til Þingvalla þar sem hún Aldís systir mín afhendir kirkjunni útsaumaða brúðarsessu sem hún var ótrúlega lengi að sauma – allt með gamla íslenska krosssauminum – vóhó geðveikt flott eins og krakkarnir segja.

Nú og svo þarf ég náttúrulega að föndra líka og hreyfa mig eitthvað. Verð vonandi eitthvað líka á floti því mér finnst eins og sundið sé að koma inn og það væri frábært því það er lúmskt mikil hreyfing og hjálpaði mér t.d. mjög mikið í desember og janúar í fyrra að halda mínu.

Sem sagt allt í góðum gír – margt að hugsa um; opnir dagar í skólanum og náttúrufyrirbæravinna algjörlega á fullu.

Ykkar Inga sem er að fara í blak þó henni sé ótrúlega sérkennilega illt í hælnum og hælunum! En eitthvað skárri samt sem er nú harla gott.

Færðu inn athugasemd