Helgarfrí og ekkert að sýsla

Hér hef ég bara heila helgi framundan af hreint engu. Yndisleg tilfinning. Ég elska að gera ekki neitt. Ég er líka ótrúlega góð í því ;-). Vel þjálfuð.

Ég fór í Styrk í dag – get bara ekki kallað þetta Toppsport – heilsulind. Algjörlega hallærislegasta nafn sem ég veit í þessu tilfelli. Fátt upp í Topp þar – nema náttúrulega dugnaðurinn minn 🙂 og starfsfólkið. Það er yndislegt. Þau gera áreiðanlega það besta úr þessum hjalli. Ég fór líka í nudd á herðar og mjóbak.

Einu sinni stökk ég út um glugga á annarri hæð og fór ekki sérlega vel út úr því. Braut eitthvað upp úr hryggjarlið. Hann hefur svo verið að safna í kringum sig bólgur og veseni sem leiða upp bakið og niður í mjaðmirnar. Frekar vont nú þegar fíni fitupúðinn sem hjúpaði þetta auma svæði er að minnka og því finn ég fyrir þessu þegar ég ligg og sit og svona eitt og annað – hef svo sem alltaf fundið fyrir þessu niður í fæturnar – sérstaklega þann hægri. En nú er Baldur farinn að fást við þetta – lagar þetta áreiðanlega eins og annað ef þess þarf og það er hægt.

En annars finnst mér eins og ANNAR KAFLI sé hafinn í mínu lífi. Ja amk er búið að skrifa fyrstu línurnar í inngangsorðum hans ;-).

Lítum aðeins á lífsstílsbreytinguna mína:

Í fyrra missti ég 19 kíló frá maí til áramóta á 8 mánuðum sem sagt.

Í ár hef ég misst 9 kíló á 9 mánuðum (huhummm….)

Ekki alveg að gera sig sem sagt… En jú þess vegna er nefnilega annar kafli hafinn!

Samtals eru þetta 27 kíló sem er nú bara allnokkuð.

Í júní 2006 byrja hálsverkirnir.
Í ágúst byrjar hælsporinn
Í september er það beinhimnubólgan
Þetta heldur síðan áfram allt saman fram í nóvember þegar þetta líka fína þunglyndi grípur dömuna! Hálsinn alveg frá og hælsporinn alveg að drepa mig.

Janúar 2007 þá fer hálsinn að lagast.

Í mars fer ég að finna fyrir fótunum á alveg nýjan hátt! Sem svo versna alveg fram í ágúst.
Í maí er ég orðin mjög slæm í mjöðmunum og alveg niður í tær.
Í júní fæ ég í lungun og er með það alveg fram yfir verslunarmannahelgina.
Nú svo aftur 12. ágúst og verð hundveik. Nú svo skipti ég um vinnu og það allt saman.

Þess vegna ætla ég bara að vera ánægð með kílóin mín níu í ár – 27 alls.

Þórunn vinkona segir að þetta sé allt saman meðganga – það sé ekki hægt að flýta ferlinu eða stökkva yfir eitthvað – alla níu mánuðina er best að ganga í gegnum.

Nú maður þarf náttúrulega bara að átta sig á ýmsu.

T.d. að ég vil gera þetta sjálf.

Ég þarf að hafa hvetjara í kringum mig.

Ég þarf að hafa afruglara í mínu horni.

Ég gæti þetta aldrei án faglegs stuðnings.

Ég þarf að skrifa allar leikreglur upp á nýtt og aðlaga þær að mér – sem skilar engu nema vandræðum þegar matur er annars vegar. Þar er bara ein regla – fara eftir danska kúrnum.
Ég get engu bætt þar við þó ég sé alltaf að reyna það.

Hreyfingin er mín og skiptir mig ÖLLU máli þess vegna þarf ég að gæta að skrokknum mínum – létta á honum sem allra fyrst og styrkja hann.

Engin leið er út úr þessu nema að hugsa og hugsa og hugsa um mataræðið. Dugar víst ekkert hálfkák þar.

Ahhh og áreiðanlega eitthvað fleira :-).

Baldur segir 135 kíló fyrir jól. ég segi 8 og helst 10 en það væri nú líklega of gott til að vera satt. En þetta eru engar tilviljanir. Danski á að skila manni kg á viku, tala nú ekki um með þessari hreyfingu minni.

Við sjáum til – höldum okkur við 135 og sjáum hvort við getum ekki farið heldur neðar. Þá mætir Baldur á blak æfingu að þjálfa okkur stelpurnar. Híhí

Færðu inn athugasemd