Vetrarfrí enda líka

Jæja þá er ég komin heim í heiðardalinn úr gamla heiðardalnum. Ég var í bústað uppi í Búrfelli og horfði yfir á Írarfoss – sigh. Mikið sakna ég Sogsins og alls þess sem þarna er – nema kannski akstursins með krakkana hingað og þangað ;-). Sigh – sigh – sigh

Nú þetta var náttúrulega alveg dásamlegt frí – heitur pottur – yndislegar samræður við Þórunni og ekki nokkur líkamsrækt ;-). Fór nú samt á föstudaginn en ég hef ekkert farið í sundleikfimi né Styrk – fyrr en ég kom heim í dag. Langaði nú ekki neitt, og nennti enn síður. En ég var svo geðvond eitthvað yfir öllu og engu að ég sá að það var réttast að hypja sig í ræktina – og reyna að þynna fýluna svolítið – svona gekk það fyrir sig 😉

  • best að fara á stigvélina í 24 mínútur!

Ég klifra upp á helv… tækið sem þá var stillt á b en ekki a hvað svo sem það nú merkir… Kippti því í liðinn en ég fékk frekari skilaboð um að ég ætti bara að láta það vera því það var alveg frosið og ég varð að taka það úr sambandi til að koma vitinu fyrir það – með því að setja það aftur í samband þeassss….

Hmmm púlsinn bara í 108, það er nú svei mér lítið – líklega verð ég að hreyfa mig eitthvað hraðar….

…ætli ég sé bara í svona góðu formi? Mér líður nú ekki þannig í fótunum…. Svoldið erfitt satt að segja… Ætti ég ekki bara að vera í 10 mínútur á þessu og fara svo í Zetorinn? (sethjól fyrir gamlar kellingar 😉 eins og sumir orða það)…´

Úff erfitt… Ég verð nú samt eiginlega að fara hraðar – það er ekki hægt að vera á stigvél og vera með 110 í púls…

Ah loksins svitna ég – bara að ég kafni ekki í eigin svita..

15 mín eru alveg nóg – christ hvernig datt mér í hug að velja 24 mín prógramm…

Best að fá sér aðeins vatn… – stoppa í 30 sek…

Víhí – ég ætla að meika það.

Dj er ég nú hörð af mér! Ég held ég þurfi að setjast einhvers staðar!

Anda jafnvel… fara heim…

…fletti líkamsræktarbókinni minni og sé að ég á að gera æfingar fyrir efri partinn í dag… Svoldið illt í framhandleggjunum …“ En engu að síður henglast ég að lóðunum og 2×6 kg í brjóstvöðaæfingum reyndist meira en nóg svo ,,ég verð víst að gera fótaæfingar bara – en ég geri sko ekki Smith og ekki tvöfalda palla nóvei, of illt í hælunum til þesss og bara líka of þreytt….“

Og svona leið dagurinn í Styrk ég nennti engu og ég sendi svo miklar geðvonskuvíbrur í kringum mig að fólk tók stóran stóran krók fram hjá mér ;-). Skrönglaðist nú samt til að gera pallanan hratt en bara einfaldan pall – dugði mér fínt. Rétt skreið yfir 1600 hitaeiningar í dag – það er 500 jafnvel 800 minna en vant er – allt slóðaskapnum á stigvélinni að kenna. Zetorinn var nú samt þaninn í 30 mín – jah kannski ekki þaninn en samt…

Og ég var vinsamlegast beðin um að koma í góðu skapi í Styrk á föstudaginn -;-). Líklega betra. En vigtin lítur ekki svo illa út – opinber tala á föstudag – enda var þetta algjörlega frábær helgi og vika í mataræðinu. Ég held svei mér þá að þetta snúist um að ætla.

Og ef mig langar í eitthvað í kvöld þá ætla ég að hugsa – ég get alltaf fengið mér það í fyrramálið …

Þetta er spurning um að finna fjölina sína þar sem maður getur staðið og fundið að víst ætlar maður þetta einstigi – víst get ég, veit ég og ætla ég.

Og jafnvel líka veit ég hverju ;-).

Vetrarfrí

Jibbí nú er ég alveg að komast í vetrarfrí – mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Ég ætla að föndra mig vitlausa. Það er nú ekki mjög leiðinlegt – nema kannski þegar ég fæ vöðvabólguna 😉 af öllu saman.

Ég er skárri í hælnum, komin með kvef og þetta fína slím í lungun amk er nógu gaman þegar ég hósta því upp ;-). Hafði líklega ekki nema hæfilega gott af sundsprettinum í gær. Aumingja litlu lungun mín. Jæja þau eru nú bara heilbrigð svo við hristum þetta af okkur!

Er enn að reyna að ákveða mig hvað ég eigi að gera í ræktinni í dag… Eða hvort ég fari yfirleitt…. Nú eða hvort ég syndi… Eða bara hviss bang ekki neitt – pakki bara og fari í bústaðinn….

Úff hvað lífið er flókið og snúið og margar ákvarðanir sem þarf að taka 😉

Life is good

Tíhíhí stjörnuspár

stubborn as the true Aries that you are. The planetary configurations today will push you to lay the foundation for the projects you have been planning over the last six months. Go with the flow. People say that Aries are good at lighting fires, but lousy at keeping them going: it’s time you proved them wrong!

Og haldið þið ekki að hællinn sé bara að lagast?!?

Tvöföld skírn og bónorð

,,Mér líður eins og í bíómynd“ sagði blessað barnið í Reykholtskirkju um helgina. Og er það nema von. Þetta var svo fallegt allt saman að ég grét allan tímann.

Systurnar Hlín Helga og Rannveig voru að skíra litlu drengina sína tvo, þá Bjart Þór sem fæddist sex vikum fyrir tímann og Anton Mána sem er hálf danskur og heimsins meista krútt að föður hann Thomas sem var til í að tala við mig um min madpakke hele dagen hvis jeg vil. En það er nú önnur saga (sú að ég kenni dönsku, kann ekkert í dönsku en læri um leið og börnin og kann því að tala svolítið om min madpakke ;-)).

Dagurinn byrjaði nú svona allavega, konan hæfilega geðvond og það allt saman og búin að vera að paufast við að gera skírnargjafirnar – eyðilagði svo aðra og reyndi að bjarga málunum en þá var ég orðin allt of sein. Við hentumst af stað, og gleymdum kortunum en urðum samt að fara göngin því við vorum svo sein – og föttuðum þetta ekki með kortin fyrr en of seint líka. Nú jæja, fólkið beið og beið í athöfninni því það vissi að ég væri að koma – oh my god en ég vissi það nú sem betur fór ekki fyrr en eftir á ;-).

Það er svo fallegt að horfa á lítil börn, þeirra bíður allt lífið og maður getur einskis óskað nema þess að lífið farið mildum höndum um þau og að hvert áfall verði þeim til góðs því styrkur þeirra og þor verður slíkt. Ég varð einhvern veginn yfirkominn af þessu öllu saman og þeir svona sætir, annar lítill og hinn stór og báðir svo myndarlegir. Og okkur veitti bara hreint ekki neitt af liðsinni Guðs og ég held við höfum öll lagst á bæn með prestinum og óskað snáðunum og foreldrum þeirra allrar guðsblessunar. Það er gott að hafa Guð með sér í liði.

Nú þegar ég var nú búin að skæla svolítið yfir þessari fegurð allri og óttanum við vonsku heimsins, dópsala og mannvonsku alla reyndi ég nú að jafna mig og hugsa eitthvað fallegt – maður má nú ekki láta hörmungarhyggjuna ná tökum á sér!

Og þar sem ég þurrkaði tárin og reyndi að lappa upp á maskarann spratt þá ekki Thomas fram á gólf og bað Rannveigar. Ja hérna hér – hann hefur lag á að toppa allt það sem gott er drengurinn. Í giftingunni hennar Hlínar flutti hann svo fallega ræðu – á íslensku Daninn sá að ég get enn skælt úr mér augun og við láum öll kylliflöt fyrir honum. Og nú var það skírnin sem varð enn eftirminnilegri en ella. Gott að Rannveig sagði já ;-). Æ þau eru svo sæt saman.

Ég grét nú vel og lengi yfir þessu öllu saman. Oh my god! En sætt og fallegt og einlægt og allt.

Að þessu loknu fórum við í veislu í nýjum goflskála í Nesi og þar sem þar hafði aldrei verið mannfögnuður áður var húsið blessað af presti og gestum og það var svo fallegt að ég gat volað svoldið yfir því. Ég held ég vilji láta blessa húsið mitt – mikið er þetta fallegt. Guð er góður.

Afi og amma gáfu strákunum sínum svo fallega og sniðuga gjöf, nýju Biblíuþýðinguna og passíusálmana í flutningi Megasar og barnakórsins hans Hilmars í Skálholti. Sigh allt svo fallegt og fínt.

Og við Palli stukkum til og frá að horfa á Kimi vinna og Hamilton gera í buxurnar og í lokin varð bara Kimi minn heimsmeistari, blessaður drengurinn. Og ég átti eftir að fagna því með Ferrari. Ja hérna hér!

Drengirnir fengu sem sagt nöfnin sín daginn sem Kimi varð í fyrsta sinn heimsmeistari ;-).

Góður dagur og yndislegur í alla staði.

Kimi minn og hællinn







Kimi minn – hann er flottur á þessum myndum.

Óþarflega rauður en maður þarf nú ekkert að halda með Ferrari þó maður haldi með Kimi – er búin að læra það ;-). Og ef ég slysast til að taka eftir rauða litnum þá er hann nú uppáhaldsliturinn minn svo…

Jæja ég hef verið fótlama í dag – var heima með fótinn á klaka í allan dag. Nú svo tók þessi dásemdar sjúkraþjálfari mig upp á sína arma og stakk þessum viðbjóðslegu tveimur nálum í mig – eftir að ég var búin að hjóla – neitaði að gera það fyrr! Hjólaði á Zetornum í Styrk og komst nú í gegnum það – vísast betra en ekki neitt… Og nú sit ég fótinn upp í loft með ís á hælnum og ég vonast til að verða þokkaleg eftir frystinguna 😀

Nú og svo á ég eftir að tala um dásemdar skírnina sem ég fór í gær – þar var bónorð og ALLT en það verður ekki gert í væl pistli ;-).

Kimi meistari … amk í nokkrar klukkustundir

…ég ætla aðeins að bíða með upphlaupið og gleðina. Þar til þeir þarna hjá Williams og BMW hafa hreinsað til hjá sér – lítur víst eitthvað illa út með þetta allt saman í augnablikinu hjá þeim og þar með Kimi því ef þeir verða dæmdir úr leik þá er Hamilton orðinn fjórði og hviss bang – meistari.

Þeim ber víst ekki saman hitamælunum í Sao Paolo. Franska veðurstofan sem liðin nota við mælingar segir hitann hafa verið nokkrum gráðum lægri en keppnishaldarinn en þeir segja hitann hafa verið 37°en bensínið var um 23 – 25°hjá þessum liðum. Það er hins vegar ekki sérlega auðvelt að refsa þeim ef þeir nota upplýsingar sem segja að bensínið þeirra hafi verið innan þeirra marka að vera 10°c lægra en lofthitinn.

McLaren ætlar nú að stympast við og áfrýjar úrskurðinum en ég held að þeim sé ekki stætt á að dæma þeim í vil því það stendur hvergi að hitamælingar keppnishaldara séu opinberar og liðunum beri skylda til að miða við þær.

En það væri svo sem eftir öðru – dramað það. Bíðum og sjáum til

Óstjörnleg geðvonska

Ég er ekki í lagi. Ég er að vona að mér sé ekki sjálfrátt! Það séu einhver öfl innra með mér sem stjórna þessu öllu saman – kannski hormónar ;-). Í dag hef ég slegið öll met í geðvonsku.

Reyndi hvað ég gat að vinna bug á þessu en heppnaðist ekki. Ég ætlaði að útrétta í morgun og ákvað að fara á hjólinu til þess arna – eftir að hafa reynt að hringja í einhvern til að ná úr mér geðvonskunni en enginn svaraði!

Settist á fákinn, hjólaði í vinnuna til Palla til þess að ná í debetkortið mitt en það gekk nú ekki sérlega vel, því Palli var hreint ekki þar sem ég hélt hann væri. Nú jæja plan b – engar útréttingar, best að hjóla Langholtið og svo flýja inn Furugrundina og ákveða svo upp úr því hvern ég ætti að heimsækja. Nú þar sem ég var næstum köfnuð á móti vindi í Langholtinu sá ég að best væri að fara til Bjarkar en þá var enginn heima þar. Ég fór þá til Olgu og þar voru svo margir heima að ég ákvað að trufla hana ekki. Hjólaði þá á móti sunnan bálinu til Vilborgar – og var þar í góðu yfirlæti í góða stund ;-). Hjólaði svo heim og alls hjólaði ég í klukkustund og rúmlega það ;-). 14oo hitaeiningar góðan daginn.

Sæll hvernig steik ert þú eiginlega!

Og fann ekki fyrir því – ekki uppgefin einu sinni þó ég hefði það varla á móti vindinum.

God ég er svo mikil pæja – nú svo fór ég heim og var meira geðvond og mest geðvond. Lagaðist svo við gott atlæti Aðalsteins og Þórunnar. Þetta geðvonskukast mitt hafði hins vegar ekki góð áhrif á aumingja Pál sem er svo meðvirkur að það er óskaplegt. Ég verð að vera betri við hann blessaðan drenginn.

Fitupúði í hæl

Það er allt til og manni getur orðið illt í því! Trust me it is true!!!

Og gat nú verið að fita kæmi eitthvað málinu við ;-). Fitupúðinn er eins og dempari og demparinn í hægri fætinum er e.t.v. aumur – amk er hællinn aumur og Baldur heldur að það geti verið þessi púði sem sagt.

Ég fékk nálar í dag – bara tvær – sem betur fór því ógeðið þegar þeim var stungið í mig! Og svo var ég í 20 mínútur í ótrúlega miklum gír útaf þessum nálum ;-). Ég verð svo víruð þegar ég fæ nálar. Og ég er alveg að verða búin að festa 3 kílóin í sessi – 3 kg á jafn mörgum vikum. Ah er það ekki bara ágætt ;-).
Og ég verð að koma mér til tannlæknis.

Og ekki vera með neitt drama – en það er uppáhaldsorðið hans Baldurs!

oh yeah

Sæll hann rignir bara?

Ja hérna hér – það er nú meiri ósköpin hvað þetta veður ætlar að vera leiðinlegt.

En ég sem sagt var upp á punt á blakæfingu í gær – ég gerði eiginlega ekkert gagn og brenndi ekki nema 2100 kal sem er alveg góðum 1000 færri en venjulega enda fannst mér ég ekkert vera að gera – gat heldur ekkert gert því mér var svo illt í blessuðum hælnum ;-).

En nú er helgin framundan. Ég fór í sundleikfimi í morgun og það var ótrúlega skemmtilegt – mér finnst svo gaman þegar það eru stöðvar. Þá getur maður djöflast alveg eins og maður getur og fær svo öðruvísi hreyfingu í næstu bunu! Ég var ekki með fótalóðin – ég er búin að fatta að ég brenni miklu meiru og á betra með að hreyfa mig ef ég er ekki með þau – enda vantar svo sem ekkert upp á þennan fótastyrk minn – ég tek rosa þyngd í lærapressunni þannig að ég vel brennsluna frekar – það er amk ekki gaman að vera í 40 mín í leikfimi og vera með sama púls og ef ég horfi á House 😉

Kannski ætti ég að fá að koma á föstudögum fram að jólum og sleppa einni styrkferð… á meðan hællinn lætur svona við mig amk. En þá þyrfti ég að hjóla seinni partinn …. og því náttúrulega nenni ég ekki í þessari rigningu alltaf hreint – og svo kemur bara hálkan…

Kannski ætti ég að synda… en því nenni ég náttúrulega ekki heldur og ekki víst að ristin á mér þoli það heldur. Fyrir nú utan lungun…

Christ ég er algjör aumingi!

Ekki í lagi að vera að væla þetta alltaf. Enda ekkert að mér nema bara svona verkir hér og þar. Mataræðið er sko pínu pons skrítið en að mestu leyti í lagi 😉 Hef samt bara fengið 12 límmiða af 18 mögulegum… Ég sko fæ límmiða ef ég borða engin sætindi eða aðra óhollustu!

Sem sagt á svoldið í land 😉

Það er nú meiri óþverrinn þessi geðvonska

Ég er svo geðvond að ég gæti sprungið. Ég er með tannpínu! Þoli ekki að vera með tannpínu og þori ekki til tannlæknis þó ég auðvitað fari þangað á endanum. veit ekki hvað það á að fyrirstilla að vera með svoleiðis ógeð – tannpínu þeas. Æ mig auma. Óttast ekkert í veröldinni meira en tannlækna.

Er ógeðslega illt í hælnum og alveg draghölt. Hrmpf… Hausverkur alveg viðvarandi – en ég ét nú svo mikið af verkjatöflum að ég veit ekki alltaf af honum. Svo er ég komin með í lungun á ný og af þessu öllu lítur bluesinn inn og það þoli ég nú alls ekki.

Reyni að vera hress og góð við fólkið í kringum mig en það gengur nú ekki sérlega vel. Sagði held ég Baldri að þegja áðan… Svoldið í gríni sko 😉 en samt. Maður náttúrulega segir ekki fólki að þegja sem er að reyna að hjálpa manni… þó hann hafi nú svoldið verið að tuða.

Ég fékk nudd dauðans – er svo aum í liðböndunum og neðanvert í kálfanum innanverðum að það er ógeðslegt! Fékk eitthvað rafmagn og verð vonandi betri. Verð amk ekki verri. Fór annars í pottinn í gærkveldi og lagaðist svolítið við það.

Fór svo í sundleikfimi í morgun og nú er ég búin að fatta að ég verð bara að vera lóðalaus um fætur og hreyfa mig eins hratt og ég get – ég næ ekki nokkrum púlsi með því að rembast þetta með fótlóðin. Hreyfa mig hraðar er málið ef ég ætla að ná upp púlsi – þó ég taki það með í reikninginn að hann er lægri í vatni en utan þess. En hún gerir mér áreiðanlega gott og í henni er ekki eins mikið álag á liði og fæturnar – og ef ég passa að gefa mér góðan tíma til að teygja þá er ég bara góð.

Og það er í sjálfu sér ekkert að mér nema geðvonska en hún er ansi þaulsetin og virðist síst vera á undanhaldi. Maður þarf bara að hafa hægt um sig og reyna að hemja sig – horfast í augu við bluesinn, gefa aðeins eftir og rísa svo upp.

Jamm það er það sem maður þarf að gera – allt og sumt 😉

Já og svo fór ég á vigtina áðan – hélt ég væri kannski að léttast – en já nei – það hlýtur að styttast í það…

Inga geðvonda sem hefur áhyggjur af því að komast ekki í blak á morgun