Er ég íbúi í dingdongbling?

Ég held ég sé hreinlega ekki hægt – að minnsta kosti ef maður skoðar skilaboð veraldarinnar. Ég á áreiðanlega eftir að vakna upp einn daginn og hugsa: HVAÐ VAR ÉG AÐ HUGSA!

En þar sem ég er ekki komin þangað þá læðist nú að mér sá grunur að kannski sé veröldin á rangri leið…

Einhvern veginn er ég alltaf að detta um einhverjar maga-aðgerðasíður og fréttir. Hreinlega fell um og á þær. Það hljómar ótrúlega spennandi að missa 50 kg á einu ári – sem er svona eins og helmingi meira en ég missti fyrsta árið mitt. Og nóg sækist ég eftir að missa önnur tuttuguogfimm…

Ég á vinkonu sem fór í tískuaðgerðina fyrir magaminnkunarfárið – þá var fengist við þarmana auk annars… Og hún er hreint ekki gangandi sönnun þess að inngrip í meltingarveginn sé til bóta. Ég á líka dóttur sem á við erfiðleika í meltingarvegi – það hefur sannast æ og sí, sí og æ að okkur veitir ekkert af þessum meltingarvegi okkar. Og líklega eru fleiri sammála því úr heilbrigðisgeiranum. Því hlýtur hættan og ókostirnir við hitt – offituna að vera gríðarlegir. Meiri en ég get ímyndað mér.

Þegar maður les blogg og skoðar myndir þá er allt sem er á eftir stórkostlegt og allt sem var áður hræðilegt. Sumir eiga sér ástæður fyrir því að vera of þungir, áföll, ofbeldi, þunglyndi og sitthvað fleira hræðilegt og hviss bang bara með því að léttast þá hverfa öll þessi mein og lífið verður stórkostlegt. Áður var varla hægt að sjá bros á vanga en á eftir myndunum nær það allan hringinn.

Nú jæja – nýtt líf. Fyrir og eftir… Oj bara þetta var ég – en núna er ég hot! Ég fyrir aðgerð – ég var svo óhamingjusöm og þetta er ég eftir aðgerð svo hamingjusöm! Svona eru kvótin…

Og ég í fullkomnu bliss afneitunarinnar get bara ekki skilið að ALLT verði gott sem áður var slæmt… við að missa 50 kg eða svo. Kannski skil ég það þegar ég hef misst 25 í viðbót. Þá opnast kannski einhverjir heimar fyrir mér sem eru mér algjörlega luktir.

Kona lendir í ofbeldi sem barn, flýr á vit matar, losnar við kílóin og þessa ógnarinnar vanlíðan sem fylgir þeim með inngripi skurðlæknis og allt í einu skipta örin á sálinni engu máli. Hamingjan er algjör. Maður heyrir ekki einu sinni minnst á aukaverkanir, skort á upptöku ýmissa næringaefna og breytingar á lífsháttum. Það er bara hjóm eitt.

En svo kemur kona í Blaðið og segir farir sínar ekki alveg sléttar og hún er næstum úthrópuð fyrir að eiga sér ekki annan draum en borða heilan hamborgara í stað hálfs. Sem náttúrulega var aldrei málið hjá henni – heldur hitt að búa við stöðuga löngun í eitthvað sem þú getur ekki fengið og búa við vanlíðan liðinna ára er slítandi og þrúgandi hugarástand sem skurðlæknir fær litlu við gert.

Mig langar bara að koma eftirfarandi á framfæri. Í hjartans einlægni. Ég hef átt gott líf en á því hafa verið ýmsar slaufur. Ég eignaðist langveikt barn, er kaos-isti varðandi margt, mat, heimilishald, peninga – sem svo aftur þýðir að ég þarf að súpa af því seyðið oftar en mér er ljúft. Ég á stóra og góða fjölskyldu sem aftur þýðir að það voru margir sem höfðu á mér skoðun og ég er alveg viss um að ellefta barn þá aldraðra foreldra var ekki sérlega kærkomin viðbót. Engu þeirra fannst neitt sérstakt til mín koma – ég var óþægileg viðbót við þá þegar of stóran systkinahóp. Ég var ekki knúsuð og kysst – ég þurfti miklu frekar að forða mér undan athugasemdum þeirra sem eldri voru. Ég er því, því merki brennd að sækja í viðurkenningu en þykjast þó ekkert vilja með hana gera. Ég er sjálfstæð en þrái umönnun. Ég veit hvað ég vil og hvert ég vil en finnst gott að fá leiðsögn og stuðning þó ég láti eins og það sé það síðasta sem ég vilji – allt til að forða því að líta þannig út að mér veiti ekki af hjálpinni. Ég óttast dóm annarra en gef samt ekkert fyrir hann. Ég þykist vita mínu viti en efast samt all along.

Ég varð feit því ég hætti að hreyfa mig og lenti í gríðarlegri óreglu með mat á Laugarvatni. Þegar ég fór á pilluna fitnaði ég um 30 kg. Þegar ég átti Ragnheiði var ég 137 kg og þegar ég átti Aðalstein var ég 144 kíló. Ég var líklega þyngst um þrítugt og svo mánuðina áður en ég fór til Baldurs.

Ég hef aldrei verið sérlega óánægð með líf mitt – maður sáir eins og maður uppsker. Mér leið frábærlega á Ljósafossi og þó það hafi eitt og annað gerst þar þá gengu úrlausnirnar ágætlega. Ég og krakkanir undum hag okkar hið besta og Páll kom heim í frí og var sæll í sveitinni. Ég elska að kenna, ég á alls konar áhugamál sem mér finnst frábær og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að vera að biðjast afsökunar á því að vera með hárvöxt í andliti eða vera alltof þung nú eða vera sú frenja sem ég er. Ég á frábæra vini og yndislega fjölsyldu sem gerir mig þó alveg vitlausa á köflum ;-).

Ég bara get ekki séð að fjöldi kílóa hafi mikil áhrif á þetta. Ég er svo sem ekki að láta mig langa til að gera hluti sem ég get ekki – Ragnheiður var fullkomið barn og ég vildi ekki að hún væri á neinn annan hátt. Ég hef aldrei æðrast yfir því hlutverki að annast hana – og ég óska henni góðrar heilsu og alls hins besta – en það þarf ekki að kvarta yfir neinu varðandi hana – öðru nær. Þetta voru einfaldlega spilin. Úr þeim þarf að spila.

Ég þarf að aga mig þannig að ég neiti mér um það sem mig langar í. Maður getur ekki og á ekki alltaf að fá allt sem mann langar í bara afþví maður getur veitt sér það. Ég þarf að aga mig í innkaupum, heimilshaldi, mataræði og hreyfingu. Sumt af þessu gengur ágætlega. Annað gengur verr. Sumt gengur fínt aðra stundina en verr þá næstu. Og ég verð stundum leið yfir því en ekki þyngdinni. Ég verð glöð þegar ég léttist því þá er ég að ná markmiði mínu. Ég er glöð þegar hreyfingaráætlunin mín stenst því þá er ég að ná markmiðum mínum. Betri heilsa, lipurð og endorfínið gerir manni jú gott.

Ég meina come on þó maður sé alltof alltof feitur þá á maður sér nú líf – fínt líf. Þó maður hafi verki vegna þess að maður sé of þungur þá vill maður samt vera laus við þá og vinna í þá áttina því ekki léttist maður nú á einum degi eða tveimur. Því verður maður að vinna í því að eiga sér gott líf hver sem þyngd manns er. Og það er vinna – ekki bara aðgerð. En ef aðgerðin getur orðið hvatinn til góðra verka í garði hvers og eins þá er hún að sjálfsögðu þess virði. En ég held að hamingjan búi ekki í vigtinni…

Ég held ég haldi mig því við hægt og not always svo hljótt aðferðina mína. Byggi upp vöðva, þrek og þor, efli aga minn og sjálfsstjórn og reyni að verða pínu betri manneskja með því að leggja rækt við sjálfa mig. Besti árangurinn er innra með mér, kílóin eru svo birtingarformið fyrir augu annarra.

Þetta gengur heldur ekkert illa. Ég 18 mánaða hreyfingarafmælið verður ekki haldið á hápunkti léttings eða sjálfsstjórnar en ég hef heldur ekkert þyngst í 18 mánuði og ég er enn að. Þarf maður að biðja um meira.

Ég er bara ekki þar stödd að finnast allt sem að er í mínu lífi vera vegna þess að ég er of feit. Það að ég sé feit er hins vegar birtingarform þess sem að er – svona rétt eins og öskrin, pirringurinn og draslið í kringum mig. Á öllu þessu þarf að taka – það er ekki nóg að vera með fallegar gardínur og láta allt líta vel út – það þarf að vera innistæða fyrir því. Og það er ekki eins og ég sé frávita af óhamingju – öðru nær. Nokkuð sátt við mitt bara – en vildi vissulega gjarnan vera aðeins minna ekki hægt en ég er ;-).

Og já Baldur minn ég skal íhuga það og jafnvel láta mér detta það í hug að það sem að mér er í skrokknum sé vegna þess að ég er of þung… en það er ekki þar með sagt að þú eigir ekki að gera eitthvað í því líka!

Þú ert jú sjúkraþjálfarinn minn – já og íþróttamönnum er illt því þeir eru í íþróttum. Það er bara flottara að vera meiddur á hné vegna tuðru en vegna þess að vera of þungur – en bæði er samt áskapað!

Íþróttasnobb í þessu þjóðfélagi 😉

2 athugasemdir á “Er ég íbúi í dingdongbling?

  1. Mikið ertu skynsöm Inga mín – og þrautseig, 18 mánuðir eru bara töluverður slatti 😉knús og kreist frá Erlu sem er á leið í laxveiði (hum)

    Líkar við

  2. Hæ Inga ég er alltaf að kíkja á þig hér! Það er sko gott að þyngjast ekki!!!Ég var ómöguleg yfir því að komast ekki á blakæfingu 😦Frétti að það hefði verið stuð og einhver ný byrjuð sem smassaði einn glugga í sundur??? 🙂kv.Villa

    Líkar við

Færðu inn athugasemd