Ég fór á bíó í gær. Sem er vel að merkja nokkuð sem ber til tíðinda í mínu lífi en við Páll fórum á Veðramót í gærkveldi – kl 22:10 og hún hefur áreiðanlega ekki byrjað fyrir en 22:30. Ég vildi endilega drífa mig því ég var næsta viss um að annars myndi ég ekki fara – það er svolítið minn stíll.
Þessa mynd vil ég hins vegar fyrir alla muni sjá. Bæði hefur hún fengið góða dóma og eins er Duna ein af aðalmanneskjunum í minni bernsku – sem sýnir hvað smásamvera getur gert mikið fyrir mann – endist manni ævina.
Duna kom á Þingvöll og var hjá okkur veturpart og fram á sumar ef ég man rétt. Tíminn er annars óræður en árið var áreiðanlega á bilinu 72 – 74. Ég man nú ekki hvort ég var mikið með henni en amk man ég að hún gaf mér brúnan flauelisanorakk sem ég var í árum saman og grét fögrum tárum þegar ekki var hægt að bjarga honum frekar með hekluðum bótum. Ég man líka eftir því hvað hún var ræðin og skemmtileg og að hún reykti pípu og hún átti þennan makalausa föður sem ég fór mjög ung bókstaflega að dýrka.
Einu sinni kom Halldór í heimsókn til okkar í rauða húsið á Selfossi. Ég sat allan tímann í trans og hlustaði á manninn. Ég hefði ekki orðið upprifnari og hrifnari þó ég hefði séð Gandhi.
Mér var einu sinni boðið í viku að Laxnesi og ég gleymi aldrei þeim tíma. Dúkkusafninu hans Halldór – ég fékk meira að segja eina dúkku úr því, flísunum í anddyrinu og stiganum upp á loft. Sundlauginni og kyrrðinni. Ég sat stundum inni hjá honum og las. Það var virkilega gefandi dvöl man ég þó ég hafi ekki verið há í loftinu. Duna hefur áreiðanlega staðið fyrir því heimboði. Sigga systir hennar sendi mér jólakost og á því var mynd af Auði og í dag passa ég mig á því að lesa allar bækurnar hennar Auðar. Það er því ekki nema von að Duna sé mér hugleikin – margt sem tengist henni. En mest og best man ég hvað hún var mér óendanlega góð og hvað hún nennti að tala við mig og ganga með mér. Mér fannst svo mikið til mín koma þegar ég var með henni – hún lét mér líða eins og ég væri svoldið merkileg manneskja ;-).
Annars er það að frétta af Ingveldi að hún heldur kúrs nokkuð vel. Hætt að borða í mötuneytinu og fær sér bara skyr.is og hrökkbrauð og eitthvað svona. Það er of fitandi matur í mötuneytinu fyrir svona kerlingu eins og mig. Ég hef aukið grænmetisskammtinn en hann var áreiðanlega orðinn sérkennilega lítill þó ég borði alltaf eitthvað grænmeti á degi hverjum.
vonandi skilar þetta og hreyfing 5 sinnum í vku mér því að ég fari að léttast á ný.
Ég fór til ofnæmislæknis í dag og ég er ekki með ofnæmi fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Nema hvað ég syndi svörun við katta og hundahárum – nokkuð sem ég finn nú bara á eigin skinni.
Læknirinn sagði hins vegar að miðað við sögu mína þá virtist þetta vera eins og ég held. Það er einhver viðkvæmni í lungunum -astmi sem svo gýs upp við eitthvað áreiti svo sem eins og rykið í Sunnulæk í vor og sumar. Við það fer líkaminn yfir ákveðinn þröskuld og aðrir þættir í umhverfinu fara að angra mann s.s. eins og gróður og hundurinn ;-).
Hann vill hins vegar senda mig í ítarlega blóðrannsókn og best þætti honum að ég færi til lungnalæknis því það virðist vera eitthvað undirliggjandi sem er að hrekkja mig. Ég skil ekkert hvað það er en ég er alveg sammála honum því mér logsvíður í lungun og er hreint ekki með sjálfri mér – en ég get líka verið duglegri að taka Brykanilið og hitt þarna steradótið sem ég gleymi alltaf ;-). Nú ætla ég að vera dugleg að taka það reglulega og svo gæti ég farið á fyrirbyggjandi ofnæmislyf sem ætti að hjálpa mér á meðan ég er að komast yfir þetta.
Sem sagt sem fyrr er ekkert að Ingveldi sem betur fer ;-). Það er sama í hvaða próf ég fer – það er blessunarlega alltaf staðfesting á því að í raun er ég heilbrigðasta fitubolla á Íslandi.s
En nú ætla ég að vera dugleg að hugsa um mataræðið.
Grænmeti, ekkert brauð, mikið af skyri og fá sykurinn úr ávöxtum.
Hreinsa vel og reglulega til heima hjá mér, ryksuga á hverjum degi og skipta oft um á rúmunum ef Bjartu skyldi nú skjótast þangað og velta sér og nudda ;-).