Ég nenni ekki…

að blogga (þá er nú fokið í flest skjól)
vera kvefuð
vera í ofnæmisfári
vera of feit og þurfa að léttast (var fínt einu sinni að vera bara feit – ekki nærri eins átaka mikið)
stunda líkamsrækt
vera illt í fótunum
eiga mann sem vinnur í Færeyjum
koma engu í verk
þurfa að taka til
að eiga ekki þurrkara

en mest er það pirrandi að vera lasin, illt og nenna ekki að vera íþróttatröll…

Hlýtur það ekki að koma bráðum…

svona þegar allt kemst í fastar skorður – svona eftir helgina…

Úff voða mikið að gera ;-)

Komið þið sæl og blessuð – mín eitthvað farin að heyskjast (hm eða heiskjast…) á því að blogga? Var ekki einhvern tímann kenningin að ef ég myndi vera löt að blogga þá væri lífsstílsbreytingin eitthvað að daprast ;-). Það er nú bara svo að það er mikið að gera svona í skólabyrjun – já já líka í litlum skóla! Það er nefnilega ekki svo að það sé ekkert að gera þó nemendurnir séu fáir – öðru nær. Maður bara nær vonandi að sinna öllum aðeins betur.

Fyrsti skóladagurinn var í dag – og hann rann ljúft, þetta eru yndisleg börn og full áhuga á dönsku, Geisla og hverju því sem við nefndum :-). Það er verið að klára skólalóðina. Fyrir utan stofuna mína er yndislegur trjálundur, stétt beint á móti suðri þar sem vonandi verða bekkir og stólar svo við getum nýtt okkur hana til fullnustu. Við erum með einn kennara sem er snillingur í úti og grenndarkennslu sem liggur ekki á hugmyndunum sínum. Fullt af möguleikum á vettvangsferðum – mörg börn búa á hreinum og í hreinum gullnámum. Og fjöldinn þannig að ekkert mál er bara að leggja í hann…

Ég á nú svolítið eftir að undirbúa kennsluna samt – já og læra svolitla dönsku – er til dæmis hægt að skrifa Jeg vil gjerne være… er til orð sem er være í dönsku? Þetta er náttúrulega ekki forsvaranlegt en maður verður að gera hvað maður getur – nýta sér vel þau gögn sem maður hefur og aðstoð frá Ástu Björk og fleirum. … Sorry ÁSta mín – þú bara verður ;-). Best væri ef þú værir með símann á þér eða á kveikt á msn -inu á meðan dönskutímar eru!

Ég veit ekkert hvort ég er á pari, undir eða yfir varðandi mataræði, hef ekkert farið í Styrk – kaloríur sem Polli hefur talið eru bara rétt um 1000 en þurfa að vera 8000 – og ef ég verð eins slöpp á morgun og núna þá fer ég nú ekki mikið í ræktina á morgun! Sigh… Er nefnilega að kafna úr ofnæmiskvefi og virðist vera komin með í lungun aftur… en nú er ég komin með lyfin svo ég vona að þetta lagist – annars er það bara sýklalyfin á ný. Allt því að þakka að ég rak nefið inn í Sunnulæk. Hef heiftarlegt ofnæmi fyrir iðnaðarryki.

Jamm sem sagt… amk verð ég að fara og vigta mig á morgun – sjá hvort eitthvað saxast á þessi 1, 3 kg (nú eða bæst við) sem ég þarf að losna við fyrir mánaðarmótin. Ég verð líka að koma mér upp einhverri skynsamlegri stefnu í mataræði á Borg. Hafa með mér grænmeti og slíkt því það vantar oft í mötuneyti fyrir börn. Eins má ég ekki vera að borða þetta brauð alltaf. ég verð að hafa með mér skyr og jógúrt og ávexti. Ég held ég kaupi mér matarkassa sem ég fylli á sunnudögum eða eitthvað. Já það gæti gengið ef ég væri skipulögð kona…

Þessi vigt!

Ég skil nú ekki hvernig á að átta sig á svona apparati en hvað um það – hún var svo sem mér í hag í dag – eftir að hafa verið afskaplega sérkennileg á miðvikudaginn reyndar seinni partinn. Mér fannst ég reyndar alveg eiga ófögnuðinn skilið þannig lagað þó mér þætti nú full-langt gengið!

En í dag bættist við lauf á vegginn – og enn næstum tvö. Það þýðir að síðan 12. júlí er ég búin að missa 4,7 kg. Ég á sem sagt 1,3 kg eftir í markmiðið sem Herra Baldur þverhaus setti mér. Þegar það verður þá hef ég misst 11 kg þetta árið. Svona 1,4 kg á mánuði. það er náttúrulega ekki alveg jafn gott og á fyrsta árinu – fjarri því reyndar. Þá missti ég 2 kg á mánuði. En það eru ekki alltaf jólin og svo verð ég kannski bara búin að finna jafnvægið og ríf af mér kílóin þá 3 mánuði sem eru eftir. Ég held ég stefni á að halda þyngd minni í desember. Og varla léttist ég í janúar – það er nú meiri mánuðurinn.

En ég er voða glöð að hafa loksins tekið að léttast á ný – og nú er bara að halda haus og halda því áfram. Borða grænmeti og hreyfa sig er lykillinn svona í allra grófasta formi ;-).

Ég er með höfuðverk dauðans sem minnir mig á að það er æði langt síðan ég fékk höfuðverk síðast. Ég man þá tíð þegar ég var alltaf með höfuðverk – bara mismikinn. Voðalega ósköp fegin að vera laus við þann verk.

Sjúkraþjálfun og nudd hefur vísast losað mig við hann. Og því spyr ég: Er ekkert hægt að gera í fótaverkjum? Á maður bara alltaf að vera með þá? Aumingja litlu vöðvarnir í fótunum mínum eru allir aumir og bólgnir og skrækja og góla ef á þá er ýtt. Ég ætla að kaupa þetta lyf sem mér var bent á hér á blogginu um mánðarmótin – það verður varla fyrr. Svo ætla ég nú að hætta að hafa þennan sjúkraþjálfara bara upp á punkt og reyna að fara í einhverjar þvingunaraðgerðir gagnvart honum. Það hljóta að vera til nálar og eitthvað gott við svona þreyttum vöðvum eins og mínum. Annað bara fæst ekki staðist. Ég er líka stundum með fótapirring og eitthvað er líka hægt að gera við honum. Það er alveg drep að vera alltaf illt einhvers staðar: Háls, háls, hæll, hæl-ar, fótunum, hnjánum, ristinni og hvað þessir staðir heita allir. Ég er samt almennt séð miklu betri í hnjánum. Þau eru öll að koma til. Það þýðir ekkert að vera að velta sér lengur upp úr þessu – ég verð þá bara að fara á einhvern þrusu ibufenkúr ef þetta lagast ekki hjá punt-sjúkrþjálfaranum mínum 😉 – þessum sem vill að ég fari að léttast af einhverri ákefð. Sem er svo sem líka alveg rétt hjá honum. Nú þarf ég ekki að gera neitt annað en forðast að vera í Styrk þegar hann er þar og vera þess fullviss að ég sé að léttast áður en ég stíg á vigtina með honum. Vil ekki lenda í því sama og í vikunni að hafa þyngst aftur um öll kílóin sem ég hafði misst – 😉 sem kom nú reyndar á daginn að var bara slæmur dagur. En já… Heilsubót og kíló verður ekki fengið sitjandi með hendur í skauti. Það þarf víst eitthvað að hafa fyrir því í mínu tilfelli flækjufótur sem ég er.

Ég hlakka til að fara í vinnuna á morgun og allra best þykir mér að ég þarf ekki að fara í Styrk ÞVÍ ÉG FÓR Í DAG!!! Og ef ég er ekki stolt af því þá veit ég ekki hvað.

Ég vaknaði upp í nótt til að fara á klósettið og gat um lítið annað hugsað en að ég nennti ekki í Styrk og um leið og ég lagðist á koddann benti ég sjálfri mér á það væri nú kannski ekki skrítið – svona kl þrjú um nótt! Kannki yrði ég nú upplitsdjarfari um hádegisbilið ;-). Og viti menn ég fór og skemmti mér svona ljómandi vel.

En já læt hér staðar numið. Er frekar fegin að vinna ekki í Sunnulæk þetta árið – vinnuaðstaðan þar í augnablikinu er ekki alveg eins og ég myndi telja að hún ætti að vera til að teljast boðleg satt að segja. Og ég er viss um að ég yrði fárveik af ofnæmi ef ég væri lengi þarna innan dyra. Þetta verður enginn smá skóli maður minn. Ég held ég uni bara sátt við krílaskólann minn, þó ég eigi eftir að koma mér upp fönduraðstöðu ;-).

Ykkar Inga sem ER að léttast og þarf að léttast glatt næstu 10 dagana!

Laugardagur nautnabelgsins

Híhíhí – mér finnst eins og ég eigi að vera að gera eitthvað stórkostlega merkilegt og fæ svo mega samviskubit yfir því að nenna því ekki!! Mér finnst líka að ég eigi að vera gáfulega á einhvern hátt – jafnvel haga mér eins og ég ætli mér einhverja stóra hluti í framtíðinni – en í staðinn sit ég bara hér í mismiklum hundahárahaug að rembast við að éta ekki – sem mistekst alltaf. Gaman að hjakka í einhverju að mistaktast fari eða hittþó! Já og vera með bullandi samviskubit yfir einhverju sem er ekki nema hæfilega vel útskýrt.

Ég hef verið að hugsa… Það er svo sem ekki til neins að vera að berja á sér. Lífið er bara alls konar og það verður ekki við allt ráðið – málið er að reyna að gera það besta úr öllu saman.

Sumarið fór í að jafna sig eftir veturinn – vinda ofan af sér og ná sér af þessari lungnasýkingu sem ég fékk og ofnæminu. Ég gerði heilmargt þó ekkert af því hafi kannski verið sérlega tilkomumikið nema kannsi það að mála húsið – það er nú allnokkuð ;-). Og það er líka heilmikið að ná svolítið áttum og vinna úr öllu því sem er í kollinum á mér.

Ég hef komist að því að þegar Palli er heima á ég MJÖG erfitt með að halda kúrs svo ekki sé meira sagt. Það þarf að stússast þetta eða hitt og rythminn fer úr einbúalífinu sem ég er vön. Bara það hvar íþróttafötin lenda getur reynst mér um megn. Þessu verður að breyta því hann fer vísast að vinna hér heima bráðum og þá þýðir ekki að leyfa sér að láta þetta fara svona.

Ég hef líka fattað það að ég var virkilega slæm í fótunum en ég er miklu betri núna. Nú get ég fengið raunverulegan samanburð gera æfingarnar mér gott eða verð ég verri því nú er ég farin að æfa eftir vetrarprógramminu á ný.

Ég er líka búin að fatta að ég léttist ekki nema ég hreyfi mig mikið. Dútl heldur mér kannski í sömu þyngd en með góðu mataræði þarf að koma til hreyfing líka. Og það heilmikil í mínu tilfelli. Brennslan mín virðist ekki vera sérlega hröð satt að segja.

Ég er ekki viss um hvað fitubollupillurnar eru að gera fyrir mig – ég ætla ekki að gefast upp á þeim strax – því undanfarið hef ég verið að borða miklu meira seinni partinn en fyrri partinn og það gengur náttúrulega ekki. Það þarf að koma góð geymsluaðstaða fyrir matvæli þarna í Ljósuborg og ég verð að vera dugleg að versla mér inn ávexti, grænmeti og slíkt til að eiga þar svo ég borði kl 7 – 10 – 13 – 15 – 18 – og grænmeti á kvöldin. Jafnt og þétt yfir daginn skilar mér því að ég er ekki með þessa ógnarinnar nasltilfinningu á kvöldin.

Ætli æfingadagarnir mínir verði ekki sunnudagur, þriðjudagur og föstudagur í Styrk og svo sé ég til hvenær sundleikfimin er – vonandi verður hún á sömu dögum og í fyrra. Þá færi ég á miðvikudögum og föstudögum kannski…. Já eins og í fyrra bara. Ég er viss um að hún gerði mér gott – minnkar líka álagið á liðina en er hörkupúl.

Eins er sundlaugin til staðar en það pirrar mig svolítið að ég skuli ekki bara brenna alveg grilljón á svona eins og 20 mín en það er alveg lágmark að synda í 40 mín og þá er ég að brenna eins í 25 mín á stigvélinni eða skíðunum. En allt er þetta gott í bland.
Svo þarf ég líka að huga vel að því að vinna ekki lengi alla daga vikunnar í skólanum heldur ætla mér hóf í vinnunni. það verður líka nám í vetur áfram.

Það þýðir ekki að slaka á klónni – sumarið er alltaf svolítill rugl tími en mér gekk ágætlega að halda mínu – þyngdist ekki, léttist heldur. Ætla að halda áfram að léttast en til þess þarf aðstaðan á Ljósuborg að batna varðandi matvælageymslu. Borða fyrripartinn en minna seinni partinn – það er lykillinn og svo slepp ég líklega ekki við að hreyfa mig enda hef ég svo sem aldrei viljað það – bara fundist það á köflum of erfitt þegar lappirnar hafa látið eins og þær væru úr einhverju ofurnæmu efni og ég fann alls staðar til í þeim. En það er nú vonandi að lagast.

Sem sagt stefnum á framtíðina – léttari á sál og líkama. Það er hið eina sem er í boði þó einhver boðaföll gangi yfir mann við og við.

Ykkar Inga sem gengur bara hreint ekki svo vel að ná settum markmiðum.

Lífið er hreint ekki beinn og breiður vegur

Já já – ég stend alveg í stað á vigtinni og heldur verra en það – enda var síðasta vika hreint ekki góð og svo er bara brauð og kökur í skólanum. Fuss og svei – já og svolítið mikið áfengi um síðustu helgi. Nóg til að eyðileggja heila viku segja þær í danska kúrnum. En sem sagt – allt í voða.

Mig langar ekkert að vera í líkamsrækt – er búin að fá alveg nóg af því. það fer mikill tími í það og svo er ég hálf lurkum lamin – vöðvar aumar og svoleiðis nokkuð. Væri ekki bara gott að vera laus við það nú þegar ég loksins er ekki að drepast í hnjánum og löppunum þó aumar séu!?! Ja hérna.

Ég fór þó hundfúl í Styrk í dag því ég finn að bloggið veitir mér aðhald og þið öll sem ég þekki. Ég get varla skitið upp á bak í beinni ;-).

Ég komst því miður ekki í bæinn í veislu til Hlínar þó ég hafi ætlað en ég varð að sinna Aðalsteini með svolítið þegar ég kom úr Styrk. Ég er hrædd um að ég hafi gleymt klippitíma í dag líka. Sigh…

Og það er æði margt í svolitlu rugli líka sem vonandi rætist nú úr bráðum…

En ha ha ha – það er FRÁBÆRT í vinnunni og þar eru tómir snillingar sem vinna með manni. Alveg yndislegt fólk sem ég hlakka svo til að vinna með í vetur. En þessi nýi skóli er í meira lagi lítill – hann er ÖRSMÁR. Hef aldrei kynnst öðru eins af nýju húsnæði – ég bara sver það. Og vinnuaðstaðan – hún er í meira lagi sérkennileg líka. Hvar á Inga að föndra??? Það hefur ekki enn komið í ljós.

Að vinna


…á nýjum stað með kunnuglegum boxum og bókum. Ýmislegt sem ég þekki mæta vel satt að segja… Margir kassar með minní skrift á 😀
Ég er að koma mér fyrir – það tekur svolítinn tíma eins og sumir vita mæta vel – það svona þarf að stússast svolítið og finna andann og það allt saman… Hvar á vinnuaðstaðan að vera og hvernig á þetta nú allt að snúa… 9 börn… Tveir kennarar…Jamm það er margt í mörgu skal ég segja ykkur.
En nú er ég búin að finna fyrstu útfærsluna af borðauppröðun svo þetta kemur allt – myndir af því síðar.
En annars er ég byrjuð á því að losa mig við næstu 3 kg en það var í gær. Þann dag byrjaði ég með því að borða fullt af mm og hnetum og eitt tromp – þannig að það var mega byrjun alveg… Fór ekki í Styrk – nennti því nú ekki en lufsaðist þó út að hjóla í gærkveldi… Betra en ekkert… H uhummm….
Nú en ég fékk mér nú bara gulrætur og blómkál í kvöldmat og eitt léttjógúrt þannig að kannski sleppur þetta með hneturnar…
Nú er að sjá hvað sú stutta gerir í dag – alltaf svolítið spennandi hvað hún tekur uppá. Svei mér þá alla mína daga.
Kveðjur og meiri myndir síðar, Inga sem kennir við Ljósuborgar skóla – netfengið er ingveldur@ljosaborg.is

Síðasta útilegan?

Jæja elskurnar – nú er ég komin í siðmenninguna á ný – ekki að ég hafi verið sérlega fjarri henni undanfarið. Bara látið sem svo sé.

Á þriðjudaginn ákváðum við Palli að láta rigninguna ekki hafa áhrif á okkur og ákváðum að demba okkur á tjaldstæðið á Borg og byrja hina árlegu fjölskylduútilegu mína snemma. Það var spáð svo fínni rigningu á miðvikudag að það var hreinlega gráupplagt að tjalda vagninum og láta rigninguna um að hreinsa hann af rykinu sem hefur safnast á hann í sumar. Og ekki er hægt að mála í rgningu! Hildur systir kom svo á miðvikudagskvöld og við vorum eins og blóm í eggi þessa daga. Það var yndislegt veður og maður náði ótrúlega vel að slappa af og dunda sér. Ég er samt alltaf að verða meira og meira hissa á því hve dægrin liða hratt.

Á föstudag fóru svo ,,krakkarnir“ að tínast á svæðið og á laugardagsmorgun fór ég kl 7 að baka pönnukökur fyrir Grímsævintýri og á laugardag vann ég við að afhenda vinninga á tombólu – það var nú meira atið. Það er rosalegasta hreyfing sem ég hef lent í – ég hugsa að þetta hafi jafnast á við heilan fótboltaleik ég segi það satt. Lappirnar á mér voru nú ekki beisnar fyrir og ég er alveg hissa á að þær hangi á mér enn. ´Þær eru búnar að vera mér til tómra vandræða undanfarið. Verkir í hælum, kálfum, hnjám og aftan í lærum – mjaðmir og já nefndu það bara!

Ég hef ekki farið í Styrk að neinu ráði í tvær vikur og lítið verið í skipulegri hreyfingu – húsamálun verið látin duga. Það hefur sem sagt ekki hjálpað mikið að fara ekki í Styrk. En á morgun byrja ég á ný – Palli fer til Færeyja á morgun eða miðvikudag og við klárum húsið á morgun. Ég ætla líka aðeins að líta í vinnuna – undirbúa fyrirlestur og vefsíðurnar. Sigh… Það þýðir ekki að sýta sumarið – það var gott en er liðið. Ja amk sumarfríið :-).

Ég hef ekki lést neitt liðna viku – enda allt í hæfilegri vitleysu og helgin ákvað ég bara að yrði vitlaus – vín, svolítið nammi og svolleiðis – án þess að missa mig þó alveg. Á morgun verður síðan grænmeti og gríðarlega merkilegt mataræði. Mikið grænmeti og fiskur. Það þarf að losna við þrjú kg á næstu þremur vikur. Það er vel hægt – með hreyfingu og réttu mataræði. Nú set ég undir mig hausinn. Eruð þið með góðar hugmyndir að verðlaunum fyrir nýjan tug í þyngdinni? Það verður gaman þegar ég hef misst 30 kg – það er rosalega mikið. Og það er sutt í það Inga litla. Ég ætla að ná því fyrir september lok. Jamm og hana nú!!!!!

Ef hnén á mér eru ónýt þá verð ég þess heldur að léttast hratt og vel – það munar um hvert kg að bera.

Jæja elskurnar – vona að þið hafið haft það gott. Ég hef haft það mjög gott – þó það sé ekki allt í 10 á ánægjuvoginn.

Ykkar útilegu Inga

Frí, frí og vinna

Þetta er nú búið að vera svolítið sætt sumar. Ekki alveg eins og ég ætlaði að hafa það því ég hélt einhvern veginn að það yrði lengra. En svo er það bara pínu sutt greyið.

Ég var veik langt fram eftir sumri og gat mig varla hreyft. Ég kúrði yfir tölvunni, bloggaði og skoðaði vefsvæði sveitarfélaga. Hugsaði um hvað það væri skrítið að ég væri að hætta í Sunnulæk og fannst enn skrítnara að ég væri að fara á Ljósuborg. Ryksugaði og viðraði, þreif og ryksugaði svolítið meira eftir því sem kraftar leyfðu. Það voru ekki stórkostleg tilþrifin.

Nú þegar ég reis upp úr ofnæminu tók ég mér málningarpensil í hönd og málaði pallinn og svona smá í viðbót – við og við og oggupons. Passaði mig nú vel á því að ofreyna mig ekki. Reyndi að koma mataræðinu í gott horf, hreyfa mig smávegis – svona eins og hné og vöðvar almennt leyfðu – en líka svolítið að reyna að finna taktinn í þessu öllu saman svo ég gæti nú gengið með sæmilegu móti. Ég hef ekki farið oft í Styrk í sumar. Ég hef ekki náð markmiðum Polla í 4 vikur hugsa ég – en ég lít svo á að málningarvinnan bæti það nú upp og svo hef ég svolítið labbað án þess að taka Polla með. Ég ætla ekki að reyna við markmið hans í þessari viku heldur – en í næstu viku byrja ég af fullum krafti.

Palli kom heim um 20. júlí og þá byrjaði nú nýr kafli – það er alltaf allt svo ruglingslegt þegar karlarnir koma heim eftir langa fjarveru. Ég var eins og á korktappa á rúmsjó að reyna að halda minn sjó – borða og hreyfa mig reglulega, blogga, hugsa um þvottinn og húsið og útilegur og …. mála! Þetta var voða erfitt svo ég bara hætti að reyna við skipulagði hreyfingu heldur málaði í 8 – 10 tíma á dag. Reyndi hvað ég gat við mataræðið en þrifin urðu tilþrifaminni. Föndrið og dútlið hvarf algjörlega. Vefsíðutékk og pælingar hurfu algjörlega úr huga mér. Maður ræður ekki við nema ákveðið get ég sagt ykkur.

Nú er kannski 5 – 8 tíma vinna eftir í húsinu og frágangi og það verður vel þegar þetta er búið. – Ja alveg þangað til þakið verður tekið – það gerist kannski í september – það væri amk afskaplega ákjósanlegt.

Nú ætla ég að ganga frá dótinu mínu í þessu húsi – var að flytja á milli herbergja og svona. Ég á svolítið mikið dót… Og þó ég ætli að koma mér fyrir hjá Ragnheiði sýnist mér vera ákveðnir annmarkar á því – HIRSLUR!

Hef svolitlar áhyggjur af mataræði helgarinnar … vona að ég hafi ekki þyngst. Það verður blómkál og soðnar gulrætur í dag – svo mikið er víst.

Sigh….

En við skulum sjá hvað gerist í dag.

Frídagur verslunarmanna 2007

Maður heldur alltaf niðri í sér andanum þessar ferðahelgar orðið. Ég afber ekki þessi tilgangslausu og ástæðulausu bílslys sem vel væri hægt að koma í veg fyrir ef bara… En þetta BARA er ansi stórt á stundum. Þær eru margar hörmungurnar sem dynja á fjölskyldum þessa lands núna, morðmálið um daginn hefur áhrif á marga, börn, maka, foreldra, vini og ættingja. Það er sjaldnast bara hvítt og svart það sem leynist undir niðri fyrirsögnum blaðanna.

En nú… Ég stóð mig ekki vel í mataræðinu um helgina og er heldur reikul þykir mér. Það þýðir að ég ætti bara að fara að skrá hjá mér á ný – leggja áhersluna á að borða fyrri part dagsins og eta grænmeti. Það er nú aldeilis tíminn til þess núna. Ég má ekki missa niður stemmninguna. Ég þarf að losa mig við allnokkur grömm fyrir ágúst lok.

Nú er lokaspretturinn í því að mála húsið að hefjast – eða ljúka. Enn þarf þó að kaupa síðustu dósina af rauðri málningu 😉 (þær hafa verið nokkrar þessar síðustu) og eina af hvítri líka. Ég á enn eftir nokkrar hliðar á pallinum fyrir framan hús – það er nú meiri fjandinn hvað það eru margar hliðar á hverri spýtur og hverjum palli – púff. Auj sen fauj sen og svo bætist gólfið við líka ;-). Nú snýr þetta meira að Palla mínum. Hann þarf að klára vindskeiðin, þakkantinn og gaflana. Já og svo eru timuburhurðirnar eftir líka. Og allt þarf þetta að líta þokkalega út – sem það gerir nú vonandi. En amk er ógó fínt bakvið hús eftir að moltukassinn var færður og arfinn tekinn úr honum :-).

En nú verð ég líka að fara að taka til í þessu húsi mínu því þrátt fyrir fögur áform gerði ég ekkert slíkt um helgina. En nú kippi ég þessu bara í lag svo ég geti farið að láta mig hlakka til útilegunnar um helgina. Tjú tjú tralla la.