Þessi vigt!

Ég skil nú ekki hvernig á að átta sig á svona apparati en hvað um það – hún var svo sem mér í hag í dag – eftir að hafa verið afskaplega sérkennileg á miðvikudaginn reyndar seinni partinn. Mér fannst ég reyndar alveg eiga ófögnuðinn skilið þannig lagað þó mér þætti nú full-langt gengið!

En í dag bættist við lauf á vegginn – og enn næstum tvö. Það þýðir að síðan 12. júlí er ég búin að missa 4,7 kg. Ég á sem sagt 1,3 kg eftir í markmiðið sem Herra Baldur þverhaus setti mér. Þegar það verður þá hef ég misst 11 kg þetta árið. Svona 1,4 kg á mánuði. það er náttúrulega ekki alveg jafn gott og á fyrsta árinu – fjarri því reyndar. Þá missti ég 2 kg á mánuði. En það eru ekki alltaf jólin og svo verð ég kannski bara búin að finna jafnvægið og ríf af mér kílóin þá 3 mánuði sem eru eftir. Ég held ég stefni á að halda þyngd minni í desember. Og varla léttist ég í janúar – það er nú meiri mánuðurinn.

En ég er voða glöð að hafa loksins tekið að léttast á ný – og nú er bara að halda haus og halda því áfram. Borða grænmeti og hreyfa sig er lykillinn svona í allra grófasta formi ;-).

Ég er með höfuðverk dauðans sem minnir mig á að það er æði langt síðan ég fékk höfuðverk síðast. Ég man þá tíð þegar ég var alltaf með höfuðverk – bara mismikinn. Voðalega ósköp fegin að vera laus við þann verk.

Sjúkraþjálfun og nudd hefur vísast losað mig við hann. Og því spyr ég: Er ekkert hægt að gera í fótaverkjum? Á maður bara alltaf að vera með þá? Aumingja litlu vöðvarnir í fótunum mínum eru allir aumir og bólgnir og skrækja og góla ef á þá er ýtt. Ég ætla að kaupa þetta lyf sem mér var bent á hér á blogginu um mánðarmótin – það verður varla fyrr. Svo ætla ég nú að hætta að hafa þennan sjúkraþjálfara bara upp á punkt og reyna að fara í einhverjar þvingunaraðgerðir gagnvart honum. Það hljóta að vera til nálar og eitthvað gott við svona þreyttum vöðvum eins og mínum. Annað bara fæst ekki staðist. Ég er líka stundum með fótapirring og eitthvað er líka hægt að gera við honum. Það er alveg drep að vera alltaf illt einhvers staðar: Háls, háls, hæll, hæl-ar, fótunum, hnjánum, ristinni og hvað þessir staðir heita allir. Ég er samt almennt séð miklu betri í hnjánum. Þau eru öll að koma til. Það þýðir ekkert að vera að velta sér lengur upp úr þessu – ég verð þá bara að fara á einhvern þrusu ibufenkúr ef þetta lagast ekki hjá punt-sjúkrþjálfaranum mínum 😉 – þessum sem vill að ég fari að léttast af einhverri ákefð. Sem er svo sem líka alveg rétt hjá honum. Nú þarf ég ekki að gera neitt annað en forðast að vera í Styrk þegar hann er þar og vera þess fullviss að ég sé að léttast áður en ég stíg á vigtina með honum. Vil ekki lenda í því sama og í vikunni að hafa þyngst aftur um öll kílóin sem ég hafði misst – 😉 sem kom nú reyndar á daginn að var bara slæmur dagur. En já… Heilsubót og kíló verður ekki fengið sitjandi með hendur í skauti. Það þarf víst eitthvað að hafa fyrir því í mínu tilfelli flækjufótur sem ég er.

Ég hlakka til að fara í vinnuna á morgun og allra best þykir mér að ég þarf ekki að fara í Styrk ÞVÍ ÉG FÓR Í DAG!!! Og ef ég er ekki stolt af því þá veit ég ekki hvað.

Ég vaknaði upp í nótt til að fara á klósettið og gat um lítið annað hugsað en að ég nennti ekki í Styrk og um leið og ég lagðist á koddann benti ég sjálfri mér á það væri nú kannski ekki skrítið – svona kl þrjú um nótt! Kannki yrði ég nú upplitsdjarfari um hádegisbilið ;-). Og viti menn ég fór og skemmti mér svona ljómandi vel.

En já læt hér staðar numið. Er frekar fegin að vinna ekki í Sunnulæk þetta árið – vinnuaðstaðan þar í augnablikinu er ekki alveg eins og ég myndi telja að hún ætti að vera til að teljast boðleg satt að segja. Og ég er viss um að ég yrði fárveik af ofnæmi ef ég væri lengi þarna innan dyra. Þetta verður enginn smá skóli maður minn. Ég held ég uni bara sátt við krílaskólann minn, þó ég eigi eftir að koma mér upp fönduraðstöðu ;-).

Ykkar Inga sem ER að léttast og þarf að léttast glatt næstu 10 dagana!

4 athugasemdir á “Þessi vigt!

  1. Það er nú soldið merkilegt – ég var einmitt með þennan líka svaka hausverk (í gær) – og hafði einmitt verið laus við slíkan ófögnuð lengi!Kannski bara eitthvað í alheiminum… ;o)

    Líkar við

  2. 10 dagar eru alltaf 10 dagar!Sendi hér með stuðningsvíbra út í alheiminn – vona að þeir skili sér jafnvel og hausverkurinn ykkar Gerðar!

    Líkar við

Færðu inn athugasemd