Month: júlí 2007
- Mála húsið
- Koma garðinu í einhvers konar stand
- Fara í mörg ferðalög og heimsóknir
- Fullnýta fríið þannig að maður mæti svellkaldur í vinnu á ný
Þá veistu það Palli minn 😉 Þetta eru væntingarnar. Klórum við okkur ekki fram úr þessu híhí
Jæja ég er farin að brenna svolitlu í tiltekt – vinna upp á móti Breezernum blessuðum.
Ykkar Inga óhugsandi
Ég er algjörlega miður mín yfir þessum olíuhreinsunarstöðvarmálum! Og það í Dýrafirði! (Hlekkur). Fallegasta firði á Íslandi held ég – kannski ekki alveg marktæk þar sem þetta er jú fjörðurinn hennar mömmu og eldri systkina minna. Já og ég hef svo sem ekki séð alla firði á Íslandi ;-).
En sem sagt Færeyjar. Nú er ég svei mér búin að fara víða um þessar bröttu eyjar. Og bara ekki orðið mjög vitlaus yfir vegunum hér. Þeir eru samt allir svolítið hátt uppi – upp og niður svolítið mikið. Og hér eru mjög mörg göng – en ég er nú ekkert hrædd við göng svo það er í lagi :-).
Í gær fórum við til Klakksvíkur og þar með í gegnum nýjustu göng Færeyinga – frá Leirvík og bara alveg inn til Klakksvíkur. Mjög skemmtilegt en þar var nú skítakuldi, þoka og rok svo við gerðum ekki margt þar – heldur fórum bara til baka til Þórshafnar í blíðuna þar.
Fyrr um morguninn – of seint því Inga þurfti að sofa fórum við til Kirkjubæjar. Svoldið svona gangandi….
Palli sagði að það væri beinn og breiður vegur þangað og ekkert hátt og varla brekka á leiðinni! Hann gerði tilraun til að fara með mig þangað síðast er ég var hér en þá snérum við nú við áður við komumst mjög langt…. og var þó vegurinn tvíbreiður þar… Við vorum skoho himinhátt uppi og sáum yfir í eina eyjuna sem ég man náttúrulega ekki hvað heitir og hún var mjög langt fyrir neðan – nei takk – snúa við. Mín reynsla af vegum er að ef þeir liggja upp þá þarf einhvern tímann að fara niður og – jammm – mjög hættulegt allt saman sem sagt.
En í gær komumst við lengra – alla leið þangað sem hyldýpið beið fyrir neðan EINBREIÐAN vegslóða einhvern (og hvað með það þó hann hafi verið malbikaður – hann var svo mjór að maður þurfti að setja hendurnar fram fyrir sig og standa kyrr þegar bíll ók framhjá manni (því sumir virðast alveg þora að fara þennan voðalega slóða á bíl).
Nei takk sagði mín og Palli varð svolítið sár því hann langar til að sýna Ingu sinni eyjarnar og svona -við verðum þá bara að labba um allt, þú þorir ekki neinu. Það er ekki hægt að fara í Kirkjubæ, ekki í Gógv, ekki í Vestmanna eða neitt!
Já við skulum bara labba sagði sú stutta og vippaði bakpokanum á axlir sé og hélt af stað. Þetta reyndist nú drjúg ganga – allt svona frekar niðurímóti en svo var klukkan orðin svo margt og Silverstone alveg að byrja þannig að við höfðum ekki tíma til að skoða mjög mikið þarna í þetta sinn enda ekki með drykkjarföng eða nesti eða neitt.
Við ákváðum því að koma síðar -væntanlega gangandi – kannski á bíl… og eyða deginum í þetta því það er ægilega fallegt þarna.
Snérum við og við þetta brenndi ég 2000 þús hitaeiningum og labbaði í 40 mín upp í móti – með mína þreyttu fætur og aukakíló öll. Það var frábært að labba svona um. Héðan í frá ætla ég að labba meira um og tala við kundurnar. Finna lyktina af þokunni, og heyra í fuglunum. Færeyjar eru svona labbi labb eyjar.
Þar sem hvíldin gengur svona vel og allt hlýtur að vera á réttri leið þá get ég áreiðanlega komið hingað næsta sumar og gengið alveg helling.
Ég verð áreiðanlega mjög merkilegur göngugarpur einhvern tímann :-).
Nú er Palli í vinnunni og ég að stússast hér í JacobsNolsöveg 15. Voða fínt og enn er þessi mikla blíða hér.
Ég stend mig ekki vel í mataræðinu – ekki nógu vel – alltaf eitthvað eitt sem ég eyðilegg daginn með – og er það um 4-500 hitaeiningar í hvert sinn. En svona er slagurinn. Maður verður að læra að hemja sig – annað er ekki hægt.
Hmmm ætli Palli sé að koma ,,heim?“ Ég heyri einhvern umgang.
Nú nú hugsið þið náttúrulega – hvað er nú hægt að flækja eina Færeyjarferð og breyta henni í væl og vork – enn ein ástæðuna til að vera löt!
Einu sinni ætlaði vinkona mín, hún Gerður til Færeyja. Hún beið lengi lengi á flugvellinum en það fékkst svo að lokum staðfest að fluginu seinkaði svo hún fór heim. ….og svo nokkrum sinnum enn út á flugvöll. Og hún meira að segja komst upp í flugvélina í einni feriðnni, lagði af stað og flaug til Færeyja. En aldrei lenti hún þar og ég held hún eigi enn eftir að ná þeim merka áfanga því vélinni var snúið við – vegna þoku. Þetta ferðalag sem átti að enda í Færeyjum en gerði ekki – tók heila helgi.
En það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á áætlun véla til Færeyja frá Íslandi. Bæði virðist sú leið nú vera svona heldur aukreitis hjá Atlantic airways og einnig er flugstöðin hér á Íslandi náttúrulega eiginlega ekki fær um að taka á móti millilandaflugi og oft setur það líka strik í reikninginn – en mest áhrif hefur þokan – þokan – þokan færeyska.
Við Páll fengum eiginlega engan botn í það hvenær vélin ætti að fara á föstudaginn til Færeyja – það voru allavega tímasetningar á netinu og fæstar pössuðu við hina útgefnu áætlun. Palli hvatti mig til að vera dugleg að hringja og fylgjast með þessu. Nú og eftir því sem ég komst næst kæmi vél frá Færeyjum rúmlega sex til Íslands en það er tími sem ég kannast vel við því ég sæki Palla svo oft í það flug. Ég lagði því saman tvo og tvo og taldi líklega að vélin færi svo til Færeyja aftur – með mig um borð. Var því komin í bæinn rúmlega sex til að tékka mig inn – svona eins og ég gerði síðast og hafði séð fólk gera þegar ég var að ná í Palla enda höfðu starfsstúlkur á vellinum sagt mér að vélin færi hálf átta – já eða hálf níu um kvöldið. Ég fékk þó þær upplýsingar að hún færi ekki fyrr en hálf eitt eftir miðnætti.
Ég fór því til Ása og beið þar í góðu yfirlæti og fylgdist með síbreytilegum brottfarartímum á netinu – hálf tvö hálf eitt þrjú – já nefndu það bara. Ása fannst þetta nú undarlegt – það mætti ekki fljúga á næturnar yfir íbúðabyggðina við völlinn…
En niður á flugvöll fór ég kl hálf eitt – komst að því að Atlantic hefði ekki fengið undanþágu til að lenda vél frá Grænlandi og taka sig á loft með okkur um borð og því yrðum við að tékka okkur inn í RVK en fara svo til Keflavíkur og fljúga þaðan. Við færum í loftið tvö hálf þrjú.
Nú það er nú alltaf gaman að koma til Keflavíkur og í Leifsstöð svo sem – nema hvað það var ungt fólk í rútunni sem var svo pirrað á þessu öllu saman að ég varð næstum eins neikvæð og þau – en ákvað að það tæki því nú ekki.
Vélin fór í loftið hálf þrjú, við lentum fjögur – fimm að færeyskum tíma eftir yndislegt flug, ég tók bussen til Havn og leigubíl þaðan til Palla. Eftir fimm tíma svefn nóttina áður hafði mér tekist að vaka algjörlega sleitulaust í heilan sólarhring og verið á ferðinni í 14 tíma. Ekki slæmt – svoldið eins og að fljúga til Kína bara híhíhí.
Í morgun þegar ég vaknaði leið mér eins og ég hefði lent undir valtara, vörubíl, búkollu og loftsteini … en sofnaði sem betur fór aftur ;-).
Kimi missti pólinn til Hamilton – og ég sem er að reyna að vinna Palla og Baldur í liðsstjóraleiknum – ég með Kimi og þeir með hamma – sigh. Kimi verður bara að taka þetta á morgun – það er ekki um neitt annað að ræða. Vís til þess svo sem. Hvor þeirra sem er reyndar.
hmmm það er einhver að reykja úti og það kemur allt hér inn… auj…
Ég verð síðan ein að paufast hér því Palli er að fara að spila við Færeyjarmeistarann í Bridge í nokkra klukkutíma. Ég finn mér eitthvað til dundurs á meðan.
En sem sagt komin til Færeyja, er að slappa af, ferðalög fyrirhuguð á morgun – og gersamlega brjáluð blíða hér á þeim hektörum sem Þórshöfn tekur yfir – sem segir EKKERT um veðrið handan við næsta hól! Ekki kannski mikil sól en funhiti.
En nú er nóg komið af bulli.
Kveðja Inga og Grettir Færeyjarvinir.













