Það er enn sól

Svolítið merkilegt að segja ENN sól – en ég er búin að fatta það að hún veldur mér áhyggjum. Það að það sé sól og hlýtt þýðir að ég ætti að vera að:

Klára að mála pallinn amk

Slá

hreinsa meðfram húsinu

taka til í blómabeðunum

Kantskera

Fá gröfu og hreinsa bakvið hús

En ég á ekki sláttuvél né orf – sem er mjög asnalegt þegar maður Á garð. Ég get ekki slegið því ég er með svo mikið ofnæmi! Sama ástæða er fyrir því að ég hreinsa ekki meðfram húsinu. Beðin eru svo ruslaraleg að ég get ekki kantskorið þau og ég get ekki stússast í beðunum útaf ofnæminu.

Alllt veldur þetta mér óskaplegum kvíða og samviskubiti. Get eiginlega ekki orðið á heilli mér tekið.

Ég sem ætlaði að taka til í Ragnheiðarherbergi og koma mér eitthvað fyrir þar. Jafnvel líta á Aðalsteinsherbergi. Taka til í nokkrum skúffum í viðbót og fara svo í sund.

En ég held ég fari út á pall að mála…

Ég get ekki haft þetta svona hjá mér…

Argh pargh
13:50
Sem sagt fór út og kláraði þá málningu sem ég átti – nú á bara eftir að fara létta umferð á innanverðum pallinum – og það bara á tæpum helmingnum. Maður er svo lengi að mála þennan pall. Allt í einhverjum þverspýtum og skúmaskotum ;-). Miklu fljótlegra að mála sjálft húsið. En sem sagt samviskan mun hreinni. Nú get ég bráðum farið að raða á pallinn og dást að honum því hann verður barasta tilbúinn innan skamms :-). Gamall og lúinn en flottur rauður :-).
Voða gott að losna við svolítið af samviskubitinu – er með nóg af svoleiðis.
Er búin að borða eins og lítið ljós í dag – er að hugsa um að gefa mér límmiða fyrir hvern dag sem gengur vel 🙂 Þegar ég verð komin með sjö þá fæ ég að kaupa mér … skó í gluggann!
Ég fæ límmiða ef ég:
Borða ekkert nammi
Engan ís
Hef fitu í lágmarki
Borða morgunmat fyrir 11 að morgni (ja nema ég sé bara sofandi).
Borða á 2 – 3 tíma fresti fram til 19 á kvöldin
1 ávöxt á kvöldin og svo grænmeti þar fyrir utan
3 ávexti þar að auki daglega
500 gr grænmeti hið minnsta
Jamm líst vel á þetta 🙂
Um næstu helgi verður svolítið erfitt því þá er svoldið mikið partý! Voða margar hitaeiningar í víni en maður verður nú líka að vera til :-).

Kílóin mín komin upp á vegg

Ágústa systir mín gaf mér tvær myndir um daginn – vor og haust. Kannski koma vetur og sumar síðar. Síðan gaf hún mér mikið af laufblöðum en hvert laufblað táknar eitt kg sem er farið. Úfærslan á því hvar laufblöðin lenda – á grein, á snúru, eða svona bara í lengju upp á vegg getur verið allavegana en í bili hef ég þetta svona því ég er svo sem bara ein að rolast hér og það er gaman að sjá þetta – það verður gaman að bæta næsta laufblaði við – vonandi koma þau tvö núna nokkuð fljótt á næstunni.

Sex fyrir september lok kannski ha hu hummm! Annars er á ekkert að stóla í því þó maður standi sig í mataræðinu því þau fara ekki bara þegar manni hentar.

En í dag var góður dagur og verður það allt til loka þó ég finni nú til svengdar – eða amk matarþarfar eftir heilmikið át þó í kvöldmatnum. Ég á léttjógúrt og appelsínu til að taka á því – og þá eru komnir tveir afbragðsgóðir dagar í mataræðinu. Einn dag í einu og svo er bara að standa sig.
p.s. í nokkrum kommúnum í Færeyjum er sendin fjara og þangað er grindhval smalað inn og hann er drepinn – og það er uppi fótur og fit. Og það er blóðbað. Ég er sko all for it að fólk og lönd haldi sínum sérkennum og nýti náttúruauðlindir og allt – og Færeyingar mega drepa grind alveg eins og þeir vilja. Ég hef meira að segja fregnir af því að dýrin eru drepin fljótt og örugglega – ekki hoggin hægri vinstri á meðan þau eru á lífi. En samt – mér finnst þetta allasvakalegt ég verð bara að segja það. Sjá myndir (hlekkur).

Sumar og sól, hundahár og bjór

…ja ekki bjór – bara breezer ;-).

Það er náttúrulega enn og aftur svona ægilega gott veður og Ingveldur er smám saman að komast undan svarta skýinu sem hún átti heima undir í vor og sumar.

Ofnæmið helst niðri með telfastinu með tilheyrandi púlsævintýrum ;-). Ég er að taka til, þvo þvotta, kemba Bjarti, hlusta á Abba og grennast. Því ég hef ákveðið það. Veit ekki alveg hvernig Breezerinn fittar inn í það en maður verður nú að live a little. Hlýt að eiga inni fyrir honum því ég var ótrúlega dugleg í Styrk áðan.

Ég finn svolítið fyrir hnénu – Baldur heldur að þetta geti verið liðþófinn og eða vatn að hrekkja mig. Ég læt bara liðþófann gróa – og hana nú. Spara mig svolítið bara. Hann kenndi mér líka nýjar teygjuæfingar sem virðast koma ótrúlega vel út. Gamlar konur geta gert þær er mér sagt 😉 þannig að ég er hætt að kveinka mér undan því hvað þær eru flóknar ;-). Híhí

Ég er sko að taka til með mjög mörgum hléum og stoppum og veseni. Ég hlakka svo til þegar Palli kemur heim að ég ælta ekki að segja ykkur það. Bæði hundleiðist mér svona einni í öllu stússinu og svo eru ákveðin verkefni sem mig dreymir um að við förum í:

  • Mála húsið
  • Koma garðinu í einhvers konar stand
  • Fara í mörg ferðalög og heimsóknir
  • Fullnýta fríið þannig að maður mæti svellkaldur í vinnu á ný

Þá veistu það Palli minn 😉 Þetta eru væntingarnar. Klórum við okkur ekki fram úr þessu híhí

Jæja ég er farin að brenna svolitlu í tiltekt – vinna upp á móti Breezernum blessuðum.

Ykkar Inga óhugsandi

Komin með nóg!

Af sjálfri mér.

Nú verður gripið til breiðu spjótanna og hætt þessu ruglástandi sem hefur verið yfir mér síðustu vikur og mánuði. Christ er hægt að gera lífið flókið eða er hægt að gera það flókið. Spyrjið einhvern sem þekkir mig – og svarið verður JÁ!

Komin með nóg af þessu rugli í mér að létttast ekki og hef því ákveðið að hætta að fá nóg af því og vesenast í því eitthvað að þetta sé svo flókið og erfitt og snúið og bla bla bla bla.

Og bara fara að léttast á ný.

Ég meina how difficult can it be? Nú er nóg komið af sjálfsblekkingum – hráskinnaleik og ruglumbulli og nú fer ég bara beina veginn. Hann bíður eftir mér nýmalbakaður og fínn og hvað með það þó hann sé einbreiður á köflum. Ég labba hann þá bara ;-).

Inga sem er farin að léttast að nýju því hún ætlar sér það!

Þetta með olíuhreinsunarstöðina

Ég er algjörlega miður mín yfir þessum olíuhreinsunarstöðvarmálum! Og það í Dýrafirði! (Hlekkur). Fallegasta firði á Íslandi held ég – kannski ekki alveg marktæk þar sem þetta er jú fjörðurinn hennar mömmu og eldri systkina minna. Já og ég hef svo sem ekki séð alla firði á Íslandi ;-).

Ég held að við bara hreinlega verðum að verða sammála um það að Vestfjörðum spillum við ekki með stóriðju og ógeði. Ég bara skil ekki hvernig nokkrum manni getur dottið í hug að setja eitthvað svona ferlíki inn í þetta landslag sem er algjörlega einstak. Við eigum að nýta okkur Vestfirðina á annan hátt – í náttúruupplifun, gönguleiðir, sjónrænt augnakonfekt. Maður hreinlega verður annar maður eftir að hafa komið til Vestfjarða.

Ég veit heldur ekki alveg hverjir ættu að vinna í þessari stöð. Hvergi á Íslandi vinna fleiri innflytjendur og farandverkamenn í fiski – það er varla hægt að manna grundvallaratvinnuveginn þar og ég held að þau okkar sem hafa flutt frá Vestfjörðum geysist varla vestur til að vinna í þessum stórkostlegum heitum – jafnvel þó það séu eiginlega bara verkfræðingar og hátæknifólk sem á að vinna þar.

Ji minn eini – og svo segja sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum að það sé bara engin mengun hjá þessum söðvum (látum liggja á milli hluta þetta með sjónmengunina) en hér má þó sjá að ekki er allt í dandí (hlekkur)

Komin heim!!

Ég held ég sé að verða Færeyjarvinur – næsta mál fyrir utan listann sem ég gerði hér á undan þarf ég að fara að hitta einn og einn Færeying. Ég á það eiginlega alveg eftir ;-). Er svo lítið mannblendin að það er ægilegt.

Ég átti alveg frábært flug. Við komum yfir Ísland og það var hvergi ský að sjá. Vatnajökull, Hofsjökull, Langjökull, Þjórsá, Hvítá, glompurnar á Kiðjabergi, skemman þar – já nefndu það bara. Þingvellir, Ljósifoss og Grímsnesið, Selfoss og Hveragerði – þetta var algjörlega stórkostlegt. Frábært.

Ég hlakka til að fara aftur til Færeyja, Palli er líka svo góður gestgjafi.

Nú ég kom heim að góðu búi hjá þeim Jósep og Ragnheiði og Bjarti. Byrjaði á því að kemba hundinn og ryksuga hár innan dyra og ELDA MAT. Mér tókst að sleppa því að fara að kaupa mér eitthvað fljótlegt! Snillingurinn ég.

Nú svo fékk ég mér nammi….lítið en fékk mér það samt! Ég er ekki í lagi.

En það er náttúrulega ástæðan fyrir því að ég er 100 kg of þung eða svo. Ég hef ekki verið að borða rétt og þó mikið hafi breyst eru ákveðnar brotalamir í þessu öllu saman – sem tengjast bara mér sem manneskju – þetta með að geta aldrei neitað sér um neitt.

En mér til málsbóta fór ég Votmúlahringinn sem er um 15 km eins og ég hjólaði hann og hér um Selfoss. Ég var klst að því og brenndi 2115 kaloríum while I was at it!

Það er nú smá sárabót – ég hefði getað sleppt því alveg að fara út – nýkomin heim og það allt saman. En veðrið var svo dásamlegt að ég ætla ekki að segja ykkur það. Sumarið er til þess að njóta þess og mér finnst svo gaman úti.

Ég hlakka mjög til næstu útilegu. Hvenær sem hún nú verður.
Og já mér finnst ég ótrúleg pæja að hafa farið að hóla!
Ætli sá dagur komi nokkurn tímann sem ég hætti að dást að sjálfri mér 😉

Á flugvelli

Það verður nú svei mér gaman að sjá hvernig heimferðin gengur hjá mér í dag. Hér fyrir utan flugstöðina finnst mér vera svarta þoka og skil ekki alveg hvernig mennirnir ætla sér að fljúga upp í gegnum þetta, framhjá fjöllum og tindum en þetta gera þeir nú upp á hvern dag – aðalvandamálið er víst að lenda…

Vélin okkar er held ég ekki lent – það var ein að taka á loft nú rétt áðan ….og hviss bang það var ein að lenda núna ;-). Þessir menn eru náttúrulega bara snillingar blessaðir.

Annars er það svo skrítið – að ég sem er næstum hrædd við allt er ekki hrædd að fljúga – ja amk ekki mjög.

Í næstu Færeyjarferð verður Gata skoðuð betur, gengið í Kirkjubæ í góðu tómi og farið til Vestmanna – þó ég verði að fara þangað gangandi því ég þarf að fara í siglinguna að klettunum háu og fínu.
Kannski kæmist ég það í rútu – ég er einhvern veginn ekki eins lofthrædd í rútu – fæ meira svona flugvélatilfinningu ef ég er í rútu. En ef allt um þrýtur labba ég bara í Vestmanna – 30 km eða svo. Hlýt að komast það á einum degi og gisti svo bara þar :-). Næsta sumar verð ég kannski 20 kg léttari (og ég segi kannski því ég er alveg að verða úrkula vonar í þessu léttingadæmi…. en auðvitað er það ekkert kannski að ég verði léttari en ég er núna – bara kannski ekki heilum 20 kílóum.(við skulum nú fyrst hugsa um kílóin sex sem EIGA að fara í sumar. )

Ég labbaði svolítið í gær og ég er bara ágæt í fótunum í dag og var ekkert slæm í þeim í nótt þannig að þetta er nú allt að koma vona ég. Það er gott að geta fengið á ný – átakalítil hreyfing þegar lappirnar eru í lagi. Og nú get ég líklega farið að synda aftur því lungun eru að verða hrein og fæturnir færir um að sprikla í vatninu.

Ég hlakka voða til að koma heim. Það er víst brjáluð blíða þar enn og húsið þarf að mála. Er svo ekki eins og ein útilega framundan?

Í loftið klukkan 13:00- við skulum nú sjá til hvernig það gengur hjá blessuðum Færeyingunum sem eru ekki sérlega góðir í flugáætlunum – en það er nú líklega meira þokunni að kenna en þeim ;-).

Í Færeyjum í Færeyjum

…er gott að sofa! Mikið get ég sofið. Ég víla það ekki fyrir mér að sofa í 10 tíma núorðið og leggja mig svolítið um miðjan daginn líka! Sumarið 2007 verður sumarið sem Ingveldur fór að sofa að nýju og það sem meira er ég vakna bara sáralítið ef nokkuð upp á næturnar – ja nema svona tvisvar þrisvar. Og ég er eiginlega alveg hætt að hósta!

En sem sagt Færeyjar. Nú er ég svei mér búin að fara víða um þessar bröttu eyjar. Og bara ekki orðið mjög vitlaus yfir vegunum hér. Þeir eru samt allir svolítið hátt uppi – upp og niður svolítið mikið. Og hér eru mjög mörg göng – en ég er nú ekkert hrædd við göng svo það er í lagi :-).

Í gær fórum við til Klakksvíkur og þar með í gegnum nýjustu göng Færeyinga – frá Leirvík og bara alveg inn til Klakksvíkur. Mjög skemmtilegt en þar var nú skítakuldi, þoka og rok svo við gerðum ekki margt þar – heldur fórum bara til baka til Þórshafnar í blíðuna þar.

Fyrr um morguninn – of seint því Inga þurfti að sofa fórum við til Kirkjubæjar. Svoldið svona gangandi….

Palli sagði að það væri beinn og breiður vegur þangað og ekkert hátt og varla brekka á leiðinni! Hann gerði tilraun til að fara með mig þangað síðast er ég var hér en þá snérum við nú við áður við komumst mjög langt…. og var þó vegurinn tvíbreiður þar… Við vorum skoho himinhátt uppi og sáum yfir í eina eyjuna sem ég man náttúrulega ekki hvað heitir og hún var mjög langt fyrir neðan – nei takk – snúa við. Mín reynsla af vegum er að ef þeir liggja upp þá þarf einhvern tímann að fara niður og – jammm – mjög hættulegt allt saman sem sagt.

En í gær komumst við lengra – alla leið þangað sem hyldýpið beið fyrir neðan EINBREIÐAN vegslóða einhvern (og hvað með það þó hann hafi verið malbikaður – hann var svo mjór að maður þurfti að setja hendurnar fram fyrir sig og standa kyrr þegar bíll ók framhjá manni (því sumir virðast alveg þora að fara þennan voðalega slóða á bíl).

Nei takk sagði mín og Palli varð svolítið sár því hann langar til að sýna Ingu sinni eyjarnar og svona -við verðum þá bara að labba um allt, þú þorir ekki neinu. Það er ekki hægt að fara í Kirkjubæ, ekki í Gógv, ekki í Vestmanna eða neitt!

Já við skulum bara labba sagði sú stutta og vippaði bakpokanum á axlir sé og hélt af stað. Þetta reyndist nú drjúg ganga – allt svona frekar niðurímóti en svo var klukkan orðin svo margt og Silverstone alveg að byrja þannig að við höfðum ekki tíma til að skoða mjög mikið þarna í þetta sinn enda ekki með drykkjarföng eða nesti eða neitt.

Við ákváðum því að koma síðar -væntanlega gangandi – kannski á bíl… og eyða deginum í þetta því það er ægilega fallegt þarna.

Snérum við og við þetta brenndi ég 2000 þús hitaeiningum og labbaði í 40 mín upp í móti – með mína þreyttu fætur og aukakíló öll. Það var frábært að labba svona um. Héðan í frá ætla ég að labba meira um og tala við kundurnar. Finna lyktina af þokunni, og heyra í fuglunum. Færeyjar eru svona labbi labb eyjar.

Þar sem hvíldin gengur svona vel og allt hlýtur að vera á réttri leið þá get ég áreiðanlega komið hingað næsta sumar og gengið alveg helling.

Ég verð áreiðanlega mjög merkilegur göngugarpur einhvern tímann :-).

Nú er Palli í vinnunni og ég að stússast hér í JacobsNolsöveg 15. Voða fínt og enn er þessi mikla blíða hér.

Ég stend mig ekki vel í mataræðinu – ekki nógu vel – alltaf eitthvað eitt sem ég eyðilegg daginn með – og er það um 4-500 hitaeiningar í hvert sinn. En svona er slagurinn. Maður verður að læra að hemja sig – annað er ekki hægt.

Hmmm ætli Palli sé að koma ,,heim?“ Ég heyri einhvern umgang.

Það eru myndir í mínum myndum :-). Híhí

Grettir í Færeyjum :-)

Það er enn svolítill – já eða heilmikill Grettisbragur á minni – og þá því miður ekki Grettis Ásmundarsonarbragur… Heldur letidýrsins Garfieldsbragur! En það er áreiðanlega bara alveg af því það er nauðsynlegt. Ég á að minnsta kosti skilið að hvíla mig vel og lengi eftir gærdaginn og ferðalagið til Færeyja því þangað er ég jú komin!

Nú nú hugsið þið náttúrulega – hvað er nú hægt að flækja eina Færeyjarferð og breyta henni í væl og vork – enn ein ástæðuna til að vera löt!

Einu sinni ætlaði vinkona mín, hún Gerður til Færeyja. Hún beið lengi lengi á flugvellinum en það fékkst svo að lokum staðfest að fluginu seinkaði svo hún fór heim. ….og svo nokkrum sinnum enn út á flugvöll. Og hún meira að segja komst upp í flugvélina í einni feriðnni, lagði af stað og flaug til Færeyja. En aldrei lenti hún þar og ég held hún eigi enn eftir að ná þeim merka áfanga því vélinni var snúið við – vegna þoku. Þetta ferðalag sem átti að enda í Færeyjum en gerði ekki – tók heila helgi.

Einu sinni ætlaði Palli til Íslands. Það tók hann heila helgi og margar margar margar ferðir á milli Voga og Havn. Á endanum gisti hann á hótelinu í Vogum og beið og beið og beið. Hann komst á þriðja eða fjórða degi heim. Honum fannst því ekki ástæða fyrir mig að vera með eitthvað vesen og hugsa um að vera bara heima um helgina. Mitt ferðalag tók bara nokkra klukkutíma. Seinkun á flugi til Færeyja um nokkra klukkutíma er nefnilega ekkert til að tala um (ja nema hér á þessu bloggi ;-)). Hér ráða nefnilega veðurguðirnir. Út vil ek en byr hlýtur að ráða og það allt saman.

En það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á áætlun véla til Færeyja frá Íslandi. Bæði virðist sú leið nú vera svona heldur aukreitis hjá Atlantic airways og einnig er flugstöðin hér á Íslandi náttúrulega eiginlega ekki fær um að taka á móti millilandaflugi og oft setur það líka strik í reikninginn – en mest áhrif hefur þokan – þokan – þokan færeyska.

Við Páll fengum eiginlega engan botn í það hvenær vélin ætti að fara á föstudaginn til Færeyja – það voru allavega tímasetningar á netinu og fæstar pössuðu við hina útgefnu áætlun. Palli hvatti mig til að vera dugleg að hringja og fylgjast með þessu. Nú og eftir því sem ég komst næst kæmi vél frá Færeyjum rúmlega sex til Íslands en það er tími sem ég kannast vel við því ég sæki Palla svo oft í það flug. Ég lagði því saman tvo og tvo og taldi líklega að vélin færi svo til Færeyja aftur – með mig um borð. Var því komin í bæinn rúmlega sex til að tékka mig inn – svona eins og ég gerði síðast og hafði séð fólk gera þegar ég var að ná í Palla enda höfðu starfsstúlkur á vellinum sagt mér að vélin færi hálf átta – já eða hálf níu um kvöldið. Ég fékk þó þær upplýsingar að hún færi ekki fyrr en hálf eitt eftir miðnætti.

Ég fór því til Ása og beið þar í góðu yfirlæti og fylgdist með síbreytilegum brottfarartímum á netinu – hálf tvö hálf eitt þrjú – já nefndu það bara. Ása fannst þetta nú undarlegt – það mætti ekki fljúga á næturnar yfir íbúðabyggðina við völlinn…

En niður á flugvöll fór ég kl hálf eitt – komst að því að Atlantic hefði ekki fengið undanþágu til að lenda vél frá Grænlandi og taka sig á loft með okkur um borð og því yrðum við að tékka okkur inn í RVK en fara svo til Keflavíkur og fljúga þaðan. Við færum í loftið tvö hálf þrjú.

Nú það er nú alltaf gaman að koma til Keflavíkur og í Leifsstöð svo sem – nema hvað það var ungt fólk í rútunni sem var svo pirrað á þessu öllu saman að ég varð næstum eins neikvæð og þau – en ákvað að það tæki því nú ekki.

Vélin fór í loftið hálf þrjú, við lentum fjögur – fimm að færeyskum tíma eftir yndislegt flug, ég tók bussen til Havn og leigubíl þaðan til Palla. Eftir fimm tíma svefn nóttina áður hafði mér tekist að vaka algjörlega sleitulaust í heilan sólarhring og verið á ferðinni í 14 tíma. Ekki slæmt – svoldið eins og að fljúga til Kína bara híhíhí.

Í morgun þegar ég vaknaði leið mér eins og ég hefði lent undir valtara, vörubíl, búkollu og loftsteini … en sofnaði sem betur fór aftur ;-).

Kimi missti pólinn til Hamilton – og ég sem er að reyna að vinna Palla og Baldur í liðsstjóraleiknum – ég með Kimi og þeir með hamma – sigh. Kimi verður bara að taka þetta á morgun – það er ekki um neitt annað að ræða. Vís til þess svo sem. Hvor þeirra sem er reyndar.

hmmm það er einhver að reykja úti og það kemur allt hér inn… auj…

Ég verð síðan ein að paufast hér því Palli er að fara að spila við Færeyjarmeistarann í Bridge í nokkra klukkutíma. Ég finn mér eitthvað til dundurs á meðan.

En sem sagt komin til Færeyja, er að slappa af, ferðalög fyrirhuguð á morgun – og gersamlega brjáluð blíða hér á þeim hektörum sem Þórshöfn tekur yfir – sem segir EKKERT um veðrið handan við næsta hól! Ekki kannski mikil sól en funhiti.

En nú er nóg komið af bulli.

Kveðja Inga og Grettir Færeyjarvinir.

p.s. skórnir heita Caramel og eru settir hér af þeirri leiðinlegu ástæðu að ég hef borðað of mikið af dumle karamellum í dag – alltof mikið satt að segja.

Föstudagur út úr kú


… en fyrst ber þó að geta að fangarnir á Hrauninu stóðu sig vel í morgun – ég á afskaplega hreinan bíl – en eins og flestum er kunnugt um legg ég ekki mikið á mig í þrifum á bifreiðum. Held reyndar að tjara og drulla myndi vörn gegn ýmsum veðrunarþáttum og haldi bílnum sem nýjum. Það hefur amk ekki brugðist mér því allir bílar sem ég hef átt og selt hafa alltaf fengið mjög fína einkunnir fyrir lakkið ;-). Híhí

En það er helst að frétta að hér er allt í vitleysu hjá mér. Ég er að fara til Færeyja og ég hélt að ég myndi fara um miðjan dag en það er nú ekki aldeilis heldur verð ég á ferðinni seint í kvöld. Ég er svo viðkvæm fyrir tilfærslum að þetta þýðir að ég gæti farið í styrk ef ég vildi… en þar sem ég hafi fellt það út af dagskránni ræð ég ekki meira en svo við tilhugsunina! Og þá er ég nú komin í svolítið sérkennilegan fasa…
En kannski er gott að hvíla sig bara svolítið svo ég geti gengið um helgina í Færeyjum og skoðað mig um þar by foot ;-). Hugsað vel um mataræðið og ekki sprengja það upp með einhverri vitleysu og den slags. Ef það er rétt sem Baldur var að halda að ég hefði bara verið búin að gera of mikið – verið í ofþjálfun takið eftir! Ég held það geti verið.
Annars er ég að lagast af sýkingunni í lungunum og hafði t.d. þrek til að taka svolítið til í húsinu og allt… Þetta er líka orðið gott af veseni. Nú held ég að það sé rétt að fara í sumarfrí :D. Byrjum í Færeyjum. Það er liggjandi góðveður (hlekkur) um helgina og liggjandi góðveður í dag! (hlekkur) í Þórshöfn.