…haldið að það sé nú hundur! Bara hættur að hringa rófuna. Ég held að ég eigi svo óhamingjusaman hund. Ég verð að fara að ganga með hann á morgnana. Frá og með morgundeginum – Palli fer með hann á morgun og ég fer með hann þá daga sem ég fer ekki í SALINN – híhí. Ég reyni bara að labba hægt og fara mér að engu óðslega – þá hljóta fætur og háls að þola töltið.
Þetta er búinn að vera strembinn dagur. Það hefur komið í ljós að Páll fær engar bætur út á augað ef tryggingafélagið fær að ráða – sem minnir mig á það – ég held ég sé tryggð hjá VÍS – ég hef nú ekki nema hæfilegan áhuga á að vera það áfram. Það þarf því að fara í mál og það getur tekið ógnarinnar tíma. Það þýðir að við verðum að taka á fjármálunum af festu og hætta að vonast eftir greiðslunni sem var búið að lofa okkur – fyrst í maí og svo aftur nú í sumar og í síðasta lagi í haust. Það verður því ekki neitt um neinar framkvæmdir og uppgreiðslur að sinni – nú verður bara að halda í horfinu og helst gott betur. Koma skikki á hlutina.
Ragnheiður er að fara til Bretlands í þrjá mánuði og ég er svo stolt af henni – glöð að hún ætlar að láta vaða. Ég er viss um að hún hefur bæði gott og gaman af því að dveljast þar í þennan tíma.
Ég held að þetta hús mitt sé fullt af drasli. Ég var að taka bækur og hillur út úr herberginu mínu og setja það inn í Ragnheiðar-herbergi og christ – við Ragnheiður erum náttúrulega alveg eins – söfnum að okkur drasli og dóti alveg út í eitt. Það voru því tvær góðar sem mættust í þessu verki. Úff – ég hélt bara ekki að það væri hægt að koma svona miklu dóteríi á svona lítið svæði. Ég hef verið í allan dag að sortera – og það bara lauslega og henda dóti. Ég er eiginlega engu nær því að ljúka verkinu. Það er dót út um ALLT. Ég meina það.
Ég hjólaði smá í dag líka og ég er þokkaleg í fótunum. Finn fyrir hnénu en er að öðru leyti þokkaleg. Teygjurnar hjálpa – ég verð að liðka hnén á mér og losna við þessar ógnarinnar bólgur sem ég er með – sérstaklega í kringum vinstra hnéð. Ég er að reyna að rifja upp hvorum megin var keyrt á hnéð á mér – en ég man það ekki. Híhí var svo lítil þá. Lenti á milli tveggja bíla og stuðarinn á voffanum lenti á hnéskelinni minni. Ég er að hugsa um að athuga með nálastungur í haust – hef heyrt að þær geri manni svo gott ;-).
Nú nú – svo er bara að vona að það verði þurrt á morgun og málningavinna geti hafist – þó enn sé eftir þetta dómadagsdrasl mitt og þvottur í stríðum straumum. Tveir þurrir dagar til 12. ágúst – er það ekki ásættanlegt litlu veðurguðir?
Styrkur á morgun og vonandi fæ ég staðfestingu á því að ég hafi lést – (kíkti smá á vigt í gær og talan þar var ekki alvond – þó hún hefði mátt vera lægri – ég þyrfti helst að léttast um kíló á viku ef ég á að ná í nýjan tug í september. úff erfitt!).
Fer maður svo ekki að huga að verkefnum tengt vefsíðum og skóla hvað úr hverju? Júmm það held ég bara – hugsið ykkur… Skólinn fer að byrja og ég farinn að vinna annars staðar en í Sunnulæk sem ég hélt í raun að myndi aldrei gerast. Römm er sú taug…
Jæja mikið er rausað – læt hér staðar numið að sinni enda vafalaust komið meira en nóg…
