Bjartur með ó-hringaða rófu!

…haldið að það sé nú hundur! Bara hættur að hringa rófuna. Ég held að ég eigi svo óhamingjusaman hund. Ég verð að fara að ganga með hann á morgnana. Frá og með morgundeginum – Palli fer með hann á morgun og ég fer með hann þá daga sem ég fer ekki í SALINN – híhí. Ég reyni bara að labba hægt og fara mér að engu óðslega – þá hljóta fætur og háls að þola töltið.

Þetta er búinn að vera strembinn dagur. Það hefur komið í ljós að Páll fær engar bætur út á augað ef tryggingafélagið fær að ráða – sem minnir mig á það – ég held ég sé tryggð hjá VÍS – ég hef nú ekki nema hæfilegan áhuga á að vera það áfram. Það þarf því að fara í mál og það getur tekið ógnarinnar tíma. Það þýðir að við verðum að taka á fjármálunum af festu og hætta að vonast eftir greiðslunni sem var búið að lofa okkur – fyrst í maí og svo aftur nú í sumar og í síðasta lagi í haust. Það verður því ekki neitt um neinar framkvæmdir og uppgreiðslur að sinni – nú verður bara að halda í horfinu og helst gott betur. Koma skikki á hlutina.

Ragnheiður er að fara til Bretlands í þrjá mánuði og ég er svo stolt af henni – glöð að hún ætlar að láta vaða. Ég er viss um að hún hefur bæði gott og gaman af því að dveljast þar í þennan tíma.

Ég held að þetta hús mitt sé fullt af drasli. Ég var að taka bækur og hillur út úr herberginu mínu og setja það inn í Ragnheiðar-herbergi og christ – við Ragnheiður erum náttúrulega alveg eins – söfnum að okkur drasli og dóti alveg út í eitt. Það voru því tvær góðar sem mættust í þessu verki. Úff – ég hélt bara ekki að það væri hægt að koma svona miklu dóteríi á svona lítið svæði. Ég hef verið í allan dag að sortera – og það bara lauslega og henda dóti. Ég er eiginlega engu nær því að ljúka verkinu. Það er dót út um ALLT. Ég meina það.

Ég hjólaði smá í dag líka og ég er þokkaleg í fótunum. Finn fyrir hnénu en er að öðru leyti þokkaleg. Teygjurnar hjálpa – ég verð að liðka hnén á mér og losna við þessar ógnarinnar bólgur sem ég er með – sérstaklega í kringum vinstra hnéð. Ég er að reyna að rifja upp hvorum megin var keyrt á hnéð á mér – en ég man það ekki. Híhí var svo lítil þá. Lenti á milli tveggja bíla og stuðarinn á voffanum lenti á hnéskelinni minni. Ég er að hugsa um að athuga með nálastungur í haust – hef heyrt að þær geri manni svo gott ;-).

Nú nú – svo er bara að vona að það verði þurrt á morgun og málningavinna geti hafist – þó enn sé eftir þetta dómadagsdrasl mitt og þvottur í stríðum straumum. Tveir þurrir dagar til 12. ágúst – er það ekki ásættanlegt litlu veðurguðir?

Styrkur á morgun og vonandi fæ ég staðfestingu á því að ég hafi lést – (kíkti smá á vigt í gær og talan þar var ekki alvond – þó hún hefði mátt vera lægri – ég þyrfti helst að léttast um kíló á viku ef ég á að ná í nýjan tug í september. úff erfitt!).

Fer maður svo ekki að huga að verkefnum tengt vefsíðum og skóla hvað úr hverju? Júmm það held ég bara – hugsið ykkur… Skólinn fer að byrja og ég farinn að vinna annars staðar en í Sunnulæk sem ég hélt í raun að myndi aldrei gerast. Römm er sú taug…

Jæja mikið er rausað – læt hér staðar numið að sinni enda vafalaust komið meira en nóg…

Barasta kominn mánudagur!

Sko maður er bara alveg hættur að blogga – svona er sumarið. Nóg að gera. Málað og farið í útilegu í Þjórsárdal og svo meira að segja verið í matarátaki -þó það sé náttúrulega bannorð 😉 en ég er nú bara samt að huga sérstaklega að því og veitir ekki af ;-))). Maður má nátturlega ekki láta Baldur segja sig úr samneyti við mann og þessa síðu. Yrði náttúrulega bömmer.

Smá myndir frá síðustu dögum:

Bjartur kann pínulítið að vera í útilegu – svona smá smá smá – en hann var eiginlega alveg beygður og bugaður þegar hann kom heim og skottið hans hefur ekki hringast síðan :-(.

Við fórum í útilegu í Þjórsárdal – frábært tjaldsvæði upp á gamla mátann, rjóður og slíkt. Við fórum í göngu hjá Stöng – þorði ekki heim að bænum því það er var hátt niður stigann af göngubrúnni öðru megin – og of margt fólk til að ég þyrði að æfa mig. Ég verð að fara að gera eitthvað í þessari lofthræðslu – ég meina það. Við fundum bláber og átum þau sem Bjartur velti sér ekki uppúr og trampaði á ;-).

Það er svolítð leiðinlegt með þennan tjaldvagn víst – það þarf að raða í skúffurnar og hafa þær á ákveðinn sérlundaðan hátt a la Ingveldur. Palli var búinn að eyða löngum tíma í að endurraða öllu svo steikti laukurinn kæminst aftur ofaní skúffuna og þetta var að hafast þegar hviss búmm – karfan datt úr og ballið byrjaði alveg upp á nýtt. Aumingja Palli var ekki glaður með skúffuna né sérvisku eiginkonunnar. Gréta systir var farin að vorkenna bróður sínum en fékk ekki að hjálpa til Menn verða nú að spjara sig á basic tjaldvagnsaðstæðum þótti frúnni hans!!!

Nú svo er málað og málað í Heimahaganum – eða það er að segja á föstudag alveg þangað til hann fór að hellirigna. Við eigum um tvo daga eftir hugsa ég – og svo annað eins í garðinum. Já eða eins og heilst sumar jafnvel. Þetta er náttúrulega alveg til skammar en það er ekki við allt ráðið… En nú er ég orðin betri af ofnæminu og fer að verða garðfær. Enda ekki seinna vænna.

Palli er nú svolítið stoltur af þessu öllu saman! Hver veit nema garðáhuginn vakni með ört lækkandi sól!

Blóðrautt gæti verið réttnefni á litinn – en hann heitir drottningar-rauður eins og vera ber!

Sumar

Það er nú ekki lítið sem þetta sumar er skemmtilegt! Það er kannski ekki flennisól en það er sól og það er sko málað hér í Heimahaganum – þetta er nú kannski ekki ,,ekkert“ mál eins og mín var von og vísa að halda fram 😉 – en svona allt að því híhí! Bara vinna og peningar sem fara í þetta. Þetta kemur allt saman – á því er enginn vafi og það er góð spá fram að sunnudag og við hljótum að komast yfir margar spýtur fram að þeim tíma.

Ég stend mig ágætlega í mataræðinu ég fékk mér samt nammi í gærkveldi 😦 en það var nú mjög lítið! En ég ætla ekki að gera þetta að vana mínum. Ég fór og vigtaði mig í morgun en það var nú svei mér ekki skemmtileg – hrmpf – ég held það hafi bara staðið eitthvað illa á í vatnsbúskap og einhverju fleiru! Ég ætla að minnsta kosti ekki að fríka út – var samt að vona að ég hefði losnað við hálft kíló síðan síðast – en við skulum bíða róleg og fara aftur að viku liðinni og halda áfram á sömu braut. Mér finnst ég ekki borða nokkurn skapaðn hlut og er að mála 5 – 7 klst á hverjum degi – það hlýtur að vera einhver brennsla í því – en ég fer ekkert í ræktina.

Ég er aum í hnénu en ég teygði vel í gær og ætla að teygja aftur í dag og þá vonandi held ég mér þokkalegri.

Sem sagt – ætli það verði nú ekki bara málað um helgina og farið svo í rigningarútilegu eftir helgina bara. Annars er hér allt í miklum rólegheitum. Gaman gaman bara!

Sitt úr hverri áttinni

Ekkert skil ég í því hvað veröldin getur verið flókin og ringlandi ;). Ég náði í Pál á föstudag og við brunuðum í partýhelgi til Dísu í frábæru veðri og góðum hóp. Afskaplega gott veður, hlýtt og fallegt í Borgarfirði, bæði fólk og veður. Við komum svo heim í gær og voila – komin með ofnæmi -þannig að Bjartur litli á hér einhverja sök að máli – ætla að borða svolítið af ofnæmislyfjum á ný og sjá hvort augnakláði, máttleysi, hósti og slím láti ekki undan síga.

Aðalsteinn vaknaði á miðri heimleiðinni og stundi upp svefndrukkinn – hefði ég ekki bara átt að verða eftir í Borgarfirði? Mér fannst það svolítið seint athugað í miðjum göngunum en jú vissulega íhugunarefni. Hann fékk síðan óvænt far uppeftir í gær aftur og er að vinna í partýbílnum vænti ég. Þessum sem kostaði 15 þús en er með græjum í fyrir 100 þús 😉

Og við erum skoho byrjuð að mála – maðurinn minn og allt! Gaman að eiga mann sem málar – frábært. Hann er svolítið að tuða blessaður en hann væri svo sem ekki neitt neitt nema hann tuði blessaður ;-). Við erum líklega eins með það.
Nú ég fór í blóðþrýstingstékk í dag – Reductilið hefur hækkað hann svolítið og mér finnst efrimörkin vera há – en Gylfa fannst 82 – 142 ekki vera svo slæmt – ég hef nú samt aldrei verið svona há í efri mörkunum… En ekkert til að hafa áhyggjur af og súrefnismettunin 100% – frekar fín lungu verð ég nú að segja – þannig að blóðið skilar sínu vel.

Ég hef ekkert verið að hreyfa mig nema svona bara í tilverunni – kannski fer ég að hjóla í kvöld en klárlega fer ég í Styrk á morgun – ég er öll að stirðna og hlakka bara svolítið til að fara þó mér finnst alltaf erfitt að stoppa í heila viku. Kannski ekki rétt að segja alltaf – held það sé í 3 skiptið sem það gerist. En jæja…

Ég veit ekkert hvernig mataræðið gekk um helgina – mér fannst ég alltaf vera að borða og ég hef borðað heilmikið í dag finnst mér en allt sæmilega hollt nema ég er að borða of mikið brauðmeti finnst mér. Um helgina neitaði ég mér um áfenga drykki og sælgæti hef ég ekki borðað í á þriðju viku – ekki bragðað það en horft því meira ;-). Já og ég hef áreiðanlega borðað næstum matskeið af smjöri í dag – með harðfisk og flatkökum og kryddbrauði. Ég fer á vigtina á morgun en ég vænti ekki stórra afreka þar – vonandi held ég þessum tveimur sem fóru síðast og allt í plús þar er gott því ég er að verða svolítið þembd – sá tími mánaðarins og það allt saman.

Það verður sem sagt málað, borðað lítið en hollt og líkamsræktast á næstu dögum og svo kannski útilega á kyrrlátan stað um helgina. Verið góð elskurnar – og er ekki bara sól á morgun?

Tvö lauf

..á vegginn minn í viðbót. Þeim á víst að fjölga hratt næstu vikurnar ef marka má þrjóskupúkann í Styrk ;-). Hann er uppi með alls konar hótanir og virðist vera viss um að hafa eitthvað með þetta að segja – amk segir hann Baldur minn að það sé ekki í mínum höndum að hafa álit á því hve mörg kg eiga að vera farin í lok ágúst. Það hafi verið ákveðið í maí og nú sé það mitt að standa við gerðan samning. Hmmm finnst þetta nú svolítið harkalegt og óttast um úthaldið en ég ætla að standa mig. Þetta er spurning um endalausa einbeitingu. Ásetning og ætlan. Skapgerðarstyrkur myndi ekki koma sér illa en ég held ég hafi hann ekki 😀 Híhí!
En sem sagt – fer í Borgarfjörðinn á morgun. Úff og það er rigning. Nú er minn stærsti ótti að það rigni til eilífðar – ég geti aldrei klárað að mála húsið – allar útilegur verði bara vosbúð og ógeð ef þær þá verða – og við Páll á bömmer allt fríið hans ;-). Já það er alltaf svoldið gaman að vera haldin hörmungarhyggju. Híhí en nú get ég farið að fara í sund – fyrst það er farið að rigna -mér leiðist svo að vera í sundi þegar það eru margir að sleikja sólina – svona er ég nú klikkuð. Hver veit nema ég taki eitthvað til líka – nú eru það ,,bara“ mitt herbergi og Ragnheiðar sem þurfa að fá fyrir ferðina. En nú get ég ekki sett út og viðrað – né hengt út á snúru – oh my god:
Góði Guð – ekki láta rigna til eilífðar!

Enginn Borgarfjörður í dag

…það er svo sannarlega ekki alltaf á allt kosið og vegna þess fer ég ekki í Borgarfjörðinn í dag – það eru smá blikur á lofti með helgina en við skulum vona það besta.

Ég fór hins vegar í Styrk í dag og spriklaði þar vel og lengi og hef það nú skjalfest og undirritað að ég hef lést um 2 kg síðan 11. 07 og það er velásættanlegt – 😉 Hef staðið í stað ógnarinnar lengi og ég var alveg að verða vitlaus á sjálfri mér – varð svo vitlaus á mér og síðan hef ég bara staðið mig vel ;-). Það þarf að taka vel á í sumar og ná markmiðunum sem voru sett – það hefur verið slegið slöku við og Baldur segist ekki leggja nafn sitt við þessa bloggsíðu meir né verkefnið lífsstílsbreyting Ingveldar nema ég fari að gera það sem hann segir ;-). jÉg hafði þrjá og hálfan mánuði til að losna við sex kílóin en nú er hann kominn niður í einn og hálfan en ég er líka búin að missa 2 kg híhíhí – sem er algjört afbragð mikið er ég fegin og ekki er verra að þessi tala hefur komið tvisvar í röð – kíkti sko aðeins á mánudaginn en það var alveg óopinbert. Híhí

Var að sópa út hundahárum úr stofunni og þar var mjög mikið af svoleiðis en nú er kominn gestur!

Inga létta

híhí – amk létt á geði. Sólbrennd og steikt. Búin að mála langhliðarnar á húsinu – með hjálp Þórunnar kláraðist sú nyrðri. Nú þarf bara stiga og klára þar sem ég næ ekki ;-). Er svo lofthrædd þvori því ekki sjálf. Nú og þegar það er búið þarf að fara eina umferð á gluggana amk og svo taka gaflana. Vil ekki taka þann sem snýr að götunni fyrr en það er bara hægt að klára hann – ljót að láta hann gapa skellóttan við allri umferð. En nú fer Palli að koma heim og þá náttúrulega verður þetta bara æði allt saman.

Náttúrulega aðeins komin með í hálsinn aftur – svoldið erfitt að mála svona mikið 😉 og þessi háls minn er ekki upp á marga fiska. Baldur er líka að fara í þriggja vikna frí og ég fæ áreiðanlega einhverja kvíðaverki og hörmungarhyggjuverki við tilhugsunina eina saman þó svo ég hafi ekkert verið í nuddi síðustu vikurnar eða sérstakri sjúkraþjálfun – ja nema hann leit nú svolítið á hnéð og gaf mér góð ráð sem virðast ætla að virka vel.

Mataræði gengur vel -pillan virðist virka nema ég sé bara svona fjandi einbeitt því ég er ekki mikið að hugsa um mat á kvöldin – og fæ mér bara blómkál eða gúrku. Og er alsæl með það.

Máli máli máli

Jæja þá er mín nú barasta búin að mála með 3 lítrum af viðarvörn í dag – rauðri að lit eins og sjá má á örmum mínum 😀

Ég er líka búin að fara í ræktina, elda, borða gáfulega, taka til og ALLT!

Og gott ef þesssi pallur fer ekki að verða fullmálaður. Nú skil ég mjög vel afhverju fólk notar viðarvörn en ekki ÞEKJANDI viðarvörn á palla – svona oftast nær – þetta er hrein bilun að ætla sér að þekja allt og tala nú ekki um þegar skipt erum lit. Sigh þetta er margra daga vinna að mála þennan pall. Ekki minna mál en mála alla glugga hússins hugsa ég.

Ég hef rökstuddan grun um að ég sé að léttast (skrítið þar sem allt mataræði er í topplagi og hreyfingin inni sem aldrei fyrr – það skyldi þó ekki vera tengsl þarna á milli?). Opinber tala kemur samt ekki fyrr en á miðvikudag og ég stefni á að halda þessari tölu sem birtist i´dag – hún var í lægri kantinum viðurkenni það því ég er búin að vera með þvílíka magakveisu undanfarið en sjáum til.

Ég er farin að taka fitubollupilluna um miðjan daginn og ég held það sé að virka – ég er ekki eins upptekin af mat á kvöldin en það kemur fleira til. Ég borða mjög lítið brauð, ég borða tvær stórar máltíðir á dag – ég borða um leið og ég vakna og ég fæ mér grænmeti á kvöldin og reyni að muna eftir 4 ávöxtum á dag – þeir minnka sykurþörfina. Sykurinn vegur upp einhverja þörf í meira og meira einhvern veginn en ég held að pillan vegi þungt líka.

Við skulum síðan sjá hvernig mér gengur að halda kúrs. Það er svo sem ekki annað í boði en gera það – en ég ætti að léttast örlítið hraðar en ég gerði með því að vera á reductilinu og halda vel utan um mataræðið. Ég veit það er fáránlegt og allt það en nú ætla ég að taka stóran skurk og losa mig við þessi 6 kg sem sett voru á dagskrá í upphafi sumars. Það er ekki óraunhæft með pillunni og verulegu átaki í mataræðinu.

Sjáum til á miðvikudaginn hver hin opinberlega tala er. Allt umfram 500 gr er bónus.

En nú ætla ég að fara að slappa af – er hálf uppgefin af þessari málningarvinnu – þetta er heilmikið púl að vinna svona uppfyrir sig alltaf hreint.

Over and out

Inga sem er að léttast því hún ætlar sér það!

Tækjaótt samfélag

Það er ekkert smá flókið að fara í ræktina. Útbúnaður í útilegu er leikur einn miðað við þetta:

Eiga hrein nærföt, íþróttaföt, sokka fyrir utan fötin sem maður fer í að morgni náttúrulega

Vera með hlaðinn ipodinn – og passa að hann sé í töskunni en ekki enn í hleðslu og sinci við tölvuna!

Muna eftir Polla – báðum hlutum hans, úrinu og púlsmælinum!

Pening fyrir prótindrykk ef mann langar nú í slíkt

úps – muna eftir skónum

Handklæði – hrein og þurr og ekki færri en tvö

Svo þarf sundbolurinn nú að vera með því það er aldrei að vita nema maður skelli sér aðeins í pottana – já eða syndi bara í staðinn fyrir ræktina – hver veit hvað manni dettur í hug?

Vatnsbrúsinn má heldur ekki hafa farið neitt á flakk

Og muna eftir að kaupa sjampó – í ekki mjög stórri flösku þegar hitt gamla klárast!

Svo verður nú snyrtitaskan að vera með – og þá má maður ekki hafa nappað maskaranum upp úr henni eða dagkreminu – ónei þá er maður nú í vondum málum því þó það sé ekki oft sem ég setji á mig maskara er það þess mikilvægara þegar það dettur í mig ;-).

Svo verður maður að vera búinn að borða eitthvað sem fer vel í maga.

Þetta allt saman er nú bara á stundum meira en óreiðupésinn Ingveldur ræður við. En oftast gengur þetta nú ágætlega en boy oh boy þetta er ótrúlega mikið veeeeeeesen.

Hef verið í ægilega góðum málum í mataræðinu alla helgina – fór og hjólaði í gærkveldi Votmúlahringinn og ætlaði svo að stytta mér leið heim í gegnum göngustígakerfi Selfoss en það varð nú bara hálfu erfiðari ferð en ég hefði farið Langholtið ;-). En það var ágæt tilbreyting. Ég er fín í fótunum, smellur svolítið í hnjánum eða öllu heldur létt klemming á einhverju og eins og slegið sé á þaninn gítarstreng í hnésbótinni öðru megin en ég finn að teygjuæfingarnar hjálpa – ég þarf bara að huga sérstaklega vel að þeim nú á næstunni.

En nú þarf ég að fara að huga að íþróttatöskunni, Polla, Ipodinum og já öllu hinu….

Búðarferð offitusjúklingsins

…sem ætlar sér að grennast.
Skór dagsins heitir Devilish og er eins og allir aðrir skór á þessari síðu frá Just the Right Shoe

Kvöldmatartíminn nálgast, laugardagskvöld og jafnvel eitthvað gott í sjónvarpinu. Ummm þá langar mann í eitthvað gott. Hvað gæti ég nú fengið mér í búðinni sem samræmist því að ég sé að léttast…

Af einhverjum undarlegri en djúpstæðri visku setti ég saman innkaupalista í huganum. Ég átti kjúkling í kæli – ég myndi nú bara borða hann… með gúrkum og tómötum jafnvel… En eftir stendur að mig langar í eitthvað GOTT!

Hugurinn reikar um sælgætistegundir veraldarinnar – alveg óvart og snakk kom jafnvel við sögu líka- en nei kona sem ætlar sér að léttast fær sér ekki svoleiðis. Fyrir utan hina nýfundnu fíkn í sykur sem á að kæfa og bæla og steindrepa – hún verður ekki kveðin niður með því að borða nammi þó í litlu magni væri.

Frosin jarðarber – ummmm stundum eru þau svo góð í munni
Popp – poppað heima í smá olíu… verst að eiga ekki kókosolíu
hmmmm

Coke lite…

Jamm læt þetta duga – jarðarberin fyrir sykurinn og poppið til að maula með myndinni og drekka lite með. Flott….

Og litli fíkillinn fór út í búð og við blasti DUMLE sem er nýjasta fárið og æðið og gottið sem honum finnst svo ómótsæðilegt. Og það var líka nammi þarna til vinstri á tilboði sigh…

Hendin var næstum lögð af stað eftir dumle- en nei ekkert svona. En þurrkaðir bananar – já og smá hnetur? Nei of orkuríkt ekkert svoleiðis.

Áfram með þig – farðu bara í frystinn beint…

En á leiðinni þangað rak ég augun í nýbakað franskbrauð og oh my god það er svo gott… En nei þú veist ef þú kaupir það þá áttu bara eftir að borða það eintómt og vera búin með það undir morgun! Ekkert svoleiðis Ahhhh þarna er Hrókur, ummmm og litlu rauðu ostarnir. Ég horfði löngunarfullu augnaráði á ostahilluna. En nei – passar ekki við markmið sumarsins og dagsins!

Heldur voru nú axlirnar farnar að síga, ósköp má maður nú lítið… En kannski bara smá…?!? Mér tókst að standast freistingarnar. Var komin að hillunni með popppinu – og þar var svona ostaídýfa – hún er nú ekki svo slæm og Tortilla er betra en venjulegt snakk –

Hmmm stendur nú ekkert um kal á þessari ídýfu…. en það eru 470 kal í 100 gr af þessu Tortilla snakki – það er nú bara eins og í öðru – Sigh verð að láta mér duga poppið…

Útundan vinstra auganum stendur íshillan… Svei mér gaman að fá sér ís – alltaf góður í hita þessi ís – ég snéri hratt til vinstri, greip lite með mér og var komin í röðina fyrr en varir!

svei mér mikið nammi við þessa afgreiðslukassa: Nissa, Rjómatoffí, Lakkrís, Tópas, Dumle, kókósbolla, Maltester… já nefndu það bara. Ummmm hvað ég væri til í eins og eitt nissa – það er ekkert venjuleg gott. Þetta með hnetunum og rúsínunum er algjört æði! Ætti ég að fá mér eitt?

NEI!!!! Borgaði og hálf hljóp út.

Dró djúpt andann og reyndi að dást að dugnaði mínum og einurð en aldrei hefur mér tekist að langa í eins margt fitandi í einni búðarferð og þessari. Og þess vegna hef ég aldrei staðist eins margar freistingar og þar og þá – og það er nú plús fyrir litlu fitubolluna sem ætlar að léttast!

Nú ætla ég að fara að taka upp hannyrðir þegar ég á dauða stund og finnst að ég ætti að vera að narta í eitthvað. Annars er það næstum full vinna að finna til fæðu 5 sinnum á dag.

Fimm sykurlausir dagar komnir. Fimm dagar komnir þar sem mér tókst það sem ég ætlaði mér. Árangurinn hlýtur að verða sá að ég léttist. Annars þarf ég bara að gera enn betur. Get enn minnkað fituna hugsa ég þó ég noti lítið af henni eða finnist hún góð nema í forði osta.