Þar sem ég á til að gleyma og láta sem allt sé í alfyrsta sinn þegar ég upplifi eitthvað ætla ég að færa til bókar – heilsurfar mitt ;-).
Stundum hef ég sagt að mér sé aldrei illt í hnjánum og hef þá gjarnan miðað við verki sem ég held ég hafi upplifað í gegnum Aldísi systur mína sem er sannanlega með ónýtt hné sem reyndar var fjarlægt að lokum. En síðan hef ég lært að manni er ekki illt í beinunum heldur í ýmsu sem liggur þeim nærri. Og því má segja að mér sé illt í vinstra hnénu. Hundillt. Ég held þó að það tengist bara einhverju álagi og ég þurfi að teygja betur og svona. En eftir æfingar dagsins er mér hundillt. Og það þó ég hafi farið í pottinn og flatmagað þar, nammi namm. Ein að sjálfsögðu – ég er alltaf ein.
Maður er alltaf einn orðið – börnin ekki lengur börn, vinkonurnar eiga heimili sem þær þurfa hugsa um, eiginmenn og krakka á meðan ég hugsa bara ekki neitt um neitt sem ég á. Bara mig. Tek til þegar ég nenni, búin að bíta af mér krakkana og svolleis.
En sem sagt, ristin er líka til vandræða – sú hægra megin, hálsin alveg svakalega stífur vinstramegin og axlirnar aumar. Aumar þannig að það er vont að leggjast á kvöldin aumar og svona ýmsar hreyfingar stundum líka leiðinlegar. Höfuðverkur við og við. Hælspori vinstra megin hóstar við og við en lætur mig annars í friði 🙂
Annað er í lagi. Mjaðmir og læri í versta falli bara stíf, bak og ökklar bara fínt. Hugurinn bara með betra móti takk ;-).
Nú get ég svarað sjúkraþjálfaranum mínum hvernig ég hef það ef hann skyldi spyrja. Þetta er allt önnur líðan en var í maí og byrjun júní. Þarf bara að hugsa um að koma viti fyrir hnéð.
Liður í því er að léttast. Nú er ég 1,9 kg léttari en ég var á föstudaginn var, tengist nú tíðahringnum og svona en ég ætla ekki að draga neitt úr því. Ég hef verið ótrúlega dugleg nema hvað ég hef fengið mér að borða eftir að ég hef komið heim úr hjólatúrunum síðustu tvo daga en ég valdi að gera það frekar en borða kl 3 að nóttu eins og var farið að flögra að mér hér eina vikuna! Svo borða ég líka bara hollt – spelt og mjög gróf brauð, lifrakæfu, ávexti og eitthvað svona gáfulegt.
En nú er ég farin að elda fyrir mig og Aðalstein. Það er allt of langt síðan ég borðaði eitthvað af viti.
Ykkar Styrk og sundfari Ingveldur sem hefur brennt 6700 hitaeiningum þessa viku! Oh yeah





