Það er ekki oft sem maður fer á tvö skólaslit sama daginn en ég gerði það í gær. Ég fór upp í Reykholt og fékk þar rós frá gömlum nemendum mínum – einn af þessum hópum sem maður kennir þrjú ár samfleytt. Nú þar sem ég vissi að skólaslitin á Ljósuborg væru stuttu á eftir smeygði ég mér þar inn í kaffi og hitti þar fólkið.
Þetta var að mörgu leyti afskaplega merkilegur dagur. Það var merkilegt að koma í annan skóla og hluta á lokaræðuna þar – ég held það sé hollt að bera saman tvo heima því líklega er það orðið svo að hér í þessu landi eru tvenns konar skólar – tvennir árfarvegir sem skólarnir renna eftir. Og þeir eru ekki endilega sérlega líkir nema í þeim báðum rennur vatn.
Ég finn bara og veit að ég er afskaplega góðu vön héðan úr Sunnulæk. Ég veit líka að ég á eftir að sakna þess anda sem hér ríkir. Stemmningin er um margt sérstök.
Það verður verðugt viðfangsefni að fara á nýjan vinnustað, smæðin hefur eitt og annað í för með sér sem er bæði gott og slæmt og mikilvægt að nýta sér báða kostina. En það var gott að hitta fólkið á Ljósuborg, krakkana og foreldrana og finna að maður er velkominn.
En já mataræðið gengur ágætlega þessa dagana fyrir utan afskaplega sérkennilegan morgunmatsbita í gær og í dag (hann var jafnvel enn skrítnari í gær – en ég ætla ekki að segja hver hann var). En þetta er allt á réttir leið.