Inga að vakna til lífsins – samt svolítill Grettir í mér enn

Lyfin eru farin að virka -jibbí. Átti erfiða nótt – ákvað að fara fram og reyna að sofa sitjandi. Tók púst óleyfilega oft, drakka slakandi te og horfði á fallega dvd mynd. Færði mig um set og hrúgaði undir mig sængum og koddum og bruddi svolítið af verkjalyfjum. Svei mér ef ég svaf ekki bara nokkra tíma.

Fór svo í sund í morgun og ætlaði a að verða brún b að fara nokkrar ferðir á hlaupum í lauginni. Gerði eiginlega hvorugt. Ekki mér að kenna, ég var í andnauð allan tímann og sólin sinnti bara ekki sínu einhvern veginn. En voða notalegt.

Svo fór ég með Ragnheiði að kaupa kjól á hana, keypti ís handa öllum starfandi í Styrk – vorkenndi þeim þessi býsn að vera þar inni í 20 stiga hita. Hreyfði mig ekki neitt – enda ófær um það.

Fannst svo alveg ótrúlega sniðugt að kaupa blóm á pallinn – alveg þangað til ég stóð í Blómavali innan um blóm og runna – fékk mjög að finna fyrir því að ég væri í raun og veru með ofnæmi en ekki ímyndunarveik ;-).

Lagði svo garðborðið mitt sem var brotið, raðaði upp á pallinn, gróðursetti blómin og braut saman þvott og þvoði svolítið líka af slíkum varningi. Og ég er svo þreytt að þó það ætti að hengja mig til þerris hefði ég ekki þrek til að hanga þar!

Og þar sem ég var að setja upp gardínur í herberginu mínu – þá kom vilborg og víhí við drukkum eina litla ogguponsu blush og það var svo notalegt. Þó mér hefði nú fundist svolítið leiðinlegt hvað var mikið drasl. Skil ekki þetta drasl í kringum mig – en ég er að vinna í þvi. Ég hlýt amk að verða búin að þvo allan þvott hér í þessu húsi – sængur og kodda! Guðs blessun þessi þurrkur.

Í dag fékk ég megrunarpillur eingar ægilega. Þær eru svo eitraðar að ég má búast við ægilegum aukaverkunum. En þær eiga að hjálpa mér að léttast og vonandi gera þær það – ég vil ólm létta á liðunum mínum. Það er aðeins of mikið sem hvílir á þeim.

Ég er samt ekki alveg sátt við þessa ákvörðun mína – það er í raun ekkert að því hvernig mér hefur gengið þó það sé stopp búið að vera núna. Á meðan allt er á réttri leið. En við skulum sjá hvort þetta geti ekki hleypt í mig keppnisskapinu. Þetta á að virka með lífsstílsbreytingu. Og ég hef margt lært í þeim efnum á einu ári.

Ekkert heyrt í Palla mínum í kvöld – ég sakna hans svo mikið að ég er alveg hreint að deyja. Kannski fer ég að fara til Færeyja á ný. Það væri nú nógu gaman – en ætli það fari ekki að koma svefntími á litlu pilluætuna hana Ingveldi.

Já sem vel að merkja var með blóðþrýsting 70 – 123 á miðvikudaginn. Ekki slæmt.

Sumarkveðja

Samviskan

Hversu mikið samviskubit á ég að hafa yfir því að vera ekki í Styrk núna að sprikla?

Á skalanum 1 – 10?

Nagandi seiðandi bit er um sex… ég nálgast jafnvel sjö…

Er samt nýkomin framúr og hreint ekki hin hressasta. Get þó talið mér trú um að ég hressist við að hreyfa mig – bara ef ég ætti ekki svona erfitt með að anda.

Ég held ég láti ógetið samviskubitanna sem ég get haft yfir öllu því sem ég á eftir ógert, uppeldinu á hundinum, hús, garður, börn, málning, viðgerð á borði, tiltekt.

Ég er næstum með samviskubit yfir öllu því sem viðkemur líf mitt…

Oj sen foj sen

Þetta er eiginlega svolítið fyndið

Í fyrrasumar fyrir réttu ári fékk ég í hálsinn. Var með þá verki fram í mars apríl Afskaplega hvimleiðir og erfiðir. Hælspori bættist síðan við í ágúst og beinhimnubólga í október. Hvorugt gott og hælsporinn afskaplega þrálátur og lét ekki undan síga fyrr en um svipað leyti og hálsinn. Svo varð ég hæfilega þunglynd og það entist mér í fjóra mánuði eða svo ;-).

Um það leyti sem hællinn batnaði og hálsinn mýktist allur tóku við þessir ægilegu fótaverkir í maí. Mér var bókstaflega alls staðar illt. Ég gat ekki synt, ég gat ekki gengið og ég gat alls ekki setið. Ég fékk verki í hnén, mjaðmirnar, lærvöðvana og leið eins og allir vöðvar fótanna á mér væru amk 5 sm of stuttir. Nú við þetta hef ég svo verið að dunda við að leiðrétt. Hætti að ganga, fór að hjóla, fór á ógeðstækið að nýju og passaði að teygja vel og lengi.

Og nú í lok júní er þetta bara að lagast allt saman. Hahahaha, þá fæ ég svo mikið ofnæmi að ég get ekki verið úti (þó ég gæti bæði hjólað, gengið og synt), þá bara liggur mér við köfnun. Ég get alls ekki farið í Styrk því ég kemst varla framúr.

Þetta er alveg afbragð. I kid you not það tekur eitt við af öðru! En nú er ég komin með alls konar púst, töflur, krem og bakstra og þessi slím og hóstaverksmiðja sem rekin er í líkama mínum hlýtur að vera leyst upp innan tíðar.

Ég sé þó ekki fram á nokkra heilsurækt í dag eins og ástandið á mér er. Ég held ég taki Dr. House með mér upp í rúm og horfi á síðasta diskinn og óski mér þess að verða læknuð með þessum dásamlegu bláu augum… Þó persónuleikinn sé nú ekki nema svona og svona… En honum er nú alltaf illt og ég hef ákveðna samkennd með því – híhíhí.

Over and out – Inga kvartgjarna

Frjókorn

…eru verkfæri þess sem ætlar að láta mig finna einhvers staðar til og ekki hætta fyrr en ég er hætt að væla yfir því :D. Ég hangi hér fram á borðið nýkomin á fætur eftir að hafa legið nær dauða en lífi af ofnæmi í morgun og nótt. Fuss og svei! En nú er ég líka farin til læknis og eins og heilsan er á mér núna tel ég töluverðar líkur á því að ég komist þangað ein og sjálf. Það hefði ég ekki gert í morgun. Ég meina það!

Ég hætti ekki að væla strax þú þarna!!!!

En mikið er ég fegin að ég borðaði bara 2 sneiðar af pizzunni í gær – þetta er nú meira áfallið! Það minnkar nú áreiðanlega strax ef ekkert er pepperoni-ið á pizzunni það er náttúrulega ekkert nema fita. Og svo svolítið meiri fita.

Úff púff.

Holy moly ég er hætt að borða PIZZU

Vitið þið að það eru um 1300 hitaeiningar í einni 12″ pizzu? Oh christ og ég sem var að furða mig á því að ég fékk alltaf rauða klessu við fyrirbærið í matardagbókinni minni – ég hélt þetta væri hálfgert heilsufæði!

Í frönskum er um 450 hitaeiningar – í miðlungsskammti. ÉG BORÐAÐI BÆÐI Í KVÖLD!

Oh my god ég er dead meat.

Kimi er kominn með ritara

…sem skrifar bara eitthvað gáfulegt og ber það svo e.t.v. undir Kimi ef hann er þá ekki of hífaður til að hafa skoðun á því 🙂 Eða í einhverri extreem sportidjótsiðjunni og alltof önnum kafinn fyrir svona publisí dót. Hér er viðtal við hann – (hlekkur). My arse að hann tali svona mikið um eitthvað – ha ha ha.

Ja nema hann hafi verið hífaður…

Það þarf að gerast eitthvað stórkostlegt í næsta kappakstri svo ég vinni á Palla og Baldur – þeir eru ekki nema um 700 stigum á undan mér bévaðir…

En ég er þrusu góður ráðgjafi sko…

huhumm

Hversdagsleikinn

… er kannski ekki svo slæmur. Núna er þó heldur mikið af hundahárum honum tengdum. Ég er búin að hengja upp úr þremur vélum í morgun. Þvo tvær og þær skulu sko fá að enda út á snúrum og veðrast þar og velkjast þar til hundahárin eru farin úr þeim flíkum. Ég er alveg að gefast upp á þessu, ég held nefnilega að ég sé með ofnæmi. Sængur, teppi og hvað þetta heitir allt saman er meira úti á palli en inni en dugar skammt. Ég þarf að fara að setja honum Bjarti mínum einhverjar skýrar reglur. Hahumm…

Sólin skín eina ferðina enn – það er nú meiri veðursældin búin að vera síðustu vikuna eða svo. Ég fer alveg að verða uppiskroppa með ástæður til að fara ekki í garðinn, nema náttúrulega vefsíðurnar og hundahárin. Þær endast nú ágætlega… Þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Það þarf ekki að gerast allt í einu – bara smám saman. Það dugar fínt.

Eftir frekar óþægilega nótt eru hnén á mér betri. Ég var ómöguleg í þeim í gær. Í dag ætla ég bara að hvíla – fara í pottina og sleikja sólina í lauginni með þessum endalausu heimilisverkum. Ég hlýt að ná mér góðri innan tíðar. Það er stíllinn, hvað tekur þá við veit ég ekki en venjulega leysir einn verkurinn annan af. Ómögulegt að flögra um eins og fuglinn fljúgandi.

Svo fer ég á morgun í Styrk og sé hvort ég sé enn að léttast. Það ætti að vera þannig…

p.s: Þetta er 555 pósturinn minn á þessu bloggi híhí

Sumarið er tíminn

Það að vera í sumrinu í fimm daga – ja eða svona fjóra rifjar upp fyrir mér hvað ég hreinlega elska sumarið. Ég hef alltaf elskað sumarið, ég hef bara ekki alltaf munað eftir því. En það var bara vegna þess að það er órjúfanlegur hluti af mér og svo sjálfsagður að ég vissi ekki einu sinni af því að ég þyrfti að segja frá því að ég elski það :-).

Á Þingvöllum var sumarið tíminn sem maður var úti allan daginn. Ég man varla eftir rigninardögum, en ég man samt eftir regnfötum.

Á sumrin var ég úti í búi að sýsla með Björk eða ein allan daginn. Endalaust.

Á sumrin sló ég eins og vitlaus manneskja með Flymo sláttuvél. Og garðurinn á Þingvöllum var enginn blettur.

Á sumrin átti ég pening og keypti mér föt, töskur og skó.

Á sumrin fór ég oft í bæinn og þvældist um Reykjavík miðbæ og Laugardalinn.

Á sumrin labbaði ég frá Þingvöllum til tunglsins og aftur til baka.

Á sumrin hjólaði ég.

Á sumrin tók ég á móti gestum.

Á sumrin lá ég í grasinu og fylgdist með skordýrunum.

Á sumrin fór ég á hverjum sunnudegi í kirkju.

Á sumrin fór ég út á bát og réri endalaust. Var fær um að taka hvern meðalkarlmann í nefið í þeim efnum.

Á sumrin átti ég mér allt annað og fjölbreyttara líf en á veturna.

Á sumrin leiddist mér systkini mín. Nema Ási og stundum var Dísa góð líka, og Nína alltaf best. Steini guð í mínum augum.

Á sumrin vann ég á símstöðinni í Valhöll og sundum í þjónustumiðstöðinni.

Fermingarsumarið mitt svaf ég allt í litla fermingatjaldinu mínu því það var ekki pláss í húsinu, næsta sumar svaf ég í hjólhýsinu af sömu ástæðu.

Um sumar fékk ég í fyrsta sinn upplýsingar um það að strákur væri skotinn í mér. Ég áleit hann samstundis snarruglaðan og varaði mig sérstaklega á honum uppfrá því.

Um sumar varð ég fyrst hífuð.

Á sumrin var djammað út í eitt – árum saman.

Á sumrin voru sveitaböll, Finlandia peli með tópas.

Eitt sumarið kynntist ég Palla – einmitt þegar ég hafði ákveðið að láta alla stráka lönd og leið.

Ég sá hann fyrst í Inghól. Ég man enn hvar hann stóð í mannhafinu upp á lofti. Ég sat við borð og hann blasti við mér. Bláeygðari en allt sem bláeygt var, herðabreiðari en Golíat, ljóshærður og útitekinn. Fallegri en allt sem fallegt var. ,,Mikið ótrúlega er þetta sætur maður,“ hugsaði ég. – Ég var enn á þeim aldri sem fannst 22 ára vera maður en ekki stráklingur eins og í dag ;-).

Ég sé hann enn fyrir mér. Hærri, fallegri en allir aðrir í kringum okkur. Ég vissi ekkert hver hann var.

Það var svo í Aratungu tveimur vikum síðar eða svo sem ég rakst á hann um leið og ég mætti á svæðið og kallaði til hans: ,,Halló sæti!“ og hljóp inn á klósettið.

Nokkuð sem Palli gleymir aldrei! Þess vegna segir hann að ég hafi náði í sig en ég segi að hann hafi náð í mig því … Ég mundi nú ekekrt eftir að ég sagði þetta (af ástæðum sem ekki verða nefndar hér) og varð því mjög hissa þegar þessi líka fjallmyndalegi maður frá Inghól fór allt í einu að tala við mig á Sumargleðinni í Aratungu. Juuuu hvað ég varð upp með mér og undrandi. ,,Vá hvað er að gerast , sá sæti frá Inghól er að tala við MIG! Rétt eins og hann þekki mig bara!“ Og þar með varð ekki aftur snúið. Hann sá bara mig og stelpurnar sem reyndu að lokka hann til sín á þessu balli máttu sín lítils. Ég var aðeins seinteknari en ég held við höfum verið ætluð hvort öðru jafn væmið og það nú er. Palli og Inga, Inga og Palli er annað ekki óhugsandi?

Nú höfum við verið lengur saman en án hvors annars. Ég er ekki frá því að við séum betri saman núna en oft áður. Það er ekki slæmt að vera 42 og vel gift. Hreint ekki slæmt.

Sumarið er tíminn sem Palli kom til mín. – Og ég kom til Palla

Sumarið er tíminn
Bubbi og Rúnar Júl

Sumarið er tíminn
þegar hjartað verður grænt
og augu þín verða
himinblá, ójá

Sumarið er tíminn
þegar þjófar fara á stjá
og stela hjörtum
fullum af þrá, ójá

Þér finnst það í góðu lagi
Þér finnst það í góðu lagi
Þér finnst það í góðu lagi
ójá

Sumarið er tíminn
þegar kvenfólk springur út
og þær ilma
af dulúð og sól, ójá

Sumarið er tíminn
þegar mér líður best
með stúlkunni minni
upp á Arnarhól, ójá

Það er maður að slá garðinn minn

…og ég er hálf feimin. Veit ekki hvort ég á að fara út og faðma hann. Fela mig af skömm yfir hroðalegum garði – já eða bara láta sem ekkert sé? Um þetta get ég væntanlega hugsað alveg þangað til hann er búinn að slá :D. Gott að eiga góða nágranna.

Ég er búin að vera í útilegu síðan á hádegi á fimmtudag. Ég hef aldrei farið í útilegu í eins góðu veðri. – Látlaus blíða – svo tók ég saman í morgun því ég vissi ekki hvort hann væri að fara að rigna eða létta til. Ég er svona tvo tíma að tjalda vagningum og taka hann saman, allt með öllu. Og í morgun brenndi ég 2200 kal við það svona þegar ég geri það ein. Ég fór síðan í sund á Borg í pottana og syndi 600 metrana. Ég hef því brennt 3000 kal í dag í svona sýsli. Fer því ekkert í Styrk Langar hvort sem er bara að hvíla mig þó skyndileg brjáluð blíða hér setji ákveðið strik í reikninginn. Það er 17. stiga hiti úti og allt!

Ekki amalegt.

Fólk hvað er nú það?

Þetta er fyrsta sumarið í 3 ár (sem sagt fjórða sumarið en er ólíkt) sem ég eyði ekki 2 klst í dag og ómældu magni af peningum í að keyra Aðalstein á Kiðjaberg í vinnu. Ég er bara hálf ringluð og rugluð held ég að ég verði að segja. I’ve got all this time on my hand.

Ekki það – ég veit fullkomlega hvað ég get gert við hann og stundum nýti ég hann meira að segja til þess sem ég tel best hæfa. En of sjaldan samt.

En ég hef komist að því að ég rolast svo mikið ein. Ég fer ein í ræktina, ein í sund, ein út að hjóla, ein að stússast í tölvunni, ein að sópa upp hundahár. Ein að segja Bjarti að þegja.

Það liggur bara við að ég sé einmana…

En mér leiðist svo sem ekki neitt. En ég er ekki í mikilli fólksmergð það verð ég að segja. Svolítil viðbrigði eftir að hafa unnið allan veturinn á vinnustað eins og Sunnulæk. Þar er nú ekki fólksfæðinni fyrir að fara.

Sigh…