Eins og þið vitið sem þekkið mig elska ég föstudaga. Og þessi í dag er sérlega ágætur eða svo virðist við fyrstu sýn.
Mér er ekki illt í ristinni – allra meina bót að væla svolítið í læknum og sjúkraþjálfurum og láta þá segja manni að það sé ekkert að manni nema æðubunugangur :-). Ég reyni að streitast svoldið á móti en verð svo bara alveg sammála (mér er samt svolítið illt í hælnum hægra megin ;-))
Stóri stóri hælsporinn virðist vera að gefa sig og pínir mig ekki mikið og bara ekkert miðað við það sem áður var.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig mér hefur gengið í að léttast og mér er eiginlega alveg sama því ég VEIT að ef ég hef ekki lést þá léttist ég næst því þá hef ég ekki verið alveg nógu dugleg og úr því get ég bætt.
Páll er á lífi sem svo sannarlega er vert að þakka kvölds og morgna – sérstaklega þar hann var að fá yfir sig þann 1. maí heilan byggingarfleka úr tuga metra hæð. I kid you not. Kranamaðurinn missti flekann og af öllum stöðum datt hann af þar sem Páll stóð á 10 000 fm svæði – einn af þremur mönnum sem voru að vinna þar! Páll á marga vini orðið á skaðastofunni í Tórshávn og þar á bæ segjast menn aldrei hafa séð sterkari mann með eins stór og sterk bein – segja að svona bein finnist ekki í færeyskum genum!
Aumingja Palli minn – alveg búinn að fá nóg af þessum hremmingum. Ég eiginlega líka og nú vil ég bara að sterk veltigrind sé smiðuð utan um víkinginn minn sem vel að merkja kemur heim í frí allur krambúleraður og stunginn eftir viðureignina við flekann.
Ég fékk ný lyf í gær þannig að nú á ég von á því að púlsinn á mér verði aðeins líkari því sem gerist hjá venjulegu fólki en ekki fiskum á róandi!
Jamm þetta er barasta ágætur föstudagur. Líkamsrækt og hjólreiðar og yndislegt veður.


