Föstudagur mér að skapi

Eins og þið vitið sem þekkið mig elska ég föstudaga. Og þessi í dag er sérlega ágætur eða svo virðist við fyrstu sýn.

Mér er ekki illt í ristinni – allra meina bót að væla svolítið í læknum og sjúkraþjálfurum og láta þá segja manni að það sé ekkert að manni nema æðubunugangur :-). Ég reyni að streitast svoldið á móti en verð svo bara alveg sammála (mér er samt svolítið illt í hælnum hægra megin ;-))

Stóri stóri hælsporinn virðist vera að gefa sig og pínir mig ekki mikið og bara ekkert miðað við það sem áður var.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig mér hefur gengið í að léttast og mér er eiginlega alveg sama því ég VEIT að ef ég hef ekki lést þá léttist ég næst því þá hef ég ekki verið alveg nógu dugleg og úr því get ég bætt.

Páll er á lífi sem svo sannarlega er vert að þakka kvölds og morgna – sérstaklega þar hann var að fá yfir sig þann 1. maí heilan byggingarfleka úr tuga metra hæð. I kid you not. Kranamaðurinn missti flekann og af öllum stöðum datt hann af þar sem Páll stóð á 10 000 fm svæði – einn af þremur mönnum sem voru að vinna þar! Páll á marga vini orðið á skaðastofunni í Tórshávn og þar á bæ segjast menn aldrei hafa séð sterkari mann með eins stór og sterk bein – segja að svona bein finnist ekki í færeyskum genum!

Aumingja Palli minn – alveg búinn að fá nóg af þessum hremmingum. Ég eiginlega líka og nú vil ég bara að sterk veltigrind sé smiðuð utan um víkinginn minn sem vel að merkja kemur heim í frí allur krambúleraður og stunginn eftir viðureignina við flekann.

Ég fékk ný lyf í gær þannig að nú á ég von á því að púlsinn á mér verði aðeins líkari því sem gerist hjá venjulegu fólki en ekki fiskum á róandi!

Jamm þetta er barasta ágætur föstudagur. Líkamsrækt og hjólreiðar og yndislegt veður.

Inga fótafúna

Illt í ökkla eða rist? Bæði? Ég held það geti verið.
Er búin að ákveða að ég verð góð á morgun. Jamm það er ég búin að ákeða. Nenni þessu ekki og þverneita að ég geti ekki gengið – ég hef alltaf getað gengið dj… hafi það.

Er ekki tilbúin til þess að gefa göngurnar okkar Bjarts eftir á morgnana. Ég hlýt bara að hafa meitt mig eitthvað…

Svo eru nú álagsverkir svoldið fínt orð líka…

En slæmir dagar í gær og í dag varðandi hreyfinguna þar sem ég er fótlama en við skulum sjá með morguninn. Og svo er hægt að hjóla í skólann á morgun ef maður bara drukknar ekki á leiðinni eins og hefði gerst í morgun.

Sjáum til. Um að gera að passa bara mataræðið fyrst hreyfingin er í minna lagi. Ja það væri það 😉

Verði ljós

… og það varð ljós.

Allt honum að þakka sem vinnur á N1. Eini maðurinn á Selfossi sem treysti sér til að skipta um perur í Súbarúnum mínum! Ég ætla að muna að það þarf bara að færa rúðupissflöskuna og losa eitthvað svona dót hinum megin. Iss piss ekkert mál – kann samt ekki að setja perurnar í en ég get sagt þeim að þetta sé ekkert mál næst :-).

Er ógöngufær. Finn svo til í ristarbeinunum að ég get ekki stigið til jarðar. Úff… Fer heldur versnandi ef eitthvað er. Fór í pottana í dag og reyndi að mýkja þetta upp allt saman gekk ekki sérlega vel. Kaldir bakstrar hjálpa líka við verkjum en bara stutt. Úff púff. Á sem sagt mjög bágt. Ef ég verð eitthvað svipuð á morgun þá kemst ég ekki í vinnu.
En það er nú gott að dreifa verkjunum svona jafnt og þétt. Hælsporarnir víkjandi, hálsinn sæmilegur ef hann er nuddaður við og við – og þá taka kálfarnir og ristin við!!!! Sjúkket hvað ég veit að allt lagast á endanum. En svona er þetta þegar ég byrja að labba – þá gengur eitthvað úr lagi. Ég er farin að þekkja þetta.
Trust me – þegar það er eins og ristarbeinin rekast til og frá – þá veit maður hvað sárt er.
Sigh.

Til hamingju með 1. maí Páll og fleiri

Palli verkamaðurinn minn er nú að vinna í dag í Færeyjum blessaður karlinn. Ekki fríinu fyrir að fara hjá honum. Ég hlakka mjög til að fá hann heim á föstudaginn. Vonandi snjóar ekki mikið þegar ég næ í hann ;-).

Við Bjartur vöknuðum eldsnemma – meira hann en ég samt. Hann langar svolítið út að labba en ég er svo steikt í fótunum að ég held ég komist ekki. Það voru nefnilega 2400 hitaeiningar sem fuku í gær í: Morgungöngu, morgunhjólreiðum, hjólatúr með krökkunum hálfan Votmúlahringinn, smá meira hjólaríi og einni Styrkferð. Ágætis afrek fyrir einn dag en ég er líka þreytt í morgunsárið. Ristabeinin eru að hrekkja mig eitthvað en það jafnar sig nú.

Ég þarf að taka til í dag smávegis. Langar svolítið að þrífa gólfin. Svo þarf ég að athuga hvort sá einstaki maður sé að vinna á N1 sem gat skipt um perur í bílnum mínum hér um árið. Það virðist hafa verið algjör snillingur því aðrir menn klóra sér bara í hausnum og segja mér að fara með bílinn á verkstæði. Það er svolítið hvimleitt að perurnar fara með nokkurra daga millibili og hviss búmm þá er bíllinn bara ljóslaus á dagljósum. Kannski er eitthvað bilað þó mér finnist eðlilegra að líftími pera sé bara nákvæmlega jafn langur. Mér finnst samt skrítið að þurfa að skipta þetta oft um perur, held á tæplega árs fresti… En það er kannski bara líka eðlilegt.

En hvað um það – ætli það séu einhverjar búiðir opnar í dag? Það er allt hálf matarlaust og ef ég man rétt þá ætlaði ég að vera svo dugleg í mataræðinu þessa vikuna. Það er varla að það hafi farið grænmeti inn fyrir mínar varir síðan á … já síðan einhvern tímann!

Vigtun á föstudaginn. Ég hef ekkert svindlað og farið á vigtina – á ekki von á góðri tölu. Ég hef verið mjög dugleg í hreyfingunni en hálf einbeitingarlaus í mataræðinu þó slysin hafi kannski ekki verið stórkostlega að stærð þá eru þau bún að vera nokkuð reglubundin.

En það er alltaf hægt að bæta sig. Ég hef enn töluvert svigrúm í því hvað mataræðið varðar :-).

p.s. Fann flottar myndir hér – gamlar og fallegar.